17.10.2011 21:15

Bloggað á köldum degi

Það má með sanni segja að það hafi verið kalt í dag. Rigning, slydda, hríð, rok, þetta allt og eitthvað fleira var það sem veðrið bauð okkur uppá í dag. Dagurinn var nú samt um margt ánægjulegur þrátt fyrir ömurlegt veður. Ráðunautarnir komu og skoðuðu lömbin hjá okkur og mældu hátt og lágt :) Okkur til aðstoðar voru Litladalshjón og Höllustaðasettið hið yngra svo að við vorum nú ekki illa stödd. Anna Magga og Kristján mættu svo hér og það var glatt á hjalla og frábært að fá þau öll. Þetta gekk allt alveg ljómandi vel og nú erum við búin að taka frá lífgimbrarnar hjónin og þá er nú mikið frá. Það er aldrei gaman að velja úr þessum elskum sem eru allar svo fallegar og fínar. Svo eru heimkomnir tveir Strandagaurar sem trúlega reyna að ganga í augun á stelpunum þegar líður að jólum.En þó að kalt sé í veðri hafa þeir félagarnir Ingi og Glókollur nú brugðið sér út úr húsi stöku sinnum til að finna eftirlegukindur og sinna hinum ýmsustu verkefnum en það hefur gengið heldur hægar með "sólpallinn", eins og sést á meðfylgjandi mynd. Það er mun notalegra að leggja sig í skjóli og spjalla í símann við fjallskilastjórann en smíða enda margt að ræða. Myndin er allavega góð ;) Myndgæðin minnka greinilega með aðdráttarlinsunni en tommustokkurinn er á sínum stað.

Annars ganga hauststörfin vel. Halldór sonur okkar vinnur á Sláturhúsinu á Blönduósi og gengur vel. Það er brjálað að gera þar enda verður slátrað um 100þúsund fjár hef ég heyrt. En strákurinn er að vinna á frystinum með úrvals liði og ber sig vel. En Halldór Ingi varð 19 ára á dögunum. Af því tilefni tók ég myndir af eldri gullmolanum á bænum þar sem hann var kominn heim í afmælismat til móður sinnar og föður klæddur vestinu góða sem hann fjárfesti í á Flóamarkaði Leikfélags Blönduóss.Nítján ára, vá ég sem held enn að ég sé nítján :)Engin smá forréttindi að eiga svona snilling :)

En eins og ég hef sagt þá erum við bara nokkuð góð. Ánægð með það sem komið er í sláturhús, ljómandi vikt og ágæt gerð. Við þurfum sko ekki að kvarta yfir lömbunum, þau standa sig.

Það gengur líka vel í skólanum hjá Guðbjörgu. Hún var að koma úr afmæli hjá Sóley Maríu í Húnaveri rétt í þessu. Það er búin að vera afmælishrota á bæjunum. Í gærkvöldi var 1 árs afmæli Emilíu frænku okkar í Brúarhlíð og kvöldið áður tvöfalt afmæli í Húnaveri. Við Löngumýrarfólk erum enn stútfull af kræsingunum af báðum bæjum, enda konurnar þar sérlega góðir kokkar.

Löngumýrarliðið er sem sé frekar bratt en það mætti vera hlýrra ..............Þrátt fyrir kulda hefur Ingi bóndi ekki slakað á veiðiskapnum og er hér ein sönnun þess. Það var frekar kalt í Friðmundarvatni nú á dögunum er þessi kom á land enda fjandans vöðlurnar farnar að leka.......................

Farið vel með ykkur :)