11.08.2011 08:43

Ný sýn með mínum augum 2

2. grein.

 

         Í fyrstu grein minni fór ég yfir nokkur atriði sem við getum notað til að bæta líf okkar og verða jákæðari í hugsun. Þá var ég að fjalla um bænina, fyrirgefninguna og kærleikann. Nú langar mig til að halda áfram að fjalla um fleiri atriði sem hjálpa okkur í því að líða betur. Við þurfum á því að halda að elska sjálf okkur, virða og gefa okkur tækifæri.

         Frelsi er eitt af því sem við verðum að hafa í okkar lífi til þess að okkur geti liðið vel. Það frelsi sem ég er að tala um er einmitt undir okkur sjálfum komið og við ein getum veitt frelsi inn í okkar eigið líf.

 

                                                Frelsi.

 

         "Öll eigum við skilyrðislausan rétt á því að hafa fullkomið frelsi í okkar lífi. Frelsi til þess að vera hamingjusöm, láta gott af okkur leiða. Frelsi til þess að birta það sem við viljum. Frelsi til þess að velja þá leið sem við kjósum í þroskagöngu okkar. Guð gaf okkur frjálst val. Það er stærsta gjöf sem við getum fengið. Guð gaf okkur algert frelsi. Skoðum þá staðreynd og hugsum vandlega um það hvernig við nýtum þessa stórkostlegu gjöf.

         Hvað er það sem veitir okkur frelsi? Frelsi okkar felst fyrst og fremst í því að vera hverja stund við sjálf. Við getum átt og nýtt okkar fullkomna frelsi án þess að hefta frelsi annara. Við meigum ekki taka valið af öðru fólki. Þá erum við að taka af því möguleika til þroska og þá erum við að taka af því frelsi sem hver og einn á. Það er eitt að leiðbeina og vera til staðar fyrir fólk og annað að þröngva vilja sínum inn á aðra.

         Hugsum um það munstur sem viðgengst hjá okkur sjálfum og fjölskyldum okkar. Sú manneskja sem sviptir okkur oftast frelsi, erum við sjálf. Við viljum að sjálfsögðu breyta rétt, Það gerum við með því að hlýða kalli hjartans og hlusta á okkar innri rödd. En oft á tíðum erum við að taka burt okkar eigið frelsi vegna þess að við höldum að öðrum líki ekki við okkur ef við erum við sjálf. En er það ekki einmitt fólkið sem við dáumst að sem gefur sjálfu sér frelsi?

         Það er frelsi að segja skoðun sína, birta þá sköpun og tjáningu sem við þurfum, hverju sinni. Við eigum einnig að muna að orð geta sært og brotið fólk niður. En þó að við viljum muna þennan sannleik, þá er ekki þar með sagt að við eigum að tala gegn sannfæringu okkar einungis til þess að aðrir heyri það sem þeir vilja heyra. Verum ávalt sönn í því sem við birtum, þá mun vel fara. Þannig getum við hjálpað hvert öðru til þess að öðlast sitt frelsi. Frelsi til þess að birta það sem hver og einn getur og vill hverju sinni.

         Ef til vill finnst okkur stundum að annað fólk svipti okkur frelsi, vilji hafa okkur eftir sínu höfði. Skoðum þá hvernig við komum fram við annað fólk, t.d. börnin okkar. Við eigum að kenna þeim allt það besta til þess að þeim gangi vel í lífinu og finni sig í samfélagi okkar. En við erum þess einnig megnug að gefa þeim stórkostlegt frelsi. Við getum gefið þeim frelsi til að elska, vera þau sjálf, komast í snertingu við náttúruna, hreyfa sig, velja fötin sín, liti í herbergi og taka þátt í sameiginlegum ákvörðunum. Um leið og við gefum öðru fólki frelsi erum við að gefa okkur sjálfum frelsi um leið.

         Í gegnum frelsi er hægt að kenna svo ótalmarga hluti. Segjum að barnið þitt þrái að eignast gæludýr. Gott og vel, ef allir á heimilinu eru sáttir. En við getum um leið kennt barninu að bera ábyrgð á því sem það velur. Það þarf sjálft að hugsa um dýrið, gefa því að borða, þrýfa eftir það, sinna félagslegri þörf þess og sjá því fyrir hreyfingu og auðsýna því ástúð. Það getur verið leiðigjant og þreytandi að bera ábyrgð, þó ekki sé nema á einni lítilli mús. En með þessum yndislegu dæmum úr okkar daglega lífi getum við kennt svo góða hluti. Við lærum að velja fyrir okkur sjálf, taka ábyrgð á vali okkar og því sem við gerum.

         Það er yndislegt að hafa frelsi, en margt fólk er alið uppí því að aðrir taki fyrir það allar ákvarðanir. Vant því að aðrir axli ábyrgð sem það sjálft ætti að axla. Við berum ábyrgð á okkur sjálf og við erum þau einu sem getum notað frelsi okkar, sem Guð gaf.

         Leyfum okkur að vera frjáls. Leyfum okkur að láta okkur dreyma. Leyfum okkur að njóta augnabliksins og leyfum öðrum að vera þeir sjálfir. Með frelsinu hjá okkur  kennum við öðrum að gefa sjálfum sér frelsi. Þannig getum við komið meiri jákvæðni inn í líf okkar og annara.

         Gefið ykkur líka frelsi til þess að gera það sem ykkur hefur alltaf langað. Þó að við séum fullorðin þá eigum við kannski drauma sem við sjáum ekki að geti ræst. Til dæmis í sambandi við nám. Við heftum okkur sjálf með alskyns afsökunum. Við getum ekki farið að læra af því að við erum of langt frá skólanum, af því að við eigum ekki næga peninga, höfum of stóra fjölskyldu eða erum of gömul. Þið vitið að við erum oftast að búa þessar ástæður til. Við ákveðum oft fyrir aðra, hluti sem eru kannski ekki einu sinni í huga þeirra sem hlut eiga að máli.

         Höldum áfram að tala um námið. Nú er hægt að stunda fjarnám mjög víða, kannski er fjölskyldan meira en tilbúin til að hjálpa til, kannski er hægt að draga saman útgjöld og þetta með aldurinn er lélegasta afsökunin. En þá er spurningin. Er þetta það sem við viljum eða erum við að láta aðra halda að ef við værum í betri aðstæðum þá nýttum við líf okkar á annan hátt? Skoðið þetta vel. Því að þetta dæmi á við svo margt, sambönd, vinnu, félagslíf og margt fleira.

         Stundum erum við hrædd við breytingar og viljum kannski ekki breyta okkar lífi. Það er allt í lagi. Við eigum okkar val og það er engin sem segir að eitthvað starf sé betra eða mikilvægara en annað. Skoðum vel í hugskoti okkar hvað það er sem við viljum og leyfum okkur að vera frjáls. Við þurfum ekki að fela okkur á bak við neitt: Ég get ekki af því að ...         

         Við eigum val og frelsi til að breyta okkar lífi eða halda því í þeim skorðum sem það er. Við ráðum þessu sjálf, fyrir okkur sjálf. Verum frjáls og njótum þess sem við höfum. Leyfum okkur að svífa um í huganum og sjá fyrir okkur allt það góða og fallega sem við óskum. Óskum als hins besta fyrir okkur sjálf, fyrir aðra og fyrir jörðina okkar. Okkur er frjálst að biðja um allt gott okkur til handa. Munið það.

         Gefið ykkur frelsi til þess að losna við það sem þið viljið úr ykkar lífi. Þannig gefið þið einnig öðrum tækifæri. Gefið ykkur einnig frelsi til þess að öðlast það sem þið þráið og ná þangað sem þið viljið ná. Þannig gefið þið einnig öðrum frelsi. Lærið að njóta. Þið eruð frjáls og möguleikarnir eru óþrjótandi.

 

                                    Frelsishugleiðsla.

 

         Sitjið með lokuð augun og slakið á. Líkaminn er afslappaður og þið andið rólega og kyrrið hugann. Ykkur líður dásamlega vel. Mikill friður fyllir sál ykkar og þið finnið að þið getið gert allt sem þið viljið. Allt sem áður hefur truflað ykkur gerir það ekki lengur. Þið slakið enn betur á og hver fruma er fullkomlega afslöppuð og í jafnvægi.

         Sjáið fyrir ykkur eða finnið að út úr bakinu ykkar spretta vængir. Um leið og það gerist léttir af ykkur öllum áhyggjum, ef einhverjar hafa verið. Þið eigið þessa vængi. Þið hafið alltaf átt þá en nú ætlið þið að fara að nota þá, því að þið vitið að þið eruð fullkomlega frjáls.

         Breiðið út vængina og finnið hvernig frelsistilfinning flæðir um sál ykkar. Þið lyftist hægt og rólega og nú getið þið svifið um á vængjunum ykkar hvert sem þið óskið, frjáls og óheft.

         Öll gömul höft hverfa á braut. Það er ekkert sem bindur ykkur nema það sem þið hafið sjálf valið og getið breytt hvenær sem er.

         Þið svífið upp í bláan himininn, finnið hvernig friður fyllir hjörtu ykkar, gleði og eftirvænting þyrlast um ykkur. Þið eruð frjáls og þið getið flogið hvert sem er.

         Leikið ykkur um himingeiminn. Svífið á milli stjarnanna og njótið þess að finna kærleiksorkuna sem umvefur ykkur. Alheimurinn er sneisafullur af kærleik. Það er nóg til. Þið getið alltaf náð ykkur í alla þá orku sem þið óskið, allan þann kærleik sem þið viljið. Þið eruð frjáls, umvafin af hamingjutilfinningu og þið vitið að ekkert verður eins og áður.

         Þar sem þið svífið um himingeiminn, leyfið ykkur þá að biðja um það sem þið viljið. Bænir ykkar eru heyrðar. Ef til vill hittið þið aðra sem einnig eru að gefa sér frelsi og svífa á vængjunum sínum til þess að ná sér í kærleik og frið.

         Þegar þið hafið svifið um eins og þið viljið skuluð þið koma til baka og setjast í sætin ykkar. Þið eruð frjáls og þið eigið þessa vængi sem þið getið notað hvenær sem er. Frelsið gerir vængina ykkar virka. Með ykkur kemur til baka þessi frelsistilfinning sem í senn vekur gleði og hugljómun. Þið eruð fullkomlega frjáls.

         Nú skuluð þið opna augun. Frjálsar guðlegar verur í heimi frelsis".

 

         Hugleiðslur eða æfingar eins og þessar getið þið notað ein og sér eða í hóp, sem þá er gott að einhver leiði hugleiðsluna í rólegheitunum, þannig verður slökunin meiri og þið finnið einnig samkenndina með hinum sem einnig eru að vinna þessa dásamlegu vinnu.

 

                                                Draumar.

 

 

         Það er svo ótalmargt sem við veltum fyrir okkur dag hvern og ótalmargar leiðir til þess að finna svörin innra með sér og fá hjálp. Eitt af því eru draumar okkar. Öll dreymir okkur og ef við tökum eftir draumunum okkar og skrifum þá niður geta þeir sagt okkur mjög margt um okkur sjálf, ótta okkar og það sem koma skal. Þeir sem eru með okkur, leiðbeinendur og andlegir meistarar gera allt sem þeir geta til að fá okkur til að hlusta og ná athygli okkar. Ein af þeim leiðum er einmitt draumarnir. Stundum eru draumar okkar martraðir og ástæðan er yfirleitt sú að við erum að nýta draumana til að hreinsa út hjá okkur og því ekkert að óttast. Eftir að ég komst að þessu hef ég átt betra með að umbera vonda drauma. Eftir vondan draum, þakka ég bara fyrir og hugsa með mér að það sé gott að þetta hreinsaðist burt frá mér. Síðan sleppi ég hugsuninni og gleymi honum sem fyrst. Þetta finnst mér gott, vegna þess að það sem er neikvætt hjálpar mér ekkert til þess að komast þangað sem ég ætla. Aftur á móti eru aðrir draumar sem takandi er mark á.

         Ef þig langar til að ráða draumana þína, þá skrifaðu þá niður. Búðu síðan til þína eigin draumaráðningabók. Það getur verið mjög skemmtilegt að taka eftir þeim táknum sem koma fram hjá hverjum og einum. Það sem þýðir eitt fyrir mig getur þýtt allt annað fyrir þig. Með því að læra að muna draumana sína og halda draumadagbók getum við orðið margs vísari og fengið ótrúlegar upplýsingar er við erum farin að geta ráðið okkar eigin drauma.

         Ef það eru einhverjar spurningar sem brenna á okkur, getur verið ráð að skrifa niður spurninguna og stinga síðan miðanum undir koddann. Biðjum síðan um svar og vitum hvaða svör við fáum. Ef draumur fyrstu næturinnar svarar okkur ekki, skulum við ekki gefast upp, heldur biðja um nákvæmara svar. Þetta getur verið skemmtilegt og einnig gagnlegt.

         Það er svo ótalmargt skemmtilegt sem við getum gert í okkar andlegu vinnu, bæði ein og sér og einnig saman. Við getum stofnað hópa, bæði hugleiðslu og bænahópa, eða lestrarhópa þar sem fólk les sömu bókina og kryfur hana síðan, hver með sínum skilningi. Það að gera líf sitt jákvæðara er ótrúlega gott en á einnig að vera skemmtilegt. Við eigum að njóta als þess sem við gerum og finna okkar eigin leiðir til að njóta.

 

                                                            Framtíðin.

 

         Öll veltum við framtíðinni fyrir okkur. Hvað er það sem koma skal? Hvernig mun líf mitt verða eftir ár eða tíu ár? Allir hugsa fram á veginn, sumir með ótta í huga en aðrir með gleði. Við skulum velja gleðina og óska sjálfum okkur og öðrum dásamlegrar framtíðar.

         "Við vitum það og finnum í hjörtum okkar að í náinni framtíð munu margir hlutir breytast. Miklar og stórar hreinsanir munu eiga sér stað. Til þess að jörðin okkar geti orðið að því friðarríki sem okkur hefur verið lofað, þarf margt að laga og mikil uppbygging síðan að eiga sér stað.

         Við erum hér á þessari jörð til þess að hjálpa til við að skapa þessa nýju framtíð. Við eigum alla möguleika til þess að taka þátt í þessu yndislega starfi og síðan að njóta þess að vera hér þegar jörðin okkar verður orðin friðsæl, laus við sársauka og þjáningu. Það verður yndislegt.

         En áður en til þess kemur verðum við að breyta miklu og hreinsa út neikvæða hluti. Það sem við gerum fyrst er að byrja á okkur sjálfum. Við viljum birta guðdómleik okkar. Reynum hverja stund að vera þær manneskjur sem við viljum vera, njótum augnabliksins. Lærum að sjá fegurðina allt í kringum okkur, látum streyma frá okkur jákvæðar hugsanir og kærleik. Sjáum einnig í huga okkar hvernig allt breytist til hins betra í okkar lífi, annara lífi og lífi jarðarinnar okkar í heild.

         Það besta sem við getum gert fyrir móður jörð er að biðja fyrir henni og heila hana með kærleik okkar. En það er eins með jörðina okkar og okkur sjálf. Við viljum þyggja kærleik en við viljum einnig gefa frá okkur allt hið besta. Þannig er einnig með jörðina. Hún þráir það heitast að við græðum sárin hennar og einnig þráir hún að við þyggjum gjafir hennar.

         Takið eftir því þegar þið eruð úti í náttúrunni. Það er sama á hvaða árstíma er. Jörðin er full af orku sem hún vill gefa okkur, ómælda eins og við getum þegið og notað. Jörðin okkar vill einnig að við njótum ávaxta hennar, tökum það sem við þurfum, en sleppum allri græðgi. Við ættum einnig alltaf að muna að þakka fyrir okkur og allt sem við fáum. Þannig er flæðið rétt.

         Notum tímann vel. Gefum jörðinni heilun og kærleiksríkar hugsanir í hvert sinn sem við hugleiðum. Biðjum fyrir jörðinni okkar í hvert sinn sem við biðjum. Þannig getum við áorkað óendanlega miklu.

         Það að vekja aðra meðbræður okkar til meðvitunar um framtíðina og mikilvægi jarðarinnar er einnig stórt verkefni. Við verðum samt að muna að neyða aldrei fróðleik okkar og vitneskju til annars fólks, en ef fólk vill fræðast af þér þá notaðu milda kærleiksríka orku til þess að upplýsa fólk um það sem þú heldur að geri það kærleiksríkara og jákvæðara. Þú getur hjálpað mörgum sem eru óöruggir í dag. Sú vitneskja sem þú hefur og öðlast smátt og smátt gerir þig líka skilningsríkari.

         Orka jarðarinnar er að hækka mjög mikið. Á meðan við erum að venjast henni og þeim breytingum sem eiga sér stað allt í kringum okkur þá getur okkur liðið skringilega. Fólk er slappt og druslulegt, án þess að hafa til þess neina ástæðu. Það getur skapað óöryggi, pirring og áhyggjur. En ef við gerum okkur grein fyrir að þetta er eðlilegt ástand og líður hjá, þá eigum við auðveldara með að halda okkur í jafnvægi, þó svo að orkusveiflurnar á jörðinni séu misjafnar.

         Í framtíðinni mun enginn geta logið að þér. Nú strax ert þú farinn að skilja hvenær fólk er heiðarlegt og hvenær ekki. Það er ekki lengur hægt að plata þig eins og áður var. Finndu hvað það er gott.

         Í framtíðinni mun enginn særa þig. Jörðin verður friðsæll staður og smátt og smátt eru fleiri og fleiri að verða meðvitaðir um hlutverk sitt. Fleiri og fleiri verða meðvitaðir um guðsneistann í brjósti sér. Eftir því sem fleiri vinna meðvitað, þeim mun auðveldara er fyrir þá sem á eftir koma. Hugsið ykkur hve gleðilegt það er ef vinnan með sjálf okkur skilar því að aðrir njóti góðs af. Við sjálf verðum þessi ljós sem lýsa upp jörðina og við munum hjálpa öðrum til þess að tendra ljósin sín. Hugsið ykkur hve það er stórkostlegt. Við meigum samt aldrei dæma þá sem ekki eru vaknaðir til meðvitundar. Þeir geta vaknað allt í einu, gefið sjálfum sér tækifæri og meðtekið ljósið á mjög skömmum tíma.

         Orkan er að breytast, tíðnin að hækka. Það er þekkt staðreynd í vísindum að engir tveir hlutir geta verið á sama stað, annar verður að víkja. Það sama er að segja um orkuna. Ef ný orka hvolfist yfir okkur, verður sú gamla að hverfa. Svo lengi hefur mikil neikvæð orka verið á jörðinni okkar. En nú hefur þróunin snúist við. Fleiri og fleiri velja ljósið og myrkrið verður að hverfa á braut.

         Oft erum við hrædd við hið óþekkta, jafnvel þó að við vitum að við þurfum að breyta. En þó er það svo að þegar við höfum ákveðið að arka af stað veginn okkar nær ljósinu, þá er ekkert sem stöðvar okkur. Við fáum alla þá hjálp sem við biðjum um. Við neyðumst til að taka til hjá okkur, hreinsa út og vinna úr bældum tilfinningum. Það getur verið erfitt, en það er sannarlega þess virði. Við viljum og munum undirbúa okkur undir dásamlega framtíð, því meira sem við gerum í okkar andlegu vinnu því betra. Við skulum hjálpast að við að gera jörðina að þeirri paradís sem hún á að vera. Fyrir okkur sjálf, ástvini okkar og alla jarðarbúa.

         Við getum fundið fyrir hreinsunum í okkar efnislega líkama. Við getum einnig fundið fyrir hreinsun jarðar í efnislíkömum okkar. Stress, flökurleyki, andarteppa eða verkur fyrir hjarta eru einkenni fyrir samhyggð og samkennd með jörðinni og því sem móðir jörð fer í gegnum. Höfum ekki áhyggjur. Við verðum að læra eitt til þess að líða vel. Við verðum að venja okkur á að vera í jafnvægi. Með því að losa okkur við ótta og hleypa inn kærleik komum við jafnvægi á í lífi okkar. Óttalaus og kærleiksrík skulum við ganga mót framtíðinni. Framtíð sem við sköpum.

         Við verðum að þora að taka ábyrgð á okkur sjálfum og okkar lífi. Við skulum hætta að varpa ábyrgðinni á aðra. Við erum tilbúin til að axla þessa ábyrgð. Við erum tilbúin til að lifa hamingjusömu lífi. Við erum tilbúin til að lifa í alsnægtum.

         Trúum á yndislega framtíð og hjálpum til við að skapa hana. Við öxlum okkar ábyrgð og gleðjumst yfir öllu því góða sem kemur til okkar dag hvern. Sjáum heiminn með nýjum augum. Skuggarnir hverfa og ljósið skín í hvern afkima jarðarinnar og hvern afkima sálarinnar.

                                    Framtíðin er ljós.

                                    Framtíðin er kærleikur.

                                    Framtíðin er hamingja.

                                    Framtíðin er gleði.

                                    Framtíðin er okkar allra."

 

                                                "Ný sýn.

 

         Í lífi okkar eru oft einhver kaflaskil, einhverjar ákvarðanir sem að við tökum, eitthvað sem kemur óvænt uppá, eitthvað sem við veljum að breyta eða eitthvað sem við ákveðum að takast á við.

         Það er geysilega stórt skref að ákveða að vilja takast á við sína veikustu punkta, vinna með það sem við ef til vill höfum svo lengi lokað á. Það er stór gjöf sem við gefum sjálfum okkur þegar við ákveðum það, þá leggjum við af stað í ákveðna ferð. Ferðalag með okkar eigin sál.

         Á leiðinni lendum við oft í því að detta í sprungur og hrapa niður kletta. En áfram höldum við ótrauð. Það getur verið erfitt, býsna sárt og á stundum algerlega óþolandi. Við sveiflumst frá því að vera í hugljómunarástandi allt til þess að sjá ekkert nema erfiði, leiðindi og vonleysi. En við gefumst aldrei upp. Hver sveifla sem er að baki er reynsla sem við viljum ekki vera án. Smám saman vindum við ofan af kaðalhönkinni sem við áður lokuðum inni og vildum ekki skoða.

         Það getur verið erfitt að skoða það sem er liðið. Það getur verið erfitt að fyrirgefa, losa sig við reiði, áhyggjur, sorg, slæmar minningar, vonbrygði og höfnun. Allar þessar tilfinningar sem byggðar eru á ótta. Óttinn sem hefur nagað okkur upp að innan og stundum fyllt sál okkar verður að víkja og kærleikur fyllir okkur. Við ýtum óttanum burt og fyllum sál okkar og vitund af kærleika og ljósi Guðs. Á þeim stundum sem við upplifum þessa frjálsu kærleikstilfinningu, sjáum við ekki eftir þeim stundum sem við erfiðuðum  með svita og tárum að moka óttanum út. Þetta er vinna sem enginn getur unnið fyrir okkur. Við fáum leiðbeiningu en vinnuna vinnum við sjálf. Því getum við verið stolt af okkur sjálfum fyrir vinnuna okkar. Fyrir hverja neikvæða tilfinningu sem við losum okkur við og breytum í jákvæða.

         En þrátt fyrir stritið og uppgjöf á stundum, þá finnum við í þessari vinnu að með hverjum deginum verður okkur léttara um, við eigum auðveldara með að halda áfram og við verðum frjálsari og hamingjusamari.

         Vissulega breytist lífið ekki á þann veg að við verðum verkefnalaus einn daginn. Aldeilis ekki, enda er það ekki það sem við óskum eftir. Við erum hér á þessari jörð til þess að þroska okkur sjálf og vera þeir gæslumenn jarðarinnar sem við eigum að vera. Við erum að taka þátt í ómetanlegu starfi og það eru forréttindi að fá að vera á jörðinni einmitt nú á tímum umbreytinga og framfara. Jörðin okkar er að upphefjast í ljósið. Það gerist með því að við hvert og eitt okkar hleypum ljósinu inn í líf okkar og breiðum það út. Lífið er stórkostlegt tækifæri og við skulum nýta hverja stund á þann veg sem við teljum best.

         Við eigum val sem við eigum að nýta. Við getum valið að vera í jafnvægi og það er okkar eðlilega ástand. Við eigum að vera heilbrigð, hamingjusöm og lifa í friði. Við meigum það og þannig viljum við að framtíðin sé. Þeim mun fleiri sem kjósa ljósið og friðinn þeim mun fyrr verður það að veruleika.

         Að vinna með sjálfan sig er ekki eingöngu að hjálpa sjálfum sér heldur hefur það ómetanleg áhrif á heildina. Þessu skulum við aldrei gleyma. Þeim mun betur sem okkur líður, hverju og einu, þeim mun betur líður heildinni. Skuggarnir verða að víkja og ljósið kemur í staðinn. Við birtum guðdóminn og meigum njóta þess sem Guð gaf okkur.

         Um leið og við vinnum með jafnvægið í okkur sjálfum vinnum við með jafnvægi þess sem við höfum skapað í kringum okkur. Ef við komumst í jafnvægi og höldum því, þá kemst einnig jafnvægi á sambönd okkar við annað fólk, jafnvægi á aðstæður í lífi okkar, hvort sem við erum að tala um heilbrigði, fjármál, atvinnumál, eða eitthvað annað. Þó að ótrúlegt sé, þá hangir allt á sömu spýtunni. Ef þú elskar sjálfan þig og hefur vald á lífi þínu þá hefur þú einnig úr nægu að moða á hinu efnislega sviði.

         Skoðum þetta aðeins. Kröfur okkar til okkar sjálfra eru jafn misjafnar og við erum mörg. Berum okkur aldrei saman við aðra. Berum okkur aðeins saman við okkur sjálf og hvað við viljum vera. Við getum orðið það sem við viljum vera og það hefur ekkert með það að gera hvaða kröfur aðrir gera til sín. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm. Tökum dæmi: Sumir telja alsnæktir í sínu lífi ef þeir gefa keypt allt það sem þeim dettur í hug, aðrir telja sig hafa alsnægtir ef þeir hafa hrísgrjónaskál og járnplötu yfir höfuðið. Hvort tveggja er jafn gott, einnig allt þarna á milli. Við meigum velja fyrir okkur. Það er ein af gjöfum Guðs og við skulum þakka það.

         Við getum líka talað um annað. Einhver telur það æðstu köllun sína að verða páfi í Róm, annar telur það æðstu köllun sína að vera valdalaus líknari í fátækrahverfi. Aðrir vilja vera efnaðir og hafa völd á sviði stjórnmála og telja það æðstu köllun sína. Hvað sem er er gott, ef það er það sem við þráum og teljum að með því getum við best birt guðdóminn. Dæmum aldrei. Verum við sjálf og fylgjum því sem hjartað segir okkur. En þrátt fyrir allt. Við erum öll að vinna með fólk og með fólki, hvað sem við erum að gera. Við höfum áhrif á aðra hvaða starfsheiti sem við höfum. Við getum því alltaf breytt út ljós og kærleika, hvort sem er með viðmóti, brosi, orðum eða athöfnum. Það er ekki lítið.

         Það er erfitt að fyrirgefa, en ef til vill er erfiðast að fyrirgefa sjálfum sér. Hvað gerði ég, hvað gerði ég ekki? Ef til vill hefði ég getað gert eitthvað. Hve oft höfum við ekki hugsað eitthvað þessu líkt. Hættum því. Við skulum fyrirgefa sjálfum okkur ef okkur finnst við hafa gert rangt, en munum alltaf að þá (í fortíðinni) vorum við á öðrum stað í þroska og héldum ef til vill að við værum að gera okkar besta. Ef við höfum gert okkar besta þá, af hverju höfum við þá sektarkennd nú? Hið liðna er liðið og við verðum að læra að lifa í nútíðinni. Það er augnablikið sem skiptir máli. Þetta mikilvæga augnablik sem er einmitt nú og kemur ekki aftur. Reynum að njóta þess sem er hverja stund, þá mun lífið verða auðveldara og við eigum betra með að halda jafnvægi okkar.

         Stundum fáum við okkur fullsödd af því að vera góð og jákvæð. Það koma stundir þar sem allt gengur á afturfótunum og margir hlutir áreyta okkur í einu. Á slíkum stundum er gott að komast út í náttúruna, reyna að eiga stund með sjálfum sér, tala við Guð og ná jafnvægi okkar á ný. Guð er alveg til í að hlusta jafnvel þó að okkur vanti að losna við pirring og leiða. Hann er svo sannarlega tilbúinn til þess að aðstoða okkur við að eyða burt óttanum og hann á óendanlega mikinn kærleik til handa okkur öllum. Guð getur og vill hjálpa okkur. Við skulum biðja um hjálpina.

         Það getur líka verið mjög gott að reyna á sig líkamlega ef við erum andlega þreytt. Góður göngutúr getur breytt fúlum degi í ágætisdag. Ef við getum farið í verk þar sem við tökum á er það gott. Við getum til dæmis hamast á gólfunum okkar, skúrað og skrúbbað. Tvöfaldur árangur. Skíturinn fer og pirringurinn ríkur út í veður og vind. Eftir slík átök eigum við líka skilið að dekra við okkur sjálf of láta okkur líða vel. Það versta sem við getum gert er að velta okkur upp úr vandamálinu þegar við erum niðurdregin. Við verðum enn niðurdreignari og hreinsum ekki burt ótta okkar með því móti.

         Það er auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma. En við getum valið og höfum valið. Við höfum valið leiðina til ljóssins og það er stórkostlegt. Enginn hefur orðið heimsmeistari án þess að reyna á sig, aga sig og þjálfa. Við erum í agaprógrammi hjá okkur sjálfum og við völdum það sjálf. En árangurinn mun heldur ekki láta á sér standa. Við höfum öll fundið það. Fundið hvað það er gott að losna úr viðjum vanans, brjóta hlekki, gefa sjálfum sér tækifæri og frelsi til að vera hamingjusamari og glaðari.

         Við erum öll stórkostlegar verur sem búum yfir orku sem er sterkari og mátturgi en nokkuð annað í þessum heimi. Okkar eigin hugarorku. Með henni sköpum við alla hluti í okkar lífi áður en við birtum þá. Með henni getum við sent ljós og kærleik hverja stund og árangurinn er stórkostlegur. Því miður nota sumir þessa orku til að senda frá sér neikvæðar hugsanir út í umhverfi sitt, sem fyrst og fremst skaða þann sem sendir. En ljósið er sterkara en myrkrið og ljósið mun ávalt hafa vinninginn hvað sem á dynur."

 

                                    Að rækta sjálfan sig.

 

         Allan tímann er ég búin að tala um að vera jákvæðari, kærleiksríkari og glaðari. Það er mikilvægt. En það eru fleiri hlutir sem eru mikilvægir í sjálfsrækt sem hjálpa okkur að ná jafnvægi. Við þurfum að finna farveginn okkar, fá útrás fyrir sköpun okkar og þurfum að geta tjáð okkur.

         Það eru mörg sköpunar og tjáningarform til og ég fullyrði það að öll þurfum við á því að halda að skapa og að tjá okkur. Sumir skapa með pensli, aðrir með penna, enn aðrir með handverki og svo mætti lengi telja. Ef þú finnur farveg fyrir sköpunarþörf þína og nýtir hana þér til gagns og gleði þá ertu vel staddur. Ekkert er betra en að skapa fallega hluti, tónlist, smíða hús, vinna flókið hugverk, hvað sem er. Ef það gefur okkur gleði og ánægju, þá er það okkur sjálfum og öðrum til góðs.

         Það þurfa líka allir á því að halda að geta tjáð sig. Sumir gera það með því að tala, syngja, dansa, yrkja eða á einhvern annan hátt. Sköpun og tjáning eru af sama brunni en þó að ég geti skrifað hugsanir mínar á blað getur verið erfitt fyrir mig að tjá það frá sjálfri mér. Þetta fann ég best er ég fór að kenna reiki og fann hve óendanlega mikið ég hafði út úr kennslunni, að fá að kenna þessa heilunaraðferð með minni tungu og sjá að aðrir nutu góðs af. Áður en ég fann mig í þessari vinnu skalf ég af tilhugsuninni um að fara upp í ræðupúlt, jafnvel þó að ég væri einungis að lesa uppúr eigin verkum. Staðreyndin er sú að þegar þú finnur sannleika þess sem þú tjáir innra með þér þá bresta öll höft og feimni og minnimáttarkennd hverfa á braut.

         Það að finna sér leið til andlegrar vinnu og þroska getur hjálpað okkur á svo margan hátt. Lengi vel var ég þess fullviss að ef ég færi að vinna við andleg mál þá þyrfti ég að ýta burt flestu úr mínu lífi. Ég trúði því ekki að ég gæti samtímis verið að skrifa glæpaskáldsögur og kenna fólki heilun. En ég komst auðvitað að því að þetta var alrangt. Það að skrifa glæpaskáldsögur er ákveðin útrás fyrir mig, ég er að skapa afþreyingu sem mér finnst skemmtileg og því er ekkert að því. Ég er ekki að fremja glæp.

         Við getum öll fundið góðar leiðir sem gefa okkur mikið án þess að yfirgefa okkar fyrra líf. Við eigum valið. Auðvitað erum við alltaf að hreinsa út og losa okkur við það sem við viljum ekki hafa. Það er gott. En það er ekki fórn að stunda andlega vinnu, öðru nær. Það er dásamleg viðbót við þetta skemmtilega jarðarlíf okkar sem mér finnst að við eigum að njóta sem allra best. Njóta augnabliksins og finna hve lánsöm við erum að vera hér. Það sem okkur finnst neikvætt skulum við breyta og opna augun fyrir öllum möguleikunum sem við höfum. Þeir eru óþrjótandi.

         Það sem skiptir máli er okkar eigin upplifun. Það eru ekki aðstæðurnar í okkar lífi sem skipta máli, það er hvernig við tökum á þeim. Höfum það hugfast og munum að ef við getum fundið eitthvað jákvætt við hvert og eitt atvik þá er það gott. Stundum eru slæmu hlutirnir góðir þegar til lengri tíma er litið og við sjáum oft að við hefðum ekki viljað missa af reynslunni sem við öðluðumst.

         Ég hef nú fengið frábært tækifæri til að fjalla um nokkur atriði sem mér finnst skipta höfuðmáli í lífi okkar svo að okkur geti liðið vel. Þetta eru einfaldar staðreyndir sem við öll getum nýtt okkur hverja þá leið sem við veljum okkur til hjálpar og heilunar. Ekkert af því sem ég hef skrifað er nýtt, en ég veit að eigin reynslu að því oftar sem við erum minnt á, því betra. Það getur verið auðvelt að gleyma því góða sem maður hefur tamið sér, maður getur hreinlega gleymt að nota það í erli dagsins. En öll höfum við gott af því að staldra við öðru hvoru og gefa okkur tíma fyrir okkur sjálf.

         Í næstu greinum mínum mun ég fjalla um óhefðbundnar lækningar og byrja þá á umfjöllun um grasalækningar og ýmsar heilunaraðferðir. Ég hef fengið fagfólk til að aðstoða mig, þar sem ég trúi að það verði ef til vill til þess að þú eigir auðveldara með að finna leið sem hjálpar þér. Það er svo margt gott sem fólk í kringum okkur er að vinna og dásamlegt að finna leiðir sem hjálpa manni hvort sem um er að ræða sjálfsrækt eða heilun á líkamlegum kvillur. Ég tel að best sé að vinna saman. Sem betur fer eigum við mjög færa og góða lækna á Íslandi og fagfólk í heilbrigðiskerfinu sem er að vinna ómetanlega vinnu. Ég tel að með því að nota óhefðbundnar lækningar með hefðbundnum séum við að gefa okkur stórkostleg tækifæri. Við getum gert margt ein og sér en saman getum við gert stórkostlega hluti.

         Ég veit að það eru ekki allir sem trúa á Guð, þó að ég geri það. En öll trúum við á eitthvað, hið góða í lífinu, okkur sjálfum og köllum okkar alheimslegu verönd misjöfnum nöfnum. Ég trúi því að allt sé þetta sama uppsprettan og því getum við öll unnið saman, hvað svo sem við viljum kalla hina miklu uppsprettu ljóssins. Ég læt fylgja með bréf sem ég skrifaði fyrir mig, til að hjálpa mér að muna. Ef til vill getur hugmyndin nýtst ykkur á einhvern hátt.

 

                                                Ég trúi...

 

         Ég trúi og finn að ég er guðleg vera. Ég trúi á Guð og trúi því að í mér búi guðsneisti sem lýsir upp líf mitt. Ég trúi á hið guðlega í hverri manneskju og ég trúi á hið guðlega í hverju lífi. Ég trúi að birting Guðs sé fullkomin í allri sköpun.

         Ég trúi og finn að ég er falleg manneskja, full af kærleik og hlýju sem ég er reiðubúin að deila með sjálfri mér, samferðafólki mínu og sérhverri sköpun Guðs. Ég trúi og finn að í lífi mínu er allt af hinu góða og ég veit að sérhver reynsla mín færir mig feti framar í þroskagöngu minni sem ég hef sjálf valið.

         Ég trúi og finn að ég get allt. Ég er frjáls, hamingjusöm vera sem ber ábyrgð á lífi mínu. Ég trúi og finn að ég á frjálst val í lífi mínu. Ég trúi og finn að ég hef valið LJÓSIÐ fyrir mig.

         Ég trúi og finn að ég er elskuð. Ég trúi og finn að ég á skilið virðingu. Ég trúi og finn að ég mun eftirleiðis hafa fullt vald í mínu lífi. Allt sem ég vel er á mína ábyrgð og ég hef leyfi til að breyta vali mínu hvenær sem ég vil. Ég trúi og finn að ég treysti sjálfri mér. Ég trúi og finn að ég er traustsins verð.

         Ég trúi og finn að ég er laus við alla reiði. Ég trúi og finn að engar áhyggjur eru lengur í mínu lífi. Ég trúi og finn að þar sem ég sinni störfum mínum af heiðarleik, mun aldrei framar verða sektarkennd í mínu lífi. Ég er þakklát fyrir hver ég er og allt sem ég hef. Ég mun ávalt hafa nóg. Í mínu lífi eru alsnægtir á öllum sviðum og ég á þær skilið.

         Ég trúi og finn að ég færi hvern dag enn meira ljós og kærleik inn í líf mitt og annara. Ég trúi og finn að ég get lagt mitt af mörkum til þess að breyta jörðinni í þá paradís sem hún á að vera. Ég trúi og finn að ég er fullkomlega frjáls. Ég trúi og finn að ég get talað við Guð og beðið um það sem ég óska. Ég trúi og finn að ég er bænheyrð og ég þakka Guði fyrir allt sem hann færir mér.

                                    Ég trúi og finn fyrir Guði.

                                    Ég trúi og finn að ég treysti Guði fullkomlega.

                                    Ég trúi og finn að ég er ljós Guðs.

                                    Ég trúi og finn að ég er í fullkomnu jafnvægi.

                                    Ég trúi og finn að ég er hamingjusöm.

                                    Ég trúi og finn að ég er fullkomin vera, sköpuð af Guði.

                                    Ég trúi og finn að allt er fullkomlega rétt.

 

         Þetta er mín einlægt trú.

                                                            Megi líf ykkar alltaf verða fullt af ljósi og friði.

                                                                        i