24.12.2010 00:44

Gleðileg jól

Yndislega fólkið mitt!! Veit bara ekki hvað ég hef verið að gera að muna ekki eftir að blogga. Líklega bara hangið á facebook eða eitthvað....allavega ætla ég að óska ykkur gleðilegrar hátíðar núna. Það er sannarlega að koma hátíð, allir glaðir á mínum bæ, eftirvænting og gleði. Jólin á morgun, Brúarhlíðarfólk kemur og tekur út grjónakökuna, við skreppun í kirkjugarðinn með kerti og svo kvöldið maður....matur, pakkar, gleði og hamingja. Á jóladaginn verður svo jólaboð hjá okkur og vonandi hátíð í bæ. Annar í hátíð er svo hjá Gunnu frænku mannsins míns á Auðkúlu svo að við munum sennilega hafa nóg í okkur næstu daga. Milli jóla og nýárs eru svo tvö jólaböll ef næg orka er í það, heimsóknir og vonandi hreyfing og svo auðvitað 11 ára afmæli prinsessunnar á bænum 1.janúar eftir vonandi ljúft og gott gamlárskvöld. Hlakka svo sannarlega til næstu daga.

Þetta er Guðbjörg og herra Sámur sem er yngsti meðlimur hundafjölskyldunnar á bænum. Halldór sonur minn á hann og hann og bróðir hans eru einu eftir af bordercolliehvolpunum sem fæddust hér 5.okt. sl. Þrír fengu nýjar fjölskyldur og það gladdi okkur mikið. Af okkar hundalífi er annars allt gott, Glókollur kominn í fullt fjör og farið að nota hann til undaneldis eftir aðgerðina. Hún tóks með ágætum og ekkert útlit fyrir annað en að Glókollur geti unnið vinnuna sína næstu tuttugu árin eða svo ;)

Eins og sjá má eru þessi skötuhjú alveg tilbúin í jólin.

Annars hefur aðventan á mínum bæ verið yndisleg. Að vísu fengu börnin í Húnavallaskóla aðeins hálf litlujól vegna veðurs en þetta slapp nú allt til. Skrýtið að fá allt í einu svona skítaveður. Maður er bara ekki vanur þessu og veit ekki alveg hvað skal gera.
Af Töfrakonum er það að frétta að jólasalan gekk vel. Við erum að læra alveg á fullu og fyrir næstu jól munum við verða enn betur undir búnar að koma vörunum frá okkur og þá vonandi alveg búnar að koma okkur upp söluneti um allt land. Við lásum upp á nokkrum stöðum, tókum þátt í Markaði í Húnaveri, þar sem við líka létum spádómsgáfu okkar í ljós og spáðum fyrri þeim sem vildu.
Við Jóhanna fórum að Löngumýri í Skagafirði þar sem var menningarkvöld á vegum kirkjukóra Glaumbæjarsókna. Kórinn er að safna fyrir utanlandsferð til Kanada næsta sumar. Vonandi gengur það vel, þetta er þrusugóður kór. Við kynntum vörur okkar þarna og ég las upp og einnig Gerður Kristný sem nú er að gefa út alveg sérstaklega athyglisverða ljóðabók sem heitir "Blóðhófnir". Þetta var mjög skemmtilegt kvöld.
Það var líka skemmtilegt kvöld á Heimilisiðnaðarsafninu þegar við mættum þar. Frábært að sjá gróskuna í útgáfu á bókum hér í Húnaþingi og hjá fólki tengdu hingað. Berglind las úr bókinni okkar "Nokkur lauf að norðan" sem var alveg frábært. Reyndar var þetta bara að öllu leyti frábært kvöld.
Smásasgnasafnið okkar hefur vakið athygli og er það vel. Lilja hennar Þuríðar las upp söguna sína á útvarpi Sögu og gerði það með stakri prýði. Gaman hvað smásögurnar sem við fengum voru margvíslegar og eftir fólk á öllum aldri. Við erum nú þegar farnar að safna í næstu smásagnabók og hlökkum til næstu jóla.

Má til með að setja inn eina mynd af fallega stráknum mínum, honum Halldóri. Hann er hér í glænýrri lopapeysu sem Fanney á Eyvindarstöðum gaf honum. Frábær hannyrðakona hún Fanney, enda strákurinn ekkert smá ánægður eins og sjá má.

En nú er komin nótt og aðfangadagur á morgun.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól, gæfuríkra og fallegra framtíð. Takk fyrir allar góðar stundir. Verum bjartsýn. Kossar og knús Birgitta