30.04.2012 06:38

Löngumýrarfréttir í apríllok

Hér má sjá Guðbjörgu heimasætu með reiðmerina Ljósbrá og Brúnblesa. Heldur vígaleg mynd þar sem má búast við hverju sem er af þessum þrem ;) En Guðbjörg er á reiðnámskeiði á Blönduósi þar sem hún mætir með Ljósbrá og þær nema fræði hjá Barböru á Höllustöðum. Guðbjörgu finnst þetta mjög skemmtilegt og á morgun 1.maí mun hún taka þátt í Æskulíðssýningu á Blönduósi. Guðbjörg er öll á kafi í hestamennskunni og keypti sér sjálf hest um daginn. Sá heitir Valíant og er brúnsokkóttur 6. vetra með strýpu í faxinu. Allt útlit er á að þeim skötuhjúum muni semja vel enda fórum við fjölskyldan suður á land að skoða gripinn um leið og við fórum í fermingu Gests Daníelssonar og á árshátíð sauðfjárbænda. Það var rosagóð ferð og Valíant flutti til okkar í framhaldinu.

Annars er allt gott af okkur. Búskapurinn gengur sinn vanagang og sauðburður í undirbúningi. Sjálf fór ég á bráðgott námskeið um daginn á Löngumýri í Skagafirði sem heitir "Sauðburður og burðarhjálp". Það var fróðlegt og fínt námskeið. Gemlingarnir okkar eru að komast á tal en hinar eldri munu ekki eina tal fyrr en 10.maí. Samt líður tíminn hratt og áður en varir verða lömbin farin að skoppa út um tún. Þetta er frábær tími. Sá allra besti, vorið þegar allt lifnar við .

 
Ég má auðvitað ekki gleyma því að aðal töffarinn í lífi mínu er orðinn formaður Veiðifélags Blöndu og Svartár. Það gerðist á aðalfundi félagsins í fyrradag og minn fékk afar rússneska kosningu. Ég er að sjálfsögðu glöð yfir því og er viss um að hann á eftir að vera flottur í þessu. Hver segir svo að það séu engar fréttir:)