10.08.2011 09:52

Ný sýn með mínum augum

1.grein.

 

         Öll leitum við sannleikans og leiða til að gera líf okkar betra. Það eru mýmargar ástæður fyrir því að við hefjum þessa leit, kannski vantar okkur lífsfyllingu, lífsgæðakapphlaupið tekur frá okkur orku en gefur of lítið í staðinn. Við getum verið að berjast við sjúkdóma andlega eða líkamlega, hjá okkur sjálfum eða einhverjum okkur nákomnum. Slæm reynsla fortíðar verður þess líka oft valdandi að við reynum að finna leiðir sem hjálpa okkur til betra lífs, þær eru margar til og misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Annað er líka sem oft rekur fólk af stað, fróðleiksfýsn. Við viljum vita og kanna ýmislegt sem er ekki hægt að snerta eða horfa á með berum augum. Öll vitum við innst inni að hamingjan er ekki hið ytra, hún býr innra með okkur og þangað þurfum við að sækja hana sjálf.

         Það er margt sem getur hjálpað okkur í þessari leit. Við getum fundið okkur andlega leiðbeinendur sem eru þjálfaðir til þess að aðstoða. Við getum lært ýmsar aðferðir til að heila okkur sjálf, bæði líkamlega og andlega. Það eru margar leiðir til þess og hver og einn verður að finna þá leið sem honum best hentar til þess að hjálpa sjálfum sér.

         Þegar ég fór af stað að leita fyllingar í mitt andlega líf, þá sótti ég mörg námskeið og kynntist góðu fólki sem leiddi mig í ýmsan sannleik og opnaði mér dyr sem síðan hafa reynst mér afar vel. Alstaðar voru góðir punktar til að vinna með og nota. Það var þó ekki fyrr en ég kynntist reiki hjá Guðrúnu Óladóttur reikimeistara sem líf mitt tók heljarstökk. Ég var allt í einu komin með dásamlega hluti í hendurnar, mér og öðrum til góðs. Ég upplifði það sem mér fannst kraftaverk í mínu lífi og eftir það varð ekki aftur snúið. Þörfin til að læra meira og öðlast tækifæri til að uppfræða aðra um þessa frábæru leið var algjör og mér öðlaðist það lán að fá að verða reikimeistari sjálf. Þetta er einföld leið til að heila sjálfa sig og aðra, en um leið ferð til sjálfsræktar þar sem maður lærir svo marga nytsamlega hluti til að nota í lífi sínu. Reiki geta allir lært og hefur Guðrún kennt miklum fjölda fólks hér og erlendis þessa einföldu en áhrifaríku aðferð, auk þess sem hún hefur sjálf þjálfað reikimeistara sem eru að kenna hér og þannig veltur boltinn áfram.

         Ég hef þó ekki hugsað mér að láta þessa grein fjalla um reiki en geri það síðar. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er að sýna frammá að með þessu móti getum við öll hjálpað okkur sjálfum til betra lífs. Við þurfum einungis að finna þá leið sem hentar okkur og nýta okkur hana til góðs. Með því kemst líf okkar í jafnvægi og við fáum notið þess að vera hér á okkar dásamlegu jörð. Ég er ekki að segja að ein leið sé betri en önnur, öll erum við að vinna að því sama, að finna hamingjuna, ná innra jafnvægi og friði, lifa sátt, láta okkur líða betur á okkar fallegu jörð og láta draumana okkar rætast. Við erum sjálf þess megnug að breyta okkar lífi. Það sem við þurfum að gera er að velja það og halda svo af stað. Öll vitum við líka að með því að vinna saman hefst margfaldur árangur miðað við að vinna einn. Öll viljum við örugglega frið á jörð og hamingju fyrir alla.

         Í sjálfsrækt eru kenndar ýmsar aðferðir til að láta sér líða betur og breyta lífi sínu. Aðferðir sem hver sem er getur gert og notað í sínu lífi, þó að viðkomandi hafi ekki lært eitthvað ákveðið. Við vitum öll að það sem skiptir máli er að vera jákvæður, venja sig á að breyta því sem neikvætt er í jákvæða reynslu. Við getum að minnsta kosti verið viss um að hvað sem fyrir okkur kemur í lífinu, þá er það lærdómur sem færir okkur þroska. Hins vegar getur þessi lærdómur valdið okkur miklum sársauka og reiði, en það þurfum við síðan að vinna burt. Mikil reiði og vanlíðan getur valdið líkamlegum sjúkdómum, því staðreyndin er sú að allt hangir þetta á sömu spýtunni. Það er ástæða fyrir öllu og við verðum oft að leita djúpt til að finna rót þess sem er að.

         Ein aðferð til þess að losa sig við sársauka er að skrifa. Fyrir mér er best að skrifa Guði, honum treysti ég best og veit að hann sér um mig, honum get ég sagt allt og hann skilur vonbrygði mín og þrár. Það er einungis ein leið, sumir skrifa líðan sína á blað, brenna það síðan og sjá fyrir sér að eldurinn eyði því sem veldur þessari vanlíðan. Það er líka ótrúlega gott að skrifa niður markmið sín. Sjá hvað það er sem maður vill fá út úr lífinu og hvaða markmiðum maður vill ná. Spurningin er hvaða árangri vil ég ná á næstu vikum, næstu þremur mánuðum eða á næsta ári. Það er gott að skipta þessu niður, skrifa það nákvæmlega og treysta því að okkur auðnist að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Við verðum auðvitað að setja okkur raunhæf markmið. Ég get til dæmis ekki sett það í markmið næstu fjögurra vikna að ég vilji léttast um 12 kg.  Hins vegar get ég sett það á markmið næsta árs, vitandi það að með mínum viljastyrk get ég létt líkama minn á þessum tíma. Ég verð líka að vera tilbúin til að breyta um hugarfar og hlú betur að líkama mínum, með breyttu mataræði og meiri hreyfingu. Þetta er eitt af því sem svo margir eru að  glíma við en sprynga oft á vegna þess að þeir ætlast til að ná árangri of fljótt. Það er best að vera raunsær, leyfa hlutunum að gerast og vera glaður með hverja jákvæða breytingu sem við finnum. Þannig verður maður glaðari og um leið eykst árangurinn til muna. Ég þekki engan sem nær hámarks árangri með neikvæðri hugsun og vonleysi, það er gleði og vilji sem kemur okkur þangað sem við viljum fara.

 

                                    Að breyta ótta í kærleik.

 

         Það er tvennt sem einkennir sálarlíf okkar, kærleikur og ótti.  Einhverjum finnst það ef til vill einföldun á stórri tilfinningaflóru okkar mannanna, en ef grant er skoðað er það ekki svo flókið. Við getum alltaf skipt tilfinningum okkar í tvo flokka, þ.e.a.s. hvað það er sem orsakar tilfinningar okkar. Annars vegar er það kærleikur og hins vegar ótti.

         Ef við skoðum þetta örlítið nánar þá getum við séð hversu mjög þessi skipting auðveldar okkur lífið. Galdurinn er sá að við viljum öll eyða óttanum burt úr lífi okkar og fylla það af kærleik. Við getum hugsað okkur að við séum vatnsflaska eða stór og falleg leirkanna. Þessi kanna er alltaf full, en er hún full af kærleika eða er hún full af ótta? Svarið er yfirleitt á þá leið að upp að vissu marki er kannan full af kærleik en restin er ótti. Hlutfallið er auðvitað mismikið en það sem við getum gert til að bæta okkar eigin líðan er að losa burt óttan og fylla upp með kærleik. Þannig getum við smátt og smátt losað okkur við óttan og lifað kærleiksfullu lífi.

         Það er einfalt að segja, en erfiðara að framkvæma. Við getum byrjað á því að gera okkur grein fyrir í hvaða flokk tilfinningar okkar skiptast, hvað það er sem stjórnar þeim. Við getum gert tvo dálka og fundið nokkur atriði til að átta okkur á. Tökum dæmi. Afbrýðisemi fer í óttadálkinn og svo er einnig um reiði, eigingirni, áhyggjur og margt margt fleira. Sumum finnst kannski að áhyggjur séu byggðar á kærleika, en er svo? Ef við höfum áhyggjur af einhverjum eða okkur sjálfum er það þá ekki vegna þess að við treystum ekki viðkomandi til að sjá um sig og leysa sín mál. Traust er nefnilega byggt á kærleika, trú, gleði, og allar aðrar tilfinningar sem fylla okkur friði og ljósi.

         Það er afar góð lexía fyrir okkur öll að skoða reglulega tilfinningar okkar og gera okkur grein fyrir hve mikið af þeim er byggt á kærleika og hvað mikið af ótta. Með því að slaka á og losa um óttann getum við unnið á bæði andlegri og líkamlegri vellíðan.

         Það eru nokkur atriði sem er mjög algengt að við óttumst, að eitthvað komi fyrir ástvini okkar, að við séum svikin, að við veikjumst af hættulegum eða ólæknandi sjúkdómi og svo er það óttinn við dauðann. Auðvitað er mýmargt annað sem við óttumst, en þessi framantöldu atriði eru mjög algeng og vekja oft mjög mikinn ótta og myndir í huganum sem eru neikvæðar og einungis til að auka á óttann sem er fyrir. Það er mjög mikilvægt að breyta þeim myndum sem eru neikvæðar og koma inn í hugann. Tökum dæmi: Ef einhver nákominn ættingi er á ferð í óveðri og seinkar, hvað hugsum við þá? Hugsum við að viðkomandi hafi tafist vegna veðursins, sé að koma og við hlökkum til að hitta hann glaðan og kátan. Eða förum við að hugsa um að viðkomandi hafi ekið útaf, sé alblóðugur og hjálparlaus og jafnvel dáinn? Hvað er algengara?

         Það er mjög algengt að óttinn nái yfirhöndinni í huga okkar og skynsemin víki til hliðar. Við sjáum fyrir okkur slæma hluti, sjáum í huga okkar ástvini bregðast eða okkur mistakast. Þetta gerist hjá flestum og er eitt af því sem við breytum til að láta okkur líða betur. Munum að sjá alltaf fyrir okkur að allt fari á besta veg. Ef við erum alltaf bjartsýn þá líður okkur vel og ef eitthvað kemur uppá þá erum við betur búin undir að takast á við vandann. Það bætir ekkert að vera búinn að búa til einhverjar hryllingsmyndir í huga sér eða kvíða fyrir. Við reynum alltaf að gera okkar besta og það skulum við einnig trúa að aðrir geri. Við skulum trúa á okkur sjálf og treysta okkur sjálfum, við skulum einnig trúa á og treysta ástvinum okkar, það gerir heiminn betri.

         Tökum nú fallegu krukkuna okkar sem er við sjálf og fyllum hana smátt og smátt af kærleik. Í hvert sinn sem óttinn knýr að dyrum reynum þá að finna kærleiksríkar hugsanir til að ýta honum burt svo að krukkan okkar sé alltaf full af kærleik og við séum heilbrigð á sál og líkama. Það er lykillinn að hamingjunni.

 

 

                                    Fyrirgefning.

 

         Það sem skiptir sköpum í okkar andlegu líðan er fyrirgefning. Oft er ekki auðvelt að fyrirgefa, en munum eitt. Við getum fyrirgefið án þess að samþykkja það sem gert var á hluta okkar. Við fyrirgefum manneskjunni, okkur sjálfum eða hverjum þeim sem við berum  beiskan hug til, þótt við séum ósátt við gjörðir okkar eða annara sem við erum að fyrirgefa.

         Það að fyrirgefa ekki er eins og eitur í sálina okkar. Það skaðar ekki þann sem við erum reið eða sár við heldur okkur sjálf. Hví skildum við skaða okkur sjálf vegna einhvers sem einhver gerði okkur?

         Reynum að vera hlutlaus. Ef við berum frið í hjarta og engan kala til nokkurs þá líður okkur vel. Séum við full af reiði og hatri, þá líður okkur illa. Staðreyndin er sú að við verðum að losna við hatur og reiði úr huga okkar og ná sátt. Það getur verið mjög erfitt og er fullkomlega skiljanlegt, en hvernig sem okkur líður þá er gott að losna við þó ekki sé nema brot af biturð og reiði. Við vitum að þessar tilfinningar byggja á ótta og við viljum ekki vera full af ótta. Við viljum vera full að kærleik til þess að okkur líði vel og að við getum þannig látið öðrum líða vel líka.

         Kona sem ég þekki vel, lenti í því á unga aldri að vera nauðgað af manni úr fjölskyldunni. Lengi var hún reið og sár. Þessi maður, sem hún hafði treyst, hafði rænt hana sakleysi bernskunnar, meydómnum og saurgað líkama hennar. Hann hafði gert gat á sálina sem erfitt var að lækna. Hún hataði hann, sjálfa sig og líkama sinn. Hún setti upp kæruleysisgrímu, lést vera svöl og var á næstu árum með karlmönnum án þess að fá nokkuð út úr því. Hún var að hegna sjálfri sér, líkama sínum og smána sjálfa sig. Vanlíðanin var mikil en engin vissi hvers vegna hegðun hennar og líf breyttist svo mikið. Þegar hún fór svo, þá orðin fullorðin kona, að vinna í sínum málum kom í ljós hve stórt hlutverk þessi atburður hafði á allt hennar líf. Hún lærði að fyrirgefa, fyrirgefa sjálfri sér fyrir að hegna sér fyrir það sem hún átti enga sök á. Hún fyrirgaf gerandanum og óskaði þess eins að aðrar stúlkur lentu ekki í því sama. Hún samþykkti að sjálfsögðu ekki verknaðinn en hún fann og vissi að með fyrirgefningunni var hún að heila sjálfa sig og gefa sér ný tækifæri. Hún hugsaði líka sem svo að þessi slæma reynsla gæfi henni tækifæri til að skilja aðra sem höfðu lent í svipuðu og til þess að geta leiðbeint þeim um að fyrirgefa, að hjálpa þeim burt frá þessari slæmu reynslu.

         Sem betur fer þá höfum við ekki öll svona slæmar minningar en öll höfum við eitthvað, fólk hefur brugðist okkur, sært okkur eða meitt á einhvern hátt og einnig atburði sem við höfum sjálf gert og eigum erfitt með að sætta okkur við. Oft er erfiðast að fyrirgefa sjálfum sér. Staðreyndin er hins vegar sú að fyrirgefning er dásamleg leið til betra lífs og betri líðan.

 

                                    Bænin.

 

         Þegar ég var búin að kenna reiki í nokkur ár setti ég saman sjálfsræktarnámskeið sem ég kallaði "Ný sýn, með mínum augum", eins og þessa grein hér. Þar tók ég fyrir nokkur atriði, sem fólk gat á auðveldan hátt nýtt sér til hjálpar. Þessi námskeið gengu vel og því hef ég hugsað mér að nota hluta af því efni í þessum greinum. Það sem ég set innan gæsalappa er tekið beint uppúr þessu efni. Mig langar að fjalla nokkrum orðum um bænina, vegna þess að ég veit hve mikilvæg hún er og hversu mjög hún getur hjálpað okkur.

         "Munið að biðja hvern dag af öllu hjarta þess sem þið óskið. Munið að biðja nákvæmlega um það sem hjarta ykkar þráir. Biðjið fyrir sjálfum ykkur og öllum öðrum sem þið viljið hjálpa. Munið einnig að biðja alltaf fyrir jörðinni okkar.

         Verið óhrædd að biðja. Það er nóg til fyrir alla. Það er ekkert að því að vera heilbrigður, hamingjusamur og hafa alsnæktir bæði í efni og anda. Munið bara að vera viss um að það sem þið biðjið um sé ykkar einlægur vilji. Bænir ykkar og óskir eru heyrðar og þær munu rætast. Munið einnig að hugsanir ykkar eru hróp sem heyrast og hafa áhrif. Gætið því vel að hugsunum ykkar. Látið ekki neikvæðar og þungar hugsanir frá ykkur fara. Trúið því að þið eigið allt gott skilið og það mun koma til ykkar.

         Hugsanir eru jafn raunverulegar og orð eða athafnir. Hugsanir eru orka alveg eins og orð og athafnir eru orka, Nýtið þessa óþrjótandi krfatmiklu orku hugsana ykkar og bæna til þess að gera líf ykkar að þeirri paradís sem þið óskið. Þið skapið ykkar eigin heim, fyrst og fremst með hugsunum ykkar, sem síðan birtast í orðum og athöfnum.

         Hættið að vera bitur vegna þess sem var. Lítið á liðna erfiðleika sem kennsluefni, skref í þroskabraut ykkar. Þið sjálf hafið fullan rétt á að biðja um hið besta fyrir ykkur sjálf.

         Þið eigið skilið hamingju.

         Þið eigið skilið heilbrigði.

         Þið eigið skilið gleði.

         Þið eigið skilið alsnægtir.

         Þið eigið skilið gott líf.

         Þið eigið skilið farsæld á alla vegu.

         Biðjið um það og allt annað gott sem þið óskið og þráið. Ekki velta ykkur uppúr einhverju sem var. Horfið fram á veginn og sjáið hve óendanlega möguleika þið eigið til þess að öðlast hamingju og gleði.

         Ekkert er of smátt til þess að biðja um það. Ekkert er of stórt heldur. Hvert það smáatriði sem við viljum breyta eigum við að biðja um. Einnig hið stóra sem við þráum. Þannig sköpum við okkar eigin heim, eigin raunveruleika með hjálp Guðs.

         Ef þið eigið við heilsubrest að stríða, þá biðjið um heilbrigði. Ef þið viljið eignast maka og börn, þá biðjið um það. Ef þið eruð skuldug og viljið  peninga, þá biðjið um þá. Hvað sem er sem er sett fram á jákvæðan máta ykkur og öðrum til góðs. Ekki vera hrædd við að biðja um það sem gerir líf ykkar betra. Hvort sem um er að ræða samskipti milli manna, vinnu, heimili, hvað sem er...

         Treystið því að um ykkur sé séð. Þið verðið að biðja um það sem þið þráið og sjá fyrir ykkur að það gerist. Þakkið síðan fyrir og treystið og lífið mun koma ykkur á óvart. Fólk mun verða á vegi ykkar með ný tækifæri, ný sambönd. Munið að vera opin fyrir bænheyrslunni. Lítið atvik getur orðið til þess að velta af stað bolta sem rúllar hratt og verður ógnarstór. En þið verðið líka að vera tilbúin að taka við gjöfunum sem til ykkar koma. Hugsið ætíð vel hvers þið biðjið og hverju það muni breyta í lífi ykkar.

         Það að vera á þessari jörð er stórkostlegt tækifæri til þess að þroska sig og láta gott af sér leiða. Nýtum það og njótum þess. Jákvæð hugsun skiptir öllu máli. Öll viljum við að hugsanir okkar séu jákvæðari og kærleiksríkari hverja stund. Byrjum á að biðja um það og reynum að vera meðvituð um það hvernig við hugsum og hvaða boð við erum að senda með hugsunum okkar.

         Allir hlutir hafa einhverja jákvæða hlið. Reynum ávalt að finna hina jákvæðu hlið hvers máls og dreifa þeirri jákvæðni í kringum okkur. Hvert kærleikskorn sem frá okkur fer kemur ávalt til baka sem stór kærleikskúla.

         Nú á þessari stund ætlum við að breyta því sem er neikvætt í jákvætt:

         Við skulum loka augunum og slaka á. Í huganum er ringulreið af hugsunum sem stökkva til og frá. Reynum að kyrra hugann og sjá fyrir okkur lítið ljós. Ímyndið ykkur lítið ljós í hugskoti ykkar. Ef til vill er þetta ljós dálítið dauft. Það gerir ekkert til.

         Þetta ljós er hugsanir ykkar, það sem þið sendið frá ykkur. Nú skulið þið þurrka burt alla skugga af ljósinu og leyfa því að lýsa bjart. Þegar skuggarnir fara eru allar neikvæðar og niðurdragandi hugsanir að víkja og í staðinn koma jákvæðar kærleiksríkar hugsanir. Stækkið ljósið eins og þið getið. Þið eigið nægan kærleik í hjarta ykkar, fyrir alla og líka fyrir ykkur sjálf. Líf ykkar mun eftirleiðis verða jákvætt og fullt af gleði og hamingju.

         Þegar þið hafið horft um stund á ljósið, þá skuluð þið opna augun og þið finnið að einhverjar áhyggjur og vanlíðan sem voru í huganum hafa nú vikið fyrir jákvæðni og bjartara viðhorfi.

         Þessa litlu æfingu getið þið gert eins oft og þið viljið. Gerið hana alltaf ef eitthvert hugarangur sækir að og smám saman stækkar ljósið uns engir skuggar eru til.

         Þú ert í eðli þínu jákvæður, kærleiksríkur og hamingjusamur einstaklingur. Leyfðu þér að vera það. Leyfðu ljósinu þínu að skína".

         Það getur verið mjög áhrifaríkt að gera hugaræfingar og hugleiða. Með bæninni tölum við við Guð og í hugleiðslunni hlustum við á hann. Ef til vill segið þið að það sé erfitt að kyrra hugann, en það er einungis æfing og með ástundun og þolinmæði kemur það og gefur ykkur ótrúlega mikið. Það að eiga kyrrðarstund er ómetanlegt og mikil slökun og heilun í okkar hraða þjóðfélagi. Við þurfum virkilega á því að halda til þess að týna ekki sjálfum okkur. Við búum við spennu og hraða sem allir hafa þörf á að komast frá öðru hvoru. Því er gott að gefa sér vissa stund hvern dag til að biðja, hugleiða og eiga fyrir sjálfan sig. Þannig getum við líka oft skýrt hugsanir okkar og séð hvað það er sem raunverulega skiptir okkur máli og hvað það er sem við raunverulega þráum.

         Ef til vill segja einhverjir að ekkert af þessu sé nýtt og að þið vitið þetta allt saman. Ég veit að það er rétt, en það er nú einu sinni þannig að við þurfum á því að halda að vera minnt á. Það er svo auðvelt að detta úr jafnvægi inn í hraðann og gleyma þar með að gefa sér tíma, fyrir sjálfan sig og fyrir fólkið sitt. Það eru ómetanlegar stundir að vera t.d. úti í náttúrunni, finna jörðina undir fótum sér og teyga að sér hreint loftið sem við erum svo lánssöm að eiga. Á þannig stundum líður okkur vel og við eigum auðvelt með að senda frá okkur jákvæðar og kærleiksríkar hugsanir. Stundum höfum við ekki tíma fyrir stundir sem þessar, en þá er betra en ekki að loka augunum og ímynda sér náttúruna og hreina loftið. Hugsunin ein lætur okkur líða betur.

 

                                                Kærleikur.

 

         Þó ég hafi talað um hér áður að breyta ótta í kærleik langar mig að tala meira um kærleikann. Hann er það sem við viljum hafa í okkar lífi og einnig það sem við öll nærumst á.

         "Sterkasta aflið í lífi okkar er kærleikur. Hann getur sýnt sig í mörgum myndum. T.d. í ást okkar á maka og börnum, vináttu okkar, hlýjum hugsunum, bænum okkar. Allt hið jákæða og góða er sprottið frá kærleika okkar.

         Það eru aðeins tveir þættir sem stjórna tilfinningum okkar. Til þeirra getum við alltaf rakið líðan okkar hverju sinni. Annars vegar er það kærleikur og hins vegar ótti. Það sem við þurfum að gera í okkar lífi til þess að verða hamingjusamri og glaðari einstaklingar er að útrýma óttanum í okkar lífi og fylla það af kærleika.

         Það er hægara sagt en gert að losa sig við allan ótta og er ekki gert á einum degi. En það er fullkomlega þess virði. Við höfum ekkert að óttast fyrir okkur sjálf, við eigum val í okkar lífi. Við skulum velja það að vera hamingjusöm.

         Við þurfum að horfast í augu við eigin ótta, skoða hann í stað þess að flýja frá honum. Örugg skulum við gera þetta saman og smám saman losa okkur við hann. Tilfinningar eins og hræðsla, kvíði, reiði, afbrýðisemi, vonbrygði og fleira sem plagar okkar eru byggðar á ótta. Það er ekkert óeðlilegt við að hafa þessar tilfinningar, en við þurfum að losa okkur við þær, til þess að þær geti ekki skemmt fyrir okkur ánægjulegt líf og heilsu.

         Reynum að trúa því að við eigum allt gott skilið, að um okkur sé séð og að við séum örugg í hverju sem á gengur. Óttinn gerir okkur veikari og dregur til okkar sársaukafulla hluti. En kærleikurinn gerir okkur sterk og færir okkur hamingju og sátt.

         Munum að dæma ekki aðra. Öll erum við á leið okkar til þroska, en við erum mislangt komin. Það sem mér finnst hræðilegt, getur öðrum þótt hið eina sanna. Við verðum að reyna að setja okkur í spor annara. Gera eins vel og við getum hverju sinni, það er nóg.

         Þroski okkar breytist dag frá degi, sífellt öðlumst við nýja reynslu og víðari sýn á lífið. En þó svo að eitthvað sé í fortíðinni sem við í dag myndum ekki gera, þá meigum við ekki dæma okkur sjálf. Á þeim tíma vorum við á öðrum stað, þá þótti okkur það sem við gerðum rétt. Við verðum að auðsýna sjálfum okkur ást og þolinmæði. Sýnum öllum eins mikinn kærleik og við getum og kærleiksflæðið mun aukast jafnt og þétt.

         Það getur verið erfitt að fyrirgefa eitthvað sem á hluta okkar var gert. Ef til vill eigum við slæmar minningar úr bernsku, einhver hefur brugðist okkur og við sjáum ekki hvernig við getum fyrirgefið. En það er erfitt að bera sárar tilfinningar í brjósti sér. Með kærleikanum skulum við reyna að vinna á slæmum minningum. Prófa að senda jákvæðar kærleiksríkar hugsanir til þeirra sem gerðu á hluta okkar og biðja fyrir þeim.

         Það uppsker hver eins og hann sáir. Við skulum vinna úr sársaukanum og smám saman losa okkur við reiði, sársauka og allar þessar tilfinningar sem byggðar eru á ótta. Í staðinn koma tilfinningar eins og ást, fyrirgefning og friður í hjarta okkar. Smátt og smátt vinnum við á gömlum hnútum, uns þeir hverfa á braut. Leyfum kærleikanum að flæða um okkur og frá okkur. Það er kærleikur sem við viljum senda frá okkur og kærleikur sem við viljum fá til baka.

 

                                    Kærleikskúlan.

 

         Þú skalt setjast, loka augunum og slaka á líkamanum. Með hverri mínútu verður þú afslappaðri og friður fyllir hjarta þitt. Þér líður vel. Allt er svo rólegt, ekkert fær truflað þessa stund sem þú ætlar að eiga með sjálfum þér. Allar truflandi hugsanir hverfa á braut. Líkaminn er svo afslappaður að þú finnur varla fyrir honum lengur. Í kringum þig er umvefjandi kærleiksrík orka, svo mjúk og friðsæl.

         Þú ert algjörlega afslappaður og nú ætlar þú að búa til kærleikskúlu í kringum þig, þar sem þú getur setið afslappaður og unnið kærleiksvinnuna þína í friði, án nokkurra truflana eða utanaðkomandi áhrifa.

         Þú situr rólegur og utan um þig er risastór bleik kúla, full af kærleik og friði. Hjarta þitt er fullt af ró og þakklæti. Þakklæti fyrir líf þitt, allar góðar stundir og allt hið fallega sem þú átt og þér er kært.

         Kærleikskúlan þín er skotheld vörn gegn öllu neikvæðu og hverju því sem þú vilt ekki hleypa til þín. Inn í kúluna getur aðeins flætt kærleikur og út úr kúlunni getur aðeins flætt kærleikur. Þér líður óumræðilega vel.

         Þú slakar á, andar rólega og finnur hve tær orkan er í kringum þig. Í huga þínum og hjarta er ekki lengur neitt sem gerir þig dapran.

         Þegar þú hefur um stund notið kærleikans fyrir sjálfan þig skaltu leyfa öðrum að njóta hans með þér. Sendu kærleik úr kúlunni þinni til allra á jörðinni sem þú vilt, allra sem eiga bágt og sendu einnig kærleik til jarðarinnar sjálfrar. Njóttu þess að sjá ást þína flæða. Það ert þú sem gefur þennan kærleik og það er nóg til.

         Nú hefur þú sent kærleikann þinn og nú skaltu nota tækifærið og finna hve auðvelt þú átt með að fyrirgefa.

         Hugsaðu um einhvern sem gert hefur á hluta þinn. Bjóddu þá manneskju velkomna inn í kærleikskúluna þína. Mundu að aðeins kærleikur kemst til þín svo að ekkert er að óttast. Sendu viðkomandi manneskju hvítt ljós í huga þér og segðu henni að þú fyrirgefir af öllu hjarta. Finndu hvað léttir á hjartanu þínu og þér líður betur. Á þessari stundu hefur þér tekist að breyta heilmiklum ótta í kærleika.

         Nú skaltu kveðja manneskjuna og þú ert nú einn í kærleikskúlunni þinni. Sittu um stund og njóttu þess að finna hve mikinn frið og ró þú átt í hjarta þínu. Þegar þú kemur til baka úr kúlunni þinni, þá mun brjóst þitt vera fullt af ást og þú munt finna að hin innri ró helst í sál þinni.

         Nú skaltu opna augun rólega. Þetta var yndisleg stund sem þú getur upplifað hvenær sem þú vilt. Hvenær sem er getur þú notað kærleikskúluna þína til að gefa þér kærleika, til að senda kærleika, til að hjálpa þér að fyrirgefa og til þess að öðlast innri ró. Mundu að innra með þér er fjársjóður sem þú átt og getur nýtt á allan þann hátt sem þú óskar. Njóttu þess að vera til. Leyfðu þér að flæða frá þér kærleika hverja stund. Leyfðu þér að vera glöð, örugg og hamingjusöm manneskja".

         Það er hægt að gera svo ótalmargt til þess að láta sér líða betur og losa sig við kvíða og hræðsluhugsanir. Það er meira að segja hægt að gera þessa vinnu að leik og finna skemmtilegar aðferðir til að minna sig á. Eitt af því sem ég hef notað eru "Kærleiksorð". Það er svipað og þegar fólk dregur jákvæðar staðhæfingar, kannski eina á hverjum degi til að hugsa um. Allt skemmtilegt og jákvætt í þessa átt hjálpar okkur.

                                                "Kærleiksorð.

 

         Fáðu þér harðan pappír og búðu til 12 spjöld. Á þau skrifar þú kærleiksrík orð. Á hverjum degi dregur þú eitt orð fyrir þig til að hugsa um og birta. Hugsaðu:

         Hvað vil ég gefa mér í dag?

         Hvað vil ég gefa öðrum í dag?

         Hvað vil ég fá frá öðrum í dag?

         Dragðu síðan eitt kort og hugsaðu um orðið. Gefðu sjálfum þér gjafir með því að láta þér líða betur, gefðu einnig öðrum sömu gjafir og taktu eftir þeim sem aðrir gefa þér. Þetta er yndislegur leikur sem getur veitt þér ómælda ánægju og jákvæðari hugsunarhátt.

 

                                    Kærleiksorð:

 

                                    Ást

                                    Von

                                    Trú

                                    Heiðarleiki

                                    Kærleikur

                                    Falleg orð

                                    Bros

                                    Þakklæti

                                    Virðing

                                    Gleði

                                    Hlýja

                                    Umhyggja

                                                            Gangi þér vel".

 

         Það er ótrúlegt hvað sannfæring fólks og þrá getur áorkað. Mörg dæmi eru um að fólk hafi með jákvæðri hugsun og einlægum ásetningi tekist að breyta hlutum sem ekki er hægt að kalla annað en kraftaverk. Fólk hefur heilað líkama sinn af alvarlegum sjúkdómum, breytt lífi sínu á svo undraverðan hátt að sumir vilja meina að það sé varla hægt. Lykillinn að öllu þessu er vilji. Breytt hugarfar og einlægur ásetningur getur gert kraftaverk. Margir hafa látið stórkostlega drauma rætast og undirmeðvitundin okkar veit að það er hægt, við þurfum einungis að trúa og hleypa gleðinni inn í lífið.

         Til að láta draumana okkar rætast er fyrsta skref að vita hvað við viljum. Við þurfum að vera nákæm og skoða alla þætti lífs okkar. Hvað er það sem við erum ánægð með og hverju viljum við breyta? Sumu er kannski ekki hægt að breyta nema það hafi áhrif á svo ótalmargt annað og þá er spurningin, viljum við þær breytingar sem fylgja? Þegar við svo vitum fyrir víst hvernig framtíðarsýn við viljum sjá getum við farið að skoða hvað það er sem við þurfum til að láta draumana rætast.

         Okkur er öllum holt að eiga drauma og markmið til að stefna að. Hvort sem um er að ræða að fara í nám, fá draumastarfið, eignast fjölskyldu, flytja í annað hús, eignast fjármuni, hvað sem er. Við verðum auðvitað að losa okkur við ótta og finna í hjarta okkar að við eigum allt það besta skilið og við eigum skilið að láta draumana okkar rætast. Það er afar gott að sjá í hugskoti sínu mynd af því sem við þráum og halda fast við hana. Undirmeðvitundin okkar vinnur hörðum höndum í því að gera að veruleika þrár okkar og óskir, innst inni vitum við alltaf hvað er best.

         Ef við tökum aftur dæmi um útlit, þá skuluð þið alltaf hugsa ykkur að þið lítið út eins og þið viljið líta út. Segjið aldrei við sjálf ykkur neikvæðar setningar. Ekki horfa í spegilinn og hugsa, ég er of feitur eða ég er með ljótt nef. Segið við líkamann ykkar að hann sé fallegur og þá er mun auðveldara að breyta honum eins og þið sjálf viljið. Segið: Ég er fallegur, ég er stæltur, eða hvað það er sem þið viljið vera. Ef þið getið ekki sagt jákvæða hluti um það sem þið viljið breyta finnið þá það sem þið eruð ánægð með. Ef þú hefur nef sem þú ert óánægður með en hár sem þú ert ánægður með, hugsaðu þá um hve hárið á þér er fallegt. Ekki draga fram neikvæða hluti um sjálfan þig, heldur jákvæða, þá munu einnig aðrir gera það.

         Staðreyndin er sú að við fáum allt til baka sem við sendum frá okkur. Ef við sendum frá okkur jákvæðar hugsanir, þá fáum við jákvæðar hugsanir til baka. Þess vegna verðum við að hafa trú á sjálfum okkur, elska sjálf okkur og virða sjálf okkur. Ef við virðum okkur ekki sjálf, hvers vegna skyldu þá aðrir gera það?

         Það er mjög gott að huga að því hvað það er í umhverfinu sem við eigum bágt með að þola. Ef við fáum viðbrögð hjá fólki sem okkur finnast neikvæð, t.d. að fólk sýni okkur ekki nægilega virðingu eða misbjóði okkur á einhvern hátt, skoðum á hvað við gerum sjálf. Erum við að virða sjálf okkur og gefa okkur það sem við eigum skilið? Við verðum að gera það sjálf, ef við viljum að aðrir geri það.

         Þannig er einnig um drauma okkar. Ef við segjum alltaf að við séum blönk og eigum ekki fyrir reikningum, þá erum við að segja sjálfum okkur og öðrum að þannig sé staðan. Hvernig getum við þá búist við að eitthvað breytist? Hugsun eins og: Ég á alltaf nóg af peningum, dregur þá til þín á meðan hin hugsunin heldur þeim frá. Segðu aldrei neikvæða hluti um sjálfa þig eða við sjálfa þig og sjáðu þú munt upplifa lífið á annan hátt. Við viljum öll að okkur líði vel. Þannig á það að vera og við verðum sjálf að finna hamingjuna innra með okkur og birta hana síðan í okkar lífi. Þetta getum við og við skulum gera það.

         Þolinmæði er eitt af því sem við þurfum að hafa. Sumir hlutir gerast eins og að smella fingri og sumir taka lengri tíma. Sumar breytingar taka jafnvel ár og þannig viljum við hafa það. Lífið er eins og við veljum það og við verðum að vera tilbúin fyrir breytingar hverju sinni. Stundum þurfum við einfaldlega tíma til að taka breytingum, þó að við viljum þær og höfum beðið um þær.

         Stundum tökum við heldur ekki eftir bænheyrslunni. Við biðjum um peninga og einblínum á happdrættisvinning. Okkur er boðin betri og skemmtilegri vinna með hærri launum, en við tökum kannski ekki eftir tækifærinu, af því að við erum að bíða eftir stóra vinningnum. Bænheyrsla getur verið á svo marga vegu og gott fyrir okkur að venja okkur á að taka eftir í okkar lífi. Tækifærin eru til fyrir okkur og við getum látið draumana okkar rætast. Með betri líðan og jákvæðara hugarfari er hægt að færa fjöll.

                                    Gangi þér vel að láta draumana þína rætast.