30.08.2011 20:31

Reiki og fleiri fréttir

Ég verð að segja ykkur þau gleðitíðindi að þann 28. sl. útskrifaði ég tvo nýja reikimeistara. Það var að vonum kátt í höllinni eins og sagt er og mikil gleði í mínu hjarta. Alltaf dásamlegt þegar stórum áfanga er náð og ég hlakka  mikið til að fylgjast með þeim stöllum Hólmfríði Ástu Steinarsdóttur og Ingibjörgu Jónsdóttur sem nú eru stokknar af stað að kenna þessa frábæru heilunaraðferð. Það var svo gaman hjá okkur að við steingleymdum að taka myndir en þær koma bara seinna.  Guðrún Pálmadóttir, vinkona mín, sagði af þessu tilefni: Ég vildi að það væru þúsund reikimeistarar að útskrifast í dag og ég er henni hjartanlega sammála. Við þurfum að vinna sem aldrei fyrr, hjálpa hvort öðru og sjálfum okkur, jörðinni okkar og öllu lífi. Það er sannarlega þörf.Verð að setja hér mynd af fallegu töfrastelpunum okkar Jóhönnu, sem núna eru byrjaðar í skólanum alsælar.

Já, skólasetningin var mjög flott. Við erum ákveðnar í því mæðgur að hafa þennan vetur sérstaklega skemmtilegan. Sigga skólastjóri er ljómandi fín og kennir á tölvur og Áslaug er umsjónakennari Guðbjargar. Það fellur í góðan jarðveg hjá minni fyrst að Magdalena kennir íslensku og kristinfræði, en hún hefði als ekki viljað missa alveg af henni enda sannaði Magdalena á síðasta ári að hún er algjör gullmoli. Þetta er svona það sem við mæðgur erum sammála um:) Hitt er svo allt bara fínt líka og hefðbundið, Sonja í ensku og samfélagsfræði, Milan í íþróttum og Jóhanna í náttúrufræði. Þetta eru nú aðal lærimeistarar dóttur minnar þennan veturinn að ógleymdum skólaliðum og Binna bílstjóra. Og ekki má gleyma Grími sem kennir smíðar og er frekar harður í því að láta fólkið vinna sjálft ;)

En eins og ég segi, við erum bara glöð með haustið. Það líður senn að réttum og spenningur í kringum það. Alltaf nóg að gera og nóg framundan. Við töfrakonur vorum að koma með ný orkusteinaarmbönd sem virka svona glimrandi vel. Hvert armband hefur sína verkun fyrir eigandann eins og steinarnir segja til um. Spennandi og líka mikið í tísku núna, sem sé bæði til gagns og gleði.En Töfrakonur eru alveg á fullu að safna smásögum, lesa handrit, semja, búa til smyrs og seiði og margt, margt fleira.

En af okkur á Löngumýri er þetta að frétta. Lífið gengur upp og niður eins og alltaf, Ingi meiddi sig í hendinni fyrir dálitlu og var heppinn að missa ekki tvo fingur, dráttarvélin bilaði og er nú á verkstæði KS og ég krossa bara fingur og vona það besta, svo misstum við eitt naut í dag en að öðru leyti er allt gott. Það þýðir ekkert að væla og vola heldur vera bjartsýnn og glaður. Við erum að byrja á seinni partinum á hánni enda víst eins gott að klára þenna heyskap áður en hríðin kemur sem spáð er í næstu viku ;) Heyfengurinn er minni en venjulega en við þurfum ekkert að kvarta, þetta er bara búið að ganga vel miðað við allt og allt. Barnabókin mín hefur fengið góðar viðtökur enda þurfum við Töfrakonur svo sannarlega á því að halda að hún seljist hratt og vel. Ég er farin að skrifa framhald á milli þess sem ég mjólka kýr og kenni reiki. Það er sko eitt sem víst er að það skortir ekki verkefni þessa dagana frekar en venjulega.

Ég er búin að vera frekar duglega að ríða út miðað við mig og finnst það alveg geggjað. Set eina gamla í lokin af puttalingnum mínum :)Klikkar ekki á gallanum og gúmmískónum ;)

Eigið góða daga :)