06.01.2012 13:21

Gleðilegt ár

Mín kæru, gleðilegt árið. Megi það færa okkur öllum gæfu og gleði.
Tilvalið að setja inn nokkrar línur þar sem komið er nýtt ár og jólin að klárast í dag.
Það er auðvitað allt að komast í frekar fastar skorður. Skólinn byrjaður, búið að strengja heit um að ná af sér jólakonfektinu og ég farin að skrifa. Þetta eru persónulegustu fréttirnar :)


Hér má sjá dóttur okkar, fallegu sem nú er orðin 12 ára. Hvernig getur tíminn liðið svona hratt? Það getur bara ekki verið að það sé svona langt síðan við fengum þetta kríli í fangið þá 17 merkur og hálfs árs. Vá, hvað er skrýtið að hugsa um hvað tíminn líður hratt.


Halldór sonur minn hefur nú líka elst og stækkað býsna hratt. Það er víst orðið dálítið langt síðan ég stóð á Thailandsgrundu, en mikið fjári vildi ég komast þangað aftur.

Svo ég tíundi nú allt sem er að gerast þá er þetta sem sé Halldór Ingi með kærustunni sinni Magneu, sem býr á Skagaströnd. Hún vinnur hjá vinnumálastofnun og hann er í augnablikinu að baka með Valdemar í Sveitabakaríinu. Ekki amarlegt það og aldrei að vita nema hann fari þá að baka fyrir móður sína líka :)

Við erum búin að taka dálítið inn af hrossum. Þrjú eru tamin svo að við ættum öll (Ingi, Guðbjörg og ég) að geta farið á bak fljótlega. Auk þess erum við með inni þrjú tamningartryppi sem við ætlum að spekja og teyma sjálf og folaldið sem ég gaf Inga í jólagjöf. Það skipti snarlega um nafn um leið og það skipti um eiganda. Meðan ég átti hana kallað Ingi hana alltaf Tindilfætt en nú heitir hún því virðulega nafni Eik sem er auðvitað ávísun á að eikin er sterkasta tréð og því gott til ræktunar :)


Þessi mynd var tekin af Þórhalla í Húnaveri og Kristínu á Höllustöðum á nýársdag þar sem þau voru mætt með börn sín í afmæli Guðbjargar. Af svipnum að dæma er óhætt að trúa því að þau fari brosandi inn í árið 2012.

En við áttum yndisleg jól og áramót og erum bara býsna spræk. Stefnum á vinnuár í búskap og skriftum og að sjálfsögðu Töfrakonuvinnu.


Má til með að setja inn mynd af aðal afmæliskökunni, sem Magnea gerði svo snilldarlega. þetta er sko Ljósbrá eins og allir geta séð sem þekkja hryssuna:)

Framundan er skrall á laugardaginn en þá er ásrhátíð karlakórsins, síðan kemur þorrablót 28.jan. Þar sem við erum í Þorrablótsnefndinni þetta árið er málið farið að liggja dálítið á mannskapnum en það verður örugglega allt gott, eins og alltaf ;)

Set þessa inn svo að þið sjáið að við gömlu vorum alveg óskemmd um jólin, karlinn reyndar frekar gróskumikill :)

En nóg um það, nú ætla ég að fara að semja fleiri sögur fyrir ykkur til að lesa.  Hafið það sem best og ég klára þetta með mögnuðu glitskýi sem var hér einn daginn. Njótið lífsins :)