16.12.2014 17:25

Um dauða kú og ónýtt kerfi

Nú er ég búin í heilan sólarhring að velta fyrir mér hvað ég eigi að gera. Segja nákvæmlega frá því hvað ég upplifði um síðustu helgi eða setja það bara bak við mig og halda áfram. Niðurstaða mín varð sú að ég þarf að tala meira um þetta, vegna þess að ég er bóndi, vegna þess að við erum með ónýtt kerfi, vegna þess að bændum er ekki treyst í raun fyrir skepnunum sínum og vegna þess að ég skulda kúnum mínum það, sem hafa drepist vegna aðstæðna eins og komu upp um helgina. Það er einfaldlega ekki hægt annað en koma þessu frá sér, þó að ég hafi aðeins minnst á þetta á facebókarsíðu minni, þá er það ekki nóg. Við sem berum ábyrgð á lifandi dýrum eigum að vera verndarar þeirra og fá að hafa til þess lyf og annað sem getur hjálpað þeim, læknað og linað þjáningar. Við getum ekki búið við það í íslenska vetrinum að fá ekki til okkar dýralækna kannski dögum saman, þar sem veður eru vond eða enginn sem getur sinnt útkalli. Við verðum og eigum að fá að eiga lyf til að nota í neyðartilfellum. Annað er óásættanlegt.

Á laugardaginn 13. des. komumst við hjónin að því að ein af okkar betri kúm, hún Hosa, var komin með júgurbólgu. Við ákváðum að hafa samband við dýralækni og fá hann til að koma og sprauta  hana. Við ætluðum að nota ferðina og fá dýralækninn til að skoða einnig naut sem hafði ekki étið í nokkra daga og við fundum ekkert að. Málið með júgurbólgu er, eins og allir vita sem þekkja, að bregðast við nægilega fljótt.

Ég hringdi í þjónustudýralækninn sem býr við Hvammstanga, hún benti mér á hvaða dýralæknir væri á vakt. Þannig er nefnilega kerfið hér að fjórir dýralæknar skipta með sér kvöld- og helgarvöktum á norðvesturlandi og eina viku í senn.

Ég hringdi í vaktdýralækninn, en þar kom símsvari sem sagði að hún yrði komin í frí frá og með 14.des. Það sem enn var 13. des. talaði ég inn á símsvarann hennar í þeirri trú að hún hringdi til baka áður en hennar vakt lyki. En ekkert gerðist. Eflaust hefur hún bara verið upptekin og á kafi í vitjunum. Seinna um daginn fór sonur okkar heim til hennar til að reyna að ná sambandi en þar var enginn heima og því ekki hægt að nálgast lyf eða læknisþjónustu þannig.

Kýrin var orðin mjög veik og brugðum við á það ráð að fá lánaðar gamlar restir af pensilíni hjá nágrönnum okkar enda allir alltaf boðnir og búnir að reyna að gera eitthvað ef hægt er. Það skrapaðist saman glas af penovet sem við notuðum þá um kvöldið og á sunnudagsmorgni. Samt sem áður hrakaði kúnni.

Á mánudagsmorguninn hringdi ég í símatíma í Hvammstangadýralækninn okkar og hún brá snöggt við og kom. Kýrin var þá alveg lögst fyrir og greinilega mjög kvalin. Það að keyra frá Hvammstanga og til okkar tekur klukkutíma í góðu veðri en þarna var veður bara frekar slæmt. En það stóð heima að þegar dýralæknirinn mætti á svæðið var kýrin dauð.

Það var því lítið að gera fyrir blessaða kúna. Það var ekki dýralækninum að kenna sem öll er af vilja gerð. Það var ekki okkur að kenna þó að við hefðum kannski átt að reyna að ræsa út einhvern sem var ekki " á vakt". Það var heldur ekki vakthafandi dýralækni að kenna sem örugglega hefur verið önnum kafin í alltof stóru umdæmi. Ég vil allavega ekki trúa því að neinn fari af sinni vakt. Það er einfaldlega því að kenna að það eru reglugerðir sem banna okkur bændum að eiga lyf til að bjarga skepnunum okkar. Varaglas af engemycin hefði örugglega haldið lífinu í Hosu.

Einhver hugsar kannski ein kú hvað? Þetta er bara ekki þannig. Það að missa kú er stór biti, en þetta er samt miklu stærra mál. Við bændur erum alltaf að berjast við þetta, að missa dýr vegna þessa. Sum lifa af en verða ónýt til allrar framleiðslu og eru búin að líða óþarfa kvalir. Þetta er ekki dýravernd og þetta er óþolandi. Við búum í landi þar sem allra veðra er von. Við búum við það að næsti dýralæknir er í 30-100 km. fjarlægð eftir því hver er á vakt. Í okkar sýslu er enginn starfandi dýralæknir. Hvaða vit er þetta?

Sumri vilja kannski segja, af hverju kvartaðu ekki á rétta staði? Svar, ég er búin að því. Við lentum í svipuðu dæmi fyrir tveim árum þar sem fárveik kýr lá hjá okkur í fjóra daga og ekki séns fyrir nokkurn að komast til okkar. Það var einfaldlega brjálað veður. Hún lifði en varð auðvitað ónýt til mjólkurframleiðslu. Algjörlega að óþörfu vil ég meina. Þá skrifuðum við MAST og vildum fá svör við því hvað bændur ættu að gera í svona tilfellum. Svarið kom afar seint og ekki fyrr en við höfðum gengið verulega eftir því. Jú, alvörubændur eiga sko að hafa vit á því að vera bara með heita bakstra í fjósinu þar til dýralæknirinn getur komið. Nákvæmlega og við erum sem sé bara fávitar, eða hvað?

Í gær þegar ég minntist á þennan kýrmissir á facebókinni fékk ég mörg og góð viðbrögð. Bændur þekkja þetta og við erum öll að glíma við sömu vandamálin. 

Einn ágætur nágranni minn, Ægir Sigurgeirson, skrifaði t.d." Hef lent í svipuðum aðstæðum, kýr fékk háann hita að kvöldi um helgi í slæmu veðri, hringi í dýralækni á vakt í næstu sýslu sem sagðist ekki komast og myndi athuga þetta á morgun. Kýrin reyndar lifði, en þurfti margfaldan lyfjaskammt, missti lystina og hætti nánast að mjólka, hlaut varanlegar skemmdir á júgri þannig að henni
þurfti að farga. Það er alveg ljóst að því lengur sem dregst að hefja
meðhöndlun því meiri líkur eru á varanlegu tjóni. Sé meðhöndlun hafin um leið og sjúkdómurinn greinist má oft ráða niðurlögum hans á tiltölulega auðveldan hátt, en það er nánast útilokað eins og kerfið er í dag. Maður má ekki eiga lyf, enginn dýralæknir í héraðinu, tekur oft langan tíma að fá lækni úr öðrum héruðum. Það er eins og kýrnar viti ekki af því að það ætlast til að þær veikist aðeins á morgnanna á virkum dögum, en ekki á kvöldin eða um helgar og að ekki
sé talað um ef færð er slæm. 
Hvað svo með þá vanlíðan og heilsutjón sem gripirnir verða fyrir vegna þess að meðhöndlun hefst of seint?

Hvar eru allir eftirlitsaðilarnir og dýraverndunarsamtök?"

Ég veit um svo mörg svona dæmi og þess vegna er ég að skrifa þetta. Ég er ekki að skrifa þetta til að kenna einhverjum sérstökum um ástandið. Dýralæknar verða að vinna samkvæmt ákveðnum reglugerðum og geta ekki annað. Þau eru heldur ekki öll hrifin af þessu fyrirkomulagi, enda er hæpið að nokkur geti verið hrifinn af slíku sem lætur sér velferð dýra varðar.

Ef til vill finnst einhverjum að ég ætti ekkert að vera að rugga bátum, ég gæti verið skoðuð meira fyrir vikið, fylgst með hvort "ég" standi mig í stykkinu sem bóndi. Mér er bara alveg sama, ég er ekki að standa mig í stykkinu og standa með því sem mér er treyst fyrir ef ég segi aldrei neitt.

Ég veit að mörgum finnst ég öfgafull hvað skepnur varðar. Ég vil að öll dýr hafi nóg að borða, ég vil að þeim líði vel og ég geri það sem ég get en örugglega ekki alltaf nóg. Ég veit að ég gef hrafninum og banna að láta skjóta hann á mínu landi. Ég veit að ég er mjög sérvitur og ég vil geta treyst því að þeir sem með skepnurnar mínar höndla geri það af virðingu og á sem bestan hátt fyrir þær, þá er ég að tala um flutningsaðila og starfsmenn sláturhúsa. Ég vil eiga möguleika á að hjálpa skepnunum mínum í nauð ef þarf, þó að ég sé ómenntuð bóndakona og búi í dal norður í landi. Fyrir utan það að halda vöku minni og taka ábyrgð þá þarf ég að fá að hafa lágmarks lyf í fórum mínum. Að sjálfsögðu mundi ég alltaf tala við dýralækninn minn áður en ég notaði þau og skrá allt sem ég geri. Það er ekkert mál og finnst öllum sjálfsagt. En hvað er þá að?

Á árum áður þegar aldraður faðir minn og einn góður aldraður vinur bjuggu hjá mér var mér treyst til að sprauta þá "gömlu mennina" með ýmsum lyfjum og sumum frekar vandmeðförnum. Ég fékk morfín og ýmis lyf sem þeir áttu að taka til að líða betur. Mér var treyst fyrir því og var mjög þakklát fyrir það. Mín skoðun er að fólk eigi að fá að vera heima hjá sér eins lengi og það getur, en það kallar auðvitað á að aðstandendur höndli með alskonar lyf. Þetta sparar líka fyrir heilbrigðiskerfið, sem er gott. EN af hverju er mér ekki treyst fyrir pensilínglasi, til að bjarga nautgrip eða kind?

Það eru starfandi mjög góðir dýralæknar á norðurlandi vestra, en reglugerðir frá MAST gera þeim erfitt fyrir og bændum enn erfiðara. Það er mergurinn málsins. Ef einhver verður fúll út af þessum skrifum mínum, þá er mér alveg sama. Þetta er ekki presónulegt á neinn hátt, þetta er dýraverndunarmál. Allir bændur sem eru með heilbrigða hugsun og hafa ekki brunnið yfir af einhverjum orsökum, hljóta að láta sig þessi mál varða. Við erum þau sem eigum að standa með og standa upp fyrir skepnunum okkar. Það er okkar skylda. Þau eru okkar lifibrauð og við erum baklandið þeirra. Hlutir eiga að virka í báðar áttir, alltaf.