16.03.2012 20:02

Allt getur nú gerst

Tíminn líður hratt...........og ég ætla að vera svo dugleg að blogga, svo dugleg að ríða út, svo dugleg að skrifa en svo líður bara tíminn. En þrátt fyrir að mér finnist lítið hafa gengið hef ég samt lokið við að skrifa nýju væntanlegu barnabókina mína "Ævintýri tvíburanna á Spáni" og gert margt fleira skemmtilegt.


Eitt af því skemmtilega sem ég er nýbúin að afreka er að vera á málningarnámskeiði hjá Guðfinnu Hjálmardóttur, sem kom norður fyrir tilstilli Kristmundar Valberg og kenndi okkur yfir helgi. Ég hef verið hjá henni áður og finnst þetta alveg dásamlegt. Við vorum þarna nokkur saman og þarna sköpuðust hin skemmtilegustu listaverk. Á strigann spruttu fram alskyns myndir en hún vinnur með olíu. Ég sem áður hafði búið til mynd frá Thailandi handa Halldóri ákvað að gera eitthvað Indverskt fyrir Guðbjörgu. Hér fyrir ofan er hún svo myndin sem ég færði dóttur minni eftir helgina. Ég er alsæl og ætla að halda áfram að mála (milli þess sem ég skrifa, blogga, ríð út, gef út, heila og er fyrirmyndar bóndi, móðir og eiginkona:) En án gríns þá vona ég að eitthvað fleira skapist á strigann sem ég á til. Ég verð að segja ykkur frá því að Gunna vinkona okkar á Kúlu eldaði fyrir okkur alla helgina og ég bókstaflega rúllaði heim.

Hér má svo sjá stelpuskottin á bænum á leið í hesthúsið að knúsa Ljósbrá og Baron. En til nánari útskýringar þá er Ljósbrá hryssan mín sem Guðbjörg notar alltaf og er frá Magna í Árgerði. Þær stöllur fara á Blönduós á reiðnámskeið einu sinni í viku og taka þar tilsögn Barböru á Höllustöðum.Baron er hins vegar gullfallegt folald sem Halldór gaf Magneu í haust.

Af þeim skötuhjúum Halldóri og Magneu er það að frétta að þau eru búin að leigja sér íbúð á Skagaströnd, alveg ljómandi góða íbúð. Við gömlu ásamt Guðbjörgu eru búin að fara tvisvar í matarboð til þeirra og vitum nú (sem við vissum fyrir líka) að Magnea er alveg frábær kokkur. Við erum líka búin að hitta fjölskyldu hennar, sem var frábært, enda hlaut svona frábær stelpa að eiga frábæra fjöskyldu. Það hefur sem sé ýmislegt gengið mjög hratt hjá þeim og það er bara gott.


Þetta eru sem sé Magnea og Baron.

Það hefur nú ýmislegt fleira gerst sem ekki er eins skemmtilegt. Við fengum algerlega óboðna gesti á  heimilið og hefði ég frekar búist við því að ég myndi detta niður steindauð en að ég myndi finna LÚS í sjálfri mér. Það gerðist sem sé.

Það kom upp lús í Húnavallaskóla í fyrsta skipti svo ég muni eftir frá því að skólinn tók til starfa 1969. Uppi varð auðvitað fótur og fit og þá kom í ljós að við höfðum sko ekki haldið vöku okkar og engum dottið í hug að við gætum fengið svona heimsóknir. Ég fann eina lús í hárinu hennar Guðbjargar og aðra í mér. Svo var þvegið með viðeigandi efnum og húsbóndinn á heimilinu rakaði af sér allt hárið. Ég get alveg viðurkennt að hér hefur þvottavélin og þurrkarinn gengið dag og nótt og frystirinn fylltist af púðum og böngsum. En þetta er auðvitað bara verkefni eins og annað en ég get ekki sagt með sanni að mér hafi fundist þetta skemmtilegt. Allvega hef ég oft fengið gesti í mitt hús sem hafa verið velkomnari. emoticon


En búskapurinn gengur sinn vanagang. Þetta er holdakýrin mín Stella með son sinn Jón Mána sem dafnar vel.

Hér eru svo krakkakrílin Halldór á Tígli og Guðbjörg á Ljósbrá.

Svona af því að ég nefndi það í síðasta bloggi sem var fyrir lööööööööööngu síðan að við Ingi værum að fara að skemmta okkur á árshátíð karlakórsins og þorrablóti, þá langar mig að segja ykkur að þessar skemmtanir tókust alveg frábærlega vel. Við gömlu dönsuðum af okkur rassgatið svo ekki sé meira sagt. Eftir þorrablótið var ég með blöðrur á fótunum eftir að djamma á háu hælunum en það var sko þess virði. Get ekki beðið eftir að dansa aftur.........vonandi verður það fyrr en seinna.Þessi tvö hafa ekkert úthald í dansinum miðað við okkur eldra settið og sennilega myndum við líka mala þau í hsetamennskunni. En lífið er dálítið ljúft og ég er þakklát af öllu hjarta fyrir fólkið mitt og það að allir eru heilbrigðir og hraustir.