Reiki

Reiki, náttúruleg aðferð til heilunar.

            Reiki (rei - ki) er samsett orð úr tveim japönskum orðum. Reiki er japanskt orð yfir alheimsorku. Það er kerfi náttúrulegrar heilunar þar sem Reiki orkan kemur gegn um hendurnar. Reiki er náttúruleg aðferð til að komast í samband við alheimsorkuna. Það er hægt að komast í samband við alheimsorkuna á margan hátt, en Reiki er einföld aðferð til þess.

            Hefðbundnir læknar í Asíu nota aðferðir sem þessar. Þeir skoða sár, truflanir á starfssemi líffæra og mein. Þeir kanna hvort hárfín lífsorkan er veik eða komin úr jafnvægi. Tai Chi, nálastungulæknar, hómópatar, iðkendur Hata Yoga, Shiatsu, Polarity, manneldisfræðingar, rafsegullæknar og náttúrulæknar eru allir á sömu leið og vinna með hina hárfínu lífsorku, áruna og náttúruorkuna.

            Aðgangur að Reiki er uppspretta að heilbrigðara lífi fyrir fólkið sjálft og aðra á andlegu-, huglægu-, geðlægu, tilfinningalegu og efnislegu sviði. Reikiorkan gerir fólki kleift að líða betur, bæta við þroska sinn, koma jafnvægi á líf sitt og breyta neikvæðum hugsunum sínum í jákvæðar. Einnig að viðhalda hreysti, losa sig við sársauka, öðlast hugarró og ná hámarks árangri.

            Reiki eykur og flýtir fyrir öllu heilunarferlinu. Það getur verið árangursríkt að nota Reikiorkuna á tilfelli sem bregðast ekki við öðrum meðferðum. Reiki má nota samhliða öllum öðrum lækningarmeðferðum.

            Uppbyggjandi og þroskandi orka er kjarni allrar heilunar. Dr. Albert Schweizer sagði: Við læknar gerum ekkert. Við hjálpum aðeins og hvetjum læknirinn í sjálfum þér.

            Reiki er andleg orka sem kom með fræðslu Budda. Einnig er vitað að Kristur notaði þessa aðferð og ef til vill fleiri meistarar. Budda veitti nemendum sínum þessa fræðslu með hugleiðslutækni sem var byggð á sjálfsskilningi hans. Löngu seinna (1800 árum) fannst sérstök formúla sem veitir aðgang að alheimsorkunni. Formúlan fannst í Sanskrítarhandritum í klaustri í Kyoto af skólameistara sem leitaði að þekkingu um það hvernig Budda hafði kennt um heilun. Mikao Usui var að hugleiða hvað hann hafði lært þegar hann upplifði yfirskilvitlega vígslu. Árangur þess var geta hans til að heila með höndunum og að senda heilun hvert sem var, fjarheilun. Seinna skildi hann að reynslan af Guði var mikið meira grundvallaratriði til fullnægju á ætlunum hans í lífinu en orkan til heilunar. Hún var í raun eins og bónus.

            Reiki er kjarni sem kemur frá uppsprettu lífsins. Síðan Reiki útbreiddist er það örvandi þáttur í persónulegum þroska og þróun, hver sem trú manna er. Reynsla af Reiki er góð leið til að verða meðvitaður um okkar eigin hirðuleysi um trú okkar og hugmyndir.

            Meðfædd geta til að miðla heilunarorku gegn um hendurnar er vakin upp með röð af innstillingum, vígslum, sem stilla og hreinsa orkurásirnar í gegn um líkama og hendur. Reiki er ekki trúarregla. Veröldin þarfnast ekki annars.

            Allir geta lært Reiki, það er mjög einfalt.

            Reiki...

                        ... losar stress og sársauka.

                        ... slakar á vöðvakrampa.

                        ... losar tilfinningalegar stíflur.

                        ... flýtir fyrir eðlilegum bata.

                        ... örfar ónæmiskerfið.

                        ... kemur jafnvægi á líkamsorkuna.

                        ... er óháð trú.

                        .. má nota jafnhliða öllum öðrum lækningaraðferðum.

                        ... er árangursríkt á þráláta og bráða sjúkdóma eða meiðsl.

                        ... geta allir lært.

                        ... er notað með höndunum.

                        ... er hægt að senda hvert sem er.

                        ... er leið kærleikans.

                        ... er fullkomlega öruggt og gott.

                        ... verndar iðkandann.

                        ... er alheimsorka.

            Eina leiðin til að skilja Reiki er að upplifa það.

            Ef þú hefur áhuga á meðferð hafðu samband við Reikiiðkanda eða Reikimeistara.

            Ef þú hefur áhuga á að verða Reikiiðkandi hafðu samband við Reikimeistara.


                         
Heilun, með alheimsorku.

         Mig langar með nokkrum orðum að tala um Reiki, þessa einstöku heilunaraðferð sem ég var svo heppin að fá að læra hjá Guðrúnu Óladóttur reikimeistara. Mig langar til að byrja á að segja ykkur dálítið frá minni reynslu, en síðan fjalla um Reikið, sögu þess og nokkrar staðreyndir sem gott er að vita.

         Það eru fjórtán ár síðan ég kynntist Reiki í fyrsta sinn. Einhver hafði sagt mér frá þessari heilunaraðferð, en þá hafði ég verið að kynna mér ýmislegt og farið á mörg námskeið sem tengjast andlegum eða dulrænum efnum. Öll þessi námskeið voru góð og gild og margir góðir punktar sem sátu eftir. Samt var ég ekki búin að finna það sem ég hafði verið að leyta að. Eitthvað sem ég gæti gert að hluta af mínu daglega lífi mér og mínum til góðs. Það fann ég síðan í Reikinu.

         Fyrst fór ég í þriggja daga meðferð hjá karlmanni sem hafði tekið I. og II. stig í Reiki. Hann vann með meðferðir á fólki og ég var svo heppin að komast til hans. Ég var ekki líkamlega veik, en orkukerfið var í ólagi, ég reykti mjög mikið á þessum tíma og hóstaði mikið. Ég veit núna að ég var líka algjörlega ójarðtengd og var alltaf kalt á fótunum. Blóðrennslið var ekki í lagi. Í þessari þriggja daga meðferð lagaðist fótkuldinn, ég fann mikinn mun á jaðtengingunni og næstu daga á eftir hóstaði ég upp úr lungunum þvílíkum sora að mér var bara ekki sama. En að sjálfsögðu leið mér miklu betur eftir. Þessi ágæti maður útskýrði eðli Reikissins fyrir mér og sagði mér að með því að læra I.stig gæti ég haldið sjálfri mér í jafnvægi og unnið með mig og mína.

         Eftir þessa reynslu bókstaflega varð ég að komast á námskeið í Reiki. Það gekk nú ekki átakalaust, enda bý ég úti á landi og erfitt að finna út úr því. En ég skildi seinna að það var einfaldlega verið að beina mér til rétts meistara og er ég óendanlega þakklát fyrir það. Það var svo á endanum að ég komast á námskeið hjá Guðrúnu Óladóttur og það breytti lífi mínu mjög mikið. Nú var ekki aftur snúið, ég varð að halda áfram. Það var eitthvað sem rak mig áfram. Ég komst á mikið skrið, leið mjög vel og fann hve vinnan með þessa tegund heilunar hjálpaði mér að ná líkamlegu og andlegu jafnvægi. Ég tók síðan á næstu árum II.og III. stig í reiki og fór síðan í meistaraþjálfun hjá Guðrúnu. Þó svo að ég sé að segja ykkur frá reynslu minni megið þið ekki halda að það sé nauðsyn að taka allt námið, öðru nær. Fyrsta stigið er nægjanlegt fyrir mjög marga og hægt með þeirri þekkingu að vinna með alla þá sem eru hjá manni, sjálfa sig og aðra. Margir taka líka I. og II. stig til þess að geta einnig unnið með fjarheilun.

         Það var mér mjög lærdómsríkt að vera í þessu námi. Ég lærði margt til þess að vinna með aðra, fór að setja lífið í annað samhengi og síðast en ekki síst, ég lærði heilmargt um sjálfa mig. Guðrún hjálpaði mér að skilja hvers vegna ég væri með brjósklos einmitt á þeim stað sem ég var með og heila það. Hún sýndi mér samhengi minnar andlegu líðanar og líkamlegu. Ég fór að skilja orsakir veikinda og líf mitt var sem nýtt. Með því að læra um orkustöðvar líkamans og hvernig allt spilar saman, opnaðist mér nýr heimur.

         Ég var mjög heppin með það að fá "fórnarlömb" til að vinna með. Þegar ég kom heim af I.stiginu var strax fólk sem vildi koma í meðferðir til mín og einnig var fjölskyldan mjög dugleg að nýta sér þessa nýju aðferð. Ég hef á þessum árum unnið mikið með Reikið bæði fyrir sjálfa mig og aðra og tekist það sem ég óskaði að gera það hluta af mínu daglega lífi. Í starfi mínu sem bóndi nýtist þessi þekking afar vel og bæði dýr og börn eru óhrædd við að nýta sér orkuna sér til hjálpar. Það er til dæmis mjög gott að nota Reiki þegar dýr eru að fæða og reyndar við hvað sem er eins og hjá mönnum.

         Eftir að ég útskrifaðist sem Reikimeistari fór ég strax að kenna. Vinir mínir hér fyrir norðan biðu eftir að ég kæmi heim. Það var mjög mikil hvatning að vita að mín biðu strax námskeið, fleiri en eitt og fleiri en tvö. Námskeiðahaldið hefur gengið vel. Ég er alltaf að kenna öðru hvoru, en þar sem ég er líka, móðir, bóndi og rithöfundur verð ég skiljanlega að skipta tíma mínum og mér hentar mjög vel að hafa þetta allt inni í mínu lífi. Ég hef líka notað Reiki mjög mikið á börnin mín og hefði ekki viljað missa af að hafa það eftir að ég eignaðist þau. Reyndar get ég í dag als ekki hugsað mér lífið án þess að hafa aðgang á þennan hátt að alheimsorkunni. Nú hef ég einnig sjálf þjálfað meistara og finnst það dásamlegt að hafa fengið að taka þátt í að breiða Reikið út. Fyrsti meistarinn sem ég þjálfaði var Þuríður Guðmundsdóttir grasalæknir. Það er frábært að sjá hvernig hún nýtir sér þessa aðferð við smyrslin sem hún er að búa til, sem og annað. Það sýnir glökkt hve vel er hægt að nýta sér alheimsorkuna í allri vinnu, ekki einungis við heilun manna og dýra  heldur allt sem er lífrænt.

         Á Íslandi eru í dag starfandi margir reikimeistarar og hefur Guðrún Óladóttir þjálfað þá flesta, enda var hún fyrsti reikimeistarinn hér og má segja að það séu hennar verk að innleiða Reiki á Íslandi. Fyrir mér er það mjög jákvætt og því fleiri því betra. Reiki er orka sem allir geta unnið með óháð trúarbrögðum, aldri, búsetu eða hverju sem er. Reiki er eitthvað sem allir geta nýtt sér. Þetta er aðferð þar sem allir sem hafa lært geta nýtt sér hvenær sem er, hvort sem ástundunin er mikil eða lítil.

         Síðustu fjögur ár hef ég verið með færri námskeið og gefið börnunum mínum meiri tíma. Þó hef ég unnið geysilega mikið með Reikið og finn að eftir því sem tíminn líður næ ég að halda mér og mínum í enn meira jafnvægi, en það skiptir öllu máli. Ég á því láni að fagna að Jóhanna Halldórsdóttir, annar reikimeistari sem ég þjálfaði býr hér rétt hjá svo að nú hafa Húnvetningar okkur tvær. Það er óskaplega gott að geta vísað á aðra líka vegna þess að Reiki snýst ekki um að gera allt sjálfur, heldur virkja fólkið sjálft og vinna saman.

         Þó svo að ég sé að mæla með Reiki þá veit ég að til eru ótalmargar heilunaraðferðir og misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Hver og einn verður að finna sína leið, en öll þörfnumst við aðferða til að losa okkur við stress og halda okkur í jafnvægi. Ég hef alltaf haldið því fram að hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar fari afar vel saman. Þó að ég sé að vinna með heilun er ég als ekki að fara inn á svið læknanna, sjúkdómsgreina eða gera neitt það sem fagaðilar í þeim fögum eiga að vinna, öðru nær. Við sem vinnum með Reiki bendum fólki á að fara til læknis, fá sjúkdómsgreiningu, vera dugleg að taka lyfin sín o.s.frv. Hins vegar getur það nýtst fólki vel að fara í heilun með hefðbundnum lækningaraðferðum.

         Það sem skiptir mig kannski mestu máli í minni reynslu, fyrir utan það að hafa getað verið tengiliður alheimsorkunnar, er að með því að byrja að læra Reiki fór ferli af stað, sem mér finnst mjög jákvætt. Ég einfaldlega fór að þroskast á annan hátt, fór að kunna að meta það sem ég átti, gat, heilsuna mína, lífið sjálft og allar þær dásemdir sem það hefur uppá að bjóða. Ég fékk líka aukið sjálfstraust og betri líðan. Áður en ég fór í þetta nám hefði ég aldrei ímyndað mér að ég myndi nokkru sinni kenna nokkuð, eða standa fyrir framan fólk og tala. Ég hafði mjög lítið sjálfstraust og sjálfmynd. Það hefur breyst og ég er mjög ánægð í dag.

                                    Almennt um Reiki.

         Reiki er japanskt orð og þýðir "Alheimsorka"

         Alheimsorku er fyrst getið í 2500 ára gömlum Tíbenskum ritum og var enduruppgötgvað af Dr. Mikao Usui í Japan á nítjándu öld. Þessi náttúrulega lífsorka virkar á öllum sviðum einstaklingsins. Reiki er hreinsandi, orkugefandi og stuðlar að almennri vellíðan og þroska einstaklingsins.

         Orkan flæðir í gegnum hendur iðkandans og viðkomandi getur beint henni að sjálfum sér, öðrum einstaklingum jafnt sem dýrum og plöntum.

         Við fæðumst öll með Reiki, það sem þarf til að virkja þessa endalausu alheimsorku er viljinn til að læra og vígslurnar sem gefnar eru á námskeiðum.

         Það er ekki krafist nokkurrar forvinnu, þjálfunar né þekkingar, einungis löngunarinnar til að vera ómengaður leiðari hreinnar lífsorku.

         Að gerast Reiki iðkandi hefur djúpstæð áhrif á viðkomandi. Það færir aukinn þroska, breytingar og blessun inn í lífið.

         Fólk verður fært um að:

-   Miðla heilunarorku gegnum hendurnar.

-   Upplifa hærra orkusvið.

-   Þroska sálar og innsæisvitund.

-   Jafna lífsorkuna, m.a. orkurásir, orkustöðvar(chakra), eitlakerfi, vinstra og hægra heilahvel.

-   Eykur sjálfstraust.

-   Fólk verður sáttara við sjálft sig.

-   Lærir að virða/meta annað fólk eins og það er.

-   Að tala sannleikann án þess að dæma aðra eða kenna um.

-   Að meta/vera þakklátur fyrir það sem maður er.

-   Að taka ábyrgð á sínum eigin gjörðum og lífi.

-   Treysta sínu innra sjálfi fullkomlega.

-   Að hafa kærleikann ávalt að leiðarljósi.

                                    Nokkrir punktar um Reiki.

-   Reikiorkan fer í gegnum hvað sem er. Þess vegna er allt í lagi að orkuþegi sé í fullum klæðum og jafnvel með þykkt teppi yfir sér.

-   Það þarf ekki að fara í sérstakt ástand til að vinna með Reiki.

-   Reikiorkan er dregin gegnum gefandann af þiggjandanum og það er sjálf þiggjandans sem stjórnar orkuflæðinu.

-   Í þessu felst að gefandinn læknar ekki aðra. Hann getur aðeins gefið öðrum aðgang að orkunni til þess að lækna sjálfan sig.

-   Við getum öll læknað okkur sjálf og/eða unnið fyrirbyggjandi vinnu á heilsufari okkar með því að  gefa okkur Reiki daglega á orkustöðvar líkamans.

-   Hægt er að nota orkuna á veik svæði eða þar sem verkurinn er.

-   Ef gefið er Reiki á allar orkustöðvarnar eins og lært er á námskeiðunum þá verðum við að gera það þrjú skipti í röð til að byrja með, þ.e. einu sinni á dag í þrjá daga. En þetta gildir bara um fyrsta skipti sem unnið er með viðkomandi.

-   Eftir þessi þrjú skipti getur meðferðin verið eins og hver vill, t.d. einu sinni í viku eða nokkurra daga/vikna fresti.

-   Ef unnið er með manneskju sem er með alvarleg veikindi þá er mælt með meðferð sem oftast, jafnvel tvisvar á dag.

                                                5 lífsreglur í Reiki.

                                    Í dag mun ég vera þakklátur.

                                    Í dag mun ég vera laus við áhyggjur.

                                    Í dag mun ég ekki reiðast.

                                    Í dag mun ég sinna störfum mínum af heiðarleika.

                                    Í dag mun ég sýna öllum lífverum ást og virðingu.

                                                Saga Reiki.

         Um miðja 19. öld var maður að nafni dr. Mikao Usui skólameistari í litlum kristnum háskóla í borginni Kyoto í Japan. Nemendur hans vildu fá að vita hvers vegna enginn gæti læknað sjúka eins og Jesú gerði, fyrst hann hafði sagt: "Sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri; og hann mun gera enn meiri verk en þessi".( Jóhannes 14.12.). Heiðurs síns vegna ákvað Usui því að fara og finna svarið. Hann hóf leit sína í Chicago, en þar var lítið um svör. Usui vissi að Búdda hafði læknað líkt og Kristur. Því hélt Usui aftur til Japans og gekk á milli klaustra og spurði: "Hafið þið einhver skjöl sem segja frá hvernig Búdda læknaði?" Svörin voru alls staðar á svipaða lund. "Nú einbeittu menn sér að því að auðga andann".

         Loks kom Usui til Zen klausturs og hitti þar gamlan ábóta. Hann sagði við Usui: "Það sem einu sinni hefur verið gert er hægt að gera aftur". Usui tók því til við að kynna sér japönsku lótus sútrurnar og kínversku sútrurnar en til þess að geta það varð hann að læra kínversku. Næst fór Usui til Norður Indlands, til Himalayafjalla. Þar fékk hann að sjá gömul tíbensk handrit, þar sem segir frá St. Isa, sem talið er að hafi verið Jesú. Með þessa vitneskju og tíbensku sútrurnar taldi Usui sig hafa komist að kjarna málsins, en hann fann að hann vantaði kraftinn. Hann fór því aftur í Zen klaustrið til að spyrja vin sinn ábótann ráða. Með hugleiðslu komust þeir sameiginlega að þeirri niðurstöðu, að Usui skyldi fara til hins helga fjalls, Kuri Yama, 17 kílómetra frá Kyoto. Þar skyldi hann fasta og hugleiða í 21 dag.

         Þetta gerði hann, en í 20 daga gerðist ekkert. Á 21.degi sá hann ljós í fjarska sem bæði óx og færðist hratt í áttina til hans. Hann varð hræddur og ætlaði að hlaupa í burtu, en áttaði sig svo á því að þetta gæti verið svarið sem hann hafði leitað svo lengi. Ljósið kom sífellt nær og varð skærara, loks skall það á miðju enni hans. Usui hélt að hann væri dáinn, fyrir augum hans svifu ljóskúlur og í hverri þeirra var tákn á sanskrít. Kúlurnar fóru það hægt framhjá honum að hann náði að nema tákn.

         Þegar hann kom til sjálfs síns á nýjan leik sá hann sér til mikillar undrunar að það var kominn bjartur dagur. Hann hljóp niður fjallið, en gáði ekki að sér, datt og reif upp á sér tánögl. Ósjálfrátt greip hann með höndunum yfir sárið og sér til mikillar furðu sá hann nokkrum mínútum seinna að sárið var gróið. Hann fór beint á sveitakrá og pantaði sér fulla máltíð og borðaði hana án þess að verða meint af þrátt fyrir 3ja vikna föstu. Hann læknaði einnig tannverk dóttur kráareigandans. Eftir þetta hélt Usui til klaustursins að finna ábótann, sem var illa haldinn af liðagikt. Hann sagði ábótanum frá reynslu sinni, fékk að leggja hendur yfir hann og þeir fundu báðir fyrir lækningakraftinum.

         Usui fór að vinna með Reiki. Hann byrjaði í betlarahverfinu í Kyoto. Árangurinn var ótrúlegur. Á skömmum tíma tókst honum að lækna og hjálpa fjölda utangerðsmanna að ná fótfestu í lífinu á nýjan leik. Eftir u.þ.b. 7 ár fóru þeir sem hann hafði hjálpað fyrst að snúa aftur og sögðu að þeir hefðu ekki verið tilbúnir til að gerast ábyrgir borgarar, þeir vildu heldur vera betlarar áfram. Usui áttaði sig á því  að það var ekki á hans valdi að breyta lífi þessa fólks, það yrði að velja sitt hlutskipti sjálft.

         Usui ferðaðist um allt Japan og kenndi Reiki. Hann vildi að fólk bæri sjálft ábyrgð á eigin heilsu og með því að kenna fólki Reiki gat það einnig þroskað sjálft sig. Hann kenndi mörgum en vígði einungis einn meistara, Dr. Chujiro Hayashi, sem stofnaði fyrstu reikimiðstöðina í Tokyo.

         Árið 1935 kom til Hayashi ung, mjög veik kona, sem hét Hawaya Takata. Í reikimiðstöðinni fékk hún á skömmum tíma bót meina sinna. Á þessum árum var ekki til þess ætlast að konur í Japan fengjust við svona lagað, en um síðir fékk hún að taka I. og seinna II. Stig í Reiki. Hún flutti svo til Bandaríkjanna.

         Hayashi vissi vegna innsæis síns að stríð var yfirvofandi og einnig hvernig því mundi lykta. Því fór hann að gera ráðstafanir til að koma reikiþekkingunni frá Japan. Hann fór 1938 til Bandaríkjanna ásamt dóttur sinni og heimsótti Takötu og vígði hana til meistara. Að því loknu snéri hann aftur til Japan og þar sem hann vissi að stríð var á næstu grösum ákvað hann að nú skildi hann ljúka þessari jarðvist. Umvafinn ástvinum sínum fékk hann þrjú hjartaáföll sama daginn og kvaddi þennan heim.

         Takata hélt áfram að vinna með Reiki á Hawaii. Það var þó ekki fyrr en árið 1970 að hún hóf að vígja meistara og þegar hún kvaddi þennan heim í desember 1980 hafði hún vígt 21 meistara. Barnabarn Takötu, Fyllis Lei Fuoromoto tók við af henni og er nú yfirmeistari í Reiki.

         Í byrjun árs 1989 kom Dr. Paula Horan, bandarískur reikimeistari til Íslands til að halda reikinámskeið. Það ár vígðist, Guðrún Óladóttir til reikimeistara og varð fyrsti reikimeistari á Norðurlöndum. Síðan þá hefur hún þjálfað marga reikimeistara hér á landi og nemendur hennar sem eru orðin reikimeistarar hafa sum hver einnig þjálfað meistara. En þúsundir íslendinga hafa lært I. stig í Reiki eða meira.

   Að lokum.                 

         Ég vona að með þessum línum hafi mér tekist að fara nokkrum orðum um Reiki, þannig að þeir sem ekki þekkja fái örlitla innsýn. Ég vil taka það fram að það sem ég hef skrifað er Reikið eins og það kemur mér fyrir sjónir og sú reynsla sem ég hef, sem er mjög jákvæð. Mér hefur tekist að lækna sjálfa mig af ýmsum kvillum og það hef ég einnig séð annað fólk gera. Staðreyndin er að ég lækna auðvitað engann nema sjálfa mig. Hver og einn læknar sig og þeir sem vinna með Reiki eru einungis tengiliður til þess að þyggjandinn geti nýtt sér orkuna. Hver og einn læknar sig sjálfur og ræður hvernig orkan notast. En það er ekki hægt að gera neitt rangt. Það var það sem gladdi mig mest í upphafi, ég þurfti ekki að vera hrædd um að skaða eða skemma, ég er einungis eins og framlengingarsnúra, farvegur fyrir orku sem fólk, dýr eða plöntur geta nýtt sér.

         En ég var heppin. Ég fann leiðina mína, ég fann Reiki. Ég vona að þú lesandi góður finnir þér hentuga leið til að vinna með sjálfan þig og halda þér í jafnvægi. Við eigum svo margt gott sem við getum nýtt okkur, dásamlega náttúru, hreint loft og vatn, heilbrigða fæðu og aðgang að alheimsorku. Við erum öll skipstjórar á eigin skipi og höfum val í okkar lífi. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og hamingju í framtíðinni.

                                 

            Hugleiðsla á ljós Krists.

            Stutt hugleiðsla, miðluð frá Maitreya. Fyrst smá inngangur frá öðrum miðli.

            Þessi meistari, Maitreya, hefur sérstaka stöðu, eins og Jesús útskýrði. Maitreya er maður en skapaður sem Guðssonur, sem alger persónugerfingur Kristsandans, af hinum hvíta guðdómlega loga kærleikans. Maitreya hefur þess vegna ekki líkamnast á sama hátt og aðrir meistarar, aðeins fáum sinnum og verkefni hans hafa verið að kenna Kristnu fólki að öðlast fulla andlega fræðslu. Þegar Maitreya hefur skírn einhverrar persónu, fylgir hann henni/honum og blæs anda sínum til þeirra hvert augnablik sem persónan opnar fyrir hárfínar sveiflurnar sem koma frá honum. Maitreya er þess vegna yfirmeistari, hann er meistari þinn þegar þú hefur lokagöngu þína til Ljóssins, til Kristsvitundarinnar, þar sem þú um síðir munt ná algerri fullkomnun.

            Ég er Meistari Maitreya. Ég er sonur Guðs, andi hins persónugerða Krists.

            Ég færi þér Ljós Krists þegar þú lest þessi orð. Finndu hinn fína krystal innra með þér, sem stillir líkama þinn, finndu hann glampa og sveiflast þegar Ljós Krists fer í gegnum hann. Tilfinningin er eins og eitthvað víkki og endurnæri, skýri og hreinsi og geri líkama þinn að ljósi. Ljós Krists fyllir líkama þinn og það er eins og þú svífir í birtu.

            Sittu um stund og skynjaðu ljósið þitt. Láttu þér líða eins og þú svífir innan um upphaf sköpunar. Skynjaðu Ljós Krists eins og ósigrandi kraft sem fer gegn um þig allan.

            Sjáðu Ljós Krists fara í gegnum þig upp í gegnum efstu orkustöðina. Orkustöðin, þriðja augað, mun verða sérstaklega næmt þegar þú lest þessi orð. Ég mun hreinsa þessa orkustöð með Ljósi Krists á þessu augnabliki.

            Þegar þú hefur setið um stund, finndu þá hvernig auga Guðs kemur gegnum þitt þriðja auga. Skynjaðu þig tilbúinn fyrir skilaboð Guðs, finndu hvernig þriðja augað þitt er tærara en nokkru sinni áður.

            Þessi orkustöð gefur þér skynjun um tilvist þína og hvað er í vændum í þessari holdgun. Hvert sinn sem þú finnur löngum til skýrleika, notaðu þessa hugleiðslu og ég mun vera við hlið þér.

            Ég er Meistari Maitreya, að eilífu sonur Guðs.

        

Englar.

            Englar eru andlegir boðberar, sem hjálpa okkur að taka opnum örmum TÍMA UMBREYTINGANNA. Þeir eru tilbúnir að færa fórnir fyrir okkur, veita okkur vernd og leiðsögn. Þeir eru skapaðir úr ljósi, sakleysi og kærleika. Englar færa okkur "alheimsleg" skilaboð, hjálpa okkur að opna hjarta okkar og víkka út kærleiksvitundina, svo að við getum haldið meira ljósi í okkar andlegu hugsunum  á þessum tímum umbreytinga og umskipta, bæði fyrir okkur persónulega og með tilliti til jarðarinnar.

           

            Á þessum umbreytingatímum, erum við eftirvæntingarfull þegar við hugsum um jafnvægið í okkar lífi, sem ef til vill hefur ekki verið fullkomið, breytingarnar eru í öllu -- vinnu, húsnæði, félagsskap, meira að segja okkar efnislegi líkami er að breytast og DNA tengingarnar að koma til baka, þess vegna HIÐ EINA RAUNVERULEGA JAFNVÆGI Í UPPELDI  OG KÆRLEIKA ER ÁST GUÐS/ HIÐ GUÐLEGA:

            Þú skalt velja að opna hið ÓKUNNA, og setja við hliðina á því sem þú þráír og óskar, þegar þú ert að biðja og heila hið ókomna. Leiðbeinandi englar eru með þér frá fæðingu, og alveg til dauða, án þess að dæma þig eða hafa áhrif á skoðanir þínar. Fólk getur fundið nálægð þeirra, jafnvel þó að það geti ekki séð þá vegna orku þeirra og hárrar tíðni. Englar senda okkur hugsanir í innsæið okkar, tilfinningar, aðstoða okkur á þann hátt að stækka Ljósið umhverfis okkur.

            Mörg ykkar vinna nú þegar takmarkalaust með "heilunarenglunum" ykkar, þar sem kærleikurinn er í fyrirrúmi.Jafnvel þó að nálægð heilunarenglanna ykkar virðist vera blíð og ljúf, þá er geysilegur kraftur að baki þeirra og þeir munu gera allt sem mögulegt er til þess að lækna hvern sjúkdóm, veikindi og veikleika. Heilunarenglarnir þínir líka ekki á veikindi sem persónulegan ósigur ykkar, heldur reyna að breyta þeim í lærdóm fyrir ykkur til að öðlast meira Ljós í anda ykkar.

            Það eru 7 Erkienglar sem hver um sig hefur heila hersveit af englum tilbúna til að svara hverri bæn og kalli á hjálp.

            Erkiengill                       Sunnudagur       Ég er kraftur ljóssins.

            Jophiel

            Erkiengill                       Mánudagur                    Ég sé Kristsvitund í

            Chamuel                                                           hverri sál.

            Erkiengill                       Þriðjudagur                    Ég er takmarkalaus.

            Michael

            Erkiengill                       Miðvikudagur     Ég er heill og fullur

            Raphael                                                            alsnægta.

            Erkiengill                       Fimmtudagur     Ég er friður.

            Uriel

            Erkiengill                       Föstudagur                    Ég er hreinleiki

            Gabriel                                                  kærleikans.

            Erkiengill                       Laugardagur      Ég er fyrirgefning fyrir

            Zadkiel                                                  fyrir sjálfið og alla.

            Hvern dag getur þú breytt líkama þínum og útgeislun með orku og sveiflutíðni erkienglanna sjö. Til dæmis á fimmtudögum, ferð þú með þessa möntru:

            ÉG ER FRIÐUR.... ÉG ER FRIÐUR.... ÉG ER FRIÐUR.

Og þannig hvern dag.

Leyfið englunum að hjálpa ykkur og fylla líf ykkar ljósi.

                                                Í GUÐS FRIÐI.

.