27.06.2011 15:54

Löngumýrarfréttir


Landsmót og gleði í Skagafirðinum. Svo sannarlega kominn þessi hrossatími sem er svo skemmtilegur. Við erum búin að sækja hryssurnar í Tungunes og skemmta okkur yfir að skoða litrík og falleg folöld. Verð endilega að manna mig í að taka myndir og setja inn af þeim. Við eigum til dæmis moldblesótt, jarpblesótt og brúnblesótt, aldeilis gaman það. Fór meira að segja á hestbak í gær og skemmti mér vel. Fékk þessa fínu hryssu í afmælisgjöf, Ljósbrá heitir hún og er frá Magna í Árgerði. Hentar mér alveg ljómandi vel, þar sem engin hætta er á að hún hlaupi langt eða geri ófyrirséða hluti ;) Er hrædd um að slíkt væri ekki alveg að mínu skapi.
Reyndar var þessi hestatúr í gær frekar sögulegur þar sem mér tókst að skrapa mölina fram í Blöndudal að vestan dáfallega. Ég var nýbúin að skipta um hest við Guðbjörgu Pálínu, lánaði henni hryssuna en fór sjálf á hestinn hennar Baldur-Blesa. Okkur Baldri hefur alltaf samið sérlega vel enda er hann alveg steindauður þannig séð, en alger líkamsræktarhestur líka;) Málið var að hann datt svona ferlega á hné ,með þeim afleiðingum að ég skoppaði af og bar auðvitað fyrir mig hendurnar. Það logblæddi úr hnjánum á honum og ég er þannig að í morgun fékk ég að sofa út og þarf að nota hanska ef ég fer í fínni samkvæmi. En mikið skelfing er ég fegin að vera búin að skipta við stelpuna og að það var ég en ekki hún sem datt. Svona er nú vel séð um mann alltaf. 
Við riðum svo sem leið lá fram dal og yfir Blöndu og í Eyvindarstaði þar sem biðu okkar dýrindis hamborgarar og kaffi og meðlæti. Tek það fram að Fanney vissi ekkert að við værum að koma, svona eru bara alvöru húsmæður í sveit. 
Við munum svo leggja land undir hófa í kvöld og koma okkur heim, hvað sem sú ævintýraferð ber í skauti sínu. Allavega er alltaf gaman að vera með hrossunum og sennilega endum við gömlu þannig að vera að stússast í einhvejrum bykkjum og bordercolliehundum. Ekki amarlegt það.

Annars er lífið bara ljúft, mætti vera hlýrra og vantar vætu. Kýrnar eru búnar að vera úti tíu daga og við erum nýbúin að setja út kvígur. Þó hefur þessi kúpeningur nú rúllur alveg að vild og reyndar hrossin líka enda sprettur nú ekki of hratt þessa dagana. Ætla samt að halda áfram að trúa því að við fáum gott sumar og mikla uppskeru, við verðum þá bara lengur að frameftir. Allavega eru Bólhlíðingarnir farnir að sleppa í Rugludalshólfið þannig að kannski mun sá dagur upp renna að við flytjum á heiði.

Af Töfrakonum er það að frétta að Þuríður skvísa er á Landsmóti með alla okkar vörur og einnig snyrtivörur og hestasmyrslið góða. Hún og vinkona hennar ,Hrafnhildur, hófu stöðu sína í gær og munu vera alla dagana. Það er von okkar að vel seljist enda þurfum við að selja vel núna vegna þess að við erum að láta gera svo margt fyrir okkur. Barnabókin mín "Ævintýri Tvíburanna" er í prentun og kemur nú einhvern daginn. Allt skart og steinar eru nú komnar með möntrur á þýsku og fljótlega mun bæklingurinn okkar um Hveravallagull koma á þýsku líka, en við létum fyrst prenta hann á íslensku og ensku. Það eru komnar frá okkur á markaðinn nýjar alíslenskar rúnir( 16 stk. rúnirnar) sem voru notaðar hér á landi í gamla daga. Leiðbeiningarnar eru á ensku og með þeim fylgir ýtarleg bók. Þetta eru glæsilegar handunnar rúnir í leðurpoka. Svo eru komin í hús verndargripirnir okkar sem eru Höllu og Eyvindarmen. Þetta eru silfurkrossar á íslenskum hraunmola í leðuról. Alveg frábær vara, er raunverulega að finna á eign skinni að þetta eru verndargripir. Þetta er framleiðsla og hönnun frá Hrafnhildi okkar Halldórsdóttur sem einnig gerir laufin í Hveravallagullslínunni. Eins og þið sjáið erum við alveg á útopnu sem aldrei fyrr. Við erum líka að dæla út hestapeysum og fleira prjónlesi en þar eru margar hugmyndir í gangi líka. Málið er að dagurinn er alltaf of stuttur og svo margt skemmtilegt að gera en lífið er ljúft. Ég ætla líka að trúa að sumarið verði okkur Töfrakonum gott. Við þurfum á því að halda.

Annað sem ég hlakka mikið til er næsti fimmtudagur. Þá munu vinkonurnar okkar , spákonurnar á Skagaströnd, opna Spákonuhofið sitt. Get ég varla beðið eftir því. Þær eru svo flottar og að gera svo góða hluti. Við Töfrakonur munum líka vera að spá með þeim í sumar í Spákonuhofinu, sem er bara alveg æðislegt. Magt gott framundan :)

Þetta er nú það sem mig langaði til að deila í bili. Við Töfrakonur erum líka á fullu í að gera okkar eigin heimasíðu en þangað til heimsækið okkur á Facebook og skoðið þessa síðu og það sem ég hef sett inn um Töfrakonur hér. Alltaf hægt að panta og semja við okkur um heilun, spá og námskeið svo að eitthvað sé nefnt. Sendum vöru hvert sem er :)En annars bless í bili og knús í hús :)