31.03.2010 15:14

Konur eru flottar

Alveg fannst mér dásamlegt hvað vinir mínir voru duglegir að tjá sig um síðasta blogg. Mér fannst vænt um það og skammast mín í hengla fyrir að vera ekki búin að láta í mér heyra aftur. En sem sé nú ætla ég að gefa skýrslu um allt sem á daga mína hefur drifið síðan síðast.
Það fækkaði aftur í fjölskyldunni. Hannes Pétursson, maður Sonju og þar með afi barnanna okkar kvaddi þennan heim 17.mars. Hann var búinn að vera lengi veikur en þó er það nú svo að alltaf kemur brottför fólks manni á óvart. En nú eru þau hjónakornin komin saman á ný. Eins og vinur minn, Valli miðill, sagði þegar hann frétti þetta: Hún hefur ekki verið lengi að sækja hann gamla konan.
Þessi veikindi þeirra hjóna og síðan andlát hafa vissulega sett svip sinn á okkar líf á þessum fyrstu mánuðum ársins. Það er líka svo óneitanlega margt í gangi í kringum mann, þjóðmálin, gosið, vandræði fólks stór og smá, svo ég tali nú ekki um hvað margir eru kvíðnir með framtíðina.
En lífið heldur áfram og við verðum að vera bjartýn, finna nýja og skemmtilega fleti og njóta þess sem er að njóta hverju sinni.
Bara svo að þið vitið það þá ætla ég ekki að vera á lista í sveitarstjórnarkostningunum í vor. Ég sagði það fyrir fjórum árum og ætla að standa við það. Það er líka svo gaman og gott að alltaf kemur maður í manns stað og félagar mínir í E listanum eru búin að setja upp þennan fína lista svo að engu er að kvíða um framtíð Húnavatnshrepps :) Mig langar nú samt að trúa ykkur fyrir því að ástæða þess að ég er hætt í bili er ekki áhugaleysi. Öðru nær. Það eru svo margir hlutir í okkar sveitarfélagi sem ég hef áhuga á og mun fylgjast með áfram. Það er skólinn, Hveravellir, ferðaþjónustan.......úff það er svo margt skemmtilegt hér. En það verður ekki allt gert í einu og núna eru TÖFRAKONUR/MAGIC WOMEN raunverulegar og því í nægu að snúast. Við erum fyrirtæki með kennitölu og alles :)
Ég ætla að útskýra málið.Við erum þrjár sem eigum fyrirtækið saman, ég, Jóhanna Helga og Þuríður. Sem sé þrjár Töfrakonur, sem allar eru reikimeistarar með alskyns ólíka en þó líka hæfileika. Við höfum óbilandi trú á okkar nýja fyrirtæki. Þetta er skemmtilegt og draumar að rætast. Við ætlum að gera alskyns vöru fyrir ferðamenn og auðvitað líka heimamenn, sérstaklega tengda svæðinu okkar, s.s. skartgripi, smyrsl,,jurtavörur, fatnað og margt fleira, einnig gefa út kiljur, bækur, kort, spil og fl. Allt hér heima gengur að sjálfsögðu fyrir og við trúum og vitum að innan skamms verðum við komnar með verslun og fleiri í vinnu en okkur sjálfar. Það þarf að setja á stofn fyrirtæki hér og nú er eitt orðið að veruleika "Töfrakonur/Magic Women" með heimilisfestu á Syðri-Löngumýri. Þetta er svo yndislega gott og ég er svo hamignjusöm með það. Vildi bara að hér spryttu upp alskyns skemmtileg fyrirtæki og tækifæri út um víðan völl. Það verður, ég er viss um það. Við skulum bara öll láta okkur detta í hug að gera eitthvað gott og framkvæma.
Það getur vel verið að bjartsýni mín fari í taugarnar á sumun, en það verður þá bara að hafa það, ég hef aldrei komist neitt á bölmóð nema þá í vont skap og það vil ég als ekki.
Mig langar líka að segja frá því að við hjónin fórum í Miðgarð og hlustuðum á Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps flytja dagskrá um Björn Pálsson á Löngumýri. Það sem ég skemmti mér. Þeir voru svo "töff" og flottir. Það var bara dásamlegt að sjá þessar elskur taka "Úmbarassa" og "Lukkuláka", svo ég tali nú ekki um" Ríðum sem fjandinn". Frábær dagskrá. Elvar undirleikari var líka svakalega flottur svo og hljómsveitin og þær Bobba og Ása sem lásu hið skrifaða orð voru stórgóðar. Ég verð samt að segja að hinn ritaði texti Jóhönnu vinkonu minnar gerði þessa dagskrá ógleymanlega, enda bæði fyndinn og metnaðarfullur. Þau voru öll að vinna frábært starf. Vildi bara að kórinn færi víðar með þetta prógramm, það ættu fleiri að fá að njóta enda Björn gamli þjóðþekktur. Mér finnst bara yndislegt hvað listalífið er þó mikið á svæðinu okkar enda eigum við frábært fólk. Glæsilegar prímadonnur eins og Sísa okkar, Hugrún, Alexandra, Elinborg og fleiri slíkar eru auðvitað það sem heldur tónlistinni uppi hér. Þetta eru líka alvörukonur með metnað og kunnáttu. Eins og ég hef alltaf sagt : KONUR ERU FLOTTAR :)