25.07.2010 13:09

SólarsumarÉg er eiginlega farin að sjá að ég þarf að blogga á hverjum degi, það er svo margt skemmtilegt sem gerist hér alla daga. Núna verð ég auðvitað að byrja á að setja inn mynd af fallegu silfurstelpurm Töfrakvenna. Þessar dömur ( Anna, Guðbjörg og Lilja) tóku þátt í míkróhúninum á Húnavöku í eldri flokki og unnu silfur. Við erum að vonum mjög ánægðar með þær. Stelpurnar stóðu sig vel, enda voru þær búnar að æfa sig og tóku lagið "Komum ríðandi að austan" sem Helgi Björns og reiðmenn vindanna syngja svo skemmtilega. En Húnavakan var alveg frábær og það sem ég sá og heyrði tókst alveg með ágætum. Það skemmti heldur ekki að þessi dásamlega sundlaug er komin á Blönduós. Þar er hægt að gleyma sér klukkutímum saman, ég tala nú ekki um eins og núna þessa dagana sem er sól og hiti. Held að fólk geti sparað sér Spánarferð og verið bara í sundlaug Blönduóss og farið þess á milli í skoðunarferðir um fallegu sveitirnar okkar.

Annars gengur lífið bara ljúft á Löngumýri. Búin að heyja og rakið að komast í rúllur einmitt núna. Þá tekur auðvitað við að bera á aftur og fara svo í önnur verk, eins og að grafa frá húsinu og hrossast. Ég á von á því að við tökum graðhestana úr hryssunum í vikunni og komum stóðinu aftur á sína haga í Tungunesi. Það er annars alveg dásamlegt hvað öll hross sækja þangað. Þau sem hafa fengið að ganga í Tungunesi vilja þangað aftur, það er frábært. Við eigum mikið af litríkum og flottum folöldum, hefðum þurft að geta sýnt þau fleirum áður en þau fara á hálsinn aftur, en þó potast allt. Seldi t.d. í hádeginu alveg gullfallegt bleikt merfolald. Annars er allt í góðum gangi með hrossin, er meira að segja farin að skjótast á bak sjálf, loksins. Við eigum slatta af unghrossum sem eru í þjálfun núna enda virðist hrossapestin gengin yfir, a.m.k. vona ég það. Tryppin sem fóru í hrossahólfið virkuðu hraust. Gaman fyrir þessi grey að komast í sumarhagana, hlýtur að vera eins og fara í sumarfrí. Annars get ég nú kannski ekki alveg vitað hvernig hross hugsa.Þessi mynd sýnir best hvernig veðrið er búið að vera í allt sumar, sól og sæla. En þarna er Kristín á Grund vinkona og bekkjarsystir Guðbjargar í heimsókn og þær voru úti að dúllast með Hrafnhildi Björk yngri sem var líka í heimsókn ásamt foreldrum sínum. Það var mjög skemmtilegt að sjá þau þó stutt væri. Linda er svo mikill engill að þau Raggi fóru bara út í fjós fyrir mig í 30 stiga hita að skafa stéttar og þrífa. Auðvitað elskar maður svona fólk meira en allt annað.

Af Töfrakonum er það að frétta að lopapeysurnar seldust upp í Áfanga hjá Stínu sem er auðvitað bara snillingur. Það liggur ljóst fyrir að Jóhanna töfrakona þarf að prjóna svona hundrað hestapeysur fyrir næsta sumar, sirka 25 ungbarnasett(guði sé lof að margir eru að eignast börn) fyrir utan allt annað sem er hannað og pantað. Það er auðvitað bara tær snilld. Ég vildi bara að fólk pantaði í tíma það sem á að vera t.d. í jólagjafir svo hægt sé að redda öllu sem þarf.
Töfrakonur eru líka á fullu í að undirbúa útgáfu á fleiri verkum, bæði eftir sjálfar sig og aðra. Það er mjög spennandi óþrjótandi hugmyndir. Samt eru vel þegnar allar hugmyndir og pælingar. Við fengum lager af gömlum bókum eftir mig sem við erum að selja líka. Því miður eru bara átta titlar fáanlegir, hitt er löngu uppselt. Málið er að kannski verðum við að hefjast handa við endurútgáfu sem fyrst, því að nóg er af efninu hjá okkur öllum. Við eigum þó sem betur fer slatta af kiljunum mínum, Ingu og Háska á Hveravöllum.
Þuríður vinnur á fullu í kremum og töfraspreyi sem er sannarlega að gera sig. Hún kemur vonandi hingað norður strax eftir helgina því að það er ótrúlega margt sem við þurfum að vinna saman núna, enda ekki hist saman þrjár af neinu viti svo lengi. Það var ekkert að marka á Húnavöku, þá vorum við svo montnar af stelpunum að fátt annað komast að.

Var að fá ný gleraugu á dögunum, sem eru margskipt. Það er sko bara fullt starf og rúmlega það að venjast þeim. Er því styttra í tölvunni í einu,en ég mun aldrei láta mig og innan skamms mun ég vera búin að læra á þetta nýja hjálpartæki. Kem fljótt aftur.