Færslur: 2011 Október

26.10.2011 15:10

Til þeirra sem stunda reikiheilun.

Kæru vinir:)


Mig langar til að deila með ykkur aðferð sem ég hef verið að nota í sambandi við reikivinnuna.  Við eigum öll okkar bænir, óskir og þrár sem við viljum vinna með, bæði fyrir okkur sjálf og einnig til að bæta heiminn. Staðreyndin er sú að alltaf gengur nú allt best þegar við vinnum saman, deilum hvort með öðru því sem okkur finnst gott og gerir okkur gagn. Það er ástæðan fyrir að ég ákvað að setja á heimasíðuna mína þessa reiki-hreinsun-heilun-blessun. Þetta kom til mín einn daginn og er svipað öðrum blessunum sem ég hef kynnst og mér finnst virka mjög vel inná öll svið í mínu lífi og vonandi þínu líka.


Sumir eiga mjög erfitt um þessar mundir, einnig þeir sem eru andlegir og eru að vinna á þeim sviðum. Við verðum öll að muna að við erum mannleg og saman skulum við hjálpast að við að gera heiminn betri, hækka orkuna okkar og heila okkur sjálf. Við þurfum á hvort öðru að halda. Við skulum vera dugleg að vinna með heilun á hvaða sviði sem við erum að vinna, vera jákvæð í hugsun og muna að dæma ekki, það er venjulega einhver ástæða fyrir öllum hlutum. Verum góð hvort við annað, alltaf. Notum bænina, hún er sterkasta aflið.


Ég ber fulla virðingu fyrir öllum heilunaraðferðum og einum hentar þetta og öðrum hitt. Í mínu lífi hefur reikið virkað mjög vel og því langar mig að deila þessari viðbót til þeirra sem stunda reikiheilun.

     

Reiki-hreinsun-heilun-blessun.

 

Sitjið í stól eða sofa, algjörlega slök. Verið berfætt og látið iljar nema við gólf. Í lófa ykkar liggur blað þar sem þið hafið skrifað á óskir ykkar og þrár, nákvæmlega niðursettar. Hafið bænirnar hnitmiðaðar og ekki fleiri en svo í einu að þið náið að hugsa um það sem er á blaðinu.

 

Þið slakið vel á og opnið fyrir reikiorkuna á bænirnar. Segið upphátt eða í huganum eitthvað á þessa leið: Ég bið um algjöra hreinsun, heilun og blessun á allt það sem á þessu blaði stendur, á allar mínar bænir og ég bið um að þetta virki fullkomlega fyrir mig og fjölskyldu mína á öllum sviðum lífsins, við allar aðstæður og á öllum tímum. Ég bið um að allar bænir sem upp í hugann koma á meðan á hugleiðslunni stendur fái einnig alla þá hreinsun, heilun og blessun sem þær þurfa á öllum tímum og við allar aðstæður á öllum sviðum. Ég bið um að öll sárarbrot og sálarkrækjur sem ég kann að hafa séu hreinsuð frá mér og einnig þær sálarkrækjur og sálarbrot sem ég hef krækt í aðra séu afturkölluð og endurleyst á öllum sviðum svo að ég sé algjörlega laus undan öllum áhrifum nema mínum eigin. Ég bið um fullkomna jarðtengingu fyrir mig og fjölskyldu mína sem virkar á öllum sviðum nú í fortíð og framtíð, við allar aðstæður alltaf. Ég bið um fullkominn kærleika á öllum sviðum lífsins við allar aðstæður og á öllum tíma. Ég bið um fullkomana hreinsun, heilun og blessun.

 

TAKK FYRIR, ÞAÐ ER GERT, ÞAÐ ER GERT, ÞAÐ ER GERT.

 

Nú skuluð þið taka nokkrar mínútur í að hugsa um bænablaðið ykkar og allt sem á því stendur. Njótið stundarinnar og leyfið einnig upplýsingum að flæða til ykkar hvort sem er í myndum, setningum inní höfðinu eða hugsun. Gott er að hafa blað við hendina og punkta niður ef upplýsingar koma því að þær vilja oft hverfa um leið og við förum úr alfaástandinu.

 

Sitjið og njótið eins lengi og þið viljið og þakkið síðan fyrir.


Megi þessi ljóssins dagur veita ykkur kærleika og frið.  Guð blessi ykkur öll.

 

 

17.10.2011 21:15

Bloggað á köldum degi

Það má með sanni segja að það hafi verið kalt í dag. Rigning, slydda, hríð, rok, þetta allt og eitthvað fleira var það sem veðrið bauð okkur uppá í dag. Dagurinn var nú samt um margt ánægjulegur þrátt fyrir ömurlegt veður. Ráðunautarnir komu og skoðuðu lömbin hjá okkur og mældu hátt og lágt :) Okkur til aðstoðar voru Litladalshjón og Höllustaðasettið hið yngra svo að við vorum nú ekki illa stödd. Anna Magga og Kristján mættu svo hér og það var glatt á hjalla og frábært að fá þau öll. Þetta gekk allt alveg ljómandi vel og nú erum við búin að taka frá lífgimbrarnar hjónin og þá er nú mikið frá. Það er aldrei gaman að velja úr þessum elskum sem eru allar svo fallegar og fínar. Svo eru heimkomnir tveir Strandagaurar sem trúlega reyna að ganga í augun á stelpunum þegar líður að jólum.En þó að kalt sé í veðri hafa þeir félagarnir Ingi og Glókollur nú brugðið sér út úr húsi stöku sinnum til að finna eftirlegukindur og sinna hinum ýmsustu verkefnum en það hefur gengið heldur hægar með "sólpallinn", eins og sést á meðfylgjandi mynd. Það er mun notalegra að leggja sig í skjóli og spjalla í símann við fjallskilastjórann en smíða enda margt að ræða. Myndin er allavega góð ;) Myndgæðin minnka greinilega með aðdráttarlinsunni en tommustokkurinn er á sínum stað.

Annars ganga hauststörfin vel. Halldór sonur okkar vinnur á Sláturhúsinu á Blönduósi og gengur vel. Það er brjálað að gera þar enda verður slátrað um 100þúsund fjár hef ég heyrt. En strákurinn er að vinna á frystinum með úrvals liði og ber sig vel. En Halldór Ingi varð 19 ára á dögunum. Af því tilefni tók ég myndir af eldri gullmolanum á bænum þar sem hann var kominn heim í afmælismat til móður sinnar og föður klæddur vestinu góða sem hann fjárfesti í á Flóamarkaði Leikfélags Blönduóss.Nítján ára, vá ég sem held enn að ég sé nítján :)Engin smá forréttindi að eiga svona snilling :)

En eins og ég hef sagt þá erum við bara nokkuð góð. Ánægð með það sem komið er í sláturhús, ljómandi vikt og ágæt gerð. Við þurfum sko ekki að kvarta yfir lömbunum, þau standa sig.

Það gengur líka vel í skólanum hjá Guðbjörgu. Hún var að koma úr afmæli hjá Sóley Maríu í Húnaveri rétt í þessu. Það er búin að vera afmælishrota á bæjunum. Í gærkvöldi var 1 árs afmæli Emilíu frænku okkar í Brúarhlíð og kvöldið áður tvöfalt afmæli í Húnaveri. Við Löngumýrarfólk erum enn stútfull af kræsingunum af báðum bæjum, enda konurnar þar sérlega góðir kokkar.

Löngumýrarliðið er sem sé frekar bratt en það mætti vera hlýrra ..............Þrátt fyrir kulda hefur Ingi bóndi ekki slakað á veiðiskapnum og er hér ein sönnun þess. Það var frekar kalt í Friðmundarvatni nú á dögunum er þessi kom á land enda fjandans vöðlurnar farnar að leka.......................

Farið vel með ykkur :)


  • 1