13.05.2016 03:44

Hugleiðing á sauðburði

Það er ótrúlega margt sem fer í gegnum hugann á vornóttu þegar setið er og beðið eftir að blessuð lömbin komi í heiminn. Dásamleg tilfinning þegar allt gengur vel, gleðin að sjá móður taka á  móti barninu sínu fulla af ást og hamingju. Ósjálfrátt fer maður að hugsa um lífið, lífið sitt og líf almennt. Hversu sjálfsagt er það? Er maður raunverulega að lifa því lífi sem maður vill eða er maður að láta lífið renna frá sér án þess að láta draumana sína rætast. Það er kannski ekkert sjálfgefið að hafa endalaust góða heilsu eða nægan tíma. Kannski væri ráð að skoða aðeins í pokann sinn og sjá hvar er þar. Erum við sátt við okkur sjálf? Höfum við sagt, börnum, maka, foreldrum, systkynum og vinum hve mikið við elskum þau, eða höfum við látið tilgangslaus rifrildi eða pirring skemma fyrir okkur stundir sem gætu verið svo góðar. Eitt er víst að enginn vinnur rifrildi og það að vera reiður, sár, pirraður og ég tala nú ekkium hatursfullur gerir ekkert nema að bitna á manni sjálfum. Elskurnar mínar við skulum endilega sættast við þá sem við erum ósátt við og ekki sýst okkur sjálf. Tökum utan um okkur sjálf og finnum hve það er gott að elska sig og auðvitað alla hina líka. Það er yndislegt að sjá nýtt líf fæðast, það er ekki sjálfgefið. Hvert kraftaverk sem gerist færir gleði inn í lífið. Horfum á það, allt það jákvæða og kærleikríka sem lífið hefur uppá að bjóða. Og verum góð hvort við annað. Öll erum við á okkar leið, með okkar vel og lærdóm.

Ein allra besta vinkona mín var að greinast með ristilkrabbamein. Hún er búin að fara í aðgerð og framundan er lyfjameðferð. Þessi kona er algjör hetja, ótrúlega sterk, yndislegur vinur og vill öllum vel. Sem betur fer er hún vel á sig komin, hefur hugsað vel um sig, fengið hreyfingu og hugað að mataræði þannig að hún er hraust. Ég trúi því að hún taki þetta verkefni í nefið eins og hún hefur alltaf gert með það sem lífið hefur sent til hennar. Það er samt hræðilegt áfall að fá svona fréttir. Allt fer úr skorðum og öll plön eru allt í einu komin í óvissu. Lífið er nefnilega ekki sjálfgefið og ekki alltaf sem við ráðum öllu. Þessi frétt sló mig verulega út af laginu og ég fór að hugsa ofan í mig. Er ég alltaf að gera það sem mig langar, get ég átt betri tíma og skapað dásamlegar minningar með börnunum mínum? Alskonar hugleiðingar koma og svörin eru alltaf á sama veg. Ég get skapað fleiri góðar minningar, ég þarf ekki að bíða eftir að sauðburðurinn sé búinn, eða heyskapurinn eða réttirnar. Ég get hætt að humma hluti fram af mér. Tíminn er núna, til að nýta og njóta.

Í öllum bænum verum góð hvort við annað. Elskum skilyrðislaust. Leyfum fólkinu okkar að velja fyrir sig. Hættum að stjórna. Elskum.

Bestu kveðjur og knús frá syfjuðu sauðburðarkonunni á Löngumýri