Færslur: 2010 Janúar

03.01.2010 16:36

Gleðilegt nýja árið

Langar bara að óska ykkur gleðilegs árs með þökk fyrir liðna tíð.

Ég er viss um að að nýja árið verður betra og friðsælla í sálum manna en hið síðasta var. Allavega finnst mér skynsamlegt að fara inn í það með jákvæðni og góðar væntingar. Ég skrifaði vísu á facebook í tilefni áramótanna og hún er svona;

Kreppuárið kveðja varð
í kaupstöðum og sveitum.
Nýja árið gekk í garð
með gleði og fyrirheitum.

Við á Löngumýri áttum eftirminnileg jól. Það var svo yndælt að vera saman eins og alltaf, við sátum jólaboð á Eyvindarstöðum, fórum á jólaball á Húnavöllum, hittum ættingja og vini og mér fannst það frábært. Maður finnur það alltaf svo vel á jólunum hvað það er dýrmætt að eiga svona yndislega fjölskyldu, kjarnafjölskylduna og stórfjölskylduna. Það er líka svo ómetanlegt að fá allar kveðjurnar og jólakortin og finna hlýhuginn. Uppáhaldsstundin mín á jólum er þegar ég sit í rólegheitum og skoða kortin alsæl með lífið og tilveruna. Á nýársdag varð Guðbjörg Pálína 10 ára. Það var yndislegur dagur. Við vorum búnar að útbúa smávegis og hún fékk til sín nokkra vini og vandamenn og það var stórgaman. Leikið og spilað og borðað á sig gat, þannig eiga afmæli að vera.

En þó að allur maturinn, gjafirnar og hátíðleikinn sé frábær þá er líka gott að komast inn í nýja árið og fara að plana og velta fyrir sér hvað það muni bera í skauti sínu. Það eru líka mínar uppáhaldsstundir á árinu. Stundum spái ég fyrir vinkonum mínum og þær fyrir mér og það er gaman að geyma spárnar og sjá hvernig fram hefur undið. Ein spáin segir að stjórnin muni sprynga núna eftir áramót. Önnur segir að veturinn verði hvítur og kaldur og frost fram undir vor. Að jörðin sé að frysta burtu óværu sem fólk hefur skilið eftir á jörðinni.En að þegar vori, þá komi líka gott sumar. Að sjálfsögðu ætla ég ekki að tíunda spár vinkvenna minna enda persónulegar fyrir mig, en ég er mjög glöð með þær. Allavega trúi ég að árið sem nú er nýbyrjað verði ár ævintýra í mínu lífi og vonandi líka þínu !!! Ég fékk líka mjög góðar og ganglega leiðbeiningar með nýtt mataræði og ráðleggingar til bættari heilsu sem ég hef hugsað mér að nýta mér.

Nú fara skólarnir að byrja. Á þriðjudaginn byrjar Guðbjörg aftur og þá fer Halldór á Akureyri og byrjar svo á miðvikudag. Þá kemur þessi fasta rútína og þá byrjar Birgitta vonandi að skrifa aftur. Ykkur að segja þá er hausinn að sprynga af hugmyndum. Mig langar að skrifa skáldsögu, barnaefni, búa til jákvæðnispil og kort, safna sögnum úr heimahéraðinu mínu og margt margt fleira. Hvað á ég þá að gera??? Gaman væri að fá hugmyndir. Á nýju ári vil ég líka að búskapurinn minn blómstri og að ég haldi fullt af námskeiðum. Ég vona að fólk verði andlega þenkjandi og gefi sér tækifæri til að læra að heila sál og líkama og finni þörf til að að auka ljósið í lífi sínu og ég vona að ég fái að taka einhvern þátt í því hjá sumum. Reyndar langar mig líka að skrifa sjálfshjálparefni. Þetta er bilun..............en ég er þá biluð og lausa skrúfan skoppaði burt. Það er svo óendanlega margt sem er spennandi og ég veit að nýja árið verður fullt af spennandi hlutum. Við erum að hreinsa burt svo margt gamalt og fúið og með því er pláss fyrir hið nýja sem er svo gott.

Þegar maður hugsar um nýja árið, þá fer ég líka að hugsa um hvort ég muni komast í frí. Tvíburinn í mér krefst hreyfingar sem oft á tíður er ekki auðvelt að framkvæma. Ingi bannar mér að hugsa um útlönd, það sé alltof dýrt og............bla,bla,bla. En ég ætla samt að hugsa um uppáhaldið mitt, sól, sjó og sand. Það er ekkert bannað að láta sig dreyma og auðveldasta leiðin til þess að draumarnir rætist er að sjá þá fyrir sér. Ég ætla að trúa á draumana mína stóra og smáa. Þó að svo færi að eyjan yrði Vestmannaeyjar og hitastigið minna en á Costa de sol þá mun ég njóta þess EN kannski kemst ég í alvöru sól. Hver veit:)

Í kvöld liggur leiðin til Gunnu á Kúlu. Hún er ofurkokkur og er nú búin að bjóða ættingjunum í mat. Alveg ávísun á fullan maga og ljúft kvöld. Það er því best að hrista út kúnum svo að hægt sé að fara og njóta þessara krása. Ég vona að árið verði okkur öllum friðsælt, gjöfult og gleðiríkt.
  • 1