19.09.2010 13:36

Sólarblogg í september

Dásamleg blíða alla daga. Að vísu eru kartöflugrösin fallin og ég þarf að koma því í verk að taka upp kartöflurnar, allavega eru þær góðar á bragðið þær sem ég er búin að setja í pottinn af sumaruppskerunni. Þessar kartöflur eru nefnilega mjög merkilegar. Ég er ekki mikið fyrir að vera á fjórum fótum með rassinn upp í loftið og hef aldrei elskað að setja niður kartöflur. Það var samt öðruvísi þettað vorið. Á kosningadaginn var ég svo yfirspennt að bíða og vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera eftir að ég var sjálf búin að fara á kjörstað, svo að ég spólaði karlinum með mér út og setti niður "allar" kartöflurnar. Síðan er ég búin að segja að þetta hljóta að verða mjög merkilegar kartöflur.

Annars gengur allt vel. Karlinn er kominn úr seinni göngunum, sæmilega vel á sig kominn með sundfytjar og súrefnispípu frá gangnafélögunum sem greinilega mundu vel eftir því þegar hann var að synda sælla minninga í fyrra. Bolli litli hundur fékk að fara með enda Glókollur ofurhundur að bíða eftir aðgerð á hné. Krossbandsaðgerð skilst mér. Það fór nú samt svo að þegar kom að sundmálunum og einhverjar skjátur voru farnar að reyna að drekkja sér að Ingi hringdi heim og bað mig að koma og bítta á hundum. Glókollur fór sem sé að vinna síðasta daginn. Þeir félagar eru á heiðinni núna ásamt Birki á Höllustöðum, en það er flugleit í dag. Kristmundur flýgur nú yfir með fjallskilastjórann, gangnaráðskonuna og Diddu í Litladal.

Af því að ég var að monta mig af því að ég væri að byrja hjá Sunnu Gests í átaki um daginn, þá get ég sagt að það gengur bara ljómandi vel. Ég hef kannski ekki mikið breyst en þetta er mjög gott að fara og gera æfingar og láta hana segja sér til. Hefði aldrei haft mig í að gera neitt nema undir leiðsögn, svo mikið veit ég og Sunna er alveg frábær. Get mælt með henni hvar sem er og hvenær sem er, ég bind miklar vonir við þennan vetur ;)

Af Töfrakonum er það að frétta að nú er kominn nýr steinn í Töfrasteinalínuna. Það er "Heilunarsteinninn", sem er ametyst (fjólublár) í fánapoka með sinni sérstöku heilunarmöntru. Erum við að vonum ánægðar með hann. Það er líka verið að vinna á fullu í hönnun og þróun "Hveravallagullslína", við bíðum spenntar eftir smásögum og svo erum við búnar að fá til sölu frábæra vöru frá Aðalheiði Halldórsdóttur. Það eru barnapeysur og húfur. Hún er líka að hanna fyrir okkur ungbarnasett sem vonandi verða komin á boðstólinn í október. Við erum sem sé mjög bjartsýnar og glaðar, alltaf í nægu að snúast. Málið er að við þurfum auðvitað að fara að fá smásögurnar í hús ef bókin á að koma út fyrir jól, en það verður auðvitað bara að koma í ljós.

En langaði bara að dásama þetta haust sem lítur út fyrir að ætla að verða bæði gjöfult og gott. emoticon