10.05.2010 23:41

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt

Það skemmtilegasta sem ég hef heyrt síðustu daga er brúðkaup Ægis og Gerðar. Ég er svo hoppandi skoppandi glöð með að þau skuli vera búin að láta pússa sig saman. Það er bara alveg frábært svo ekki sé meira sagt. Þetta einmitt það sem við þurfum að gera, finna ástæðu til að gleðjast og gleðja aðra á þessum síðustu tímum þar sem menn hafa miklar áhyggjur af efnahag, náttúruhamförum og fleiru slíku. Ég tala nú ekki um þegar menn fara að velta fyrir sér sveitarstjórnarkostningum ofan á allt annað. Já, það er sem ég segi, ég tek ofan fyrir Gerði og Ægi. Svona góðar fréttir vildi ég fá á hverjum degi. Til hamingju fallegu Stekkjardalshjón.

En ef ég upplýsi ykkur um hvað ég hef verið að velta fyrir mér þá er það skemmst frá að segja að ég var að koma af aðalfundi Kvenfélags Svínavatnshrepps. Ég verð að segja það að þetta er afar skemmtilegur og góður félagsskapur og frábært að eiga vinkonur í kvenfélaginu. En þó að sl. tvo mánuði hafi maður bókstaflega verið að drukkna í fundum var ósköp notalegt að hitta stelpurnar í kvöld. Í fyrrakvöld var framboðsfundur á Húnavöllum og allt gott um það. Held nú samt að við vitum öll hvað við ætlum að kjósa og svona fundur breyti ekki miklu þar um. Hins vegar er ég sannfærð um að allri frambjóðendur vilja gera allt sitt besta og ekki vantar að við eigum frambærilegt fólk í Húnavatnshreppi.

En kannski smá Töfrakonufréttir. Töfrarúnirnar eru komnar á markað og mér líst alveg svakalega vel á þær. Þetta eru spárúnir í fallegum leðurpoka með leiðbeiningum bæði á íslensku og ensku. Alveg frábært að fá þær og þær harmonera algjörlega við töfrasteinana okkar.Það er svo margt skemmtilegt að gerast og fljótlega munu vörurnar okkar verða komnar til sölu í blómabúðinni á Blönduósi hjá henni Hrafnhildi og líka hjá Spákonunum á Skagaströnd. Svo verður þetta bara allt að vinda uppá sig hægt og sígandi eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Ætla að setja inn nokkrar töfrakonumyndir til gamans. Má líka geta þess að nú er hægt að fá hálsmen, armbömd og eyrnalokka í Hveravallagullslínunni, allt að gerast:)

Annars hafið það bara sem best alltaf:)