12.07.2010 18:30

SumarbloggAldeilis góða veðrið eða þannig. Hélt að himnafaðirinn væri að senda mér tilbúinn áburð frá himnum áðan þar sem áburðarverðið er nú frekar hátt, en svo komast ég að því að þetta var hagl. Ég var alveg aldeilis hissa en Pollýanna vildi nú halda því fram að þrátt fyrir allt væri þetta einmitt áburðurinn sem jörðin mín þyrfti. Best að trúa henni. Hún heldur manni oft við efnið og sér um að góða skapið sé á sínum stað. En það rigndi sem sé djöfulinn ráðalausan ofan í þurra heyið mitt, en það er lítið við því að gera nema að fagna því að það rigndi líka ofan í kúaskítinn sem sonur minn var svo elskulegur að dreifa á túnið sem við erum búin að hreinsa af. Jamm og já, vildi samt svo mikið fá góðan þurrk núna  Panta sól hér með. Þar sem ég er búin að halda með Spánverjum frá því að ég var stödd þar þegar þeir unnu Evrópumeistaramótið finnst mér að þessar elskur gætu séð af nokkrum geislum hingað á stráin mín. En ég er allavega sæl með sigur Spánverja :)

Annars allt gott af Löngumýrinni. Er með slatta af folöldum í ýmsum litum sem ég vildi gjarnan að einhver kæmi og falaði áður en þeim verður sleppt út á háls aftur. Það er þó hægt að skoða þau núna. Frábærir dagar alltaf þegar hrossin eru heima og maður getur rölt og spáð í þau. Er bara eitthvað svo mikið að fíla útivist þessa dagana og einmitt svona rölt í náttúrunni. Það kemur örugglega niður á kaffibrauðinu (ekki eins mikið til) en mér líkar þetta líf.

Svo ég segi líka Töfrakonufréttir þá er allt að ganga þar. Kiljunum er vel tekið og við erum komnar með margar útfærslur á Hveravallagulli bæði eftir Hrafnhildi Björg Halldórsdóttur og Þuríði Guðmundsdóttur. Frá Hrafnhildi eru silfurhálsmen og eyrnalokkar bæði í silfurkeðjum og leðurólum. Lauf sem hún tíndi (og við með henni) hjá Hveravöllum eru notuð svo að þetta er eins nálægt hugmynd sinni og hægt er. Hin raunverulega Hveravallaorka er sannarlega í hverju laufi. Þuríður var með silfurþráð og ferskvatnsperlur en er núna búin að útfæra gripi sem einnig eru með hraunmolum og kóröllum. Þetta eru alveg snilldarkonur, báðar tvær.
Þessir gripir eru með rauðum kóral með ferskvatnsperlunum á silfurþræðinum.

Lopapeysurnar eru nú til sölu í Áfanga hjá Stínu sem einnir er að selja fyrir okkur, kiljur, rúnir og töfrasteina. Hún Stína er frábær og býr til hina allra bestu kjötsúpu.

En allt gengur vel, Töfrraspreyin eru komin í hús í tveimur stærðum og við hlökkum til að vita hvaða viðbrögð þau fá. Við Töfrakonur erum auðvitað mjög hrifnar af þeim.

Ég verð að setja inn mynd með af litlu Töfrastelpunum okkar. Þær eru þarna sælar og glaðar að koma frá því að reka kýrnar á Kela gamla hans Gunnars. Það er alveg yndislegt að fylgjast með hvað þær hafa gaman af þessu enda ólíkt að vera ríðandi við kúasmalanir :) Þær eru nú samt ekki alltaf tvímennandi berbakt.

Nú er Húnavakan að fara að skella á. Mikið vildi ég að þjóðin bara flykktist á Blönduós, færi í sund og nyti þess að vera til. Allavega hlakka ég til að fara. Ég er búin að sannreyna það að sundlaugin er frábær og kokkurinn á Pottinum og Pönnunni (þessi indverski) er frábær. Reyndi einu sinni að kaupa kokkinn en Elín var sko ekki til í það. Held að þessi næsta helgi verði frábær, gott veður, gaman og frábær hátíð. Ætla allavega að spá því.

Við Töfrakonur erum búnar að ákveða að spá á Kántrý með Spákonunum á Skagaströnd. Það er líka mikil tilhlökkun. Kannski við ættum bara að fara að spá hér á síðunni. Þið gætuð sent inn fyrirspurnir um alvarleg mál og líka hin málin ;) Hehehehehe............ Þetta er allavega gaman. En ég get bara upplýst að Jóhanna Helga er alveg mögnuð. Hún spáði kosningunum rétt (bæði hér heima og víðar) og hefur alltaf gert það. Held að Húnverskir pólitíkusar ættu bara að ráða hana í vinnu. Reyndar er Þuríður líka mjög mögnuð en ég ætla ekki að dæma sjálfa mig. Ætli ég slampist ekki bara :)

Farin í útiverkin með nýáborið túnið;) Sjáumst hress á Húnavöku.

Mér þykir vænt um þegar þið kvittið  <3