22.12.2011 20:03

Gleðileg jól og gæfuríkt ár...

Hó,hó,hó.................
Komið að jólum nánast. Á morgun Þorláksmessa og pottþétt enginn tími til að blogga nema núna, svo ég ætla að setja nokkrar línur niður á blað. Hef reyndar ekki haft mikinn tíma til að sitja við tölvuna mína og blogga heldur erum við Töfrakonur búnar að vera að skondrast á milli staða, selja, lesa upp, kynna og vera á mörkuðum. Að sjálfsögðu mjög skemmtilegt og nauðsynlegt þar sem við erum í bókaútgáfu og slíku. Þetta höfum við verið að bralla milli þess sem við mjólkum, skúrum, semjum og ölum upp.....ehemm.......smá mont ;)


Þessi mynd er frekar skemmtileg af Jóhönnu Helgu og Önnu Kristínu þar sem við erum búnar að breiða úr okkur í Skagabúð núna fyrir jólin. Það var mjög skemmtilegt að koma þangað enda höfðum við ekki komið þangað áður en erum ákveðnar í því að fara að ári. Við tókum einnig þátt í markaði í Húnaveri, Hrímnishöllinni, Félagsheimilinu á Blönduósi, Dalsmynni og á Reykjarskóla. Þetta voru allt mjög skemmtilegar ferðir. Við kynntum einnig bækurnar okkar í Varmahlíð og lásum upp á Heimilisiðnaðarsafninu tvisvar, bókasafninu í Dalsmynni, Eyvindarstofu og gömlu kirkjunni á Blönduósi. Þetta var allt mjög skemmtilegt og við erum þakklátar þegar fólk man eftir okkur og vörunum okkar, því án þess verður ekki kröftugt framhald. En við erum bjartsýnar og glaðar og ætlum að halda ótrauðar áfram fram á veginn 2012, með nýjar línur í vörunum okkar og fleiri útgáfur ef allt gengur upp. En það er barningur að gefa út og framleiða það verður ekki annað sagt ef fullur heiðarleiki á að vera í frásögnum.

En frá Töfrakonufréttum í búskapinn. Það er allt með kyrrum kjörum á Löngumýri. Holdakýrin Stella, sem einmitt er þriggja ára í dag fæddi naut og var það mikil gleði. Húsmóðirin, sem er og eigandi holdakvígunnar lætur sig dreyma um frægð og frama í framtíðinni, þar sem nú er fæddur nýr holdakálfur, sem ber nafnið Jón Máni. Hinn fyrri sem ég fékk viðurkenninguna fyrir og vóg 444 kg. var nefndur Jón Gíslason. Hann fæddist á Jónsmessu og þar sem Gísli sæðari kom við sögu í þessu máli þá fékk hann þetta nafn. Jón Máni fékk hins vegar sitt nafn þar sem hann fæddist þegar tunglmyrkvinn var en Ingi vildi endilega hafa Jónsnafnið með, það væri bara við hæfi. Sennilega verða allir mínir holdabolar einhverskonar Jónar. En þessi litli massaði gaur sem fæddist á dögunum er mjög efnilegur og gaman að fá einn svona líflegan snáða til að leika sér í kálfahúsinu.Hér má sjá heimasætuna á Gáska sem er nýjasta undrið í minni eigu. Það er þó ekki enn ljóst hvort ég muni geta riðið honum ein og sér og sjálf þar sem hann fór að verða viljugri en til stóð í tamningunni. Er þessi piltur búinn að vera hjá Elvari á Skörðugili í tilsögn og gengur vel. Ég fór í hestakaup við elskulegan eiginmann minn þar sem ég varð bókstaflega ástfangin af þessum pilti. Ég er eiginlega ákveðin í að þetta sé framtíðar hesturinn minn, spurningin er bara hvort ég þurfi að láta sprauta mig niður áður en ég fer á bak. Ef þið kunnið góð ráð við svona aumingjaskap þá eru þau vel þegin. Hestar eru yndislegir og ég vildi óska að ég væri jafn örugg með þeim þegar ég sit á baki eins og þegar við stöndum bæði í fæturna :)

En eins og ég sagði, jólin nálgast, búið að skreyta og skúra, sleppa hrútunum, sem var gert 19.des. á þessum bæ, og sækja hangijkjötið í Kúlu til Maríu. Baksturinn gekk afar vel, nokkrar smákökusortir, plús kleinur og randalínur frá Sveitabakaríinu. Þetta er sem sagt búið að vera mjög ljúft. Halldór sonur minn skondrast á milli okkar og Skagastrandar sem hefur gríðarlega mikið aðdráttarafl. Guðbjörg Pálína komin í jólafrí og jólasveinarnir standa sig prýðilega enda engin kartöfluvöntun á mínum bæ. Ég iða í skinninu eftir að geta farið að skrifa aftur og kenna reiki sem hefur setið á hakanum en verður vonandi tími fyrir þetta allt eftir áramótin. Þá verður líka komið þetta langþráða á 2012 og stelpan mín orðin 12 ára. Allt að gerast.

En ég vona að við munum öll eiga góð og gleðileg jól og að árið sem kemur núna 2012 verði okkur öllum einstaklega gott.Þórhallur miðill sagði við mig í vor að eins og sl. vetur hefði verið mér leiðinlegur yrði sá næsti góður, svo nú hlakka ég til. Ég er viss um að framtíðin verður skemmtileg, góð og full af hamingju. Við skulum allavega vera bjartsýn og jákvæð. Takk fyrir samfylgdina á þessu ári og Guð veri með ykkur alltaf.Gleðileg jól :)