05.11.2010 16:08

Loksins..........

Loksins.....loksins....mundi ég eftir því hvað mér finnst gaman að blogga.
Kæru vinir, það er búið að vera geðveikt mikið að gera en bara skemmtilegir hlutir. Það er líka margt skemmtilegt á döfinni sem ég verð að segja ykkur frá.
Í fyrsta lagi þá er ég búin að breyta í stofunni hjá mér, opna á milli og rútta til. Eitthvað sem mig hefur dreymt um að gera svoooooo lengi. Ég komst fyrir viku í einhvern gríðarlegan jólafíling og fór að mála eldhús, gang og bað( á eftir að mála slatta enda jólin ekki alveg komin). Ég var auðvitað alveg komin í keng eftir að bera allt á milli herbergja og þrífa en þetta fór nú allt vel, enda erum við gellurnar þrjár enn þrisvar í viku hjá Sunnu sem er alveg frábært. Það að fara í ræktina er alveg búið að kveikja á fíkninni í mér og svo erum við líka í svo góðum félagskap. Turid og Ingibjörg eru auðvitað miklu duglegri og ef þær fá þyngri æfingar þá er það sko vegna þess að ég er enn að þjálfa upp lungun mín en EKKI vegna þess að ég sé eldri. Svona er hún Sunna mín yndisleg og ég kann að meta það:)


Til upplýsingar get ég sagt ykkur það að þessi gaur er ekki með okkur í ræktinni.

Ýmislegt fleira gott hefur nú gerst. Guðbjörg kláraði prófin sín og hlakkar mikið til að fá einkunnirnar á þriðjudaginn. Hún lagði mikið á sig til að læra undir þau sem gerði það að verkum að móðir hennar var búin að læra uppá tíu í samfélagsfræði og kristnifræði. Eftir þessa törn er ég alfarið á móti því að hætt verði að kenna kristnifræði. Hef reyndar alltaf veirð meðmælt því að hún sé kennd. Þetta eru góðar og gildar sögur með miklum boðskap.
Halldór keypti sér traktorsgröfu þegar hann varð 18 (og réð sér sjálfur) sem er hið besta mál. Held að hann hafi erft eitthvað af peningaviti Halldórs afa síns, enda hefur aldrei skort peninga á Löngumýri maður, eins og allir vita sem vel þekkja til ;) Þessa stundina er pjakkurinn að rýja kindur með Bjarka hjá frænku sinni á Syðri-Grund. Hann er búinn að taka lömb og veturgamalt hér heima og ég verð að segja að hann gerir þetta vel strákurinn. Ekkert slor heldur að fá að vera með manninum sem hneppti annað sætið í Íslandsmeistarakeppninni.
Tíkin Skessa gaut fimm hvolpum 5. okt. sem eru hver öðrum sætari. Ein tík var í hópnum sem er nú pöntuð og svo fjórir héppar. Þeir eru bara yndislegir og frekar duglegir að borða og láta frá sér. Glókollur afinn er frekar þreyttur á þessum stubbum, en hann er óðum að ná sér en fær þó ekki að leika lausum hala fyrr en um jól. Við erum að verða alveg samvaxin, hundur og kerling, þegar ég er utandyra. Bolli, hins vegar, sem er pabbinn(eftir því sem börnin mín segja) verður alveg vita vitlaus þegar þessi fimm afsprengi hans koma hlaupandi og reyna að sjúga hann. Lái honum hver sem vill.

 
Þetta eru krútt !!!!!!!!!!!!!!!

En nú koma sko Töfrakonufréttir:
Það er búið að vera svo mikið að gera hjá okkur undanfarið að það er alveg met. Bókin okkar nýjasta: " Nokkur lauf að norðan" er komin í prentun og við bíðum nú spenntar eftir að fá hana í hendur. Þetta eru smásögur eftir  fimmtán höfunda sem allir hafa sterkar rætur hér norðanlands. Sögurnar eru margar og ólíkar og við erum afar þakklátar þeim sem sendu okkur sögur. Frábært fólk sem með þessu greiðir okkar götu.
Við fengum líka styrk frá Menningarráði sem skipti okkur algjörlega öllu máli. Við fengum 200 þús. til styrktar útgáfu bókarinnar og 250 þús í "Hveravallagull". Þetta bjargar okkur alveg og við erum afar þakklátar. Eins og Gunna vinkona mín á Kúlu segir alltaf: "Peningarnir vaxa ekki á trjánum ".
Við erum að vinna bækling þar sem við kynnum Hveravallagullið okkar og erum um leið að minna á þessa dásamlegu náttúruperlu sem Hveravellir eru, segja söguna og kynna staðinn. Við hlökkum líka mikið til að fá bæklinginn. En af skartinu er það að frétta að nú erum við búnar að fá mikið af laufum, orkumenum og öðru skrati sem er tilvalið í jólagjafir.  Endilega hafið samband ef þið hafið áhuga. Við munum líka verða á Blönduósi fyrir jólin og kynna vörurnar okkar, þegar bókin verður komin út.
Ég fór líka á málþing um Hveravelli sem haldið var í Húnaveri, það var gagnlegt get ég sagt ykkur.
Við fengum líka frábært tækifæri á kvennafrídaginn, þá fór ég og kynnti Töfrakonur fyrir kvenfélagskonum á hátíð sem kvenfélagasambandið stóð fyrir. Það var mjög ánægjulegt. Sætt af þeim að bjóða mér að kynna vörurnar.
Satt að segja erum við farnar að gera meira af því að fara svona með kynningar og líka að spá og til gaman get ég sagt ykkur að Þuríður er farin að spá tvo daga í viku og er líka með miðlunarmyndirnar sínar sem hafa verið mjög vinsælir.

Þreytt..........þetta var fyrir breytingu..............

Fleira skemmtilegt. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í sambandi við skólann. Nú á að fara að láta gera peysur og boli með lógói skólans á og svo erum við að fara í leikhús næsta föstudag. Þá leggjum við land undir fót til Sauðárkróks og sjáum "Jón Odd og Jón Bjarna" Áður en við gerum það ætlum við að fara á pizzahlaðborð á Ólafshúsi svo að þetta verður hin besta ferð. Nærum bæði efni og anda, enda á að gera slíkt í annalok þegar búið er að púla í prófunum.
En í lokin ætla ég setja inn eina mynd af okkur Ægi í Stekkjardal(það er brúni strákurinn) með mæðrum okkar elskulegum, en þetta var nú víst áður en við fórum að púla í skólanum hjá Jósafat. En sæt kríli samt ;)

Ætla að setja inn myndir á eftir og þá fáið þið að sjá gullfallegu kápumyndina sem er á bókinni okkar " Nokkur lauf að norðan".

Eigum öll góða helgi.