27.12.2010 15:42

Hugleiðing milli hátíða

Jæja, þá er heldur betur búið að taka á því í jólasteikinni, konfektinu og kræsingunum. Alveg frábærir dagar að baki, yndislegar stundir með fjölkyldunni sem eru svo nauðsynlegir á þessari jólatíð. Við vorum bara fjögur á aðfangadagskvöld, en það er í fyrsta skipti. Það var dálítið skrýtið að vera bara fjögur, engir afar eða amma, en fullkomið kvöld engu að síður. Við kveiktum bara á kertum fyrir þessar elskur sem nú halda hátið á öðrum stað og trúum að þau viti hvað við elskum þau mikið. Sem betur fer fengum við Brúarhlíðarfólk í krjónakökusmakk fyrr um daginn. Ég tel mig vera algjöran snilling að gera þessa Leifsstaðaættarköku og baða mig í hrósi um hver jóL;)

Þarna er Guðbörg með Brúarhlíðarbörnunum. Alveg yndisleg öll. Halldór og Halli voru of uppteknir til að nást á mynd ;)

Á aðfangadagskvöld gerði ég þá bestu purusteik sem ég hef nokkru sinni smakkað. Hún var eftir uppskrift úr Hagkaupsbók sem Munda hringdi yfir fyrir mig. Dásmleg frænka hún Munda mín, þvílíkur eldhússnillingur.

Á jóladag var jólaboð hjá mér og komu þá Eyvindarstaðafólk, Auðkúlufólk, Húnaversfólk og Daníel með börnin sín. Það var yndislegt að fá þau. Í gær var fjölskyldan á Kúlu með sitt jólaboð þar sem við mættum ásamt Eyvindarstöðum og Stóru Giljá. Það var ekki síður frábært kvöld að öllu leyti og ekki skrýtið þó að ég brunaði í ræktina í dag. Þá hafði ég ekki haft tíma til að fara í viku og fékk heldur betur að finna fyrir því.
Á aðfangadagskvöld.

Mig langar líka að deila því með ykkur að bækurnar okkar gengu bara vel, allavega það sem við enn vitum. Við erum fullar bjartsýni fyrir komandi tíma og erum búnar að gera plan fyrir næsta ár. Við munum safna aftur í smásagnasafn og við höfum líka áhuga á að safna alskyns frásögnum, sögum, ljóðum, hverju sem ykkur dettur í hug. Endilega sendið okkur og það er aldrei að vita nema að efnið ykkar rati í næstu bók. Annars erum við tilbúnar með fleiri hjartabækur og barnabók sem mun koma út fyrir næstu jól. Við erum líka með það á planinu okkar að koma töfraspilunum frá okkur á næsta ári ásamt fleiri skemmtilegum hugmyndum. Nú er bara að vera duglegur og afla fjár, þannig gengur það:) Við erum auðvitað mjög ánægðar með allt sem hefur selst og það verður gaman að líta yfir farinn veg 14. febrúar, en þá verðum við ársgamlar.


Verð að sýna ykkur mynd af búralega piltinum mínum kominn í gallann sem við gáfum honum.

Mig langar líka að segja ykkur að ég ætla að halda nokkur reikinámskeið núna fljótlega eftir áramótin. Ég er að þjálfa meistara sem verða með mér á námskeiðunum og ég hlakka mikið til. Ég mun einnig vera með sjálfstyrkingarnámskeið ef næg þáttaka fæst. Það er svo margt spennandi framundan, vinna við búið, Töfrakonur, reikið og svo auðvitað að skrifa niður allar sögurnar sem eru að brjótast um í kollinum á mér. Ég veit að það er kreppa og margir eiga bágt, en við verðum að snúa vörn í sókn og vera bjartsýn, ef við geum okkar besta þá er það nóg. Við getum hjálpast að, gefið hvort öðru það sem við sjálf erum ekki að nota og svo frv. Ég veit að við getum svo margt og við verðum líka að halda í sýnina um frið á jörð og betri heim.

Það var ekki hugmyndin að predika þó að ég efist ekki um að ég hefði orðið góður prestur:) Mér finnst bara svo notalegt að deila með ykkur því sem ég er að gera, kannski hefur einhver gaman af því. Ég hef gaman af að fylgjast með vinum mínum og ég vona svo ynnilega að þið hafið það öll sem best. Við þurfum að njóta þess sem er. Dagurinn í dag kemur ekki aftur en það kemur nýr og við skulum njóta hans líka.

Knús til ykkar allra :)