Færslur: 2011 Mars

29.03.2011 23:01

Knús í hús

Ég lofaði að setja inn myndir af bolunum og hér er ein en eins og sjá má er merkingin mjög skemmtileg, endilega látið vita sem fyrst ef þið viljið kaupa.
Þetta er sem sagt hinn eini sanni Töfrakonubolur "Knús í hús".
Vil endilega minna ykkur á að við "Töfrakonur" eigum margt til gjafa í fórum okkar fleira en boli, skartgripi (Hveravallagull), rúnir, óska-,drauma- og heilunarsteina, lopapeysur, barnasett (peysu og húfu) húfur, íslenskar rúnir, kiljur, kort og smyrsl, einnig töfrasprey og sitthvað fleira t.d. dálítið af gömlu bókunum mínum. Allt þetta er á mjög góðu verði núna, enda þurfum við að rýma fyrir sumarvörunum sem koma vonandi áður en vorið gengur almennilega í garð.

Í sumar verðum við komnar með  nýtt Hveravallaskart, hálsmen sem er tileinkað Höllu og Eyvindi og eru möntrur(ljóð) sem fylgja þeim. Þetta men er gert úr íslensku hrauni og með silfurkrossi. Þetta eru sem sé verndargripir þessara hálendishjóna sem eiga sér svo dásamlega sögu.  Þetta er skemmtileg viðbót við laufin okkar og orkusteinahálsmenin. Við höfum gefið út bækling um Hveravallagullið okkar og í vinnslu er barnabók eftir mig með teikningum eftir hina frábæru listakonu Ernu Hrönn Ásgeirsdóttur. Get ekki beðið eftir að fá hana í hendur :)

Fallegu fyrirsæturnar mínar.

Það er margt svakalega spennandi framundan og við vonum bara að við fáum góða sölu svo að allt gangi sem best :)

29.03.2011 15:42

Vorið komið

Nokkuð ljóst að vorið er komið. Allavega er allt annað hitastig hér þó enn sé örlítið hvítt út að líta, þá er óneitanlega komin allt önnur tilfinning í kroppinn bæði á mönnum og skepnum.
Þessi skondna mynd var nú tekin í miklu frosti í vetur þar sem Halldór sonur minn var búinn að fá nóg af kuldanum og grillkjötsleysinu svo að hann tók til sinna ráða að grilla inni í hlöðu.
Hérna sést svo árangurinn en á þessum tímapunkti var hann búinn að fæða okkur hin :)

Af okkur er bara gott, ýmislegt hefur auðvitað gerst á þessum vetri og kem ég með meira um það síðar. Af Töfrakonum er það að segja að nú erum við með til sölu bráðfallega svarta boli sem á stendur "Knús í hús" með gylltum stöfum og rautt hjarta fyrir ofan, set fljótt inn myndir. Eigum nokkrar stærðir svo endilega pantið hjá okkur, upplagið er takmarkað. Ástæðan fyrir þessari bolahugmynd er sú að við Jóhanna fengum töluverða athygli á þorrablóti sveitarinnar,þar sem tveir ágætir góðbændur léku okkur og vorum við þá fljúgandi á kústum og á facebook með "knús í hús". Þótti okkur upplagt að grípa hugmyndina enda jákvætt að bera hjarta framan á sér með þessari áletrun.

Af búskapnum er það að segja að allt gengur sinn vanagang. Við fórum eina helgi til Reykjavíkur, fórum á fimmtudagskvöldi og komum á sunnudagskvöldi. Vorum sem sé þrjár nætur á Radison Saga, sem var frábært eins og alltaf. Guðbjörg, Halldór og Dagrún voru með okkur, en fyrir þá sem ekki vita er Dagrún kærastan hans Halldórs. Var mjög gott að komast aðeins frá og allra besta var þó að við vorum með alveg frábæran afleysingarmann, Höskuld á Mosfelli. Allt var eins og þegar við fórum utan við það að umgengnin hafði batnað til muna og greinilega sópað oftar :) Aldeilis frábært. Hef hugsað mér að semja við þennan dugnaðarpilt oftar.

Má til með að setja inn eina mynd af Guðbjörgu minni sem þarna er að bíða eftir skólabílnum. En þessa dagana bíður hún þó aðallega eftir Völu sem er Glókollsdóttir frá Dalsmynni og kemur væntanlega fljótlega til að alast upp hjá pabba sínum. Við erum eins og venjulega öll í hundunum. Við eigum enn tvo hvolpa úr haustgotinu hennar Skessu, en þeir eru nú sex mánaða og alveg tilbúnir til að temja þá. Þeir hlýða nöfnum og ýmsu fleiru en ekkert farið að segja þeim til. Þessa pilta vantar pláss á góðum smalaheimilum, svo hafið samband ef þið viljið :)
  • 1