03.07.2011 14:14

Júlí og grasið syngur

Skrýtið að hugsa til þess að nú sé kominn júlí. Mér líður frekar eins og það sé 3.júní og ég á frekar erfitt með að setja mig í gírinn með að sumarið sé nánast hálfnað. En hvað um það, grasið syngur af gleði yfir þessum regndropum sem komu, allar hryssur eru komnar undir fola og kindur á leið á heiði, svo ég verð líklega að trúa að það sé kominn júlí. Vonandi verður ekki langt í slátt og ef það er hlýtt og gott þá kemur þetta nú örugglega. Vinkona mín sem er flottur spámiðill segir að haustið verði frábært og við fáum  hitabylgju í september. Ég ætla að trúa þessu alveg eins og nýju neti og held mig við það.Má til með að setja inn eina mynd af básnum okkar á Vindheimamelum en Töfrakonur voru með bás þar og Þuríður stóð vaktina með stakri prýði. Hún kom norður ásamt vinkonu sinni Hrafnhildi sem einnig var að selja. Fyrstu dagana var mjög kalt á þeim stöllum en síðustu dagarnir hafa bætt það upp.

Við Jóhanna heimsóttum aðeins básinn okkar á fimmtudaginn en þá fórum við allar á Skagaströnd að vera við opnun Spákonuhofsins. Það var mjög ánægjulegt og hofið á allan hátt glæsilegt og mikill sómi fyrir Skagaströnd og þá sem að því standa.

Við erum að vinna að nýrri 123 síðu hér fyrir Töfrakonur. Það er tofrakonur.123.is en síðan er auðvitað enn mjög hrá þó að sé hægt að skoða hana. Við vonumst til að innan fárra daga verði hægt að panta þar og skoða vöruna okkar, panta og koma með ábendingar.
Þessi mynd hér að ofan er líka mjög ggóð auglýsing fyrir vöruna okkar sem framleiðsla er hafin á. Það eru silfurkrossar á íslenskri hraunplötu, handunnið og enginn gripur eins.

En búskapurinn kallar, girðingar og fjárflutningar á döfinni á mínum bæ, ætla að vera bjartsýn allavega á meðan grasið syngur ;)