Færslur: 2010 Apríl

25.04.2010 23:15

Tíminn á meðan kakan bakast...

Ágætu vinir. Ég má til með að tjá mig aðeins meira. Hér er allt á fljúgandi ferð svo ekki sé meira sagt. Helgin var með afbrygðum góð. Birta frænka var í heimsókn svo að Guðbjörg var heldur en ekki hamingjusöm. Á þriðjudaginn hafði svo Anna komið með henni  heim og gist og svo var dúllan mín hjá Önnu á föstudag. Það var annars alveg dásamlegt hvað þetta óvænta frí vegna Danmerkurferða kennara Húnavallaskóla nýttist vel fyrir börn og búalið. Bara að hafa aðal kúrekann með :)


Já, eins og flestir hér um slóðir vita fór stór hluti kennaranna okkar, ásamt mökum og Gunnu vinkonu minni á Kúlu til Danmerkur í náms og kynnisferð. Allt gott um það. Töluverður titringur var í liðinu og spurning hvort yrði flogið eða ekki. En Jökulandinn var ferðalöngunum hliðhollur svo þau komust, sem betur fer. Við sem heima sitjum höfum auðvitað velt fyrir okkur hvort sl. þriðjudagur væri síðasti skóladagurinn á þessum vetri ef kennarar vorir yrðu að dúsa í Danmörk og þetta ævintýri myndi snúast upp í anhverfu sína, En sannarlega erum við hér heima búin að senda þeim hlýja strauma til að þau komist heim eins og til stóð og síðast þegar ég frétti voru þau stödd í Glaskow......humm.........ekki er hún nú í Danmörku........... hugs hugs.

En fyrst við erum að tala um skólann þá langar mig auðvitað að hæla honum. Ég er svo sannfærð um að ef að fólk vissi hve góðan skóla við rekum og svo núna líka leikskóla þá myndi það vilja flytja til okkar í enn ríkara mæli. Við þurfum öll að draga til okkar fólk, og fá fleiri börn í skólann, Það er alveg nauðsynleg. Að vísu reikna ég nú ekki með að ég leggist í barneignir fremur en vant er en ég vona að allir hinir sem vettlingi geta valdið geri það. Og svo er ég líka sannfærð um að við munum á næstu missirum fá mikinn innfluttning í Húnavatnshrepp, það er sko gott að vera;)Mín börn :)

Af pólitíkinni er það að frétta að hér ríða hetjur um héruð eins og þar stendur, frambjóðendur á stálfákum, þó aðallega til að sæða kýr og gefa hvor öðrum í nefið. Það er mikið gott á meðan lífið snýst um það og fólk fer ekki að slást við hvort annað. Annars var ég nú að hugsa um að taka duglega í Þorleif vin minn í Sólheimum sem lét þau orð falla að hann hlakkaði þessi lifandis ósköp til eftir kostningar, þá fengi hann tóbaksmenn af báðum listum sem gætu gefið honum í nefið daginn út og inn. Ég viðurkenni að ég var dulítið foj við þennan góða dreng, sérstaklega fyrir hönd okkar Gróu, sem erum gamlar skólasystur hans og bráðskemmtilegar báðar. Hann er ekki að sjá eftir okkur úr hreppsnefnd blessaður nei ónei.En sennilega á eftir að rjúka duglega úr honum þegar hann verður búinn að koma við í pontum bæði A og E.

Áðan lauk ég við að lesa stefnuskrá E listans. Hún er alveg glimrandi góð og verður erfitt að toppa hana. Gaman að sjá allt þetta unga og glæsilega fólk sem stormar nú fram. Verð að viðurkenna að Þóra og Jakop eru miklu flottari en við Biggi sem yfirgefum svæðið (og þarf þó alltnokkuð til). Það verður gaman að fylgjast með, spennandi tímar framundan í Húnavatnshreppi. En eitt er samt alveg hundrað prósent víst að allt verður þetta nákæmlega eins og það á að vera.

En þó að ég sé hætt í hreppsnefndarpólitíkinni þá er ég ekki hætt að láta mig mál varða. Á þriðjudagskvöldið verður t.d. aðalfundur foreldrafélagsins og það er ástæðan fyrir þessum bakstri sem orsakaði bloggtíma. Ég vona sannarlega að það verði góður fundur og vel mætt. Ég ætla sko ekki að hætta að láta mig skólann varða þó að ég sé komin á kaf í önnur verkefni. Hann er eitt af mínum hjartans málum, enda vel rekinn og krakkarnir koma úr honum okkur öllum til fyrirmyndar.

Ég ætlaði sko að blogga um allt aðra hluti og svona daglegt líf hjá mér. Morgundagurinn verður spennandi. Þá kemur Bjarki minn á Breiðavaði að rýja það sem eftir er af fénu og svo verða vortónleikar á Húnavöllum. Fer auðvitað að sjá dúlluna mína spila.
Í dag byrjaði gamli góði Zetorinn að skríða saman sem var hið mesta kraftaverk enda hafði hann verið rifinn fyrir margt löngu og var alltaf frekar að dreifa úr sér en skríða saman. En Siggi frambjóðandi E kom og hjálpaði þeim feðgum hér að koma í gírkassa. Halldór minn er nú býsna seigur og þeir hinir líka (og þar er sko tekið á því að troða í nasirnar).  Þetta var sem sé frábær dagur. Ólöf og Eydís komu við á leið frá sýningunni á Sauðárkrók, en þær fóru sem sérlegir fulltrúar;)
Svo kom nafna mín Birgitta Rán í heimsókn með bráðmyndarlegan kærasta og litla sæta frænku. Það var mikil gleði að sjá hana, þetta er gullfalleg ung kona og ég er svoooooo montin af henni.

Fyrir utan fjósastand og þetta sem framan er talið er ég að vinna fyrir Töfrakonur að sjálfsögðu og það er mjög spennandi verkefni sem ég var að byrja á og vinnuheitið er "Töfrar lífsins". Ójá, það er svo margt sem veltum um í hausnum á mér og ég er svo ánægð með Töfrakonur.

Annars komu tvær töfrandi konur til mín í gær, Nína og Edda.Þvílíkir snillingar. Ef allt kemur fram sem þær spáðu þá erum við nú ekki á flæðiskeri stödd hér <3

En nú er kakan bökuð og mál að linni.
Guð gefi ykkur gleði í hjarta og daga bjarta.
23.04.2010 21:25

Ég hlakka svo til...

Blogg,blogg,blogg....:)

Það er ástæða til að blogga og njóta lífsins þegar allt gengur svona vel. Í augnablikinu er ég alveg alsæl, nema ég væri alveg til í að hafa litlu krúttlegu tengdadósluna hjá mér líka. Halldór er sem sé kominn heim og því bæði börnin hjá mér:) Það er bara yndislegast í heimi. Á morgun hitti ég Nínu mína og geri fullt af skemmtilegum hlutum svo að lífið er bara dásamlegt.

Í gær fórum við "Töfrakonur" ég og Jóhanna að Gauksmýri og tókum á móti styrk frá Menningarráði. Það var fullkomið. Auðvitað hefðum við viljað að Þuríður væri með okkur en það var því miður ekki hægt. Þetta var frábært og afar gott fyrir okkar unga fyrirtæki að fá styrk og ekki síður það að fólk hafi trú á okkur og því sem við erum að gera. Ég dansaði út í sólina og vorið eftir þessa viðurkenningu, TAKK yndislega Menningarráð:) Hér kemur allt um "TÖFRAKONUR"


Fyrirtækið "Töfrakonur/ Magic women" er stofnað til framleiðslu og sölu á ýmsum vörum sem tengdar eru ferðaþjónustu og menningu. Hugmyndin er að vera með margvíslegar vörur s.s. gjafavörur ýmsiskonar sem þá eru að stæðstum hluta hugsaðar fyrir ferðamenn, einnig korta, kilju og bókaútgáfu, framleiðslu á skartgripum, fatnaði og vöru unnum úr jurtum. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp og framtíðarsýnin er sú að með tíð og tíma eignist fyritækið eigin verslun og muni hafi fleiri í vinnu en eigendur.

Eigendur fyrirtækissins eru þrír og er eignarhlutfallið jafnt. Það eru Birgitta Hrönn Halldórsdóttir Jóhanna Helga Halldórsdóttir og Þuríður Guðmundsdóttir. Heimilisfesta fyrirtækisins verður á Syðri-Löngumýri í Húnavatnshreppi og endurskoðandi er Ingibjörg Kirstinsdóttir sem rekur bókhaldsskrifstofuna Elfu á Skagaströnd.

Fyrstu vörur "Töfrakvenna" eru "Óskasteinninn" og "Draumasteinninn"sem eru skrautsteinar til gjafa. Þeir eru í pokum úr íslensku fánalitunum og með fylgir mantra á íslensku og ensku. Steinnin er í fallegum gjafakassa. Fleiri steinar eru væntanlegir með öðrum nöfnum og möntrum. Í prentun eru síðan spil með lógói fyrirtækissins og spil með íslensku jurtunum sem munu fljótlega koma á markað. Einnig er fyrirtækið að leita tilboða í prentun á fjórum kiljum sem eru tilbúnar til útgáfu. Einnig eru væntanleg spáspil sem nefnast "Töfraspilin" og er verið að vinna að hönnun þeirra fyrir fyrirtækið. Þetta ásamt fleiri hugmyndum er hugsað sem sumarsala fyrir sumarið 2010. Ekki er ljóst hversu hratt framleiðslan mun ganga,enda margir þættir sem spila þar inní. En hugmyndin er að eigendur hafi atvinnu af vinnu við fyrirtækið og síðan fleiri í framtíðinni.

Fyrirtækið TÖFRAKONUR / MAGIC WOMEN var stofnað 14. febrúar 2010.

Fyrirtækið TÖFRAKONUR / MAGIC WOMEN gefur út spil, bækur, kort, framleiðir skartgripi (HVERAVALLAGULL) og snyrtivörur, skrautsteina til gjafa og margt fleira.

TÖFRAKONUR / MAGIC WOMEN eiga heima á Norðurlandi vestra.

Símar:  452 7119, 452 7140, 553 5218

Netföng:  langamyri@emax.is, brandsstadir@emax.is, tury.moa@simnet.is

Fyrirtækið hefur mjög breiðan markhóp.

Í sambandi við gjafavörur fyrir ferðamenn er verið að hugsa um bæði kyn og allan aldur.  Skartgripir og ýmis önnur gjafavara er hugsuð fyrir yngra fólk. Spil, kort, handverk og bækur eru einnig hugsuð fyrir alla aldurshópa og bæði kyn.

Hugmyndin er að gefa út fréttatilkynningar þegar ný vara kemur.

Bjóða gjafavöruna á ferðamannastöðum til sölu og jafnvel auglýsa í netmiðlum. Fyrirtækið mun vera opið fyrir leiðum til kynningar á vörum sínum og jafnvel semja við dreifingaraðila eins og t.d. í sambandi við dreifingu á kiljum, bókum og fleiru.

Hér með er ég vonandi búin að auglýsa okkur pínu :) Er bara svo spennt yfir þessu skemmtilega verkefni :)

Annars er allt gott hjá mér. Ég vona að Guð gefi að við sleppum við ösku og ég bið líka um alla hjálp sem hægt er fyrir bændurna og fólkið þeirra á gossvæðinu. Það hryggir mig að hugsa um hvað þar er að gerast. En við skulum öll biðja Guð um að allt fari á hinn besta veg, við getum þó alltaf treyst á hann jafnvel þó að útlitið sé ekki alltaf gott.

Nú er mál að linni, verð fljótt hér, með fréttir af fólki, uppákomum og pólitík, en ætla að setja inn nýjar myndir.

Knús á ykkur öll.
  • 1