Færslur: 2010 Júní

25.06.2010 19:45

Kærkomnar kiljur


Aldeilis góður dagur þessi Jónsmessudagur. Það er ekki nóg með það að þetta sé uppáhaldstíminn minn á árinu heldur fengum við Töfrakonur í hendur þrjár nýjar kiljur, sem sé skáldsögurnar okkar Jóhönnu Helgu, sem einu sinni birtust sem framhaldssögur í "Heima er bezt". Við erum að vonum hamingjusamar með það og svo sannarlega vona ég að þær seljist allt hratt og vel, ásamt ljóðabókinni "Konfektmolum" sem við vorum búnar að fá í hendur örlítið áður. Þetta er alveg frábært og við þurfum svo sannarlega á því að halda að fá góðar móttökur og mikla sölu, þar sem við erum með ótal mörg verkefni í gangi og margar skemmtilegar vörur tilbúnar til framleiðslu þegar tími og fjármagn er til. En við erum bjartsýnar og vonandi fáum við þann meðbyr sem við þurfum til lað geta haldið áfram að vaxa á þeim hraða sem við óskum og hingað til hefur staðið. En góðar viðtökur, viðbrögð og klapp á bakið hefur komið víða að og erum við auðvitað þakklátar fyrir það.

Ég set þessa mynd þarna inn þar sem Jóhanna Helga afmællisbarn(hún á afmæli á Jónsmessunni) og fallegi nýklippti maðurinn minn eru að spá í og skoða "Hveravallagullið" góða sem Þuríður Töfrakona gerir svo snilldarvel. Verð að monta mig aðeins af þessu öllu saman því ég er bara svo ánægð með gang mála.emoticon

Mér sýnist reyndar að við "Húnvetningar" séum að taka við okkur og nú munu fyrirtæki og fleira skemmtilegt spretta upp með frábæra hluti. Við erum nú einu sinni með svo margt hjá okkur sem er svo spennandi og flott. Ég held að Blönduós sé alveg að fara að blómstra. Kannski er ég bjartsýn í dag, en Töfrakonur eru nú dálítið góðar að spá líka ;) Og hafa oftar en ekki rétt fyrir sér. Bara svo þið vitið það þá taka þær líka að sér að spá :)

Ég verð eiginlega að segja ykkur frá því að tvo síðustu daga hef ég verið á ferðinni að dreifa hér á svæðinu kiljunum okkar og fleiri vörum frá okkur. Í gær fór ég í Skagafjörðinn, Varmahlíð og KS. Fékk alveg dásamlegar móttökur. Í dag fór ég á Hvammstanga, Víðigerði og Blönduós. Ég get sagt  ykkur að það er ómetanlegt hvað fólkið hér tekur okkur vel og vill allt fyrir okkur gera. Ég vona að þau öll fái jákvæðnina sína og elskulegheitin til baka margfallt. Ég er því bara enn með bros á vör og þakklæti í hjarta.

En fyrst að ég er svo upptekin af Töfrakonum þá langar mig að kjafta í ykkur því sem er framundan hjá okkur. Það er búið að hanna fyrir okkur mjög falleg og jákvæð "Töfraspil". Ég gerði texta og systir mín Ólöf Haraldsdóttir teiknaði fyrir okkur mjög fallegar myndir við þau. Vonandi komast þau sem fyrst í prentun. Einnig er á döfinni að prenta mjög falleg samstæðuspil með jurtamyndum sem Þuríður hannaði. Síðan er vonandi stutt í þriðja töfrasteininn sem ber nafnið "Heilunarsteinninn". Töfraspreyið okkar er alveg að detta í búðir og er mjög spennandi vara. Það er einnig að koma ný lína í "Hveravallagullið", en það hefur hlotið mjög mikið lof. Allt er að gerast. Bóka og kiljuútgáfan er líka bara rétt að byrja og við erum auðvitað mjög spenntar með þetta allt saman.Þið ættuð bara að vita hvað hún Jóhanna á í fórum sínum og hefur hvergi verið birt emoticon  Verkefnin tengd heimabyggð eru komin á koppinn en ég má nú víst ekki kjafta öllu sama daginn. Það mun upplýsast mjög fljótlega hvað við erum að gera í því og ég hlakka mikið til........


Langar að segja ykkur líka frá því að Sigga vinkona mín Svavars. kom við hjá okkur um daginn. Alveg sérlega gaman að fá hana í heimsókn. Ingi sæti keypti handa mér "bænastól" af henni sem ég nota núna við hugleiðslur og annað slíkt. Alveg ótrúlega snjallt. Vissi bara ekkert hvað hún var að tala um fyrst en svo prófaði ég og komast að því að það er mjög gott að sitja á þessu, bakið er alveg beint og orkuflæðið því fullkomlega rétt. Hún Sigga er snillingur.

Þetta er bænastóllinn :)

Bara svo þið haldið ekki að ég sé að vanrækja fjölskylduna mína þá get ég upplýst ykkur um að við höfum það fínt. Það er verið að plana að laga eitthvað til í kringum húsið, vonandi fæ ég pall eða hellur sem ég get flatmagað á með einhverju skjóli. Ég elska að liggja í sól........... Ingi segir reyndar að hann ætli að fylla allt í kring með sandi, ég sé hvort sem er alltaf að biðja um að komast í sand og flatmaga þar.............við sjáum nú til. Allavega er Bjarni búinn að koma og kíkja á málið, og það sem best er að hann er sammála mínum hugmyndum að öllu leyti.

Við erum svo heppin að Gunnar og Lilja eru búin að vera hjá okkur í nokkra daga. Gunnar er mesta hamhleypa til vinnu, eins og allri vita sem til þekkja, og ég lifi eins og blóm í eggi. Karlarnir fara í fjósið og ég dúlla mér............hehehe........eða er á rúntinum fyrir Töfrakonur. Guðbjörg er alsæl að hafa vinkonu sína hjá sér. Svo  hefur nú Alma vinkona verið hjá henni í heimsókn svo að hún er alsæl. Eitt af gleðifréttum hennar er líka að Magnea vinkona  hennar verður hjá ömmu sinni og afa í Litladal í vetur, svo að mín hlakkar mikið til skólans. Það verða svo miklar breytingar hjá henni næst. Nú er hún orðin stór stelpa, fer í stóraskóla og verður í samkennslu með tveim eldri árgöngum. Þetta er allt mjög spennandi. Hún er líka himinsæl með kennarann sinn. Magdalena mun verða umsjónarkennarinn og það er alveg frábært. Guðbjörg hefur alltaf hlakkað til að fá að vera hjá henni. En eitt er víst, við mæðgur kvíðum ekki haustinu, heldur gleðjumst yfir hverjum góðum degi sem er. Við erum báðar alveg vissar um það að sumarið verður yndislegt og líka haustið og komandi vetur með öllum sínum spennandi hlutum. Hið liðna skilur eftir góðar minningar og framtíðin verður björt, en það sem skiptir máli núna er að njóta augnabliksins.
Má til með að setja inn þessa mynd. Þetta eru Arnheiður frænka á Eyvindarstöðum og Einar Bjarni og Höskuldur frá Mosfelli. Yndislegt ungt fólk sem við vorum í útskriftarveislu hjá um daginn. Hún var haldin í Dalsmynni með miklum myndarbrag eins og allt sem þessar fjölskyldur taka sér fyrir hendur. Mæðurnar Sísa og Fanney eiga enga sína líka á þessu sviði. Verð bara að segja að þessi þrjú eru alveg yndisleg eins og svo margt af fallega unga fólkinu okkar. Af Halldóri mínum er það að frétta að hann er að vinna í Blönduvirkjun, sem er gott og bíður í ofvæni eftir að hitta sætu kærustuna sína á Hólmavík :)

Við höfum reyndar verið mjög veisluglöð þetta vorið. Þann 17. vorum við í fermingarveislu Atla Einarssonar í Húnaveri. Virkilega glæsilegt og vel heppnað. Þetta er líka svo flottur og góður strákur.

Ætla að koma inn nýjum myndum og láta þetta duga í bili. Endilega verið dugleg að tjá ykkur um síðuna mína og skoða. Ætla líka að bæta inná smásögurnar og Töfrakonurnar. Vona að þið eigið öll góða daga með frið í hjarta og bros á vör :)

04.06.2010 22:25

Konfektmolar

Kæru vinir, þetta er dagurinn sem sannarlega er til þess fallinn að skála eða dansa,  hoppa um og öskra af gleði. Það er ekki bara vegna þess að Jón Gnarr er orðinn borgarstjóri, nei ónei, það er vegna þess að fyrsta bók Töfrakvenna kom út. "Konfektmolar" eftir Jóhönnu vinkonu mína á Brandsstöðum er komin út, til sölu hjá okkur, á Skagaströnd og eftir helgina hjá Hrafnhildi í blómabúðinni og fleiri stöðum. Sko... þið sem viljið kaupa endilega hafið samband, við erum að springa úr stolti. Trúið mér, ljóðin hennar Jóhönnu eru í senn grípandi, áreitin, falleg, þau eru  bara allt. Ég vona að þið kaupið þau og svo bækurnar okkar, hverja af annari. Það eru alveg að koma þrjár kiljur til viðbótar sem eru skáldsögur ( eftir mig og Jóhönnu) sem birst hafa í Heima er bezt. Eins og maðurinn sagði : " Ef ég ætti vodka þá myndi ég fá mér vodka og kók, ef ég ætti kók". En þar sem ég er hætt að drekka bæði vodka og kók þá ákvað ég bara að blogga í gleði minni. Við Töfrakonur, erum sem sé ALLAR hoppandi skoppandi glaðar.

En við ykkur vil ég segja: Við Töfrakonur erum að gefa út efni eftir okkur sjálfar og við viljum líka í framtíðinni líka gefa út efni eftir ykkur. Við ætlum að gefa út alskynss efni frá Norðurlandinu svo endilega hafið samband ef þið lumið á einhverju áhugaverðu sem þið viljið fá útgefið. Auðvitað lofum við engu, en við ætlum að vera metnaðarfullar og gera vel. Við höfum á stefnuskránni að gefa út fróðleik, glens og gaman úr Húnavatnssýslu og endilega hafið sambandi ef þið vitið af efni sem þarf að komast í útgáfu, því að þó að Húnavakan sé góð þá þarf meira til svo að arfur okkar glatist ekki. Við erum sem sé að safna vísum, gamansögum, fróðleik og ýmsu fleiru. Endilega látið okkur vita af þið lumið á efni.

Fyrst við minnumst á Húnavöku þá langar mig að þakka fyrir þessa sem nú er nýkomin út. Ég á smásögu í henni svo að Jóhann í Holti færði mér bókina heim í eldhús, sem var mjög skemmtilegt, Það er margt gott í þessari Húnavöku eins og endranær en mér fannnst samt mest gaman að lesa um konur sem hafa flutt hingað. Þó að það sé gaman að tala við gamla og gróna Húnvetninga, þá var þetta sko aldeilis kærkomið uppbrot.

Áður en að ég sleppi alveg talinu af Töfrakonum þá langar mig að koma á framæri að í sumar munu konurnar sem eru með Spákonuarfinn á Skagaströnd selja vörurnar okkar, einnig Hrafnhildur í Blómabúðinni á Blönduósi, þau hjónakorn í Húnaveri, við sjálfar og fleiri. Ef þið hafið spurningar endilega hafið samband við okkur og látið vita. Við ætlum okkur stóra hluti, við höfum fulla trú á sjálfum okkur, en við ætlum að vera skynsamar og hafa útgáfu og framleiðslu eftir efnum og aðstæðum. Það er líka margt spennandi framundan. T.d. stefnum við að því að vera mað spákonunum á Skagaströnd á Kántrý sem er bara fullkomlega frábært. Við erum sko opnar fyrir öllum skemmtilegum hlutum og við viljum gjarnan að sem flestir hafi samband.

Ég viðurkenni að ég er nú ansans ári syfjuð eftir sauðburðinn sem er að renna sitt skeið. Sjö ær og gemlingur eru óborin og ég bíð bara eftir að þau klári. En vorið er búið að vera okkur afar gott, bæði veðurfarslega og pólitískt. Það að Þóra vann svo mikinn sigur hjá okkur í Húnavatnshreppi er auðvitað bara sérlega frábært. Er varla búin að ná mér niður eftir kosningar og naut þess í botn að vera með einhverskonars tilbúið kæruleysi, en auðvitað á hver og einn að ráða sér. Það er ekki amarlegt að fara frá slíku borði og í staðinn ganga inn fjórir frambærilegir og flottir einstaklingar, enda erum við Biggi Upp alveg alsæl.
 Mér finnst Þóra sérlega flott oddvitaefni. Þau eru auðvitað öll góð, en Ingibjörg er komin til að vera. Svona á lífið líka að snúa. Flottar konur í flottum hreppi, alveg töfrandi :) Veit að Elistinn á eftir að standa sig vel.

En nú er Óli lokbrá kominn. Farið vel með ykkur kæru vinir.


  • 1