19.09.2011 11:19

Löngumýrarfréttir


Má til með að setja inn eina mynd af þessum yndislegu vinkonum sem voru hér saman sl. laugardag. Það var heldur betur góður dagur enda hafði Alma okkar ekki komið í heimsókn um tíma. Það verður að segjast eins og er að það má ekki líða of langt á milli hittinga hjá þeim tveim til að heimilislífið hér finni fyrir því :)

En af okkur er allt gott. Ingi og Halldór eru komnir úr seinni göngum en þeir fóru ásamt Glókolli og mér skilst að þeir hafi allir staðið sig ljómandi vel. Glókollur var reyndar búinn að vera lasinn, fékk beinflís uppí góminn eða var stunginn og þurfti stera og sýklalyf en Stefán dýralæknir og hans frábæra aðstoðarkona voru okkur innan handar með hundinn enda erum við á sér hundasamning hjá Stebba, sem við bókstaflega trúum á að öllum öðrum dýralæknum ólöstuðum.

En leitin gekk vel og niður komu eitthvað um 800 kindur sem réttaðar voru í gær. Veðrið lék við gangnamenn í seinni göngum og allt var eins og það átti að vera nema að gangnastjórinn féll af baki og laskaði á sér handlegg, vonandi ekki alvarlegt. En svona hlutir geta alltaf gerst.

Guðbjörg er sem betur fer orðin hress en hún var sl. viku veik heima og fékk ælu og magapest sem var alveg ferlega vond. Vona að það verði ekki margir sem fá þetta.

En það er alltaf nóg að gera, ég er að skrifa og við erum líka að lesa yfir smásögur og handrit sem Töfrakonur eru að fá í hendur þessa dagana og vonandi komast út fyrir jólin. Má til með að láta eina mynd af Halldóri mínum fykgja með, svolítið spes :) En ég læt fylgja með gamalt ljóð um Halldór hestamann ;)

Hestamaðurinn.

 

Hestamaður

helst vil vera,

heiðar smala,

margt að gera.

Þeysa eftir þægum

skjátum,

á þýðum hesti

eftirlátum.

Ríða frjáls um

fagran geim.

Fara síðan

Aftur heim.

 

Eiga fáka,

alla stóra,

eftirláta

fyrir Dóra.

Klára þenja á

keppnisvöllum,

komast síðan

fram úr öllum.

Stelpur munu

brosa breitt.

Bregðast mun þá

ekki neitt.

 

Birgitta H. Halldórsdóttir.