05.10.2017 20:04

Hugleiðing að hausti

Það er orðið ansi langt síðan ég hef sett færslu hér inn. Það er samt nóg að tala um og af nógu að taka. Ég ætla samt ekki að ræða í dag um pólitík eða samfélagsmál, ég ætla að tala um sjálfa mig og það sem á daga okkar á Löngumýri hefur drifið, eða það sem við erum að brasa þessa dagana.
Sumarið var okkur afar gott. Veðrið lék við okkur, heyskapur gekk bærilega, kýrnar hraustar og mjólkuðu og mannlífið á heimilinu alveg einstakt og gott.
Við vorum svo heppin í sumar að Vala tengdadóttir okkar bjó hjá okkur rúma þrjá mánuði. Hún var að vinna við sumarafleysingar á Sambýlinu á Blönduósi og stóð sig vel. Hún er ófrísk og var sett núna 1.október, svo að eins og þið getið ímyndað ykkur þá erum við að bíða hér. Já, við gömlu sem sé alveg að detta í það að verða amma og afi. Ótrúlegt þetta unga par ;)
Halldór Ingi var að vinna fyrir sunnan og kom heim um helgar. Hann stendur sig alltaf mjög vel í sínu og við alltaf jafn stolt af börnunum okkar.
Við vorum með dásamlega hjálp, hana Lilju okkar sem hefur svo oft verið hjá okkur. Hún er nú komin inn í fjölskylduna okkar á fleiri en einn veg því hún er kærastan hans Guðmars frænda hans Inga sem á heima á Eyvindarstöðum. Þau eiga von á sínu fyrsta barni í febrúar og við vorum því umkringd ófrískum snúllum í sumar.Frekar óvenjulegt fyrir okkur en alveg dásamelg tilbreyting og lærdómsríkt í lífið.
Ingi er að keyra skólabíl eins og undanfarna vetur og ég er að vinna með reiki og þerapíuna "Lærðu að elska þig" og það gengur vel. Það má því segja að við höfum alveg ljómandi líf og margt að hlakka til á hverjum degi.
Við Guðbjörg fórum í sumar ásamt Svövu vinkonu hennar Guðbjargar til Danmerkur til að heimsækja fólkið okkar þar. Það er svo dásamlegt að sjá hvað þau eru öll dugleg. Þarna er Þórhalli og Turid ásamt börnunum að byggja upp nýtt líf í orðsins fyllstu merkingu. Það er alveg ljóst að þegar húsið þeirra verður fullbúið þá verður það fallegt og yndislegt heimili. Það var ofsalega gott að hitta þau og líka Ásgeir og Stínu sem eru einnig búi að festa kaup á mjög fallegu einbýlishúsi á frábærum stað. Það var gleðilegt og gaman að fara og auðvitað mikið að upplifa eins og alltaf. Það er líka svo gott hvað er einfalt og auðvelt að fljúga á Billundflugvöll, því óneitanlega saknar maður fólksins síns sem býr ekki nálægt manni lengur.
Guðbjörg er í dreifnáminu á Blönduósi og gengur vel. Þau eru einstaklega heppin með kennara dreifnámskrakkarnir því að hún Ásdís á Hæli er algjör gullmoli í þessu starfi. Guðbjörg er þarna með tveimur vinkonum og það er auðvitað mjög mikilvægt og gott. Þetta fyrirkomulag er algjörlega frábært og ég get ekki sagt hvað ég er glöð yfir að krakkarnir eigi þess kost að stunda nám svona nálægt heimili sínu. Það er svo gott að geta haft þau heima og hún Guðbjörg á sinn eigin bíl og kemur sér á milli skóla og heimilis. Eins gott og það getur verið allt saman.
Mig langar líka að segja nokkra góða og jákvæða hluti um Blönduós. Þarna er æðisleg sundlaug, hægt að fara í ræktina ( enda er snillingurinn hún Erla búin að koma mörgum í formið hér) Ömmukaffi bíður dreifnámsnemum afsláttarkort í hádegismat, sem er frábær og góður heimilismatur, svo er Samkaup alltaf með nýbakað handa þeim. Það er auðvitað líka hægt að kaupa sér mat fleiri stöðum en mig langaði bara að nefna það sem er við hliðina á dreifnáminu og mér finnst algjörlega frábært. Það eru svo margir flottir einstaklingar að gera svo frábæra og góða hluti. Mér finnst að við ættum að horfa á það. Það er svo margt í samfélaginu okkar og í kringum okkur sem er ómetanlega dýrmætt. Ég vona líka í komandi alþingiskosningum og svo í vor í sveitarstjórnarkosningum muni fólk eftir öllu sem er gott en fari ekki í persónulegt skítkast. Það er svo lág orka í því og gerir aldrei gagn. Það er margt sem þarf að takast a´við í lífinu og ekki auðvelt að vera bóndi núna eins og allir vita, en eins og oft áður er ekkert í boði nema halda áfram og gera sitt besta.
Læt fylgja með eina mynd af síðunni minni sem þið getið skoðað ef þið viljið. Vona bara að lífið verði okkur öllum gott og við höfum vit á að njóta :)