26.04.2016 06:39

Er að læra að elska mig

Stundum er lífið komið á þann stað að manni líkar ekki við sjálfan sig, hugsanir sínar eða líðan. Ef maður dettur niður í að dæma aðra, tala illa um aðra eða eitthvað slíkt þá er maður kominn á vondan stað. Sérstaklega þegar maður veit að með því að dæma aðra er maður að dæma sig og allt sem ég segi um aðra er ég að segja um mig.
Í haust datt ég alveg í fullkomið stjórnsemiskast þar sem ég missti algjörlega sýn á sjálfa mig og fór að reyna að stjórna syni mínum (sem er 23 ára). Sem betur fer þá lét hann ekki að stjórn, hélt áfram að kenna mér lexíuna og almáttugur hvað ég er þakklát piltinum fyrir að vera svona góður kennari fyrir mig. Börnin eru bestu kennararnir, það er sko alveg víst og ég er óendanlega þakklát fyrir mín börn og aðra kennara í mínu lífi.
Ég á líka óskaplega góðan mann sem benti mér á að ég væri nú eitthvað að fara út af sporinu. Það væri ekki hægt að gera sig út fyrir að vera að hjálpa öðrum og haga sér svo eins og óþekkur krakki í persónulega lífinu. Ég varð svo fjúkandi reið og á þessum tímapunkti talaði ég ekki vel um MIG og dæmdi MIG mjög harkalega.
En Birgitta var alveg komin í vitleysu og vissi það sjálf. Hvað var þá til ráða? Finna næsta sála? Ég var svo heppin að Nína  Margrét Pálmadóttir vinkona mín var búin að reyna að koma mér til þerapista sem heitir Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir og býr á Balí. Þetta er mjög fjölhæf kona sem er að gera marga góða hluti og eitt af því er þerapía sem hún samdi og vinnur með og heitir "Lærðu að elska þig". Ég komst í samband við Ósk og byrjaði að vinna með sjálfa mig aftur. Þetta var algjörlega ólýsanlegt og í fyrsta tímanum losnaði ég við vondu stjórnsemistilfinninguna og varð aftur ég. Þessi vinna og tímarnir hjá Ósk eru alveg ómetanlegir og allt sem hún er að kenna fellur algjörlega að mínu og því sem ég þarf. Ósk er að vinna samkvæmt alheimslögmálum það er víst.
Ég er svo heppin núna að Ósk kom hingað heim til Íslands til að kenna leiðbeinendanám í þerapíunni sinni ásamt Helgu Jensdóttur og við sem erum að læra hana erum núna búnar að vera tvær helgar með henni og upplifa dásamlega hluti. Þetta er mjög gefandi og gott á allan hátt. Ég er mjög þakklát og hlakka til að vinna sjálf með þerapíuna eftir ár, þegar náminu verður lokið. Í haust get ég farið að vinna sem nemi og ég hlakka mikið til. Endilega ef þið hafið áhuga á þessu hafið samband við Ósk eða aðra kennara sem eru að kenna "Lærðu að elska þig" þerapíuna. Hún tekur heilt ár og það er afar gott utanumhald og mín reynsla er afar góður árangur. 
Það er dásamlegt að finna orkuna sína hækka og finna að manns eigið líf snýst um mann sjálfan. Mér finnst gott að nota svona meðvitundarkort sem Ósk lét mig fá og ég hef hjá mér. Það er gott að skoða hvar maður er staddur orkulega hverju sinni. Ég setti það yfir á íslensku af því að mér finnst betra að skoða töfluna þannig.
 
 
Með þessu móti get ég séð ef ég dett niður og gott að átta sig á hvar fólk er statt.
 
 
Hér er taflan á ensku en sumum finnst betra að hafa hana þannig.
 
Eins og allir vita sem þekkja mig hef ég verið að kenna reiki (heilun með alheimsorku) í mjög mörg ár og finnst það alveg dásamlegt. Ég hef verið mjög lánsöm í reikivinnunni, kynnst yndislegu fólki sem hefur kennt mér mikið og í þessari heilunarvinnu og kennslu hef ég fengið ómetanlega reynslu og lærdóm. Hver einasti maður sem kemur í heilun eða reikinámskeið kennir mér. Að sjálfsögðu mun ég halda áfram að kenna reiki og planið er að vera með námskeið í júnímánuði, eftir að sauðburðartörn er lokið. Ég er byrjuð að bóka á þau og hægt að hafa samband við mig ef þú sem ert að lesa hefur áhuga. Það er nú einu sinni þannig að við verðum að hugsa um okkar eigin heilsu og líðan og setja það í fyrsta sæti, öðruvísi hjálpum við ekki öðrum. Við getum gert svo margt og hver og eitt okkar er læknirinn í sínu lífi. 
MIg langaði að deila þessu með ykkur þar sem ég veit að öll lendum við á erfiðum stað og öll þurfum við að elska sjálf okkur og hjálpa okkur sjálfum. Það er svo margt sem við erum að takast á við en sem betur fer er líka margt og margir sem geta hjálpað okkur við að líða betur. Það er nauðsynlegt að vinna í sjálfum sér og um leið svo dýrmætt og gott. Ég er þakklát og vil að friður og elska sé það sem líf mitt sýnst um.
 
Ég hlakka til að takast á við ný verkefni, lífið er ljúft og yndislegt að njóta emoticon