Færslur: 2009 Desember

24.12.2009 00:34

Gleðileg jól

Þar sem aðfangadagur er upp runninn og tími til kominn að halla sér áður en lokaspretturinn er tekinn langar mig að segja GLEÐILEG JÓL. Ég vona sannarlega að nýjar árið verði okkur öllum gjöfult og gott og að íslendingar nái að nýta sér það og öll þess tækifæri sem mest og best. Ég vona að sem flestir geti notið hátíðarinnar með frið í hjarta og sátt í sál.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár!

21.12.2009 20:36

Taka tvö

Jæja Taka tvö.

Bloggaði sem sé í gær en tókst á snilldarlegan hátt að eyða því út. Líklega hefur verið eitthvað þarna sem átti bara als ekki heima á síðunni minni. Allavega hvarf allt saman. En lífið gengur sinn vanagang. Ég er búin að vera að mála og þrífa í allan dag og er bara nokkuð ámægð með árangurinn. Ingi og Halldór voru reyndar líka að þrífa, undan lömbunum sem einnig tókst með glæsibrag. Það er annars merkilegt hvað er alltaf mikið að gera fyrir jólin. Skildi ástlæðan vera sú að við höfum verið að trassa eitthvað sem svo ullar á okkur korter í jól??? Nei, kannski ekki, en allavega er frábært að jólin eru að koma.

Guðbjörg var heppnari en móðir hennar í dag. Í staðinn fyrir að standa með klút og bursta var sú stutta með Ölmu vinkonu sína í heimsókn. Það var alveg frábært og enn betra að þær ætla að endurtaka leikinn vinkonurnar á morgun og stytta jólabiðina fyrir hvor aðra. Það er alveg eðal að fá hana Ölmu í heimsókn og ekki skemmir ef ég get platað mömmu hennar til að stoppa fimm mínútur þegar hún kemur að sækja. Þannig var það í dag, svo að ég græddi líka. En undur dagsins var kannski að Gluggagægir skildi eftir stækkunargler í sokknum hennar Guðbjargar svo líklega hefur hann ekki getað svalað forvitni sinni nóg á okkar bæ.

Ég reikna með að morgundagurinn hjá betri helmingnum mínum fari í að leyta að kindum. Enn eru einhverjar að bíta uppá hálsi en maðurinn blessaður ætlar sér að fara að ná þeim í hald því óðum styttist í að hrútarnir hafi mikið að gera. Einhverntíman sagði sr. Hjálmar að það væri alltaf svo mikið að gera hjá hrútum og prestum um jól og það er alveg rétt. En planið á morgun er sem sé smalamennska hjá feðgunum, dúllutími hjá stelpunum og sjálf þarf ég að fara á fund. Þetta þýðir að allt sem er eftir fyrir jól skal gerast á Þorlák. Það verður stuð þá enda eftir að versla og fara svo á Pottinn og borða skötu fyrir þá sem vilja en eitthvað annað fyrir hina:)

Hugmyndin var als ekki að skrifa dagbók svo ég ætla að reyna að tala um eitthvað annað en það sem stendur til á mínum bæ. Samt verð ég að segja ykkur hvað við Haukur á Röðli vorum að gera á laugardaginn. Þá vorum við í Skagfirðingabúð, hann að árita og ég að lesa upp. Það var fremur skondið en skemmtilegt. Ég stóð útá gólfi fyrir framan búðarkassana með einn mígrafón og bókina í hendinni (sem sé ekkert púlt eða borð). Þetta var frekar óvenjuleg upplifun og ég barðist við allan tímann að halda bókinni þannig að stafirnir væru í fókus á meðan ég las. Þegar maður getur ekki lesið lengur gleraugnalaust er þetta bara meira en að segja það. En ekki var stressinu fyrir að fara, enda sé ég ekki hverjir eru að horfa á mig þegar gleraugun eru komin á sinn stað. En Haukur vinur minn sat í vellistingum og áritaði með bros á vör á meðan hann bauð uppá kaffi og konfekt. Þetta tókst ljómandi og Haukur rauk út en ég verð að segja að ég var fegin að það var ég en ekki hann sem lenti í að standa þarna og lesa. Maður lendir oft í einhverju svona skemmtilegu sem mann órar ekki fyrir.

En í þessari KS ferð minni keypti ég mér sjálf bók sem er töluvert merkileg. Hún heitir Næring og nautnir og er uppskriftir, frásagnir og fróðleikur frá konum í Kvenfélagi Akrahrepps. Þetta er alveg ljómandi bók. Ingi var eitthvað að röfla um að hann hefði frekar viljað eyða peningunum í dagatal með fáklæddum kvenfélagskonum en ég er viss um að hann mun hugsa hlýlega norður yfir Skarð þegar hann verður búinn að kíla vömbina með krásunum sem í bókinni eru. Þær eru sko ekki af verri endanum og spennandi að prófa. Hvað dagatalið varðar þá gætum við nú bara í Kvenfélagi Svínavatnshrepps gefið út svona fáklætt dagatal, allavega væru ekki allir mánuðir eins þá ;)

En mikil ósköp er nú gaman að lifa. Ég veit að það er ekki auðvelt hjá öllum en ég verð að segja að ég er mjög þakklát á hverjum degi. Að vera hraustur, hafa nóg fyrir stafni og geta verið hjá sínum nánustu. Forréttindi og aldrei ofþökkuð. Ég hugsa samt stundum um það hve tíminn líður hratt. Mér finnst t.d. alveg dásamlegt að hafa krakkana mína heima. Jólafrí eru snilld. En ég veit líka að áður en ég verð búin að snúa mér við verður jólafríið búið, Guðbjörg komin út í Húnavelli á ný og Halldór á Akureyri. En svona er lífið. Allt gott hvað með öðru. Svo er bara spurningin hvað ég ætla að gera eftir áramótin. Nú þegar Haukur á Röðli er kominn í höfn og búið að fylgja honum eftir þá er þessi spurning, hvað næst? Ég er sko ekki hætt að skrifa, svo mikið er víst. Hugmyndirnar dansa um í höfðinu á mér. Barnaefni, spennusaga, fróðleikur, sögur úr sveitinni............allt skemmtilegt en ég veit enn ekki hvar ég lendi. Sjálfsagt get ég komið sjálfri mér á óvart í janúar og farið að gera eitthvað óvænt. En þá byrjar líka aftur "Eflum byggð" svo að ég fer að læra átthagafræði og eitthvað fleira. Kannski ætti ég að nota mér það ?????????????? En allavega þarf ég að fara að finna tarotspilin og spá fyrir vinkonum mínum því bráðum koma áramót!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Njótum lífisns og verum góð hvort við annað. Hver dagur er eins og nýtt líf, ferskur og spennandi.


09.12.2009 10:56

Jólaandinn


Á þessum fallega degi tel ég ástæðu til að halda áfram að æfa mig í bloggi. Þar sem allt er eins og það á að vera á mínum bæ og jólaandinn svífur yfir. Guðbjörg telur niður og bíður spennt eftir því að það komi sokkatími hjá jólasveinunum. Jólasokkurinn er kominn á sinn stað og oftar en ekki gáð til vonar og vara ef einhver sveinkastauli ruglaðist í dagatalinu og vappaði til byggða fyrr en áætlað er. Málið er, eins og svo skemmtilega er útskýrt í nýjustu Fíusól, að jólasveinarnir gefa þeim börnum sem hafa vit á að trúa á hann en hinum auðvitað ekki. Þau geta því bara sjálfum sér um kennt að vera svona vitlaus að halda að mamma þeirra og pabbi setji í skóinn eða sokkinn. Þannig að ef þið sem þetta lesið eruð hætt að trúa á jólasveininn þá er það ykkar vandamál, við á mínum bæ vitum ósköp vel að þeir eru til.

En eins og ég segi, aðventan er ljúf og skemmtileg. Það gengur ljómandi vel að klára jólasmákökurnar svo ég get farið að baka aftur fyrir jólin, taka tvö. Ég er að lesa ævisöguna hans Hjálmars okkar, sem er alveg yndisleg bók, eins og maðurinn sjálfur. Við Haukur erum líka nokkuð ánægð með okkur. Hann var í viðtali í gærmorgun á Útvarpi Sögu, þá nýkominn úr bændaferð til Þýskalands. Framundan er svo að mæta og lesa upp hjá Samhug annaðkvöld. Hjálmar og Haukur verða svo saman á Heimilisiðnaðarsafninu á þriðjudag og svo er fljótlega í KS. Nóg að gera hjá Hauk (og okkur) enda fyrsta prentun búin og búið að prenta viðbót, sem er snilld :)

Kvöldið í kvöld er líka spennandi. Þá verður kvenfélagsfundur í Dalsmynni þar sem Turid í Húnaveri snyrtifræðingur ætlar að fræða okkur um snyrtiheiminn og hvað við getum gert við hrukkunum. Hún er nefnilega að setja upp snyrtistofu í Húnaveri. Svo ætlum við að heila hvor aðra og gera alskonar skemmtilega hluti sem er einungis hægt að gera í skemmtilegum kvenfélagshóp. Held samt að kvenfélagskakóið bíði betri tíma. Síðan ætlum við að vera með skemmtifundi í hverjum mánuði í vetur og byrjum hjá formanninum okkar, Gunnu á Kúlu, í janúar. Við höfum verið með svona fundi undanfarna vetur sem er mjög skemmtilegt. Það er líka svo gaman að koma heim til hvor annarar og fá hinar til sín. Við förum nefnilega ekki nógu  mikið í heimsóknir á milli bæja. Mér datt bara aldrei í hug að það væri svona gaman að vera í kvenfélagi eins og raun ber vitni.

Eitt sem mig langar að mæla með hérna hjá okkur. Það eru jólakörfurnar frá SAH. Keypti eina svona í gær til að gefa og var hæstánægð bæði með innihaldið og þjónustuna. Mér sýnist líka að verðið sé mjög sanngjant, bæði á þessum körfum og eins bara kjötinu. Það er nokkuð ljóst hvaðan jólasvínið mitt kemur, alveg örugglega frá SAH.

En nú ætla ég bara að hætta í bili, því allt sem ég skrifa um núna uppfull af jólaandanum eru bækur sem mig dreymir um að fólk kaupi og kjötið frá SAH. Það er greinilegt að ég er líka uppfull af héraðsanda, sem er gott. Við eigum svo dásamlega margt gott hérna heima, á Blönduósi og í sveitunum, bæði vörur og svo þennan yndislega mannauð og hæfileikafólk. En fyrst ég var að tala um vörur þá verð ég að minnast á Smárabæ. Mikið var ég glöð og ánægð í gær þegar ég gat farið á gamla góða staðinn og keypt varpköggla handa hænunum mínum. Tek ofan fyrir Zopaníasi Ara fyrir það. Frábært að hann skuli vera búinn að opna.

Og í lokin. Þegar sr. Hjálmar kom og færði okkur bókina sína fór hann sömu erindagjörðum í Mosfell. Gísli (sem er uppáhaldshagyrðingurinn minn ásamt Sr. Hjálmari og Einari Kol) orti um þetta og ég vona að mér fyrirgefist þó að ég setji vísuna með. En hún er svona:

Engum kvíða fyrir finn
flest er nú í lagi.
Fyrst Hjálmar kom með "Hjartsláttinn"
heim á sveitabæi.


06.12.2009 21:05

Bloggið hennar Birgittu

Það verður að segjast eins og er að þessi dagur er búinn að vera frábær og þess vegna alveg tilvalið að byrja að blogga einmitt nú. Ástæðan fyrir því að ég er að setja upp þessa síðu er sú að mig hefur lengi langað til þess að hafa eitthvað svæði þar sem ég get sagt það sem mig langar til og vinir mínir geta lesið þegar og ef þá langar til. Sem sé gamall og góður draumur að rætast í dag eins og svo margt annað. Mig langar líka að setja inn ýmislegt sem ég er að skrifa og upplýsingar um það sem við erum að gera hér á Syðri-Löngumýri, bæði um búskapinn okkar og önnur áhugamál. Auðvitað vona ég að einhver hafi gagn og gaman af einhverju sem ég set inn, en allvega finnst mér sjálfri þetta spennandi og kominn tími til.

En víkjum að þessum Drottins dýrðardegi. Það má með sanni segja að þessi dagur hafi verið bæði góður og kristilegur og allt gott sem gerðist. Eftir venjuleg morgunverk fórum við hjónin ásamt útsofnum dásamlegum ungunum okkar tveim á Blönduós. Í för með var líka einn uppáhaldsfrændinn á bænum, Hilmar Logi.  Ástæðan var fyrirhugaður söngur Húnavallanemenda í kirkjunni á aðventustund. Við tókum ömmuna með og borðuðum yndislegan mat á Pottinum og pönnunni. Ég verð að hæla þessum stað og þessi dásamlegi kokkur sem er þarna er hreint ótrúlega góður.

Næsta mál hjá mér var að hitta yndislegu vinkonu mína á Brekkunni, Jónu Fanney, sem er að koma mér inn í þennan bloggheim og á allan heiður að því að ég er einmitt að blogga núna. Takk Jóna. Það var auðvitað jafn notalegt að hitta hana og alltaf og merkilegt hvað henni mun sennilega á endanum takast að kenna mér.

Eftir vel heppnaða stund í kirkjunni þar sem allir sem þátt tóku lögðu sitt að mörkum að gera stundina ánægjulega með sr. Sveinbirni, fórum við heim. Börnin voru sæl, enda sáum við jólasveina og ljós tendruð á jólatrénu við kirkjuna. Þetta var afskaplega notalegt allt saman og óneitanlega orðinn hluti af hefðinni fyrir jólin að koma í Blönduóskirkju í aðventumessu. Það er líka staðreynd að þetta yndislega hljóðfæri sem nú er komið í kirkjuna stendur undir væntingum, svo ég tali nú ekki um organistann. Hún Sísa vinkona okkar er hreint út sagt sérlega passandi við hljóðfærið og það fyrir hana. Gleðilegt og satt.

Þegar við hjónakornin vorum loksins að ljúka mjöltum eftir Blönduósferðina, grútskítug og illa lyktandi kom vinur okkar sr. Hjálmar Jónsson færandi hendi með Hjartsláttinn sinn. Ekki amarlegt það. Hlakka mikið til að lesa og dáist að hæfileikum gamla góða prestsins okkar til að láta sem ekkert sé og knúsa gamla vini þó að þeir séu með kúamykju og allt tilheyrandi. Það toppaði algerlega góðan dag að fá Hjálmar í smá spjall, en við hittumst alltof sjaldan og þannig er með marga góða vini. Ingi hertók bókina og ég ákvað að prófa bloggheiminn, en ég reikna ekki með að vera til viðtals alveg á næstunni, því að Hjartsláttur Hjálmars verður lesinn sem fyrst og gengur fyrir öðru sem ekki er eins nauðsynlegt.

Sem sé, er hægt að hafa betri daga? Varla. Fólkið mitt er heilbrigt og hamingjusamt. Halldór minn er núna farinn norður og ég hlakka mikið til að fá hann heim aftur á fimmtudaginn en þá er gaurinn kominn í jólafrí. Hlakka sannarlega til jólanna. Ég er og hef alltaf veirð jólabarn og nýt aðventunnar einnig. Lífið er dásamlegt. Vildi óska þess að öllum í heiminum liði eins og mér núna, hamingjusöm og sátt.

Sem sé halelújablogg í dag, vona að þið séuð öll jákvæð og glöð og trúið á bjarta framtíð og gleðilegt komandi jól.

  • 1