03.09.2010 12:11

Kindur og korn

Þá er kominn yndislegi september með kindum, korni og alskyns störfum tengdum haustinu og uppskeran kemst í hús. Við erum svo heppin að vera búin að klára heyskapinn. Halldór keyrði síðustu háarrúllunum heim í gærkvöldi og vaknaði svo fyrir allar aldir í morgun til að hreinsa túnin. Þetta var yndislega skondinn heyskapur í gær, Dagrún lá fyrir aftan sætið í vélinni hjá Halldóri og las bók meðan  hann keyrði rúllum og sú stutta kláraði heila bók. Mætti ég kannski biðja um sófann. Velti því fyrir mér hvort ég hafi einhverntíman verið svo háð mínum elskulega að ég legði það á mig að vera samanhringuð í traktor að lesa, kannski þegar ég var 16 ;) En sætt er það.


Fröken Guðbjörg var líka mjög sæt þeagr hún beið brosandi eftir skólabílnum fyrsta skóladaginn. Mátti til með að sína ykkur brosið. Svei mér gott að vera svona ánægður með skólann sinn.

Annars er lífið dásamlegt. Í dag koma kindur af heiðinni og á morgun er Auðkúlurétt. Að þessu sinni ætla ég að vera í réttinni að draga mínar kindur, en Gunna á Kúlu ætlar að halda áfram að standa vaktina í sölu á kræsingum inni í Dalsmynni. Svo er auðvitað réttarball annaðkvöld. Ingvi og Gunna störtuðu því með prýði í fyrra og ætla örugglega að toppa sjálf sig núna emoticon

Af mér persónulega er það að frétta að á mánudaginn mun ég byrja hjá Sunnu í einkaþjálfun og ég hlakka mikið til. Langar bara að koma mér í form og ná af mér slatta af kílóum og ég er viss um að Sunnu tekst að hjálpa mér við það. Fyrirtækið sem hún og Héðinn, hennar ektamaki, eru með heitir Ný spor ehf og bíður uppá hin ýmsu aðstoð í þreksalnum á Blönduósi. Ég fæ smá kjánahroll út af sjálfri mér er ég hugsa um mælingarnar á þyngd, ummáli og fitu. En nú er bara kominn tími á að hugsa um eigin skrokk. Einhver sagði um daginn: Ætlarðu að halda áfram að læra og þroskast eða ætlarðu bara að eldast? Svarið mitt er að ég ætla að halda áfram að læra og þroskast og hugsa vel um yndislega skrokkinn minn sem svo sannarlega hefur staðið sig það sem af er. Málið er að jafnvægi þarf að haldast, skrokkurinn minn hefur staðið sig vel gagnvart mér og mér ber líka að gera það gagnvart honum.Þetta er ekki Grasa Gudda, heldur Hrafnhildur yndislega vinkona mín sem gerir skart fyrir Töfrakonur úr silfurleir. Hún er búin að fara með reglulegu millibili í sumar uppá Kjöl að tína lauf til að gera skart. Maríustakkurinn er vinsælastur enda hefur hann eistaklega góða orku fyrir konur, samlíf og frjósemi. Maríustakkurinn er líka helgaður Maríu mey og var áður helgaður Freyju og Frigg svo það hlýtur að vera margt gott með honum.

Nú eru komnir miklir kappar hér í kjöt og kjötsúpu svo bloggið verður að bíða.
Kem aftur..................