Smásögur

 

Flóttamaðurinn

 

Birgitta H. Halldórsdóttir

 

Það var kvöld, frost úti en fallegt veður. Stafalogn eins og hafði reyndar verið alveg síðan að hann kom út. Noregur var honum góður, vinnan var ágæt, karlarnir fínir og húsnæðið alveg eins og hann hafði búist við. Það var gott að vera þarna, komast frá öllu heima, öllu sem hafði þjakað hann svo lengi en hann hafði ekki haft krafta til að koma sér út úr. Það var svo skrýtið að innra með honum bjó einhver þrá, einhver óróleiki sem gerði það að verkum að hann var aldrei ánægður í eigin skinni, engin eirð í beinunum.

Hann rölti af stað, ákvað að fara á hverfiskrána, fá sér einn dökkan eða tvo. Hann var meira fyrir dökkan bjór. Strákarnir, vinnufélagar hans, höfðu ætlað á eitthvert pöbbarölt í næsta bæ, kíkja almennilega á lífið. Hann nennti því ekki. Ekki í dag. Það var eins og eitthvað lægi í loftinu, hann var búinn að finna það í nokkra daga. Þó að hann viðurkenndi það ekki þá var hann næmur og fann oft hluti á sér, dreymdi líka. En hann var ekkert að segja hverjum sem var frá því, fannst það ákveðið veikleikamerki og langaði ekki til að hleypa öllum of nærri sér.

Þar var lástemmd tónlist, útí kántrý sem hann kunni afar vel við. Hann kinkaði kolli til fólks sem bjó í hverfinu hans. Það var svo notalegt að fara á hverfispöbbinn, fólk rakst þar inn eftir vinnu og fékk sér bjór og slakaði á. Það var allavega gott að vera þarna að því leyti að allir voru strax vinsamlegir eins og hann væri bara heimamaður. Íslendingur á heimaslóð.

Hann settist úr í horn til að fá næði til að hugsa. Kaldur drykkurinn rann ljúft niður hálsinn, úrvals dökkur kranabjór. Hann hafði svo margt um að hugsa núna fannst honum. Hugsaði um ástandið í heiminum, flóttamennina sem flæddu yfir, evrópubúum til mismikillar gleði. Hann var líka dálítill flóttamaður. Hann var samt ekki að flýja föðurlandið, ástandið eða annað fólk. Megnið af lífinu hafði hann verið að flýja sjálfan sig. Hann vissi það og það var ekki þægilegt. Gerði hann óöruggan og fékk hann til að líða eins og lúser. Ekkert hafði gengið upp hjá honum og lífið rann áfram í einhverju tilgangsleysi hjá manni sem var að verða fimmtugur.

Hann gat ekki annað en hugsað til baka. Sem barn var hann hamingjusamur, trúði því að hann yrði mikill fiskimaður eða hrossaræktandi. Hann hafði strax við fæðingu verið mikið náttúrubarn. Var í sveit á sumrin og elskaði dýrið, elskaði íslensku sveitina sína. Allt var í rauninni gaman þó að hann væri ekki fæddur með silfurskeið í munninum. Hann trúði því auðvitað eins og önnur börn að lífið yrði fullkomið og einn daginn myndi hann detta í lukkupottinn og verða hamingjusamur, glaður og ríkur eftir það.

Lukkupotturinn, hvar var hann? Hann hugsaði um æfina sína, börnin sín, kulnuð sambönd, brostnar vonir og tækifæri sem ekki gengu upp. Af hverju fór þetta svona? Hvar byrjaði það? Hvenær varð hann flóttamaður í eigin lífi?

Hann hafi einu sinni dottið í lukkupottinn, þá var hann tuttugu og eins og kynntist ástinni sinni. Hann var samt bara unglingur.  Hún var sextán. Vá, hvað hún var falleg, stóru augun svo full af ást og væntingum. Hún var skemmtileg, hún var eins og stormsveipur inn í lífið, ung og glöð. Hann kolféll. Hann trúði því að nú væri hamingja hans fullkomin, hann hafði hitt ástina í lífi sínu og nú myndi þau verða að eilífu hamingjupar. Þau áttu frábærar stundir, skemmtu sér, elskuðust og nutu þess að vera saman, einnig í kyrrðinni. Hann hafði aldrei gleymt henni, gat það ekki, vildi það ekki. Þetta var svo einstakt, sérstakt. Þau gátu tjáð hvort öðru ást sína, sagt hvort öðru allt en líka þagað saman. Þetta var hin fullkomna hamingja.

Þau höfðu bara aldrei reiknað með að það væru fleiri persónur og leikendur í þeirra lífi. Foreldrum hennar leist ekki á hann, hann var of gamall fyrir hana sagði fólk, vinirnir höfðu neikvæð áhrif og allt í einu var allt glatað. Hann sár og reiður, aðalega sjálfum sér, önnur stelpa orðin ófrísk eftir hann, það var notað á hann og hann missti sjónar af því sem honum var dýrmætast. Aðrir fóru að stjórna lífinu þeirra.

Auðvitað elskaði hann börnin sín. Þau voru óendanlega dýrmæt og hann hefði aldrei viljað vera án þeirra. En það hafði eitthvað gerst. Eftir að þetta fyrsta ástarævintýri var glatað byrjaði kapphlaupið. Hann var aldrei ánægður. Ný og ný sambönd við konur, mislöng og misgóð. Nýjar og nýjar vinnur og ný og ný tækifæri, mislöng og misgóð. Ekkert af þessu fullnægði honum. Hann fann óróleikann í taugunum, depurðina í sálinni sem var svo óskyljanleg. Hvernig er hægt að vera svona dapur og finna ekki frið í neinu þegar ekkert var að? Það var ekki hægt að skilja það og hann vissi líka að enginn skildi hann. Hann var álitinn ístöðulaus og ótraustur. Það var samt ekki það sem hann vildi.

Hann gekk að barnum og pantaði annan. "On the road again" var undirspilið og hann glotti. Langaði enn ekki að blanda geði þó að kunningjar frá öðrum borðum veifuðu í hann. Það var eitthvað við þetta kvöld, hann vissi bara ekki hvað.

Kannski var hann loksins núna að skilja hvað brostnar vonir unglings gátu haft mikil áhrif. Hann hafði aldrei komist yfir þessa ást. Hún var þarna alltaf. Hann frétti líka stundum af þessari gömlu ást, hvar hún bjó, að hún átti börn og mann.

Hann drakk ölið og fannst gott að finna örlítinn il færast í líkamann. Hann var allvega lifandi en líka afar hugsi. Vissi fólk hvað það var að gera þegar það steig inn í örlög barna sinna og beindi þeim í aðrar áttir? Hann vissi það ekki. Hann vissi samt að líklega var hann núna búinn að finna rótina. Líklega hafði þessi höfnun og þessi vonbrigði verið of mikið og hann hljóp af stað, lengra og lengra til að finna eitthvað betra sem var ekki til. Kannski voru þetta bara örlögin. Kannski átti hann aldrei að finna hamingjuna og kannski myndi restin af lífinu líða í flótta frá  sjálfum sér. Hann vissi ekki svarið. En hann vissi að hann hafði á þessum flótta sært marga og honum líkaði það ekki heldur.

Eftir seinni bjórinn varð hann að fá sér frískt loft. Það var eitthvað sem gerði hann svo órólegan, eins og hann fyndi eitthvað á sér, ekki slæmt eins og stundum áður heldur eitthvað skemmtilegt, það var eftirvænting í maganum á honum og það hafði ekki gerst lengi.Hann vissi ekki hvað þetta var.

Hann reif upp hurðina á kránni til að vippa sér út en um leið hljóp inn kona sem rakst svo kyrfilega á hann að hann sá stjörnur eitt augnablik. "Sorry" muldarði hún.

Hann starði á hana og trúði ekki sínum eigin augum. Hún starði líka og hvorugt þeirra sagði orð. Þetta gat ekki verið.

Nokkrir gestanna komu til að vita hvort allt væri í lagi en hann sat bara á gólfinu og starði á konuna sem hafði hlaupið hann niður. Það var hún sem fékk málið á undan honum.

            "Hæ, annars, ætlaði sko ekki að hlaupa þig niður, en hvað í veröldinni er þú að gera hér?"

Honum var orðavant og hann staulaðist á fætur. Hjartað barðist um eins og það ætlaði að spryngja út úr brjóstinu á hverri stundu og hann fann að hann svitnaði undir  höndunum. Þetta var ekki möguleiki. Ekki nokkur einasti séns.

Hún virtist búin að jafna sig,hló og sagði: "Komdu ég kaupi bjór handa þér, það er það minnsta".

Það var eins og hann væri aftur orðinn unglingur. Tímavélin hefði bara hent honum til baka í fortíðina. Hann var skyndilega feiminn, óöruggur en óumræðilega hamingjusamur. Loks tókst honum að stynja upp. "Ég er sko að vinna hérna núna, en þú?"

Hún stundi við. "Æ, veistu ég er að skilja við manninn og ákvað að það væri gott fyrir mig að vinna aðeins að heiman".

Hann fann dofa í höfðinu, þetta var of gott il að vera satt. Var veröldin að gefa honum annað tækifæri? Hann vissi það ekki en hann vissi samt að þetta gat ekki verið nein tilviljun.

Þau horfðust í augu. Hann fann um leið gamalkunna tilfinningu fylla brjóstholið. Það var einhver vellíðan í augnablikinu. Eitthvað dásamlegt að gerast. Hann ætlaði ekki að klúðra þessu núna. Hann ætlaði að trúa því að hann væri að fá annað tækifæri. Hann fann einhvern undarlegan frið. Hann langaði ekki til að hlaupa út, langaði bara til að þetta augnablik myndi vara að eilífu.

Hún pantaði drykki og leit á hann. " Gaman að rekast á þig". Þau skellihlógu bæði. Já, víst höfðu þau rekist saman. Hann setti á sig rögg. "Ég hef alltaf hugsað mikið til þín, viljað geta spólað til baka og byrjað uppá nýtt".

Augnaráðið sem hún sendi honum var meira virði en allt annað. Svo sagði hún: "Ég held að við séum að fá annað tækifæri".

Hann brosti og kyssti hana. Hún var alltaf hún og hann var alltaf hann og þau höfðu alltaf ætlað að vera saman. Lífið hafði reyndar sett lykkju á leið þeirra en það var eins og sú fortíð hefði þurrkast út. Það var ekki lengur ástæða til að flýja heldur njóta.

Nóttin færðist yfir, það var enn stafalogn þegar elskendurnir leiddust burt frá kránni. Tunglið glotti dálítið og stjörnurnar skinu á þau eins og þær væru að senda loforð um bjarta framtíð. Töfranótt.

 

 

Blöndulónsskrímslið.

 

Birgitta Hrönn Halldórsdóttir

 

 

 

 

Það var október á því herrans ári 2010 og það var komið að því. Skrímslið vaknaði og fann að tíminn var kominn. Það voru liðin tuttugu ár frá því að það hafði verið sent til jarðarinnar til að bíða uns tíminn væri kominn og þá myndi verkefnið um þetta sérstaka sveitarfélag verða að veruleika. Allt var svo löngu ákveðið, löngu skipulagt og fólkið sem jafnvel hafði ekki verið til þá hafði fyrir svo löngu verið valið. Að taka heilt sveitarfélag út úr tíma og rúmi, leika sér á alheimsvísu. Það var að vísu bannað samkvæmt alheimslögum en alheimslög náðu ekki yfir plánetuna hans og als ekki yfir tilraunir þeirra. Þar voru engar tilfinningar, ekkert kjarftæði eins og á jörðinni, en þeir rannsökuðu og fannst skemmtilegast að rannsaka jörðina með þessu skrýtna fólki sem sýndi svo ótrúlega undarleg viðbrögð. Pánetan hans var í öðru sólkerfi og þeim fannst skemmtilegast að seilast yfir á annara svæði, enda kom engum við hvað þeir gerðu.

            Hann hreyfði sig og jörðin skalf. Úff. Ekki gott að hreyfa sig svo hratt að fólkið, þessar litlu asnalegu verur færu að velta fyrir sér einhverjum undarlegheitum, þar sem staðsetningin hans var á svæði þar sem jörð skalf aldrei. Einmitt þess vegna hafði verið svo gott að planta honum þarna til að bíða. Í stóra Blöndulóninu sem mennirnir höfðu sjálfir búið til. Ef þeir bara vissu hvað leyndist þar og ef þeir bara vissu hvað væri staðsett við Kárahnjúka. Þeir vissu ekki að um leið og þeir breyttu náttúrunni opnuðu þeir fyrir möguleika vera úr öðrum víddum. Nei, mennirnir voru of vitlausir til að reikna með neinu öðru en sjálfum sér. Þeim virkilega datt í hug að þeir væru einir í þessum alheimi. Það var ekki ofsögum sagt að þeir væru fullir af því sem þeir kölluðu sjálfir, hroka. Nei, menn voru engan veginn skiljanlegir og þess vegna var svo mikilvægt fyrir tilfinningalausar plánetur að læra af vitleysunni í þeim.

            Hann varð að hreyfa sig til að geta opnað fyrir brottfluttningin. Jörðin skalf skyndilega og aftur og aftur. Það varð að hafa það, fólkið yrði hissa. Það skipti samt engu máli, verkefninu yrði lokið á örskotsstund og aldrei myndi neinn skilja neitt í neinu. Síðan myndi hann síga niður í lónið sitt aftur og bíða næstu skipana. Ef jarðarbúar bara vissu, þá yrðu til hryllingssögur um hið voðalega Blöndulónsskrímsli.

 

                                    ---------------------------------

 

            Rithöfundurinn sat við tölvuna sína og las spennandi sögu. Dásamlegt alveg hvað fólk var frjótt og skemmtilegt í sköpun sinni. Dagurinn hafði verið frábær, menningarstyrkur frá Menningarráði Norðurlands vestra til fyrirtækissins. Peningar sem myndu svo sannarlega hjálpa þessu unga fyrirtæki að halda sjó. Hún hlakkaði til. Vinkonurnar þrjár sem áttu fyrirtækið "Töfrakonur/Magic women" voru nú að leggja síðustu hönd á smásagnasafn sem átti að koma út fyrir jólin. Spennandi verkefni ásamt svo mörgu öðru sem þær voru að bralla. Skemmtilegir tímar þrátt fyrir erfitt ástand í þjóðfélaginu.

Þetta var líka sérlega góður dagur fyrir margar sakir, hún átti líka brúðkaupsafmæli, þrjátíu og eitt ár, ekki slæmt. Hún brosti. Þetta hjónaband var gott og farsælt og hún var enn jafn ástfangin af manninum ef ekki meira.

            Allt í einu heyrðist hvinur, dynkur og húsið skalf. Gólfið gekk í bylgjum og tölvuskjárinn dansaði af stað. Rithöfundurinn hrökk við. Jarðskjálfti, ekki nema það þó.

 Sonurinn á heimilinu hom hlaupandi

-- Mamma, mamma, það hrundi úr hillunum hjá mér.

            -- Slappaðu af, þetta er bara einhver smáskjálfti.

            Dóttirin kom inn með skelfingarsvip í andlitinu.

            -- Mamma, af hverju er jarðskjálfti hér?

            -- Æ, það er ekkert. Örugglega bara eitthvað sem er að skjálfa hjá Húsavík eða þar, það skelfur aldrei jörð hjá okkur. Við erum á skjálftafríu svæði.

            -- Ég er samt hrædd.

            Rithöfundurinn horfði á börnin sín, þau voru bæði tvö gullfalleg en nú voru fríðu andlitin þeirra óvenjulega alvarleg. Hún brosti.

            -- Við erum á öruggasta stað á jörðinni, elskurnar, slappiði bara af.   Þau yfirgáfu herbergið og rithöfundurinn ákvað að kíkja á facebook. Ef eitthvað var með þennan skjálfta, þá var það þar.

Dóttirin kom inn aftur.

-- Mamma, lestu þetta. Hún dró móður sína að fartölvunni, þar sem hún hafði farið inn á mbl.is.

Þar stóð: Hrina jarðskjálfta undir Blöndulóni hófst klukkan 8:15 á þriðjudagsmorgun. Rúmlega 30 jarðskjálftar hafa mælst þarna, sá stærsti var 3.7 að stærð klukkan 21:10 í kvöld samkvæmt vef Veðurstofunnar. Annar skjálfti yfir 3 stig reið yfir nú klukkan 21:36 í kvöld. Sá mældist 3,1 stig. Blöndulón var myndað við virkjun Blöndu en lónið liggur á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði. Lónið var myndað sumarið 1991 er vatni var safnað í það í fyrsta sinn til miðlunar fyrir Blönduvirkjun. Árið 1996 var yfirfall hækkað, jókst þá flatarmál lónsins úr 41 ferkílómetra í 57 ferkílómetra og náði það fullri stærð. Lónið liggur í tæplega 500 m hæð yfir sjó.

Telpan horfði á móður sína.

-- Mamma getum við farið eitthvað annað. Getum við farið til Reykjavíkur eða bara Vestmannaeyja.

Rithöfundurinn hristi höfuðið.

-- Hættu þessari vitleysu telpa mín, ég bara má ekki vera að svona bulli. Það er ekkert að og engin ástæða til að láta eins og kjáni þó að maður finni einn skjálfta. Við búum nú einu sinni á eldfjallaeyju en ég er búin að segja ykkur hundrað sinnum að við erum ekki á sprungusvæði.

Telpan var ekki sannfærð, hún leit þrjóskulega á mömmuna.

-- Af hverju var þá skjálfti hér? Ég held að við ættum að fara eitthvað annað, strax.

Rithöfundurinn kíkti á facið. Hún var frekar þreytt á áhyggjum barna sinna. Sannarlega hélt hún að þau væru alin upp í öryggi og ást á umhverfið. Skrýtið hvað þau voru eitthvað hrædd við þennan skjálfta.

Það hafði reyndar allt verið mjög skýtið þennan dag. Heimilishrafnarnir létu eins og kjánar. Görguðu og flögruðu um sem aldrei fyrr. Ef það hefði verið vetur og hún á snjófloðasvæði hefði hún hreinlega haldið að þeir væru að reyna að fá fólkið til að elta sig burt. Hún hafði gríðarlega trú á hröfnunum. Þó að hún skildi ekki alveg hrafnamálið þá hafði þessum tveim vinum hennar oft tekist að vara hana við veðri og vísað henni á skepnur í nauð. Hún hafði nefnilega gert samning við þá, þeir fengju alltaf nóg að éta hjá henni en í staðinn færu þeir aldrei í lifandi skepnu. Þetta stóðu þeir alltaf við og meira en það. Þeir reyndu að gera eins mikið gagn og þeir gátu. Núna sátu þessir tveit hnýpnir á staur, búnir að gefast upp á að reyna að koma viti inn í höfuðið á húsmóður sinni. Þeir fóru samt ekki. Samningurinn var í gildi, hún hugsaði um þá og þá myndu þeir aldrei yfirgefa hana hvað sem á gengi.

Þessi dagur hafði líka verið skrýtin að öðru leyti. Það var eins og slæðan milli heima væri þynnri en venjulega. Fólk hrökk við og fannst einhver standa hjá því. Þau höfðu líka öll dreymt skringilega í nokkrar nætur, svo fáránlega drauma að það var ekki hægt að segja frá þeim.

Rithöfundurinn hristi af sér ónotin og skoðaði stadusa vinna sinna og leitaði eftir fréttum af jarðskjálftanum. Jú mikið rétt, allir voru að deila þessu og commenta á það. Besta vinkona hennar og töfrakonan á austurbakkanum hafði ekki fundið neitt. Gat nú verið. Umsjónakennari dóttlunnar var búin að sjá húmorinn og stakk uppá að nú myndi Blöndulón hverfa og ekkert rafmagn verða fyrr en um jólin. Hjá hreppsnefndarkonunni í Langadalnum hafði allt leikið á reiðiskjálfi en hjá hreppsnefndarkonunni á láglendinu var allt í meiri ró þrátt fyrir dálítinn skjálfta. Ein vinkonan sem er mikill sjándi stakk uppá því að nú væri komið að því, Blönduóshöfn myndi rifna og allt flæða út í sjó. Nóg var af hugmyndum. Oddvitinn var ekki inná en hún kom oft með skemmtilega vinkla á hlutina. Karlarnir í hreppsnefndinni áttu enga facebook enda vissu þeir heldur aldrei hvað var að gerast. Yndislega vinkonan og töfrakonan í Reykjavík var ótengd með flensu og á hennar síðu var gamall kaffistadus frá deginum áður. Litla sæta húsvarðarfrúin í Húnaveri hafði haldið að trukkur hefði keyrt útaf og í Vatnsdalnum skalf land ekki síður en í Blöndudalnum. Það var eins og enginn úr Svartárdalnum væri á facinu. Rithöfundurinn glotti og setti á stadusinn sinn : Gleymdi alveg að segja ykkur að við hjónakornin eigum 31 árs brúðkaupsafmæli, það er von að jörð skjálfi ;)

Stelpan kom aftur.

--Mamma ertu viss um að allt sé í lagi.

-- Auðvitað gullmoli, í Blöndudalnum er alltaf allt í lagi.

 

                                    ------------------------------

 

Skyndilega opnaði hann ginið, ef gin skildi kalla. Lögun hans var í raun óraunveruleg og það var eins og hann risi upp á himininn fyrir ofan landssvæðið. Glóandi rautt ljós lýsti upp skyggða svæðið á kortinu hans, þetta svæði sem mennirnir kölluðu Húnavatnshrepp. Þetta var einungis augnabliksbrot úr sekúndu og ekki vegur fyrir nokkra lifandi veru að greina það sökum þess hve fljótt það tók af. Hann horfði yfir svæðið. Það tókst. Hvergi var neitt kvikt að sjá. Hvergi var líf, allt farið. Hreppurinn horfinn með manni og mús, byggingum og orku. Eftir var ekkert. Sagan var farin og allt var farið, enginn mannlegur máttur gæti fundið tangur né tetur. Hvergi.

Verkefni hans var lokið. Hann yrði ekki lengur á jörðinni heldur myndi hann hverfa aftur í Blöndulónið sitt sem ekki var lengur á sínum stað, heldur í annari vídd, til rannsóknar á plánetu sem menn ekki þekkti. Hann lokaði gininu,seig niður og um leið hvarf hann af jörðinni og kom sér fyrir á sínum stað. Blöndulónsskrímsið ógurlega sem þó enginn þekkti.

 

 

                                    ---------------------

 

Rithöfundurinn leit á spjallið á facebook. Hún kallaði á son sinn.

-- Það er eitthvað skrýtið í gangi. Allt í einu er enginn inná nema þeir sem búa í Húnavatnshrepp.

Hann yppti öxlum.

-- Ég veit, kærastan mín sem er á Akureyri datt út, ég skil það ekki. Næ heldur ekki í hana í síma.

Rithöfundurinn stundi og teygði úr sér. Hún brosti þegar hún sá nýjustu kommentin. Hreppsnefndarkonan í Langadalnum var enn að spá í skjálftann en hreppsnefndarkonan á láglendinu var fúl yfir að heyra ekkert um skjálftana í útvarpinu og  ein gleðisprengja úr Vatnsdalnum var þess fullviss að jólasveinarnir væru að undirbúa sig og ekkert kjaftæði með það. Hún var heldur ekki vön að kalla allt ömmu sína þessi kona, bæði hagmælt og full af húmor. Umsjónarkennarinn var farin að velta fyrir sér af hverju hún mætti ekki kenna um Jesú og Maríu og töfrakonan í austri var full af tilhlökkunarskjálfta. Vonandi þýddi þessi tilhlökkunarskjálfti að leikskólinn nennti að passa barnið hennar alla daga eða þá að hún væri stödd á einhverju ástarflippi enn eina ferðina. Húsvörðurinn í Húnaveri var búinn að stela stadus konu sinnar, sem reyndar er tíbískt fyrir karla sem ekki hafa nokkurt hugmyndaflug. Mikið af unglingum var á facinu sem sagði að þau væru komin heim í helgarfrí þó enn væri fimmtudagur. Sem sé allir á sínum stað og allir að verða töluvert líkir sjálfum sér.

Drengurinn kom aftur áhyggjufullur á svip.

-- Ég skil ekki af hverju ég næ ekki í hana í símann. Ég hefði átt að vera farinn á Akureyri.

Dóttirin var líka áhyggjufull.

-- Ertu viss um að það sé allt í lagi, pabbi liggur bara eins og dauður í sófanum.

Rithöfundurinn slökkti á tölvunni.

-- Krakkar förum bara að sofa. Þetta verður örugglega allt komið í lag á morgun.

 

                                    ------------------------------

Hvaðanæfa úr heiminum voru komnir fréttamenn og konur. Enginn gat skilið hvað hafði gerst. Eitthvað óskyljanlegt hafði komið fyrir. Eitthvað sem ekki átti að geta gerst og mestu vísindamenn og dulspekingar stóðu á gati, engin skynsamleg skýring var til. Ekkert þessu líkt hafði nokkru sinni gerst. Það fór hrollur um mannskapinn. Heilt sveitarfélag á Íslandi hafði horfið af yfirborði jarðar á einu andartaksbroti. Ekki nóg með það. Í þessu sveitarfélagi var virkjun, skóli, margskonar byggingar, bændasamfélag þar sem fólk bjó með sauðfé, hross og kýr. Ekkert sást, ekki mús. Landið var dautt, enginn gróður. Það var eins og landið sem tilheyrði Húnavatnshreppi hefði horfið algerlega. Hluti af Hofsjökli var farinn, Hveravellir ein helsta perla Íslands, Blöndulónið, Hópið, fjöllin, en sum að hálfu. Það var eins og skorin hefði verið lína nákvæmlega á merkjum þessa hrepps og það tekið burt, ca tíu metra niður þar sem land var lægst sem gerði það að verkum að nú flæddi sjór inní landið. Samt var byggðin utan Húnavatnshrepps heil. Blönduós var á sínum stað en nú rann engin Blanda um hann, hún var horfin.

Fréttamennirnir stungu saman nefjum og óhugnaður hafði skotið rótum í sálum þeirra. Það var eins og svæðið væri steindautt og enginn hefði nokkru sinni búið þar. Eins og að vera á tunglinu, nema verra því á þessu dauða svæði var engin orka. Þetta var það óhugnanlegasta sem gerst hafði svo lengi sem menn vissu. Heimurinn skalf af ótta, líklega var eitthvað til æðra manninum sem enginn gæti skilið.

 

 

 

Umbreytingin.

Birgitta H. Halldórsdóttir

Ég var nýbúin að eiga afmæli á því herrans ári 2104, dálítið vel að verki staðið þar sem ég er fædd 1959, en þykir þó ekki svo merkilegt í dag. Margir eru eldri en ég, tímanir eru aðrir svo er ígræðslum, tölvukubbum og umbreytingunni fyrir að þakka. Ég virti fyrir mér útlit mitt. Það var ekki svo slæmt enda hafði ég farið í fleiri ígræðslur en aðrir sem ég þekkti. Það var bara eitt sem stóð í mér. Ég vissi að ég varð að fara í umbreytinguna og það fyrr en seinna.
Ég lét hugann reika og hugsaði til baka til þess tíma sem himininn var ljósblár og aðeins ein sól. Það hafði verið dásamlegur tími en tími orkuhækkunar jarðarinnar var allur dásamlegur og ég var Uppsprettunni virkilega þakklát fyrir að leyfa mér að vera hérna á meðan á öllu þessu stóð, en ég vissi líka að ég varð að fara að taka mér hlé og leyfa umbreytingarferli mínu að fara af stað. Hvað það hefði í för með sér vissi ég ekki almennilega, ég var vön að vinna, njóta og láta bara laga það sem var að gefa sig, en fyrir mér lá að hefja nýtt líf í þessu annars gamla lífi mínu ef ég ætlaði að fá að vera áfram starfsmaður á jörðinni. Ég stundi. Furðulegt hvað ég hafði dregið lappirnar lengi. Flestir sem eltust flýttu sér að smella sér í frí, tóku umbreytingu á þremur vikum og komu aftur endurnærðir og ótrúlega hressir. Ég vissi alveg að líkami minn var orðinn þreyttur og frumurnar skildu alls ekki hvað ég var að hanga. Það bara var eitthvað sem hélt í mig.
Ég settist í uppáhaldsstólinn minn og lét hugsanir renna inn á tölvukubb. Ég var búin að lofa þessu og þar sem vinsældir mínar höfðu ekkert dvínað mátti ég til með að senda frá mér nýjan kubb aðdáendum mínum til gleði. Það komast aldrei úr tísku að meðtaka gamaldags glæpasögur og ég var víst ábyggilega sérfræðingur á þessu sviði. Glæpasögurnar voru auðvitað hliðargrein við mitt aðalstarf, enda tók ekki nema dagpart að forrita tölvukubb með einni sögu, eins og tæknin var orðin. Maður hugsar söguna einfaldlega á kubbinn sem síðan fer í tölvu sem umbreytir honum í kubba sem stinga má í bækur og einnig hljóðkubba. Þessar glæpasögur mínar voru ornar eins og íslendingasögurnar í gamla daga. Söguþráðurinn var ótrúlegur og þeir sem yngstir voru trúði auðvitað ekki að hlutir sem þessir hefðu gerst.
Ég var búin að innsigla kubbinn og fjarsenda hann þegar ég sá á skjánum að lítill diskur stansaði fyrir utan hjá mér. Ég stundi bæði af kvíða og feginleik. Þetta var uppáhalds afkomandi minn, yngsta barnabarnið sem bar nafnið mitt en ég kallaði alltaf Lótus. Lótus hefur alltaf verið mitt uppáhaldsblóm og þessi unga kona var líka mitt uppáhald. Hún var klónuð frá móður sinni fyrir þrjátíu árum og mér fannst ég hafa öðlast kraftaverk kraftaverkanna er ég leit hana augum. Dóttir mín, prinssessan átti fleiri börn og sonur minn einnig, afkomendurnir voru reyndar orðnir margir og tilkomnir á ýmsa vegu. Tengdadóttir mín vildi ganga með börnin sín sjálf á meðan dóttir mín hélt fullri vinnu og lét meðgöngustöð um að sjá um meðgönguna. Henni hafði svo dottið þetta snjallræði í hug, löngu eftir að hún var orðin amma og hætt að huga að barneignum að eignast stúlkubarn sem yrði alveg eins og hún. Það var dásamlegt. Mér, ömmunni, hafði tekist að fá að hafa litla lótusblómið hjá mér meira en flestar ömmur gera. Hún var augasteinn minn og yrði alltaf. Milli okkar var sérstakt samband eins og milli mín og móður hennar, en ég vissi alveg hvað það var sem dró hana til mín að þessu sinni. Hún var prófessor í ummyndun og blessuð dúfan var alveg að brenna yfir út af þrjóskunni í ömmu sinni. Fyrir löngu hafði hún fengið umbreytingarleyfi fyrir mig hjá ráðinu og hilkið beið ónotað eftir þessari gömlu konu sem sat á sínum rassi og skapaði glæpasögur og heilaði fólk og dýr.
Ég ýtti á hnapp sem opnaði húsið mitt og Lótus kom inn. Hún kyssti mig.
-- Sæl, amma mín.
-- Sæl, blómið mitt.
Ég fann að tár komu fram í augun er ég horfði á þessa fullkomnu veru. Þetta var barnið mitt.
-- Ég kom út af umbreytingunni.
-- Ég veit.
-- Þú átt ekki langan tíma eftir.
-- Ég veit.
Málið var að færi ég ekki fljótlega í umbreytinguna myndi ég tilflytjast á næsta stig, þar sem aðrir voru að vinna og fengi ekki að vera á móður jörð. Margir völdu þessa tilfærslu, ornir þreyttir á jarðarvinnunni og vildu hitta ástvini sína sem höfðu farið á meðan að fólk "dó". Þessi tilfluttningur var svipaður og hinn líkamlegi dauði var. Sálin tilfluttist og jarðarlíkaminn gufaði upp, enda hættur að vera eins efnislegur og hann áður var. Svo sannarlega hafði jörðin hækkað í tíðni.
Lótus settist hjá mér og tók um báðar hendur mínar.
-- Amma, ráðið er búið að gefa þér hálft jarðarársfrí. Uppsprettan hefur gefið grænt ljós á umbreytinguna núna. Þú lofaðir að vera hjá okkur og tilflytjast ekki.
Ég hrökk við.
-- Ég ætla að vera hjá ykkur.
Lótus stundi.
-- Þú ert kannski búin að gleyma því að þegar þú lærðir fyrst um DNAheilunina og fórst að fyrirskipa þá skipaðir þú fyrir um aldur þinn í þessu lífi, 150 ár. Það er ekkert sem getur breytt því nema umbreytingarferlið. Þar að auki er það ekki í áætlun ráðsins að hafa svo gamalt efni á jörðinni eins og er í skrokknum á þér amma mín.
Ég hnussaði og hugsaði til alheimsráðsins sem ég átti sjálf sæti í. Gamalt efni og hálfsársfrí til að fá einhverja gellu í ráðið til sín. Lótus skellti uppúr því að auðvitað las hún hugsanir mínar. Við glottum báðar.
-- Amma, ég elska húmorinn þinn og lofa að taka hann ekki frá þér. Ég vinn alt umbreytingarferlið sjálf, það kemur enginn annar nálægt því, ég lofa þér því.
Ég glotti.
-- Fæ ég þá brún augu?
Ég sá að gimsteininn minn langaði til að berja mig dálítið.
-- Við erum búnar að ræða þetta hundrað sinnum. Við breytum öllu nema augunum, það er of áhættusamt. Við höfum aldrei gert það.
-- Ef þú getur ekki breytt augnlitnum mínum þá ertu lélegur prófessor. Og ef ég fer inn í þetta hilki þá kem ég út með brún augu eða alls ekki.
-- Amma, þú færð allt sem þú baðst um. Dökka húð, svart hár, glæsilegan stinnan líkama. Hún hló. Þú færð eiginlega mitt útlit en þú verður að fara að byrja. Hugsaðu um afa. Hann er að verða búinn.
Afinn já. Ég var nú aldeilis búin að hugsa honum þegjandi þörfina, að fara í umbreytinguna án þess að láta mig vita. Ég sem var búin að búa með þessum skíthæl á annaðhundrað ár og ætlaði að vera með honum áfram. Hann hafði auðvitað staðið sig vel og vann með syni okkar í jarðarheilun og orkuhækkun. Ég vissi auðvitað að skrokkurinn á honum var löngu orðinn ónýtur og búið að græða bæði í nefið á honum og hnén oftar en nokkrum öðrum. Hann hafði alltaf verið að bíða eftir mér, en svo einn daginn kom Lótus og tilkynnti mér að afi hennar væri farinn, kominn inn í hilkið og umbreytingarferlið hafið. Ég vonaði að Lótus myndi búa til lítinn kínverja úr honum.
Stúlkan hnippti í mig.
-- Amma, ráðið bað mig að gera smá persónuleikabreytingu á þér í leiðinni. Þeir eru dálítið þreyttir á þessum þráa og vilja losa þig endanlega við þetta hik sem þú átt til.
-- Það var og.
-- Þú ert svo mikil kærleiksvera að það hamlar þér. Veistu að fáir nema þú fengju að halda slíkum persónueinkennum svo lengi. Það eru allir ornir dálítið þreyttir á þér.
Mér sárnaði auðvitað en vissi að þetta var satt. Vinkonur mínar voru löngu búnar að taka umbreytingunni og höfðu lengi beðið eftir mér. Það var af sem áður var. Einu sinni var það ég sem stökk af stað og hinar fylgdu á eftir. Kannski var ég búin að vera að hamla orkuhækkun á einhverju sviði. Ég skammaðist mín. Ég var ekkert ómissandi frekar en aðrir og því kannski mátulegt á mig að tilflytjast fyrir heimsku.
Lótus tók utan um mig.
-- Ekki vera leið, við elskum þig.
-- Ég elska þig líka, ykkur öll, ég kem á eftir.
Eftir feiknalegt knús fór þessi ljósvera sem ég elskaði svo mjög. Mér lék forvitni á að vita hvort hún myndi gera tilraunir á augunum á mér.
Það var ýmislegt sem ég þurfti að ganga frá. Ég vissi að börnin mín fengju að vita um leið og ég yrði komin í hylkið og þau ættu kost á að vera við þegar umbreytingunni yrði lokið. Mínir bestu vinir fengju líka tilkynningu. Ef umbreytingin tækist vel, færi ég í aðlögun í fimm mánuði og síðan kæmi ég heim, ný og fersk, tilbúin að eiga nýjan mann. Ég glotti. Þetta var engu líkt.
Ég kveikti á tölvunni í síðasta skipti. Nokkur skeyti voru til mín og þar á meðal frá fjórum vinkonum mínum. Sú fyrsta var orðin umsjónamaður samskipta á milli hnatta. Hún var eldri en ég og hafði auðvitað umbreyst fyrir löngu. Frá því fyrsta hafði hún haft áhuga á ferðamálum og endaði með samskiptum við aðra hnetti. Hún var að senda mér tilboð af fréttum um ferðir og bjóða mér með sér á hlægilegu verði. Saman höfðum við brallað margt og ferðast saman og ég elskaði hana óumræðilega mikið. Fyrsta ferðin okkar saman hafði verið til Thailands þegar ég ættleiddi son minn og síðan þá höfðum við ferðast mikið og brallað margt saman. Ég sendi skeyti til baka. "Kem eftir umbreytinguna." Ég vissi að hún yrði glöð.
Hinar þrjár vinkonur mínar voru með mér í leynilegum félagsskap sem hafði staðið mjög lengi. Saman höfðum við náð mjög langt í ýmsu sem hafði komið sér vel á þessum undarlegu tímum. Við höfðum ferðast saman með og án líkama og þær voru yndislegar elskur hver á sinn hátt, ég vissi að ég hefði örugglega ekki komist hálfa leið án þeirra. Sú fyrsta grasalæknirinn og heilarinn var orðin heimsfræg fyrir löngu og búin að þróa grasalyf sem gagnaðist ekki aðeins á okkar jörð heldur fleiri lífsformum á öðrum hnöttum . Hún var auðvitað moldrík fyrir löngu eins og við allar, en okkur var víst líka öllum sama. Eignir voru ekki aðalatriðið þó að það væri gott að þurfa ekki að hugsa um fjármuni. Að þessu sinni var þessi ástkæra vinkona mín að benda mér á undrakrem sem væri sérlega gott eftir umbreytingu. Ég glotti og sendi henni ást.
Önnur vinkona mín var orðin kraftaverkakona fyrir löngu. Hún vann að verkefnum í sambandi við þróun framtíðarjarðar og var sú skipulagðasta af okkur öllum. Hún ferðaðist ásamt prestinum, manni sínum, á milli og hafði yfirumsjón með þessu verkefni um leið og hún hitti fólk og hjálpaði með léttri snertingu. Ótalmargt fólk fékk hugarró hjá henni og hjálp. Það var eins og hún gæti með einni snertingu komið ringluðum huga á rétta braut. Frá henni var skemmtilegt bréf og lýsing á hvernig allt yrði á jörðinni samkvæmt hennar skipulagi næstu 200 árin. Ég sendi henni líka ást.
Síðasta bréfið var frá vinkonu minni sem var orðin heimsfræg fyrir ritverk, sagnfræði og heilun. Hún átti búgarða út um allt þar sem lífræn ræktun var stunduð og á milli þess reið hún út á fallegum hestum og naut lífsins. Hún var mesti eldurinn af okkur og í hjáverkum hjálpaði hún fólki sem átti í kynlífsvanda. Hún var orðin ættmóðir hundraða fólks sem þó ekki gat stjórnað þessari fallegu konu. Ég sendi henni líka ást og slökkti á tölvunni. Ég vissi að allar þessar vinkonur mínar, auk afkomendanna myndu styðja mig í umbreytingunni og senda allan kærleik og háa orku á ferlið. Með þessar elskur allar gat ekkert mistekist. Ég ákvað því að drífa mig af stað.
Ég fór út úr litla afdrepinu mínu á Sikiley og settist inn í diskinn. Áfangastaðurinn var Japan þar sem Lótus vann á háþóaðri umbreytingarstöð, en fyrst ákvað ég að kíkja á æskuheimili mitt á Íslandi. Ég vissi að bæði börnin mín voru þar og ég varð að sjá þau, án þess að þau vissu af, áður en ég færi. Ég sveif yfir Ísland og setti miðið á Blöndudalinn. Hann var fallegur eins og alltaf. Gamla heimilið mitt var eins og paradís og ég sá að bæði börnin mín voru í hengirúmum að drekka ávaxtasafa undir fallegum pálmatrjám sem sonur minn hafði gróðursett við húsið. Þau voru dásamlega falleg og þeim samdi vel. Sonur minn hafði sitt aðalaðsetur þarna heima en dóttir mín átti svo mörg aðsetur að það var varla hægt að staðsetja hana.Hún kom þó oft til bróður síns til að njóta dýranna og náttúrunnar sem var einstök á þessum fagra stað. Ég var ákveðin í að fara heim þegar umbreytingunni væri lokið og taka frí með börnunum. Þó að ég skryppi á fundi með alheimsráðinu, þá gat ég tekið mér frí frá heilun og sköpun, eða bara gert það í fjarvinnu. Sem betur fer voru engar hömlur á slíku.
Ég veit ekki hvað ég sat lengi og horfði á sólargeisla lífs míns, þau als grunlaus um að móðir þeirra væri að fylgjast með, áður en ég breytti hnitunum á Japan og lagði af stað að hitta hina fallegu og skynsömu dótturdóttur mína.
Ég var með örlítin hnút í maganum er ég gekk inn. Byggingin er kúlulaga hvelfing með minni hvelfingum alt um kring. Ég vissi að um leið og ég stygi inn myndu skynjarar senda boð á Lótus og hún vissi þá að ég væri komin. Það var líka raunin. Andartaki eftir að ég var komin inn birtist Lótus, með bros á brá.
-- Komdu amma.
Við fórum inn í einhverskonar lyftu sem bar okkur um fjórtán hæðir niður í jörðina. Umbreytingin fór fram í iðrum jarðar og ég ákvað að hugsa ekkert um hvað væri gert.
-- Þetta er frábært amma, ég elska þig. Ég veðjaði við ráðið um að ég kæmi þér nægilega fljótt í umbreytingu. Ég fæ stöðuhækkun um leið og þínu umbreytingarferli er lokið. Það er líka dálítið annað sem ég ætla ekki að segja þér en ég er mjög spennt. Ráðið fylgist með og gefur Uppsprettunni upplýsingar jafnóðum.
Ég fékk hnút í magann, en það óð á stúlkunni.
-- Viltu sjá hylkið hans afa?
-- Nei, ég hitti hann þegar ég kem aftur.
Hnúturinn í maganum stækkaði.
-- Ég er búin að fá leyfi til að fara með þig í aðlögun til Íslands og þá getum við öll verið saman "heima" í hálft ár.
Mér hlýnaði um hjartað. Þessi stelpa hugsaði fyrir öllu. Mér fannst líka vænt um hve allir afkomendur mínir litu á Ísland og æskuheimili mitt sem heimili sitt hvar sem þau voru í veröldinni. Það var einn af okkar sterku þáttum.
Við komum inn í bjarta hvelfingu og hún benti mér á glerhylki sem stóð opið á gólfinu.
-- Viltu vera vakandi á meðan ég tengi þig, eða viltu sofna áður?
-- Ég held að það sé best að ég sofni bara og síðan geturðu gert það sem þú vilt.
-- Allt í lagi.
Ég fékk sérstakan búning til að klæðast og síðan benti hún mér að leggjast. Engir aðrir starfsmenn voru enda var þetta sérverkefni Lótus. Hún leit á mig og eitt andartak sá ég kvíða í augnaráðinu.
-- Amma, ég geri mitt besta.
-- Þú hefur alltaf gert það og hvernig sem fer, þá verð ég sátt.
--Ég elska þig.
Stúlkan kom með tæki sem hún festi við úlnliðinn á mér.
-- Þegar ég ýti á takkann þá sofnar þú. En ég verð að segja þér eitt. Það ætla allir að vera viðstaddir þegar þú vaknar. Allir þínir afkomendur, bestu vinkonur og æðstaráðið.
Ég starði á hana.
-- Þú sagðist verða ein.
-- Ég verð ein allar þrjár vikurnar en svo koma þau öll til að verða viðstödd uppvakninguna.
-- Þú meinar að þau verða þá öll vitni að allri minni ævi.
Hún kinkaði kolli, greinilega hrædd um að ég hætti við. Eitt andartak flaug mér það í hug. Ég hafði alla mína ævi haft þau forréttindi að eiga mitt leynihólf sem fáir þekktu. Hólf þar sem afkomendur mínir gátu ekki séð eða náð í þekkingu frá, en nú myndi hver einasta atriði verða opinbert fyrir fólkinu mínu og æðsta ráðinu og ég var langt frá því stolt af öllu.
Ég horfði á Lótus og það var bæn í augum hennar.
-- Barnið mitt, ég held að þú ættir að ýta á takkann núna.------------------------------------------Allt var fjólublátt, blátt, gult, grænt, regnbogalitt, neonlitt, ljós.............................. Myndir skutust fram eins og leiftur. Barn sem brosti við fallegum blómum, flúði randaflugu. Barn sem grét vegna þess að það hélt að heimsendir væri kominn þegar þrumur og eldingar klufu loftið, barn sen grét vegna þess að mamma var ekki mamma og pabbi ekki pabbi. Barn sem var ættleitt og hataði kynforeldra sína, vildi vera prinsessa en ekki lausaleikskrói. Barn sem var elskað, barn að hlusta á sögur hjá blindir ömmu sinni, barn sem kúrði í rúminu hjá móður sinni til tólf ára aldurs. Unglingur með minnimáttarkennd, unglingur sem var fyrir vonbrigðum með lífið, grét móður sínar dána, hataði manninn sem tók sakleysi hennar, unglingur í uppreisn, unglingur sem strauk, vandræðabarn. Ung kona sem fann ástina, reyndi að flýja frá raunveruleikanum en átti þó mann sem elskaði hana og hjálpaði henni í gegnum allar þrautir, mann sem hún elskaði óendanlega mikið. Basl, peningaleysi, lífsbarátta, hamingja, vinirnir, sorg yfir ástvinamissum, sorg vegna barnsleysis og biðin langa eftir börnum. Óendanleg móðurhamingja, ótti við að standa sig ekki, ótti við að eitthvað kæmi fyrir börnin, ótti við dauðann. Rithöfundurinn sem barðist við að skrifa og var í langri baráttu áður en verkin voru loksins metin að verðleikum, frægðin, athyglin , peningarnir, dýrin, heilunin, skólinn, tilfinningarnar, fjórar nornir og nánir vinir, ást, kærleikur, ljós. Allar tilfinningar lífsins, prófið fyrir framan æðsta ráðið, verkefnin. Þetta var of mikið í einum pakka. Mér fannst brjóstið vera að sprynga. Hver tilfinningin af annari skall á mér, góð og slæm, sár og heilandi. Ég get ekkert gert til að stoppa þetta. Ég ákallaði Uppsprettuna sem í blíðu sinni benti mér á að þetta hefði ég valið. Ég vissi loksins hvað ég hafði óttast, það var þessi stund. Ég var að endurupplifa nokkuð sem ég hafði áður gert innilokuð í kistu í Egyptalandi hið forna. Ég þekkti nú þennan ótta, óttann við að falla, byrja uppá nýtt. Óttinn við að standast ekki víxluna. Ó, Guð, miskunaðu mér.
Táknmyndir flugu hjá, draumar mínir, langanir, til styttri og lengri tíma. Afbrýðisemi, ótti, vanmetakennd, stundir sem ég var ein, stundir sem ég var uppljómuð. Allt frá svartnætti til þess að ganga um jörðina með Kristi mínum og fljúga um með vinkonum mínum í fullkominni gleði. Allt, það kom allt. Ég leiddi hugann ekki að því eitt andartak að einhver væri hjá mér, ég var alein að berjast við tilfinningar mínar, allt sem ég vildi ekki horfast í augu við, hafði reynt að gleyma, allt. Ég fann til með hverri einustu frumu. Myndir úr lífum forfeðra minna flugu hjá og sál mín grét. Þekkingin ruddist fram í höfuðið og mér fannst ég var að sprynga. Illskan sem nú var horfin burt af jörðinni var samt til í minni mínu og forfeðra minna og ég var að bugast. Hjarta mitt grét.
Ég vissi ekki hvað var þá og nú. Var ég steinn, planta,dýr eða maður. Líklega eitthvert lífsform, allt og ekkert. Ekkert haldbært, ljós sem stóð í þvílíkum fellibyl að ég bjóst sjálf við að slokkna á hverri stundu. Undirmeðvitund mín sagði að þá myndi ég tilflytjast og allir sem elskuðu mig og voru farnir myndu bíða og taka á móti mér, en ég vildi berjast.
Allt í einu kom andlit Lótuss inn í vitund mína.
-- Amma, vaknaðu, vaknaðu til mín.
Uppsprettan talaði til mín.
-- Þú átt val.
Ég vissi að ef ég veldi tilflutning gæti ég lokað á sársaukann en kæmi ég til baka í nýja umbreytta líkama minn þyrfti ég að hafa allar minningarnar og takast á við þær. Það tæki vikur að jafna sig á því. Mér fannst brjóstið vera að rifna og það var of sárt til að gráta. Andlit Lótus sveif í huganum á mér.
-- Opnaðu augun, ég bið þig opnaðu augun.
Valið var mitt. Ég var ekki vön að gefast upp og ég vissi hvað ég vildi. Það tók á að reyna að finna fyrir líkama sínum. Ég barðist við að hugsa um augnalok og lyfta þeim. Ég tók á öllu sem ég átti og fann fyrir mjög sterkum orkusendingum á þennan nýja breytta líkama minn. Ég vissi að ástvininr mínir voru að hjálpa mér. Ég hugsaði mig upp, tók alla orku sem ég gat og fyrirskipaði augunum að opnast.
Fyrst sá ég ekkert en svo kom þetta fallega elskulega andlit upp að mínu.
-- Ég elska þig amma, þú ert stórkostleg. Þú ert kraftaverk, þú hefur gefið mér stærstu gjöf sem er hægt. Ég mun eftirleiðis fá að sitja við hlið þér í ráðinu. Amma velkomin til baka.
Ég reyndi að hugsa ekki um sársaukann, en fann að ég var í líkama, sem var dofinn en hann var ég, hjartað sló og ég andaði. Ég reyndi að tala og eftir nokkra stund tókst mér að muldra fyrstu setninguna.
-- Hvernig eru augun?
Lótus var farin að gráta, tárin runnu hljóðlaust niður fallegar kinnarnar.
-- Þau eru brún amma, þau eru brún.
Ég neyddi stirðar varirnar til að brosa og brátt sá ég útlínur þeirra sem voru hjá mér. Dálítið frá hylkinu mínu stóð ráðið. Þau voru þarna öll með tölu og ég fann óendanlegan kærleik frá þeim. Ég náði augnsambandi við leiðbeinandann minn til margra lífa Rean. Hann sendi svo hreinan kærleik af því að hann skildi hvað ég hafði gengið í gegnum. Hann hafði verið með mér allan tíma frá því í Egyptalandi, ég fann hvað hann gladdist innilega.
Þarna voru öll börnin, svo falleg og svo glöð og maðurinn sem stóð þarna, var fjandi myndarlegur. Hann brosti til mín og ég sá að Lótus litla hafði breytt öllu hjá afa sínum nema augunum. Ég fann hve hann var glaður að ég var komin og ég vissi í hjarta mínu að samveru okkar var ekki lokið, við myndum hefja yndislegt tímabil, laus við að hafa áhyggjur af skemmdu baki eða ónýtu nefi.
Vinkonur mínar voru þarna og ég sá að þær höfðu lagt allt sitt til að koma mér til baka, ég sendi þeim ást og fékk ást. Ferðafulltrúinn, vinkona mín, hafði búið sig uppá í einkenninsbúning ferðamálaráðsins mér til heiðurs, hún brosti og þetta bros sendi mér aukinn karft, tárin í augnkrókunum yljuðu hjartanum óendanlega mikið. Hinar þrjár, nornasystur mínar, höfðu líka búið sig uppá, allar voru þær í rauðum skyggjum með gyltum bryddingum, ég vissi að þetta voru kraftskykkjur og þær höfðu greinilega ætlað sér að berjast með mér og gert. Sú vilta fallega vinkona mín var búin sem egypst drottning, frægi glasalæknirinn minn var demöntum skreitt en klædd eins og indiánar voru og fallega kraftaverkonan mín, ástkona prestsins, var eins og rússnesk keysaraynja. Þær vinkuðu glaðlega og ég sá að þær grétu eins og ég. Var hægt að eiga svo góða vini? Ég sendi Uppsprettunni þakklæti mitt og fékk kærleik til baka. Ég fékk að velja og ég var þakklát öllum sem ég elskaði að hafa hjálpað mér.
-- Hvíldu þig, amma, við förum heim í kvöld. Þú sefur núna og vaknar hressari.
Maðurinn minn elskulegur beygði sig niður að mér, ég var honum ekki lengur reið.
-- Hvernig lít ég út?
Hann brosti.
-- Þannig að ég vildi gjarnan vera einn með þér í tjaldi, þar sem engin væri nærri.
Ég glotti og sá að vinir mínir í ráðinu glottu líka. Lótus hló.
-- Ég gerði það sem ég kunni best, bjó til nánast eftirmynd af mér.
Ég lokaði augunum. Veröldin var fullkomin og ég var hissa á sjálfri mér. Hvers vegna hafði ég verið hrædd? Ég hafði í raun aðeins hræðst sjálfa mig. Ég var það eina sem gat skaðað mig. Veröldin sjálf var fullkomin og full af ást, framtíðin var samfelld hamingja, það eina sem þurfti að gera var að velja hana.    KONAN Á INDIÁNAHESTINUM.


 

Glóðheitir logarnir teygðu sig í áttina til hennar en hún haggaðist ekki. Þetta bál sem hún hafði sjálf tendrað í sínum eigin skógi hafði fangað hana. Hún starði inn í logana sem dönsuðu fyrir augum hennar. Hviss heyrðist öðru hvoru er sprek brast í hitanum og nýjar kynjamyndir birtust sjónum hennar hver af annari. Það var eins og hún hefði alla ævi beðið þessarar stundar. Hún var bergnumin, þar sem hún sat í hitanum frá bálinu og reyndi að skilja sjálfa sig. Það var ekki alltaf auðvelt að skilja hvað lá að baki tlfinningum og gjörðum.

          Allt sitt líf hafði henni fundist hún vera að endurtaka eitthvað, þótt hún vissi ekki hvað. Fólk og atburðir komu inn í líf hennar, vonbrigði og útvinnsla en samt á þann hátt að hún réð við það. Hjartasorgin hennar hafði verið sár, en þó vissi hún innra með sér að þessi sársauki var ekkert á móti því sem hann hafði verið áður. Hún þekkti tilfinninguna er hjartað er bókstaflega rifið úr brjóstinnu og ekkert er eftir.

          Þegar hún komst að því að hún gæti ekki gifst manninnum sem hún elskaði var það sárt, en hún vissi samt að það var á einhvern hátt mildað. Þótt henni liði illa og felldi tár, þá var hjartað enn á sínum stað og hún vissi að hún gæti lifað áfram. Hún gat óskað honum als hins besta og verið sátt, þrátt fyrir allt. Hún átti sitt líf og listsköpunina sem hún hafði gert að ævistarfi sínu. Málning og strigi sögðu sögu hennar þótt hún vissi á stundum ekki hvað það var sem hún var að segja. Þannig skildi hún ekki sjálfa sig. Eitthvað af henni sjálfri hafði alltaf verið hulið, en þó vissi hún að þetta líf hafði einhvern sérstakan tilgang þótt hún vissi ekki nákvæmlega hver hann væri.

          Þegar hún tók að sér munaðarlausa sex ára drenginn fékk líf hennar nýja fyllingu. Hún vissi um leið og hún sá hann að þetta var hennar drengur, hafði verið það og yrði það alltaf. Hann var náttúrubarn eins og hún og hún vissi frá fyrstu stundu að hann yrði sæll hjá henni og þau saman. Þau voru móðir og sonur, eins og þau hefðu alltaf verið það. Stundum fannst henni að hún hefði alltaf átt hann. Drengurinn var aldrei framandi, hún þekkti hann og hann hana.

          Nú voru tímamót í lífi hennar en það var samt eins og hún vissi hver framtíðin yrði. Drengurinn var kominn í framhaldsnám og í fyrsta sinn fjarri móður sinni. Hún hafði samt engar áhyggjur af honum. Um hann yrði alltaf séð og hann yrði farsæll. Þau myndu eiga saman góðar stundir áfram, þótt hann byggi ekki lengur í húsinu hennar í skóginum. Það yrði samt alltaf heimili þeirra beggja, þar sem þau fyndu náttúruna og fengju útrás fyrir gífurlega sköpunarþörf. Hún vissi meira að segja að hann myndi eignast góða konu og finna hamingjuna á þann hátt sem var ekki henni ætlað. Það var gott.

          Þetta kvöld hafði drengurinn kvatt, glaður í bragði og eftirvæntingarfullur. Þau voru bæði glöð. Hann fékk sín tækifæri og hann var ljós lífs hennar. Þannig var hún hamingjusöm, í gegnum hann. Þó var einhver innri sársauki sem hún vildi losna við en vissi ekki hvernig. Hún vissi ekki einu sinni hvers vegna hann var þarna. Þá fékk hún þessa undarlegu hugmynd, að kveikja bál í skógarrjóðrinu.

          Opinn eldur hafði alltaf bæði hrætt hana og heillað. Hún kunni heldur enga skýringu á því. Opinn eldur bjó yfir duldum kröftum, hann var eyðandi og sársaukafullur en um leið hreinsandi. Það var eitthvað við eldinn sem hún skildi ekki. Hann dró hana til sín um leið og lamandi ótti gagntók hjarta hennar. Hún vissi að hún yrði að fá svör. Hún varð að þekkja sjálfa sig, fá svör við spurningum sínum og eyða óttanum sem alls ekki átti heima í hennar annars friðsæla lífi.

          Röggsöm og ákveðin hafði hún safnað þurrum sprekum og trjákubbum sem lágu á víð og dreyf. Hún hamaðist við verkið og hætti ekki fyrr en kominn var hinn myndarlegasti bálköstur, þá kveikti hún í. Eins og í leiðslu settist hún við bálið með krosslagða fætur. Hún var hún en ekki hún. Hún vissi ekki hvað var að gerast en hún varð að fylgja eftir þessari innri þörf. Hún var alein en vissi þó að eitthvað var í þann mund að gerast. Hún starði á logana sem teygðu sig mishátt, sumir í átt til hennar og sumir beint upp. Skuggar loganna breyttust í myndir. Hún hvarf á braut þótt hún vissi að í logunum leyndist óttinn sem hún hafði aldrei þorað að horfast í augu við...

          Húsið þeirra var hvítkalkað og nýstárlegt. Það var hús sem hæfði höfðingja og svo mátti segja um föður hennar. Hann var nokkurskonar landstjóri og hafði samskipti við indiánana sem bjuggu skammt frá. Ef horft var frá húsinu mátti sjá sandöldur og kletta sem í hennar huga höfðu ótrúlegt aðdráttarafl. Bak við þetta landslag var heimur sem hún þráði, maðurinn sem hún þráði.

          Hún hafði kynnst indiánunum eftir að þau fluttu og strax frá því fyrsta langaði hana að vera eina af þeim. En henni til armæðu var hún með hvíta húð og dökkt liðað hár sem var laust við þennan blásvarta gljáa sem henni fannst svo heillandi á hári indiánastelpnanna. Húð þeirra var einnig rauðbrún og fötin þeirra langtum meira spennandi en kjólarnir sem faðir hennar krafðist að hún klæddist.

          Hún var á sautjánda ári og var ástfangin. Tilfinningin var svo yfirþyrmandi að það var eins og bjartað hefði ekki lengur pláss í brjóstholinu. Hana langaði að fljúga, svífa um himinhvolfið í þeirri alsælu sem hún hafði kynnst.

Það var liðið á dag, hún stóð fyrir framan húsið og horfði til fjalla. Hún var ekki með sjálfri sér. Hún beið þess að hitta elskhuga sinn að nýju, manninn sem hún hafði gefið hjarta sitt og líkama. Þau voru elskendur í efni og anda, svo fullkomlega sameinaðar sálir að hún trúði ekki að nokkuð gæti stíjað þaim sundur. Hjörtu þeirra slógu í takt og hún var þess fullviss að ef annað þeirra hætti að slá þá myndi hitt gera það líka.

          Hann var sonur höfðingjans, myndarlegur með ákveðinn andlitsvip, beint nef og dálítið strekktar varir. Húð hans var rauðbrún og dásamleg viðkomu. Hún skammaðist sín fyrir eigin útlit við hlið hans. Allt í fari hans var stórfenglegt og með honum fannst henni hún vera frjáls. Með honum var hún sú sem hún var, óheft, elskuð með allt lífið framundan.

          Vissulega voru samverustundir þeirra stolnar. Hún mátti að sjálfsögðu ekki leggja lag sitt við indiána og hann átti yfir höfði sér kvalarfullan dauðdaga lægi hann með hvítri konu. Þannig voru lögin og faðir hans, höfðinginn, leit svo á að önnur eins smán væri ekki til. Samt var ekkert sem gat stöðvað þau. Þrá þeirra til hvors annars var svo heit að reglur mannanna gátu á engan hátt hrætt þau. Hann kom í skjóli nætur á skjótta hestinum og sótti hana. Hún sat klofvega fyrir aftan hann og saman þeystu þau út í óbyggðirnar, frelsið sem veitti þeim næði til að vera saman, njóta ásta og finna sjálf sig í hvort öðru. Svo ólík en þó svo fullkomlega eitt. Hvorugt þeirra hafði ímyndað sér að þau gætu orðið svo fullkomlega á valdi ástarinnar að ekkert í heiminum gæti stöðvað þau.

          Hún stóð fyrir utan húsið, full af gleði og bjartsýni. Veröldin hlaut að breytast. Ef til vill myndi hörðinginn breyta reglum sínum einn daginn og leyfa þeim að eigast. Þá yrði faðir hennar að gefa samþykki sitt, eða þá að hún færi að heiman í þorp elskhuga síns þar sem hún myndi una glöð. Hún dýrkaði fábrotið og frumstætt líf indíananna og dáðist að hollustu þeirra við landið.

          Hún hafði sagt elskhuga sínum allt um sitt líf og lifnaðarhætti og hann hafði frætt hana um sitt. Hún lærði málið hans og hann hennar. Þau voru svo heilluð hvort af öðru að ekkert annað komast að í lífi þeirra. Ekkert nema samverustundirnar og vonin sem þau áttu, von til framtíðar og eilífrar sælu, saman.

          Hún hrökk við er hún sá þrjá indiána koma ríðandi niður hæðirnar. Hjarta hennar sló hraðar. Hún þekkti að í miðið var höfðinginn sjálfur og á sitt hvora hönd riðu bræður hans. Hjarta hennar tók feilslag og hún óttaðist erindi hans í hús föður hennar nú. Hún var hrædd við höfðingjann, augu hans voru grimm og úr svip hans mátti lesa miskunarleysi sem hún óttaðist. Hún flýtti sér inn. Úr herbergi sínu heyrði hún að faðir hennar fór út og átti langt samtal við höfðingjann. Þeir riðu burt án þess að ganga inn eða þyggja veitingar. Þetta var allt fremur undarlegt.

          Skömmu seinna kom faðir hennar að finna hana. Hún sá á svip hans að hann var bæði reiður og hryggur. Hann starði á hana og eitt andartak var hún lömuð, eitthvað hræðilegt hafði gerst.

          -- Hvernig gastu gert þetta? Hvernig gastu lagst með indiána? Hverngi gastu lagst með syni höfðingjans?

          Tunga hennar var lömuð og hún átti engin orð. Eitthvað hafði gerst, nú vissu feður þeirra um samdrátt þeirra.

          -- Dóttir góð, nú ferð þú ekki fet úr þessu herbergi. Á morgun sendi ég þig burt til systur minnar, ég læt bræður þína gæta þess að þú yfirgefir ekki herbergið.

          Hún opnaði munninn til að andmæla en hann stoppaði hana.

          -- Elskhugi þinn tekur út sína refsingu í kvöld svo þú getur alveg gleymt því að hitta hann framar. Við tölum ekki meira um þetta. Móðir þín hjálpar þér að taka saman föggur þínar á morgun.

          Hún sá að faðir hennar var reiðari en hún hafði nokkru sinni séð hann. Hann staðnæmdist í herbergisdyrunum.

          -- Þakkaðu fyrir ef þessi afbrot þín kosta ekki ófrið milli hvítra og indiána.

          Hurðin lokaðist og hún heyrði að lykli var snúið í skránni. Lömuð hné hún niður á rúmið og reyndi að innbyrða hinn skelfilega sannleik. Hann yrði drepinn, í kvöld. Það mátti ekki gerast. Hún gat ekki setið aðgerðarlaus. Hún trúði þessu ekki, trúði ekki að höfðinginn ætlaði að deyða sinn eigin son.

          Eitt sinn hafði hún heyrt hræðilega sögu um indiána sem varð ástfanginn af hvítri konu. Hann var drepinn þannig að hann var steiktur yfir eldi, til að eldurin gæti brennt burt syndina. Annar hafði verið fleginn lifandi. Óbærilegar kvalirnar áttu að hreinsa sál þeirra, svo þeir mættu yðrast og hreinsast í dauðanum. Hún mundi hve hún skalf að viðbjóði er elskuhugi hennar sagði henni þessar hryllingssögur, en hún hafði aldrei látið sér til hugar koma að höfðinginn væri svo grimmur að hann pintaði son sinn til dauða. Það var hennar vegna sem hann myndi þjást, vegna ástar þeirra myndi hann deyja svo ungur, sviptur lífinu sem beið, sviptur höfðingstigninni sem hann átti að erfa. Hún hafði alltaf vitað að hann yrði mildur stjórnandi. Hver átti nú að breyta því sem breyta þurfti?

          Henni fannst hún vera að missa vitið. Föl og örvingluð sat hún á rúminu og hugsaði ráð sitt. Hvað sem gerðist, þá varð hún að komast út. Hún varð að komast í þorpið. Hún varð að hitta höfðingjann og bjóða honum líkama sinn. Hún vildi deyja, bara ef hún gæti bjargað elskhuga sínum. Síðast af öllu vildi hún vera völd að dauða hans. Ó, hve miskunarleysi heimsins var algjört. Ef hún lokaði augunum sá hún fyrir sér grimm augu höfðingjans sem störðu ásakandi á hana. Hún vissi að þau myndu fylgja henni alla tíð. Það yrði refsing hennar. En það mátti ekki verða. Hún varð að bjarga elskhuga sínum, hún var tilbúin til aðdeyja fyrir hann.

          Það var orðið skuggsýnt. Hún heyrði er móðir hennar tók til matinn, heyrði óm af samræðum, en enginn kom og talaði við hana. Eldri bróðir hennar sat fyrir neðan gluggan hennar, að tilskipan föður síns, til að gæta hennar. Hún var hunsuð og innilokuð af eigin fjölskyldu. Angist hennar var algjör. Hún bað til guðs, formælti í huga sér óréttlæti heimsins. Hún varð að komast út.

          Tíminn silaðist áfram og það var orðið aldimmt er hún heyrði loksins að bróðir hennar var sofnaður á verðinum. Ofurhægt opnaði hún gluggann og kleif út. Hún var í æfingu. Hún mundi vel hvernig hún átti að komast hljóðlega burt. Hún var orðin í hegðun og hugsun líkari indiána en nokkurn grunaði.

          Henni létti ekki fyrr en hún var komin úr augsýn. Hún hljóp eins hratt og fætur toguðu, löngum og léttilegun skrefum. Hún varð að komast til búðanna sem fyrst. Hún varð að hitta höfðingjann. Hún varð að koma í veg fyrir hinn hræðilega verknað, hvað svo sem það kostaði hana. Henni var sama.

          Full bjartsýni sá hún síðustu sandölduna sem aðskildi hana og þorpið. Hún hljóp eins og þyndarlaus, hún varð að koma nægilega fljótt. Hjarta hennar barðist svo ótt að það var eins og það væri að springa, hana verkjaði í lungun, en henni var sama. Hún varð að komast.

          Hræðilegt angistarvein rauf hina myrku þögn. Hjartað sprakk. Hún fann hvernig fæturnir gáfu sig og hun hné niður á sandinn, eins og allur vindur væri úr henni. Hún hafði komið of seint. Kvalaöskrin glumdu í næturkyrrðinni og hún þekkti að það var hann. Lykt af sviðnuðu holdi barst til hennar og öskrin urðu skelfilegri með hverju andartaki. Kvalaópin þrengdu sér inn um hlustir hennar og sturluðu hana. Hún reyndi að hrópa en tungan var lömuð. Fyrir eyrum hennar glumdu hin hræðilegu óp og í huga sér sá hún grimm augu höfðingjans sem störðu á hana. Hún vissi að hún hafði gengið inn um dyr helvítis, þannig yrði tilvera hennar það sem eftir var. Lykt af brunnu holdi, kvalaóp þess sem hún elskaði mest og grimm augu sem hötuðu hana. Hún hné veinandi niður í sandinn, ómeðvituð um tilvist sína, eins kvalin og hægt var að vera. Hún vissi ekki af sér er tveir sterklegir indiánar báru hana heim. Hún var dottin inn í myrkan heim angistar, þar sem engin leið var út.

          Hún hafði ekki hreyft legg né lið. Svitinn bogaði af henni og hún var gegnvot þrátt fyrir hitann frá bálinu. Tárin sem runnu úr augunum þornuðu á kinnunum en hún fann það ekki. Hún var brennheit í vöngum, eldurinn hvæsti fyrir framan hana og logarnir dönsuðu þannig að hún gat ekki sleppt þeim.

          Það liðu margar vikur þangað til hún fór að klæða sig og ganga út fyrir. Hún var horuð, náföl og glær að sjá. Hún nærðist nánast ekkert og talaði ekki orð. Það sem hún hafði orðið vitni að var of hræðilegt til þess að hún gæti lifað áfram. Hún gat heldur ekki sofið. Martröðin kom í draumunum og hún vaknaði upp rennsveitt með hjartslátt. Hún þráði dauðann umfram annað. Þráði að sameinast elskhuga sínum í dauðanum.

          Einn daginn er hún hafði tyllt sér á veröndina sá hún hvar höfðinginn kom ríðandi niður hlíðina með skjóttan hest í taumi. Hún þekkti hestinn enda hafði hann borið hana inn í frelsið. Hún horfði á höfðingjann nálgast en hreyfði sig ekki. Hún óttaðist hann ekki lengur, hún óttaðist ekki dauðann. Tómum augum starði hún á hann er hann staðnæmdist fyrir framan hana. Augu hans voru einnig tóm, þó var grimmdin og hatrið enn til staðar. Hann sleppti skjótta hestinum við fætur hennar.

          -- Eigðu hann svo þú getir alltaf munað hvað þú gerðir.

          Síðan reið hann aftur af stað og hún horfði á eftir honum og skinjaði jafnframt hina heldjúpu sorg sem fyllti sál þessa grimma manns. Skjótti hesturinn þekkti hana og stakk snoppunni í lófa hennar. Hún tók utan um hálsinn á hestinum og grét. Það losnaði um eitthvað innra með henni og hún vissi að líklega myndi hún lifa áfram, en hún myndi aldrei gleyma.

          Um nóttina tók hún ákvörðun. Hún varð á einhvern máta að reyna að bæta fyrir brot sitt. Ef hún á einhvern hátt gæti orðið indiánunum að liði þá myndi það friða sál hennar, þó ekki væri nema að slá á kvölina. Hún vissi um lækni sem starfaði eingöngu við að hjálpa fátækum indiánum og hún ákvað að biðja hann ásjár. Kannski var not fyrir krafta hennar þar. Hún tók saman það helsta sem hún vildi hafa með, skrifaði bréf til foreldra sinna og hélt úr í nóttina. Hún og skjótti hesturinn hurfu út í myrkrið og óvissuna.

          Það var auðsótt mál að fá að vinna hjá gamla lækninum. Hann var glaður að sjá hana og hann vissi sögu hennar og skildi sorg hennar. Hann kenndi henni margt og hún aðstoðaði hann frá morgni til kvölds. Indiánakonurnar komu með veik börn, þau hjálpuðu við erfiðar fæðingar og græddu sár. Hún braggaðist og leið betur. Hún fann ákveðinn frið við að fá að umgangast þetta fólk og hjálpa. Á kvöldin sótti sektin og harmurinn að henni og þá tók hún hestinn sinn og þeysti út í nóttina. Indiánarnir kölluðu hana "Konuna á indiánahestinum.

          Þegar hún hafði verið hjá gamla lækninum í tvö ár sá hún í fyrsta skipti lítinn indiánadreng sem alltaf var að sniglast í kringum húsið. Hann var skítugur og svangur og hún gaf honum að borða. Hún giskaði á að hann væri um það bil sex ára og trúlega munaðarlaus. Hann hændist að henni og brátt kom hann á hverjum degi til að borða. Með tímanum vann hún hjarta hans og hann varð henni sem sonur. Loksins hafði líf hennar öðlast fyllingu. Hún hafði raunverulega ástæðu til að lifa. Höfðinginn kom aldrei, en hann meinaði henni ekki að taka drenginn og hún vissi að hann fylgdist með henni. Þau áttu sameiginlega sorg.

          Hún hrökk upp. Eldurinn var að brenna út. Langa stund tók það hana að komast til sjálf sín, ná að hreyfa stirðan líkamann og standa upp. Henni leið eins og hún hafði gengið í gegnum hreinsunareld. Hún skalf þótt nóttin væri hlý, en hún skildi margt betur. Skildi ótta sinn og myndirnar sem birtust fyrirvaralaust á striganum en áttu sér enga skýringu. Henni fannst hún skilja lífið og hún var sáttari. Hún var komin til að læra, varð að læra að lúta reglum og vera sátt. Hún slökkti í síðustu glæðunum og gekk heim. Hún vissi að hún yrði aldrei söm eftir þessa reynslu, en hún vissi hver hún var. Konan á indiánahestinum.

         


 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                     

Í upphafi var......................


 

 

          Manstu þegar þú fæddist? Það man ég, eins greinilega og ég man þessa stund þegar ég sest við tölvuna og ákveð að spyrja spurningarinnar, manstu þegar þú fæddist? Þú segir auðvitað að ég ljúgi þessu eins og ég sé löng til, en nei, ég man nefnilega miklu meira. Ég man áður en ég fæddist og töluvert mörg líf. Bull segirðu............ en ég ætla þá bara að segja þér hvað gerðist þegar og áður en ég fæddist.

          Ég var búin að ákveða hvenær ég ætlaði í næstu jarðvist og tíminn var að renna út. Ég vissi að getnaður færi að eiga sér stað, allt var fyrirfram planað. Ég hafði fyrir svo löngu valið mér foreldra, stað á litlu landi norður á hjara veraldar, þar sem svo margir voru nú staddir sem höfðu verið á sama tíma og ég á Írlandi í lífinu áður. Margar karmaskuldir áttu að greiðast í þessari jarðvist og við vorum svo heppin að fá leyfi til að taka þátt í mestu orkubreytingu jarðarinnar. Ég vissi að minn staður var á Íslandi og mín verkefni voru ákveðin. Ég ætlaði að læra að losa mig við fordóma, vera brautryðjandi í því áhugamáli mínu að engin landamæri væru til á jörðinni, að öll trúarbrögð yrðu jöfn og að allir menn væru jafnir, óháð litarafti, trú eða öðru. Ég vissi að ég fengi að vinna við andlega leiðsögn um leið og ég fengi að þroska sjálfa mig andlega, vissi að ég yrði að takast á við ákveðin áföll í lífinu til að styrkja mig og til að læra af. Ég vissi svo margt á þessum tíma sem ég svo auðvitað gleymdi. Undirbúningur undir brottför mína var hafinn og nánasti leiðbeinandi minn, Rean, var með mér, en þá kom babb í bátinn. Foreldrar mínr gátu ekki eignast börn saman.

          Þetta var áfall, hafði ég ætlað að vera ættleidd? Það var ákveðinn hætta, að bruna til jarðarinnar og lenda svo á kolvitlausum stað. Ég var samt ákveðin í að  ég varð að fara, en hvað var til ráða? Mér var auðvitað ráðlagt að finna aðra foreldra, skipuleggja planið uppá nýtt og finna svipaðar aðstæður þar sem ég myndi gera líka hluti og ná þeirri reynslu sem ég hafði hugsað mér. En þrái minn var öllu yfirsterkari, ég varð að finna fólk sem myndi þá gefa mig til minnar réttu fjölskyldu. Það var bara einn hængur á. Á jörðinni er frjálst val og við getum breytt, höfum leyfi til að skipta um skoðun eins oft og við viljum. Því var ég í raun að taka töluverða áhættu með því að láta vaða, en eðli mitt réð og ég ákvað að láta slag standa.

          Eftir mikla yfirlegu fann ég blóðforeldra sem ég varð að treysta að kæmu mér til réttrar fjölskyldu. Þetta var ágætisfólk. Hann var bóndi, giftur og hélt framhjá, með konunni sem ég fékk augastað á. Saman höfðu þau eignast einn son og á jarðartíma 1958 var það skandall, hvað þá ef nýtt barn kæmi. Konan var einföld bóndadóttir, hjartagóð og hræðilega ástfangin af þessum flagara sem bjó utar í sömu sveit. Vinir mínir og leiðbeinendur stundu.

          -- Þú ert ekki með öllu mjalla. Hvað ef þau halda þér? Hvað ef þau láta eyða fóstrinu? Hvað ef þau gefa þig allt öðrum?

          Margar spurningar vöknuðu, en ég var orðin ofurbjartsýn. Láta á þetta reyna. Bruna sér niður í dramantískar aðstæður og láta slag standa. Ég sagði.

          -- Ef allt klikkar þá kem ég til baka.

          -- Það er sóun á tíma. Við fundum fjölskyldu í Svíþjóð sem er mjög svipað ástatt með. Þú ættir alla sömu möguleika.

-- Ef eitthvað klikkar þá kem ég til baka.

Rean, besti vinur minn og leiðbeinandi, varð strangur á svip.

-- Gerðirðu þér grein fyrir hvaða karma þú gætir skapað? Hvað með fólkið? Ef þú kafnar í fæðingu við þessar aðstæður verður þeim kennt um að hafa fargað þér.

-- Ég verð að komast á minn stað.

-- Allir staðir eru þínir staðir ef þú vilt.

-- Ég ætla að fara.

Vanþóknunin sem lá í augnaráði vinar míns var augljós og mér fannst það leitt, en mér varð ekki haggað. Ísland skildi það vera og ekki orð um það meir. Ég leit á hann.

-- Þú verður með mér samt.

-- Ég varð alltaf með þér.

 

Þannig var það. Það var október 1958 og samkvæmt útreikningum mínum myndi ég fæðast í lok júlí 1959 ef allt gengi að óskum. Bróðir minn hafði fæðst 16. janúar þetta ár, en það breytti ekki því að móðir mín eða fóstra eins og ég kallaði hana var enn jafn ástsjúk í manninn sem naut hennar forboðnu ávaxta. Því treysti ég því að fyrir mig væri smuga og flutti mig um set til að flögra við hlið þessarar útvöldu konu sem skildi bera mig undir belti ef allt gengi að óskum.

Sveitin sem ég hafði valið mér var á margan hátt mjög sérstök. Þar var mannlífið gott og flestir bændur sæmilega efnaðir og sjálfum sér nógir. Ísland var á eftir nágrannaþjóðunum í mörgu, en það var samt vænlegur kostur, hreint land, hreint vatn, hreint loft og hellingur af vinum mínum í jarðlíkama þar.

 Fólkið sem ég ætlaði til voru yndisleg hjón sem bjuggu í sama dal og fóstra mín. Það bjuggu líka foreldrar föður míns og þráði ég sérstaklega að komast til þeirrar konu sem nú yrði amma mín en hafði verið móðir mín í svo mörgum lífum. Ég vissi að ef ég kæmist til þeirra nyti ég ástar og kærleika, kæmist inn í íslenska millistétt og gæti brotið upp margar hefðir er fram liðu stundir. Ég vissi að æskan yrði ljúf, unglingsárin erfið, en ég vissi líka að mín biði maður sem hafði með mér unnið sem maki í svo mörg líf. Ég vissi að ég yrði ung móðurlaus, yrði að þola mótlæti sem ég óskaði ekki öðrum, en sitjandi í annari vídd eru svona hlutir ekki mikið mál að takast á við. Ég hafði valið mér fjölskyldu, líf og lífsmarkmið og þarna vildi ég vera.

 

Það var skrýtið að vera kominn svo nálægt jörðinni aftur. Ég hugsaði til síðasta lífs í Írlandi, um listakonuna sem skapaði fullkomin verk á striga, mundi eftir sýningunum, frægðinni, fjárhagslegu öryggi þess að vera borin inn í írskan aðal. Ég vissi að þetta yrði ólíkt nú. Ég ætlaði að skapa með penna að þessu sinni og ég vissi líka að ég yrði að vinna með höndunum. Lönd og fjármunir myndu ekki bíða mín á silfurfati. Ég brosti, þetta var spennandi.

Fóstra mín hugsaði vel um drenginn sinn. Hún þráði manninn sem var faðir hans og vildi eignast hann, ég fann það og með fínlegri orku minni ýtti ég við henni. Ástin og spennan við stolnar stundir í tóft í íslenskri sveit var engu lík. Ég hugsaði um silkiklædd rúmföt Írlands en fann að á þessu var enginn munur. Ástarbrýminn var sá sami hvort sem undirleggið var silki eða hey sem hafði fyrnst frá árinu áður. En stundin kom og bingó. Getnaður hafði átt sér stað.

 

Hafi ég haldið að þetta yrði létt þá hafði mér skjátlast. Konan varð vitstola. Annar skandall í uppsiglingu, skömmin var algjör. Hún var í raun að eignast sinn þriðja lausaleikskróa, því áður hafði hún eignast einn son. Hún hataði ástandið, var samt hörð og köld. Vildi ráða sínu lífi, eignast eins mörg börn og henni sýndist en leiddist óumræðilega að vera orðin þunguð. Hún reykti, fékk sér brennivín, dansaði eins og fjallageit á böllum og reirði sig, svo enginn sæi að hún ætti von á sér. Ofan á allt annað borðaði hún sama og ekkert og fyrstu mánuðina leit hún út eins og spýta.

Þetta var áfall fyrir mig. Ég barðist við að reyna að venja mig við þennan litla kropp sem óx innra með henni, reirður aftur í hrygg, plásslaus til að hreyfa sig og aðframkomin af innilokunarkennd. Hundrað sinnum datt mér í hug að hætta við.

Konugarmurinn var þrjósk. Hún hoppaði ofan af fjárhúsþaki, lá í heitu baði og fann upp á ýmsu sem ég kunni ekki við. Loks fattaði ég hvað hún var að gera. Reyna að losa sig við mig. Þráinn í genunum var fullkominn og því tók ég ákvörðun. Ég skyldi sýna þessari konu að við mig losnaði hún ekki fyrr en ég væri fullburða og fædd, hvað sem hún gerði og á réttan stað skildi ég fara. Ef einhver heldur að það sé létt verk að vera fóstur við slíkar aðstæður þá get ég fullvissað ykkur um að það er lýgi.

Mánuðir liðu og fóstran var loksins hætt að æla. Hún var í raun fílhraust og fullkomlega til þess fallin að ganga með börn. Ég fór að skoða alla þætti og komst þá að því mér til ánægju að þetta undarlega par sem laumaðist til ástarleikja í skjóli myrkurs og leyndar voru ýmsum kostum búin sem ég gæti hæglega nýtt mér er fram liðu stundir. Karlinn var til dæmis sæmilega hagmæltur og staðreyndin var nú sú að ég ætlaði að verða rithöfundur á heimsmælikvarða. Þau voru ekki neitt átakanlega ljót, svo trúlega yrði ég alveg í meðallagi fríð. Konan hafði skaphörku sem ég gat hugsað mér að nota en undir skelinni var falleg sál sem öllum vildi vel. Hún var lagin við skepnur og gat heilað ef hún vildi. Hún gat líka tortýmt en ég hugsaði ekki um það. Hún gat verið grimm en hún hafði sterkan karakter. Karlinn var hins vegar sveimhugi en ég ákvað að erfa ekki fjárans gredduna og láta mér nægja að elska minn ágæta mann sem ég vissi að hafði fæðst ekki langt frá árið 1957. Mér tókst að stjórna hvaða gen ég fékk, en litlu öðru fékk ég ráðið eftir að ferlið var komið af stað.

 

Það var kominn maí þegar allt varð vitlaust. Foreldrar fóstrunnar komust loksins að því að dóttir þeirra var reirð en undir hræðilegum vafningnum var krakkakríli að vaxa, eitt stykki enn. Það var skelfileg orðahryna sem fylgdi í kjölfarið. Faðir hennar hótaði að henda henni út með alla sína króa og hún öskraði á hann að honum kæmi andskotan ekkert við hverjum hún hleypti uppá sig. Ég var næstum búin að missa móðinn. Reiðiorkan í kringum fóstruna var ótrúlega sterk þegar hún var í þessum ham og ég varð skelfingu lostin. Hafði ég virkilega gleymt hve grimmt fólk getur verið? Hafði ég virkilega gleymt því hvernig er að vera á jörðinni? Jesús minn, hugsaði ég, hvað var ég að hugsa? Ég vil komast heim, tautaði ég, en þá heyrði ég róandi rödd vinar míns og leiðbeinanda.

-- Vertu róleg, ljósið mitt. Þitt var valið. Þú verður að þrauka.

-- Ég get það ekki.

-- Þú veður. Ég er hér.

Róleg rödd hans inn í sál mína var eins og heilandi vindur á öll fúkyrðin sem ég hafði hlustað á og ég slappaði af. Best að sjá hvað gerðist.

 

Eftir rifrildið kom þögn. Löng þögn. Fóstra mín hélt sig heima. Stundaði böllin minna og ég sá þennan svikula blóðföður minn sjaldnar en áður. Það var afar ljúft að vera laus við hann, enda vildi ég ekkert af honum vita nema þetta skipti sem hann lagði til nauðsynlegt sæði til að gefa mér tækifæri til að verða að manneskju. Skrýtið. Hann höfðaði svo lítið til mín og ég vonaði að hann yrði hvergi nærri er ég lyti dagsins ljós. Ég treysti honum ekki.

 

Það var komið kvöld og skyndilega kom eitthvað fyrir. Fóstra datt, eða eitthvað. Ég hafði skroppið til að virða fyrir mér draumarheimili mitt utar í dalnum er mér var skyndilega kippt inn í litla ófullkomna líkamann sem fóstraði mig þessa dagana. Stundin var komin, ég var á leið út í heiminn.

-- Neiiiiiiiiii, æpti ég.

Tíminn var ekki kominn, ég ætlaði ekki að fæðst fyrir tímann. Ég ætlaði að lifa.

Á bænum varð uppi fótur og fit. Fóstra mín var að fara að fæða og faðir hennar sendi eftir hórkarlinum föður mínum.

--Neiiiiiiiiiii, æpti ég aftur, en enginn heyrði. Ég treysti honum ekki. Vissi að hann hugsði of mikið um sjálfan sig til þess að finna minn rétta stað. Ég vildi ekki hafa hann, þekkti hann ekki, vildi hann ekki, treysti honum ekki. En enginn hlustaði á fyrirburann sem stjórnlaust virtist ætla að koma í heiminn. Ég vildi vera áfram í myrku hlýju leginu. Vildi klára meðgönguna, var farin að kunna vel við konuna. Fjandinn, ég hafði ekki valið þetta.

 

Hríðarnar urði áleitnari og ég varð að sætta mig við hið óumflýjanlega ég var að koma í heiminn. Ofsahræðsla greip mig og ég vissi ekki hvað ég átti að gera.

-- Guð, láttu mig lifa.

 

 

Hann var kominn, barnsfaðirnn, til að taka á móti mér. Þau voru bara tvö. Engin ljósmóðir.

-- Kristur, þú þekkir mig. Hjálp!!!!!!!!!!!!!!!!!

 

Fæðingin sjálf gekk fljótt og vel fyrir sig. Ég var samt skelfingu lostin. Ég heyrði foreldra mína ræða um hvað ætti að gera við mig, á meðan ég tróðst í gegnum fæðingarveginn. Karlinn vildi gefa mig einhverjum lækni í næsta plássi, það var fínna en bændafólk í sömu sveit. Ég hefði enga orku til að mótmæla, en blessuð fóstran mín sveik ekki. Hún öskraði á karlinn að ef hún gæfi þetta barn þá færi það til hjónanna, vina þeirra, annars héldi hún því. Ég blessaði hana í  huganum. Reyndi að treysta því að hún kæmi mér á réttan stað, varð að treysta því. Loksins samþykkti hann þessa ráðstöfun og ég andaði léttar. Áætlun mín virtist vera að ganga upp.

 

Ég var tíu merkur, ræfilsleg og hárlaus. Í kuldanum utan móðurkviðsins fékk sé sjokk og náði ekki andanum. Lungun neituðu að starfa og ég fann að andlitið var að verða blátt. Konan öskraði aftur á karlinn, hvort hann ætlaði að láta krakkann drepast, en síðan tók hún mig í sínar sterklegu hendur, óð oní kok á mér og baði mig í bakið svo slímið rann úr öndunarveginum. Ég náði að anda en öskraði líka um leið eins og kraftar mínir leyfðu. Konan brosti ánægð og karlinn snérist áfram á gólfinu.

 

Þessi kona var stórmerkileg. Hún batt fyrir naflastrenginn, þvoði mér og kom fyrir í skókassa, annað var ekki tiltækt. Einhver föt fékk ég og svo teppi sem átti að halda á mér hita. Ég grenjaði eins og hljóðin leyfðu en hún virtist vera fullkomlega yfirveguð. Fór strax á fætur, þreyf sjálfa sig og helti síðan uppá kaffi. Kaffi, ég átti ekki til orð, ætlaði hún að gefa karlasnanum kaffi. Mér lá á að komast á réttan stað, samt var ég farin að elska þessa konu á vissan hátt og ég vildi ekki að við yrðum of lengi saman, þá yrði kannski erfiðara að skilja við hana.

 

Mér leið ekkert sérstaklega vel þegar hún kvaddi mig. Andartak sá ég tár í augum hennar og hún strauk blítt yfir vangann.

-- Þú ferð á góðan stað, betri en hjá mér.

Svo saug hún upp í nefið, augun urðu stálhörð og hún rétti karltuskunni skókassann.

-- Herra Guð, bara að hann gerði eins og fyrir hann var lagt.

Það var auðheyrt að karlinn var frekar taugaveklaður að fara af stað með nýburann í skókassanum. Hann setti mig í aftursætið á gömlum jeppa og setti í gang. Hjarta mitt barðist eins og bumba en ég þorði ekki að öskra fyrir mitt litla líf. Reyndi bara að draga andann og fullvissa sjálfa mig um að ég væri í lagi, lifandi og á leiðinni heim. Heim. Mikið yrði ég fegin. Hungrið skar mig að innan en ég vildi ekki væla. Ætlaði ekki að reyta þennan ágæta blóðföður minn til reiði, hann átti jú sinn þátt í því að ég var komin.

 

Það var reglulega óþægileg ferð sem fyrir höndum var. Karlgreyið var svo stressaður að hann hitti hverja einustu holu á hlykkjóttum sveitaveginum og ég var næstum farin að halda að hann myndi kollkeyra bílinn með mig innanborðs. Þetta hafði líklega ekki verið skynsamleg leið til að komast inn í jarðlífið á ný. Ég passaði mig á því að hugsa ekki um afleiðingar þess sem ég hafði valið, ég var fædd og ég varð að komast úr þessum skókassa, komast á sæmilega öruggan stað. Það var ekkert aftur snúið, ég var raunverulega lifandi í nýjum pínulitlum líkama.

 

Ég vissi þegar hann stoppaði að ég var komin heim. Hann hafði lagt bílnum á hlaðinu á sveitabænum þar sem ég "ætlaði" að eiga heima. Óumræðilegur léttir kom inn í sál mína. Ég var ekki í nokkrum vafa um að þetta ágæta fólk tæki mig að sér og ég hugsaði með gleði til þess að ég fengi hugsanlega eitthvað að borða, hlýtt rúm og gæti þá gleymt öllu saman og látið eins og ég væri að fæðast í fyrsta sinn. En það var einhver bið á því. Karlinn var lengi inni en loksins kom hann út í fylgd hjónanna beggja, mér stóð ekki á sama.

Hinn nýji faðir minn kíkti ofan í kassann og greip andann á lofti.

-- Mikið logandis helvíti, þú ert með krakkann með þér.

Konan, móðir mín, sussaði á hann.

-- Talaðu ekki svona maður, barnið er nýfætt og það verður að komast undir læknishendur sem fyrst. Nú farið þið báðir á sjúkrahúsið með litlu stúlkuna og það strax.

Hún strauk mér undurmjúkt um vangann og ég bað hana af öllu mætti í huganum að taka mig inn. En hún heyrði ekkert, ég sá tár í augum hennar, fann að hún vildi eiga mig, en hún ætlaði samt að senda mig á sjúkrahúsið. Ég hafði ekki átt von á þessu.

Skelfingu lostin öskraði ég, bjóst við að verða sinnt en það varð bara til þess að þessir tveir feður mínir voru reknir af stað með harðri hendi.

 

Þetta var skelfilegt áfall. Áfram að hossast í skókassa, glorhungruð og full af stjórnlausri reiði. Þegar bíllinn ók af stað ákvað ég að þagna, það hafði ekkert uppá sig að öskra svona.

Karlarnir töluðu saman, samhengislaust tal, taugastrekktir og vandræðalegir. Skrýtið hvað karlmenn geta verið feimnir við ungabörn. Blóðfaðir minn lýsti fyrir vini sínum hve hræðilegt þetta væri að eignast svona annað barn utan hjónabands og að hann vildi ekki láta neinn annan hafa barnið en þennan einstaka vin sinn. Mér svelgdist á í skókassanum

-- Hræsnari..............

 

 

Skyndilega stoppaði bíllinn og blóðfaðir minn skrúfaði niður rúðuna.

-- Góðan daginn, hreppstjóri.

Hann hafði stoppað við hlið á öðrum bíl sem þeir mættu. Ég sá að aðkomumaðurinn var undrandi á svipinn. Eflaust var hann að hugsa um hvað þessir tveir kumpánar væru að gera saman svo snemma morguns, eða síðla nætur. Ég sá að hann þefaði út í loftið, örugglega að reyna að gá hvort hann finndi áfengisþef af feðrum mínum. Venjulega var fleygur með þegar þeir tveir voru saman komnir.

Hann bauð góðan dag og spurði hvert þeir væru að fara.

-- Við ætlum bara að skreppa í kaupstaðinn, sagði blóðfaðir minn vandræðalega en hinn faðir minn klóraði sér í nefinu og horfði í hina áttina.

Mér var nú farið að þykja nóg um svo ég rak upp eitt vel útilátið öskur afturí.

-- Hvað eruð þið með í kassanum? spurði hreppstjórinn algjörlega orðinn forviða á svipinn.

Feður mínir litu hver á annan. Blóðfaðirinn varð enn á ný fyrir svörum.

-- Við erum með hænu, blessaður.

Í sama mund skrúfaði hann upp rúðuna og brenndi af stað.

-- Ó, mikið logandis helvíti, stundi hinn faðir minn upp og ég velti því fyrir mér hvort maðurinn ætlaði aldrei að segja neitt annað.

 

 

Hænu, ég var svo móðguð að ég ákvað að reyna ekki meir að ná sambandi við þessa undarlegu feður sem ég hafði valið mér. Valið mér, það gat ekki verið. Þetta voru grimmileg og vonlaus örlög, ég var búin að missa alla stjórn og hafði hreint ekki valið þetta, nei ónei. Ég heyrði inní höfðinu á mér að vinir mínir og leiðbeinendur skemmtu sér. Það var undarlegur húmor í himnaríki....................

 

Það sem eftir var leiðarinnar sagði enginn neitt og ég þagði.

 

Eftir að við komum á sjúkrahúsið varð uppi fótur og fit. Hérðaslæknirinn trúði varla sögu feðra minna um þennan litla fyrirbura sem þeir komu með vafinn inn í teppi í skókassa.

Tveir stamandi bændur framan úr sveit, furðulegir útlits, í senn skömmustulegir og vandræðalegir. Þeir voru heldur fegnir er pappírsvinnu var lokið og þeir gátu farið aftur heim. Hvað mig varðaði var önnur saga, ég var skilin eftir.

Ég var skoðuð, viktuð, mæld, þvegin, klipin og kreist og ég öskraði þangað til að ég hélt að hausinn á mér myndi sprynga.

Læknirinn var góðlegur náungi, sem sýndi mér ákveðna hlýju. Hann talaði við hjúkrunarkonu og bað hana að athuga með aðra sængurkonuna sem lægi hjá þeim hvort hún væri til í að gefa þessu vesalings barni brjóst.

Það vildi mér til happs að tvær konur höfðu fætt börn skömmu áður og önnur þeirra tók að sér að gefa mér brjóst. Sú góða kona hafði líka eignast litla stúlku sem nú deildi með mér móðurmjólkinni sinni. Það var ljúft að fá næringu, óendanlega gott á eftir öllu sem á undan hafði gengið. Ég hef verið þessari konu óendanlega þakklát síðan.

 

Heil vika leið og ég var allan tímann hjá mjólkurfóstru minni sem var mér undurgóð. Öll sýslan var auðvitað búin að frétta af nýjasta skandalnum og starfsfólk sjúkrahússins átti til að koma aukaferð inn á stofuna til að bera augum þetta litla fyrirbæri sem á svo ótrúlegan hátt hafði komist í heiminn. Ég er fædd 20. júní og var því tvíburi í sól, en ekki krabbi. Segið svo að maður ráði öllu.

 

Það var undarlegt á fyrstu viku lífs mína að skilja við móður númer tvö til að hitta móður númer þrjú. Ég var farin að efast verulega um getu mína til að velja skynsamlega, en það bráði þó af mér.

Móðir mín og faðir komu og sóttu mig, brosandi og glöð. Ég var eins og sólskin í líf þeirra.

Þegar ég var komin heim, klædd í bleikan heklaðan kjól, lögð í drifhvítt blúndurúm og horfði á öll andlitin sem ég elskaði, þá var ég ekki lengur í vafa. Þetta hafði verið þess virði. Ég var búin að eignast þá foreldra sem ég hafði valið mér, ég fékk að vera hjá ömmu minni sem stóð hjarta mínu næst og ég var komin til Íslands til allra vinanna sem ég átti og myndi eignast. Besta vinkona mín ætlaði að fæðast nokkrum árum seinna rétt hjá mér. Við höfðum skemmt okkur vel í Írlandi og ég vissi að Íslandslífið yrði ekki síðra. Lífsförunauturinn var fæddur og ekkert, í raun ekkert hafði farið úrskeiðis. Það hafði kannski staðið tæpt, en mitt hárlausa höfuð vissi að ég var heppin. Ég var komin heim.

 

Á þessari stundu þegar ég var orðin fullkomlega örugg ákvað ég að gera það sem öll fóstur verða að gera við komu sína til jarðarinnar, ég ákvað að gleyma þessu öllu, gleyma öllu sem var áður og steypa mér á fullum þunga út í lífið. Ég var fullkomlega örugg og hamingjusöm. Allt sem á eftir kæmi var eitthvað sem ég tæki á þá og ég var ákveðin í að fá ekki minnið aftur fyrr en ég væri orðin töluvert fullorðin. Þetta var allt eins og það átti að vera, ég sofnaði róleg og gleymdi.

 

Þannig var það, mannstu hvernig það var þegar þú fæddist?

 


 

 

 

 

                             NÝTT LÍF.


 

 

Júní 1959.

          Vorið var liðið og sumarið komið. Jónsmessan

framundan. Náttúran skartaði sínu fegursta, allt

óx, greri, spratt, blómgaðist. Sóleyjarnar opnuðu

krónur sínar í túnjaðrinum. Lömb og folöld léku sér

í sólinni á grænum högum við fuglasöng og flugusuð.

Líf. Nýtt líf hvert sem litið varð. Ný kraftaverk

hvar sem augað á festi.

          Það var komið kvöld og fólkið í Hlíð gengið

til náða. Kristrún, húsfreyja, bylti sér í rúminu

og gat ekki fest blund. Gunnar, eiginmaður hennar,

lá við hlið hennar og svaf, að því er virtist

áhyggjulaus. Kristrún lét hugann reika.

          Þetta var yndislegur tími. Vorannir að baki og

sumarið framundan. Hún andvarpaði. Allt þetta líf,

þetta iðandi líf, sem hún unni svo mjög gerði hana

hrygga. Hún sem þráði svo mjög að hennar líf bæri

ávöxt, en svo var ekki.

          Kristrún unni sveitinni og vildi hvergi

annarsstaðar vera. Dýrin voru vinir hennar. Hún

naut þess að aðstoða ærnar við burð og hún rölti

með smjörklípu í hreiður, þar sem litlir þakklátir

ungar tístu. Hún var sannkallað náttúrubarn.

          Kristrún lokaði augunum og fyrir

hugskotssjónum hennar svifu myndir, ljúfar og

sárar. Hún hafði það í rauninni ósköp gott. Það var

aðeins þetta eina sem hana skorti. Börn. Hún og

maður hennar gátu ekki átt börn saman.

          Kristrún og Gunnar voru af alþýðufólki komin.

Með samheldni og þrautsegju hafði þeim tekist að

kaupa sér jarðnæði. Þeim tókst að koma sér upp

góðum bústofni og reksturinn gekk vel. Aldraðir

foreldrar þeirra áttu skjól hjá þeim. En börnin

komu ekki. Kristrún stundi er hún hugsaði um þetta.

Ef til vill var ráð að velta sér nakin úr dögginni

á jónsmessunótt. Nei, það dugði sjálfsagt ekki

frekar en annað. Ó, hve oft hafði hún ekki óskað

þess að eignast barn. Hún elti fiðrildi og fangaði

þau, á meðan hún óskaði sér. Hún fann fjögurra

laufa smára, starði til himins og talaði við

almættið. Já hún hafði beðið um börn, - svo

sannarlega hafði hún beðið.

          Kristrún og Gunnar voru ung er þau hófu búskap

og þegar erfingjarnir létu á sér standa, fóru þau

til læknis. Kristrúnu fannst erfitt að hugsa um

það. Læknirinn þeirra var góður maður. Hann skoðaði

þau og á mildan hátt sagði hann þeim niðurstöðuna:

,, Ég finn ekkert að og ef til vill gætuð þið átt

börn með öðrum aðilum, en líklega ekki saman".

Þetta var skelfilegur dómur fyrir unga, lífsglaða,

ástfangna fólkið. En samband þeirra stóð þetta af

sér. Skilnaður kom ekki til greina. Þau höfðu

heitið hvort öðru fylgd til dauðans og þannig vildu

þau hafa það. En þó að þau gætu ekki verið án hvors

annars, þá var eitthvað sem brast. Einhver gleði

sem slokknaði. Það vantaði eitthvað í húsið. Gleði

og barnshlátur.

          Kristrún bylti sér. Hún skildi ekki hvers

vegna hún var að hugsa um þetta einmitt nú. Það var

svo langt síðan og svo margt sem þau höfðu gengið í

gegnum saman, Gunnar og hún. Árin liðu og nú var

hún orðin 35 ára og vissi að æskan var að baki.

          Kristrún leit til lofts. Allt gekk vel. Árið

áður höfðu þau byggt sér steinhús, en þau voru nú

óðum að rísa upp í sveitinni. Það var ólíkt að fara

í þetta fína hús úr torfbænum, þótt hann hefði

verið hlýlegur. Æ, hún mátti ekki liggja hér og

hugsa. Það voru margvísleg verkefni sem biðu

morgundagsins og í nægu að snúast.

          Gunnar snéri sér á hina hliðina og losaði

svefn. Kristrún ýtti við honum.

          ,, Mundirðu eftir að læsa?"

          Hann jánkaði og hún andaði léttar. Þetta var

einn af þeim siðum sem hún hafði. Þau læstu húsinu

vandlega hvert kvöld. Þeim fannst það öryggi og svo

vildu þau heldur ekki láta vaða inná stokk hjá sér

fyrirvaralaust, ef einhver var á ferðinni. Þau

höfðu öryggi og nóg fyrir sig, hvað var hún að

kvarta? Kristrún lokaði augunum og innan skamms var

hún sofnuð.

 

                                      -------------------

 

          Það var kyrrð og friður yfir íbúðarhúsinu í

Hlíð þegar aðkomumann bar að garði. Þetta var

Grímur á Tóftum, mikill vinur og sveitungi þeirra

Hlíðarhjóna. Þetta var maður á fertugsaldri, ók

nýlegum willisjeppa, sem hann lagði á hlaðinu í

Hlíð. Hann var taugaspenntur að sjá, hárið úfið og

augun þreytuleg. Hann flýtti sér út úr bílnum og

stökk upp tröppurnar. Honum til undrunar stóð

bærinn opinn. Það var áreiðanlega í fyrsta sinn sem

þau Hlíðarhjón höfðu gleymt að læsa. Hann hirti

ekki um að banka eða fara úr skónum heldur æddi

inn, alla leið inn í svefnherbergi hjónanna. Gunnar

og Kristrún sváfu svefni hinna réttlátu og höfðu

ekkert orðið vör við þessa innrás.

          Grímur hlammaði sér á rúmið Gunnars megin og

ýtti við honum.

          ,, Þið verðið að vakna strax".

          Gunnar hrökk upp og starði á vin sinn.

          ,, Grímur hér. Hvað er að? Hvað ert þú að gera

á þessum tíma?"

          Kristrún vaknaði líka. Hún trúði ekki sínum

eigin augum. Hvað var Grímur vinur þeirra að gera

þarna um miðja nótt? Það hlaut eitthvað að hafa

komið fyrir. Hvernig hafði hann komist inn í bæinn?

          Grímur spratt aftur á fætur og snérist nokkra

hringi á gólfinu. Loks hneig hann aftur niður á

rúmið. Hann nuddaði augun.

          ,, Ég varð faðir í nótt. Alda Jónasar

eignaðist stúlkubarn. Þið vitið að þetta er annað

barnið sem ég á framhjá konunni".

          Gunnar klappaði á öxl Gríms. Þeir voru nánir

vinir og Gunnar vissi allt um kvennamál Gríms. Hann

hafði nú stigið feilspor í annað sinn.

          ,, Veit, konan þetta?"

          ,, Nei", Grímur stundi.

          ,, Við getum ekki hugsað um þetta barn. Mér

datt í hug af því að þið eruð barnlaus, hvort þið

vilduð taka hana".

          Kristrún stökk fram á gólf. Henni var alveg

sama þó að náttkjóllinn væri efnislítill, hún sem

venjulega gætti umfram allt að siðgæðinu.

          ,, Hvað ertu að segja, maður? Hvar er barnið?"

          Það glaðnaði yfir Grími.

          ,, Viljið þið taka hana?"

          Kristrúnu fannst heimurinn snúast við. Hún

hringsnerist á gólfinu fyrir framan karlmennina.

          ,, Af hverju sitjið þið þarna eins og þvörur,

auðvitað viljum við barnið. hvar er það?"

          Grímur stóð upp.

          ,, Hún er í bílnum. Við bjuggum um hana í

kassa".

          Kristrún hljóðaði upp yfir sig.

          ,, Guð almáttugur, því sagðirðu það ekki

strax."

          Gunnar og Grímur litu hver á annan. Var

Kristrún að tapa glórunni? Þeir sem höfðu þekkt

hana frá barnsaldri höfðu aldrei séð hana í slíkum

ham. Konan var ekki von að láta raska ró sinni. Hún

æddi fram úr herberginu, greip gúmmískó bónda síns

og arkaði út.

 

                             -----------------------

 

          Sumarnóttin var heillandi. Kyrrðin var algjör.

Kristrún tók ekki eftir neinu slíku. Það var aðeins

ein hugsun sem komst að. Skjálfandi opnaði hún

hurðina á Willisjeppanum og gægðist inn. Þetta var

heilög stund. Lotningarfull leit hún ofan í lítinn

pappakassa sem komið var fyrir aftan við framsætið.

          Litla veran lá sofandi í fallegu teppi. Hún

vissi ekkert um læti fullorðna fólksins, heldur lá

þarna, sakleysið uppmálað. Kristrún fann að

eitthvað gerðist í brjósti hennar. Þetta var barnið

hennar. Þessi litla yndislega stúlka yrði dóttir

hennar, barnið hennar. Hún var lítil, fædd fyrir

tímann, andlitið grett og höfuðið hárlaust, en

Kristrúnu fannst hún vera það yndislegasta sem hún

hafði augum litið. Hún leit til himins og þakkaði.

Kraftaverk, nóttina sem þau gleymdu að læsa.

Kraftaverk.

 


 

 

 

 

 

VORANNIR.

 


 

 

Sævar dýralæknir opnaði augun og leit

svefndrukknum augum á klukkuna. Hún var átta. Hann

velti sér á hliðina og leit á sofandi konuna er lá

við hlið hans. Hún rumskaði ekki en á fríðu andliti

hennar var bros. Sævar langaði mest til að faðma

hana að sér. Hann fann væntumþyggjutilfinningu

flæða um sál sína. Hún Fjóla hans var yndisleg

kona. Nú eftir fimmtán ára sambúð þótti honum enn

vænna um hana en áður. Hann var sannkallaður

lukkunnar pamfíll. Samband þeirra hjónanna var

gott. Ástarfuni unglingsáranna hafði aldrei

slokknað, heldur vaxið og þróast í væntumþyggju og

gagnkvæmt traust.

          Sævar stundi og steig hljóðlega fram úr

rúminu. Hann gætti þess vandlega að raska ekki ró

Fjólu. Sævar nuddaði stírurnar úr augunum. Það var

ekki auðvelt verk að vera dýralæknir í stóru héraði

um háannatímann. Sauðburður var á hápunkti.

          Sævar klæddi sig. Á hverri stundu gat hann átt

von á viðskiptavini. Hann hafði ekki átt rólega

nótt. Eftir langan dag kom ennþá lengri nótt. Þrjá

gemlinga hafði hann skorið upp kvöldið áður og

hjálpað tveim ám. Allt gekk eins og í sögu og honum

fannst yndislegt að sjá litlu lömbin koma í

heiminn, vitandi það að ef hans hefði ekki notið

við hefðu þau eflaust dáið og ef til vill mæðurnar

líka.

          Eftir uppskurðina þrjá fékk hann svo

upphringingu neðan úr sveit. Kýr með doða. Það tók

langan tíma að koma henni á fætur og loks er Sævar

kom heim var klukkan orðin fjögur.

          Eftir bolla af rótsterku kaffi fannst Sævari

hann loks vera almennilega vaknaður. Hann rölti inn

á skrifstofuna sína og lokaði á eftir sér. Fjóla og

krakkarnir sváfu enn. Sævar settist þreytulega

niður í stólinn. Þá hringdi síminn...

 

                             --------------------

 

          Sigmundur bóndi á Stórhól stikaði í átt til

fjárhússins einu sinni enn. Hann var viss um að

þetta var í þrettánda sinn er hann leit eftir

Móhosu litlu þessa nótt. Klukkan var að vísu að

byrja áttunda tímann en Sigmundi fannst enn vera

nótt. Það var oft erfitt að vera sauðfjárbóndi á

sauðburði. Já, það mátti nú segja.

          Sigmundur leit til lofts. Það var milt

vorveður, loftið tært og fuglarnir sungu. Hvað var

hægt að hugsa sér dásamlegra? Hann langaði mest til

að setjast niður og yrkja fagurt ljóð. En ekki

dugði það. Móhosa beið hans ásamt öllum hinum ánum

og ef til vill þurftu þær á aðstoð hans að halda.

          Móhosa var á margan hátt merkileg kind. Hún

var að vísu bara gemlingur en í miklu uppáhaldi hjá

húsbónda sínum. Eins og nafnið bendir til var hún

móhosótt stólpagimbur, enda heimallingur og ekkert

til sparað við uppeldið. Og nú var sú stund runnin

upp er hún átti að bera í fyrsta sinn. Sigmundur

hafði miklar áhyggjur. Hann mundi uppá hár hvenær

hann hafði haldið Móhosu. Það var á sjálfan

Gamlársdaginn.

          Sigmundur hafði alltaf haldið þeim sið að

leiða hverja kind undir hrút, en sleppti þeim

aldrei saman. Það voru ekki frjálsar ástir á

Stórhól. Sigmundi var sama þó nágrannar hans teldu

hann sérvitring. Hann vildi vita uppá dag hvenær

hver ær ætti að bera.

          Sigmundur var kominn að fjárhúsunum. Hann

opnaði lambhúsið og leit inn. Gemlingarnir lágu

rólegir og jórtruðu, nema Móhosa. Hún lá innst í

krónni, spyrnti frá sér fótum, stundi og leit

mæðulega á herra sinn og húsbónda. Sigmundur varð

að beygja sig til að komast inn í króna. Það var

komið dálítið tað í húsin en Sigmundur hugsaði ekki

um það. Hjartað barðist í brjósti hans . Það var

eitthvað að gimbrinni.

          Sigmundur flýtti sér til Móhosu og strauk

henni blíðlega um vangann.

          -- Veslings, litla kerling. Líður þér illa?

          Móhosa svaraði með stunu. Sigmundur skoðaði

gimbrina varlega. Það leyndi sér ekki að hún var

með lambsótt. Hún var vot að aftan, spyrnti við

fótum en ekkert gerðist. Enginn belgur - ekkert.

Sigmundur vissi varla hvað til bragðs skyldi taka.

Hann, þessi klunni, með sínar stóru hendur gæti

aldrei vitjað um hjá Móhosu. Hann mundi meiða hana

og ef til vill biði hún þess aldrei bætur. Nei -

Það kom ekki til greina að reyna slíkt.

          Sigmundur settist á garðabandið og stundi

þungann. Nú vantaði sárlega mjúkhenta konu með

smáar hendur. En Sigmundur átti enga konu.

Vissulega hafði hann fullan hug til kvenna en

hvernig sem á því stóð þá hafði honum aldrei tekist

að koma neinni í hnapphelduna.

          Sigmundur lét hugann reika. Honum varð

ósjálfrátt hugsað til dýralæknisfrúarinnar. Þessi

fíngerða, fallega kona hefði sómt sér vel sem

húsfrú á Stórhól. Hann mundi vel er hann var

tuttugu og fimm ára og Fjóla hin fagra tvítug. Þá

hafði hann litið hana hýru auga og viljað allt til

vinna að hún yrði hans. En Fjóla sá aldrei neitt

nema Sævar. Sigmundur andvarpaði. Ósköp leið tíminn

hratt, nú voru heil fimmtán ár síðan.

          Sigmundur bóndi reif sig upp úr þessum

hugsunum. Ekki dugði að sitja aðgerðalaus og hugsa

um hið liðna. Móhosa var nútíðin. Hún þarfnaðist

hjálpar og það strax. Og ekki var um margt að gera.

Sævar dýralækni yrðu þau að hitta Móhosa og bóndinn

á Stórhól.

          Sigmundur aðgætti hinar ærnar en engin var með

lambsótt. Það var þó guðsþakkarvert. Sigmundur

talaði róandi við heimalinginn sjúka en flýtti sér

síðan til bæjar. Hann varð að hringja í

dýralæknirinn. Samtalið varð stutt. Sævar spurði

hvenær gimbrin hefði fengið lambsóttina og

Sigmundur svaraði eftir nokkurt hik:

          -- Í gærkvöldi, ég er viss um það. Hún var

orðin óróleg í gærkvöldi.

          Sævar geispaði í símann en bað svo Sigmund að

koma sem fyrst. Í augnablikinu var enginn hjá

dýralækninum og hann bjóst við að þurfa að skera

Móhosu upp.

          Bóndinn á Stórhól hafði snör handtök. Hann ók

Landróvernum sínum að fjárhúsunum, lagði Móhosu

varlega afturí og ók svo af stað. Nú var að duga

eða drepast. Loks fengi gamli Landróverinn að sína

hvað í honum bjó. Sigmundur klemmdi hvítan vasaklút

í falsið á rúðunni. Þá gætu hettumáfarnir ekkert

sagt þó hann æki léttan. Þeir skyldu bara rétt

reyna að sanna að hann væri ekki að flytja

sjúkling.

          Sævar stóð í dyrunum á húsi sínu er Sigmund

bónda bar að garði. Hann gat ekki annað en brosað

er hann sá gamla Landróverinn koma á undraverðum

hraða með tilheyrandi drunum. Sigmundur hemlaði svo

snökkt við húsið að bíllinn hentist til.

          Fjóla kom fram í dyrnar. Hún var nývöknuð,

bauð góðan dag og kyssti bónda sinn.

          -- Sævar, hver er að koma?

          -- O, það er hann Sigmundur vinur okkar á

Stórhól að koma með gemling í uppskurð.

          Fjóla kímdi.

          -- Mér sýndist keyrslulagið þannig að það ætti

að vera nóg til að hrista lambið úr gimbrinni. Ég

ætla að hella á. Gefðu honum kaffi þegar þið eruð

búnir.

          Fjóla gekk inn en Sævar gekk brosandi til móts

við Sigmund.

          Stórhólsbóndinn stökk út úr bílnum, rétti

dýralækninum höndina en sá þá að hann hafði gleymt

að þvo sér í öllum flýtinum. Sævar lét sem ekkert

væri, tók í útrétta höndina og hristi duglega.

          -- Blessaður, Sigmundur minn. Þú hefur brugðið

skjótt við.

          -- Sæll vertu, þetta er ljóti andskotans

vegurinn. Ég hélt að skrjóðurinn hrindi.

          Sævar brosti góðlátlega.

          -- Hvernig líður gimbrinni?

          Sigmundur stamaði.

          -- Eh... Ég veit það ekki. Ég hef ekkert litið

á hana á leiðinni. Ég keyrði bara eins og druslan

dró.

          -- Við skulum líta á hana.

          Sævar gekk að bílnum og opnaði afturhurðina.

Sigmundur fylgdi í humátt á eftir. Sævar leit inn í

bílinn er svo skellihló hann.

          -- Gjörðu svo vel, Sigmundur minn. Hér hefur

þú mókrúnóttan hrút úr gimbrinni þinni.

          Sigmundur sagði ekkert en starði inn í bílinn.

Hann trúði ekki sínum eigin augum. Þarna lá Móhosa,

hin rólegasta og karaði hrútlamb. Sævar hló enn.

          -- Mér sýnist að móður og barni heilsist

nokkuð vel.

          Enn starði Sigmundur án þess að geta komið upp

nokkru orði. Þetta var allt of gott til að geta

verið satt. Elsku litla gimbrin, hún Móhosa, hefði

þá fætt ein og hjálparlaust eftir allt saman og það

á fleygiferð aftur í Landróver. Sigmundur vissi

ekkert hvað hann átti að segja. Hann starði á

Móhosu og dýralæknirinn til skiptis.

          -- Þarf ég að borga?

          Enn hló Sævar og nú voru komin tár í augu

hans. Hann verkjaði í magann af hlátri.

          -- Nei, Sigmundur minn. Gimbrin sparaði þér

þann kostnaðinn. Komdu bara og fáðu þér kaffi hjá

Fjólu minni.

          Loks var Sigmundur kominn til sjálfs sín. Hann

hristi höfuðið og tók í hönd Sævars.

          -- Ekki núna, vinur. Heima bíða svangar ær.

Þakka þér samt fyrir og skilaðu kveðju til

konunnar.

          Þeir kvöddust og Sævar gekk inn í húsið með

bros á vör. Fjóla kom á móti honum, undrandi á

svip.

          -- Ertu búinn? Þurfti ekki að skera?

          Sævar hló, greip konu sína í fangið og sneri

henni í hring.

          -- Nei, elskan mín. Þetta er sú ánægjulegasta

fæðing sem ég hef vitað til í vor.

          Fjóla starði á mann sinn. Var hann að verða

eitthvað skrýtinn?

 

                             ----------------------

 

          Sigmundur ók hægt heim og við og við leit hann

afturí bílinn. Móhosa lá róleg með hrússa sinn,

alls ómeðvituð um allt fjaðrafokið sem hún hafði

ollið. Sigmundur brosti. Lífið var dásamlegt. Oft

var erfitt að vera bóndi en það var líka oft

ánægjulegt.

          Sigmundur horfði fram á veginn. Veðrið var

milt. Þetta var gott vor. Nú var rétti tíminn til

að yrkja vorljóð. Og eins og oft áður runnu orð

fram í huga hans.

 

                             Döggvað í dagrenningu

                             dásamlegt blómið hér.

                             Titrar af tilfinningu

                             tignarleg sjón það er.

 

                             Mænir á móti sólu

                             máttinn úr henni kýs.

                             Lítum á litla Fjólu

                             lífs þegar sólin rís.

 


 

 

 

 

 

 

          BROT ÚR SJÓÐI MINNINGANNA.

 


 

Það var bjart og blind augun skynjuðu

sólarljósið sem flæddi inn um gluggann. Þótt sjónin

væri orðin slæm þá greindi hún ennþá mun á degi og

nóttu. Gamla konan gladdist vegna þess, það gat

verið verra. Hún óskaði þess eins að hún fengi að

halda þessari sjón. Það var svo yndislegt að skynja

ljósið. Nú var hún hætt að geta lagt kapal, en

lengi vel hafði hún greint doppurnar á spilunum.

Kóngarnir og gosarnir voru erfiðastir, þeir voru

svo líkir. En það plagaði hana ekki lengur, hún var

búin að leggja spilunum.

          Gamla konan lokaði augunum. Það var erfitt að

missa sjónina, þessa guðsgjöf, en hún var samt sem

áður sátt.

          Ung að aldri giftist hún manninum sem hún

elskaði og var lífsförunautur hennar enn. Skaparinn

hafði verið þeim góður. Sjö börn höfðu komist til

upp og veitt þeim ást og gleði. En einn dreng hafði

drottinn tekið til sín. Hve sárt það var. En hún

var samt rík. Barnabörnunum fjölgaði stöðugt, sá

hópur var orðinn stór.

          Hún heyrði að maðurinn var að koma inn.

Heyrnin hafði skerpst um leið og sjónin versnaði.

Maðurinn, hann var hennar stoð og stytta. Hann

hafði líka orðið að vera augun hennar svo lengi.

          Hún var að prjóna sokka. Prjónarnir tifuðu.

Sem betur fer þá gat hún prjónað ennþá og þannig

gert gagn. Meðan svo var fannst henni hún ekki eins

gagnslaus. Börnin og barnabörnin kunnu að meta

sokkana hennar og vettlingana. Henni leið vel. Hún

hafði trú sína og það var henni nóg.

          Einu sinni hafði henni fundist skaparinn

ósanngjarn, en hún hafði samt falið allt í hendur

hans. Það var þegar drengurinn hennar dó. En þó þær

stundir væru erfiðar, þá hafði hún seinna fengið

sönnun þess að sannfæring hennar var rétt. Þá hafði

hún glaðst. Prjónarnir féllu máttlausir í kjöltu

hennar og hugurinn reikaði til baka. Myndir frá

liðnum dögum svifu fyrir hugskotssjónum hennar.

 

                             ----------------------

 

          Það var mið nótt þegar hún tók léttasóttina.

Kona á besta aldri, vel líkamlega á sig komin og

móðir fjögurra barna. Hún sá því ekki ástæðu til að

óttast. Þetta blessað barn yrði áreiðanlega sama

guðsgjöfin og öll hin. Hún var orðin sver og litla

ófædda barnið hafði sparkað hraustlega í kvið

hennar, svo hún sá ekki ástæðu til ótta.

          Þau bjuggu í Fremri-Hnífsdal, góðu kúabúi og

efnahagurinn var ekki verri en gerðist almennt.

Reyndar var ekkert útlit á öðru en þessi samhenta

fjölskylda mundi lifa góðu lífi. Konan brosti með

sjálfri sér. Draumar hennar voru að rætast. Hún

átti mann sem hún unni svo mjög og barnahópurinn

stækkaði. Hana hafði alltaf langað til að eiga hóp

af börnum. Vissulega var skaparinn henni góður.

          Hún ýtti við bónda sínum og bað hann að sækja

Ljósuna. Ljósmóðirin bjó í Hnífsdal og hafði tekið

á móti hinum börnunum. Hún vissi líka ósköp vel að

brátt yrði hún kölluð inn í Fremri-Hnífsdal.

          Bóndinn brá skjótt við. Hann klæddist í flýti

og arkaði af stað út í blíða sumarnóttina. Hann bar

engan ugg í brjósti fremur en konan hans. Hún var

hraust og barnsfæðingar höfðu verið henni léttar

hingað til.

          Konan lá róleg eftir að maður hennar var

farinn. Hún fann að hríðarnar ágerðust. Hún vildi

ekki vekja börnin, ekki strax. Þau sváfu svefni

hinna réttlátu, svo saklaus, lítil, kríli. Konan

staulaðist fram og setti vatn á hlóðir. Allt var

tilbúið undir komu ljósmóðurinnar og fæðingu litla

barnsins.

          Það leið dágóð stund uns Ljósan kom móð og

másandi í fylgd bóndans. Hún var hress í bragði,

hló og gerði að gamni sínu. Líklega bjóst hún við

að þessi vika hjá sængurkonunni yrði gleðileg. Hún

vissi ekki af neinni annari fæðingu svo hún mundi

hafa nægan tíma að sinna móður og barni.

          Allt gekk vel fyrst af stað og áhyggjur voru

fjarri á bænum. Börnin vöknuðu og læddust hljóðlega

um. Þau hlökkuðu til að eignast lítið systkini. En

skyndilega skiptust veður í lofti. Hríðarnar féllu

niður og áhyggjusvipur færðist yfir frítt andlit

Ljósunnar. Hér var eitthvað á ferðinni sem enginn

hafði búist við. Klukkan tifaði, hver stundin leið

á fætur annari. Loks gafst ljósmóðirin upp, hún bað

bóndann að sækja lækni.

          Stundinar sem fóru í hönd voru skelfilegar.

Börnin litlu sem biðu skynjuðu ótta fullorðna

fólksins og fóru að vola. Konan sem svo spennt

hafði beðið eftir að litla afkvæmið kæmi í heiminn,

varð máttfarnari, óttaslegnari. Líf barnsins var í

hættu.

          Þegar læknirinn kom leist honum ekki á

blikuna. Hann óttaðist ekki eingöngu um barnið.

Konan var einnig í hættu. Óttasleginn faðirinn

reyndi að hugga börnin á meðan læknirinn og

ljósmóðirin börðust við að ná barninu, í litlu

vistlegu baðstofunni. Eftir langa mæðu kom

læknirinn fram. Baráttunni var lokið. Hann náði

barninu en það var andvana.

          Unga konan var lengi að ná sér. Hún var

máttfarin, hafði misst mikið blóð og um tíma

barðist hún fyrir lífi sínu. En líkamlegu sárin

gréru en sálin var særð. Sorgin og söknuðurinn var

mikill. Hún vissi að aldrei mundi hún gleyma litla

barninu sem ekki fékk að dvelja með henni á

jörðinni, nema stutta stund.

          Trúin hélt henni uppi. Hún var viss um að

barnið hennar var hjá guði og einhverntíma seinna

mundi hún hitta hann. Hún var þakklát fyrir börnin

sín sjö, en þessi litli drengur átti einnig stað í

hjarta hennar ekki síður en þau hin.

 

 

                             ---------------------

 

          Eftir tuttugu ár fékk hún staðfestu á trú

sinni og móðurhjartað grét af gleði.

          Hún hafði alltaf haft mikinn áhuga á andlegum

málefnum. Trúin á guð og líf eftir dauðann hafði

alltaf verið hennar sannfæring. Eitt af því sem

hana langaði til að gera var að fara á miðilsfund.

Þá var starfandi mjög merkur íslenskur miðill,

Hafsteinn Björnsson. Loks rættist draumurinn hennar

og hún hitti þennan fræga miðil. Það var mikil

gleðistund. Hún mundi orðin eins og þau hefðu verið

sögð í gær:

          -- Það er hérna ungur maður, hann segist vera

sonur þinn. Hann fæddist andvana og fékk því ekki

nafn. Hann hefur alist upp í hinum heiminum. Þetta

er myndarlegur piltur og það eru tuttugu ár síðan

hann fæddist í þennan heim. Honum líður vel og hann

er mjög hamingjusamur að hitta þig.

          Þetta var ólísanleg stund. Móðirin fann

kærleik og frið streyma um sál sína og blind augun

fylltust af tárum.

          Miðillinn hélt áfram:

          -- Hann leggur stóran vönd af rauðum rósum í

fang þitt og tekur utan um þig. Hann segist þekkja

þig vel og vill segja þér hve vænt honum þykir um

þig. Þú ert hin eina sanna móðir hans þó að hann

hafi alist upp hinumegin hjá kærleiksríkum verum.

          Þessi orð, hve þau glöddu hana. Hamingjutár

runnu niður vangana. Þessi stund hjá miðlinum var

ólísanleg, ógleymanleg.

 

                             -----------------

 

          Gamla konan tók upp prjónana. Hún brosti.

Trúin var hið mikilvæga í lífinu. Hún óttaðist ekki

dauðann. Hún treysti. Kærleikur og friður bjuggu í

hjarta hennar. Hún var sátt.

          Prjónarnir tifuðu.

 


 

 

 

 

 

 

 

          VÍK BURT - DIMMA NÓTT.

 


 

 

Það var miður janúar. Hin tuttugasta öld var

að hefja göngu sína með frosthörkum og snjó yfir

norðanverðu landinu. Allt var hvítt sem jökull og

hríðargarg flesta daga. Ekki þótti ráðlegt að

ferðast meira en nauðsyn bar til þennan fyrsta

mánuð nýs árs.

          Þó sást maður á ferð á leið inn Hvammsdalinn.

Teymdi hann brúnskjóttan hest og eitthvert hrúgald

húkti á baki. Maðurinn gekk álútur eins og allar

syndir heimsins hefðu lagst á herðar honum. Hann

hafði stafprik í annari hendi en með hinni hélt

hann í tauminn. Hann bar stafinn fyrir sig til þess

að finna örugga slóð fyrir sig og hestinn sem þó

hnaut öðru hvoru, sökum þreytu.

          Maður þessi hét Þorleifur, þrítugur að aldri,

og hann var langt að kominn. Dökkt hár stóð út

undan prjónahúfunni hans en myndarlegt andlitið var

orðið hrímað og veðurbarið. Öðru hvoru leit hann á

telpuhnokkan sem húkti á baki Skjóna. Hann hafði

þungar áhyggjur. Þau voru öll þreytt. Hann vildi

hlífa Skjóna, því að hann hafði ekki fengið

hressingu svo lengi. Þó var hann hræddari um Ásu

litlu, hún var hætt að kvarta, en sat hljóð á

hestinum. Hann vissi ekki hvað hún þoldi þetta

ferðalag lengi enn.

          Hann hélt áfram eftir fannbreiðunni, Skjóni

hnaut en barnið dottaði á hestinum. Þreytan

helltist yfir hann og hann sveið í hjartastað.

Barnið og hesturinn voru það eina sem hann átti í

þessu lífi og hann hafði svo lítið að bjóða þeim.

Hann átti ekkert til að gefa og nú hafði hann engan

samastað. Gat hann treyst því að honum yrði tekið

opnum örmum eftir öll þessi ár, þótt hann hefði

farið burt þegar þau þörfnuðust hans?

          Þau höfðu ferðast gegn um margar sveitir, yfir

vatnsföll og freðin vötn, til að komast í þennan

dal. Það var þeirra eina von.

          Framundan var Hóll, bærinn sem Þorleifur batt

vonir sínar við. Hann fann feginleik streyma um

kalda sálina en þó kvíðablandna. Hann hafði ekki

komið svo lengi og vissi ekkert hvað beið.

          Hóll var reisulegt býli. Bæjarhúsin höfðu

verið byggð stór og rúmgóð í upphafi og það var

reisn yfir staðnum. Þarna hafði Njáll hreppstjóri

Hvammshrepps búið, en nú var hann farinn yfir

móðuna miklu. Nú bjó Guðrún, ekkja Njáls, á Hóli.

Hún var um fimmtugt, sköruleg í alla staði og

ákveðin í lund. Þorleifur vissi að hún átti eina

dóttur. Guðrún hafði aldrei misst kjarkinn í

búskapnum þessi tíu ár frá fráfalli Njáls. Hún bjó

með ráðsmann og vinnufólk og búskapurinn blómstraði

ekki síður en í tíð Njáls. En hve hann þekkti þetta

allt vel.

          Komumaður virti fyrir sér bæjarhúsin. Hann

fann veika von kvikna í brjósti sér á meðan hann

rölti síðasta spottann. Það var að hvessa enn meir.

Þorleifur stoppaði við bæjardyrnar og starði á

fönnina sem skóf upp að bæjarveggnum.

          Einhver hafði komið auga á ferðalangana, því

að í þessu bili kom húsfreyjan út. Þorleifur starði

á hana. Hún hafði ekkert breyst, en nú var hún

eldri. GUðrún var myndarleg, dálítið þétt á velli.

Sítt hárið, sem einu sinni hafði verið

kastaníubrúnt en nú var byrjað að grána, lá í einni

fléttu niður eftir bakinu. Blá augun undir þykkum

brúnunum störðu á gestina. Þorleifur tók ofan

prjónakolluna, hann fann tár læðast fram í

augnkrókana. Húsfreyja gekk til hana.

          -- Þorleifur, guð minn góður, hvað ert þú að

gera hér?

          Þorleifur kom ekki upp nokkru orði. Hann stóð

eins og illa gerður hlutur og horfði á konuna. Hún

faðmaði hann að sér.

          -- Komdu inn.

          Hann kinkaði í kolli í átt til hestsins.

          -- Telpan mín er hér.

          Húsfreyjan hrökk við. Hún flýtti sér að

hestinum og tók ískalt barnið af baki.

          -- Átt þú þessa telpu?

          Þorleifur kinkaði kolli.

          -- Ég á barnið og hestinn, annað ekki.

          Húsfreyjan brosti.

          -- Við verðum að koma lífi í þessa litlu

stúlku. Ég læt vikapiltinn sjá um hestinn, þú getur

komið inn rólegur þess vegna.

          Húsfreyjan kallaði á dreng sem tók við Skjóna.

          -- Settu hann á auða básinn í fjósinu og gefðu

honum græna tuggu. Ekki of mikið fyrst, mér sýnist

hann ekki hafa fengið of mikið uppá síðkastið.

          Þorleifur elti Guðrúnu inn í baðstofuna. Hún

bar telpuna í fanginu. Svo kallaði hún í vinnukonur

sínar, skipaði þeim að flóa mjólk, hita lútsterkt

kaffi og koma með hitaflöskur í rúm fyrir barnið.

          Guðrún klæddi barnið úr hverri spjör og vafði

hana inn í hlýtt ullarsjal. Litla stúlkan brosti og

stakk köldum höndunum í hálsakot Guðrúnar til að

hlýja sér. Þorleifur fann tár seytla niður kinnina.

Honum fannst þau feðginin vera komin í himnaríki.

          -- Hvað heitir hún?

          Guðrún leit á Þorleif.

          -- Hún heitir Ásgerður, ég kalla hana Ásu og

hún er fimm ára.

          -- Falleg stúlka.

          Guðrún bjó um barnið, gaf henni flóaða mjólk

og stuttu seinna svaf litla stúlkan í hlýju rúmi

húsmóðurinnar. Þá fyrst snéri Guðrún sér að

Þorleifi.

          -- Jæja, gamli vinur. Nú fáum við okkur sterkt

kaffi og þú borðar. Svo skuldar þú mér skýringu.

          Þorleifur brosti. Hann heyrði á öllu að Guðrún

hafði ekkert breyst.

          Eftir mat og heitt kaffi fannst Þorleifi hann

vera sem nýr maður. Hann verkjaði að vísu í

kalsárin á höndunum en nú gerði það ekkert til. Ása

litla svaf vært og Skjóni stóð í grænni töðu. Þetta

var nánast of gott að vera satt.

          Guðrún rétti neftóbaksdós til Þorleifs sem hún

dró upp úr pilsvasanum.

          -- Fáðu í nösina og segðu mér svo hvað á daga

þína hefur drifið. Varstu ekki kominn norður í

Fjörð?

          -- Jú. Þegar ég fór frá ykkur hjónunum lá

leiðin norður og ég var til sjós. Þá kynntist ég

barnsmóður minni, Björgu. Hún er besta kona en við

áttum ekkert og okkar samræði var flan. En blessað

barnið kom undir og síðan hefur hún fylgt mér. Ég

þvældist á milli og þáði alla þá vinnu sem hægt var

að fá. En það eru ekki allir sem vilja taka

vinnumann með barn í eftirdragi.

          Guðrún ræskti sig.

          -- Af hverju komstu ekki til mín. Þorleifur,

hvað er að þér? Ég ól þig nánast upp. Gastu ekki

treyst mér?

          Þorleifur nuddaði skeggbroddana.

          -- Ég gat ekki komið. ÉG brást ykkur,- fór.

Þið gerðuð allt fyrir mig, en ég fór. Stuttu seinna

frétti ég að Njáll hefði dáið. Þá fannst mér ég

hafa svikið ykkur enn meir og ég gat ekki komið.

Ekki fyrr en nú, barnsins vegna. Ég var rekinn úr

vistinni norður í Firði. Frændi bóndans vildi vinnu

og þeim fannst gott að losna við mig og mitt

lausaleiksbarn.

          Guðrún hnussaði.

          -- Þetta eru aumingjar. En ég skal láta þig

vita það Þorleifur að ég er reið við þig, en gerðu

mér þetta aldrei aftur. Þú átt heima hérna og þú

ferð ekki fet, og litla telpan þín á að alast upp

hjá mér. Skilurðu ekki drengur að ég þoli ekki

tilhugsunina um að þið hafið liðið skort? Skilurðu

ekki að þú ert mér eins og sonur?

          Guðrún brast í grát og Þorleifur faðmaði hana

að sér.

          -- Fyrirgefðu.

          Guðrún snýtti sér.

          -- Ég ætla ekki að vera með neitt víl. Þú

vinnur fyrir ykkur hér. Það er alltaf rúm fyrir

góðan ráðsmann, en auðvitað ertu frjáls ferða

þinna. En þú ferð ekki með barnið á flakk.

          -- Þakka þér fyrir. Mér finnst ég vera komin í

himnaríki. Ég vissi að við myndum hafa þetta af. Ég

vissi að allt yrði gott. En hvar er Svanhildur?

          Guðrún brosti.

          -- Hún dóttir mín er orðin fullorðin skal ég

segja þér. Hún var lítil hnáta þegar þú fórst en nú

er hún sautján ára tryppi, sem ekki tollir heima

frekar en þú. Hún krafðist þess að fá að fara í

vist til Reykjavíkur í eitt ár og ég á von á henni

með vorinu.

          -- Í vist?

          -- Jamm. Það er í tísku núna. SVo mikið er ég

búin að læra að það er best að leyfa ykkur, þessu

unga fólki að fara þegar þið viljið. Það eina sem

ég get gert er að biðja um að fá ykkur aftur heim.

          Þorleifur sat hljóður. Hann fann nagandi

samviskubitið heltaka sig. Hann hafði farið í fússi

og hann hafði ekki látið svo lítið sem senda línu.

Þetta var fólkið sem hafði fóstrað hann frá fimm

ára aldri, eða frá því að hann missti foreldrana.

Þau höfðu forðað honum frá sveitinni, flakkinu,

hungrinu. Þau höfðu menntað hann, stutt hann og

elskað hann. Hvernig gat hann borgað fyrir öll

glötuðu árin? Hvernig gat hann endurgoldið þessari

stórhjörtuðu konu allt sem hún hafði gert? Hann

vissi það ekki en hann bað í huga sér til guðs að

hann gæti endurgoldið henni á einhvern hátt allt

sem hún hafði gert.

 

 

                             -----------------------

 

 

          Það var orðið rokkið. Guðrún hafði sent

vinnumenn sína snemma til gegninga, beðið þá að

ganga vel frá öllum húsum. Veðrið versnaði stöðugt.

Hríðin var dimm, svo varla sást handa skil. Þegar

búið var að öllum verkum, setti Guðrún slagbrand

fyrir dyrnar, en fór svo að skammta matinn.

          Meðan fólkið var að gæða sér á hnausþykkum

grjónavelling var barið á dyrnar. Guðrún hrökk við

en hún stóð ekki upp. Þorleifur sat á rúminu gengt

henni. Hann leit á hana spurnaraugum.

          -- Var barið?

          -- Nei, sagði Guðrún, það ber enginn í þessu

veðri.

          Aftur heyrðist hljóð að utan. Það var eins og

krafsað væri í hurðina og þar eftir fylgdi ámátlegt

hljóð. Fólkið hrökk í kút og önnur vinnukonan

hljóðaði. Þorleifur stóð upp.

          -- Ég ætla að gá hvað þetta er?

          -- Nei.

          Guðrún horfði á hann ströng á svip.

          -- Það fer enginn út í þetta veður. Ég opna

ekki. Það er enginn maður á ferð í þessu veðri. Mig

dreymdi illa í nótt og ég opna ekki bæinn.

          Þorleifur sá að fóstru hans varð ekki haggað.

Hann þekkti vel hve hjátrúarfull hún var. Það var

eina veika hliðin sem hann hafði kynnst á Guðrúnu.

          -- Kæra, Guðrún. Ég trúi ekki á drauga. Við

verðum að gá hvað þetta er.

          Hann sá að það fór hrollur um konuna.

          -- Þú ferð ekki út. Ég fékk þig ekki heim til

að missa þig út í hríðina.

          Aftur heyrðist klór en nú var eins og það væri

örlítið fjær. Guðrún fór að raula eins og til að

reyna að gleyma þessum óhugnaði. En Þorleifur gat

það ekki. Hann óttaðist að úti í hríðinni væri

einhver í nauð. Hann varð að gá að því.

          -- Ég verð að fara út.

          Guðrún starði á hann.

          -- Ef þú ferð út, þá opna ég ekki fyrir þér

aftur.

          Heimilisfólkið stóð á öndinni en enginn

hreyfði legg né lið. Hræðsla hafði gripið um sig

meðal fólksins. Þorleifur kyssti Guðrúnu á kinnina.

          -- Þú sérð um stelpuna, ég verð að gá hvað

þetta er.

          Áður en Guðrún gat mótmælt frekar, greip

Þorleifur skjólflýkur sínar og klæddist þeim.

Enginn sagði neitt.

          Þorleifur var tilbúinn, hann greip staf sinn

og dró lopavettlinga á hendurnar. Guðrún dró

slagbrandinn frá. Ekkert sást nema iðulaus

stórhríðin. Þorleifur snaraðist út um dyrnar og

hann heyrði að Guðrún dró slagbrandinn fyrir.

          Dálitla stund stóð Þorleifur við bæjardyrnar.

Hann reyndi að rýna út í myrkrið. Reyndi að sjá og

skynja hvort nokkur lifandi vera væri á ferli. Hann

sá ekkert, en honum fannst hann heyra hljóð. Það

var erfitt að gera sér grein fyrir hvaða hljóð

tilheyrðu veðrinu, því að Kári gamli gat gefið frá

sér undarlegustu stunur.

          Eitt augnablik fannst Þorleifi hann greina

eitthvað utan við bæinn sem hreyfðist. Hann gekk í

áttina og byrjaði að kalla. Stormurinn reif í hann

og bar hljóðið burt.

          Þegar þorleifur kom nær sá hann að þessi

undarlega þúst hlaut að vera manneskja. Hann

kallaði en þústin mjakaðist í áttina burt. Hann

stökk af stað og greip um manneskjuna. Hún rak upp

hljóð.

          -- Róleg, róleg. Hver ert þú?

          Þorleifur var þess fullviss að mannveran sem

hann hafði í fanginu væri ung stúlka. Hún stundi.

          -- Ég er Svanhildur.

          Eitt andartak varð Þorleifur agndofa. Fóstra

hans hafði sagt að Svanhildur væri í vist í

Reykjavík. Þetta gat ekki verið. Hver var hún?

Hafði Guðrún ef til vill rétt fyrir sér að þetta

væri ekki mennsk manneskja? Hann ýtti þessu frá

sér.

          -- Hvað ertu að gera hér?

          -- Ég varð að komast heim og fæða barnið mitt.

          Hún snökti.

          -- Lausaleikskrói heitir það víst. Ég hélt að

það kæmi ekki svona fljótt.

          -- Guð minn góður, ertu orðin veik?

          Stúlkan svaraði ekki en stundi ámátlega.

Þorleifi varð ekki um sel. Hann hafði engan tíma

til að spyrja hana frekar. Stormurinn reif í föt

þeirra og hríðin lamdi andlitin. Hann greip

máttvana stúlkuna í fangið og hélt af stað til baka

að bænum. Í huganum lofaði hann guð fyrir að hafa

ekki hlustað á fóstru sína.

          Allt í einu varð Þorleifur skelfingu lostinn.

Þau áttu að vera komin að bæjardyrunum, en hvergi

bólaði á neinu húsi. Hann hafði farið svo stutt og

hann var svo viss um að rata til baka. Þetta voru

nokkrir metrar. Það gat ekki verið að hann hefði

gengið fram hjá bænum. Hann skimaði í iðulausa

hríðina, fálmaði í kring um sig með stafnum, en

fann ekkert. Stúlkan hallaði sér að honum og stundi

öðru hvoru.

          -- Guð á himnum, hugsaði Þorleifur. Hvernig

mundi þetta enda? Hann var villtur við bæjarvegginn

á Hóli í blindhríð með stúlku í fanginu sem á

hverri stundu mundi fæða barn. Hún var heldur engin

venjuleg stúlka. Heimasætan á bænum.

          Þorleifi fannst hann vera að missa vitið. Það

var svo undarlegt að hugsa til þess að þessi

sárþjáða stúlka væri Svanhildur. Hann hafði litið á

hana sem litlu systur. Þetta litla skott með ljósu

lokkana og bjarta brosið hafði alltaf komið öllum í

gott skap á Hóli. Hvað gat hann gert? Hann varð að

reyna að finna bæinn.

          Í stórhríð er erfitt að átta sig á tímanum og

á vegalengdum. Þorleifur vissi ekki hve lengi eða

hve langt hann hafði farið þegar hann fann húsvegg.

Hann andvarpaði af gleði og fikraði sig með

stúlkuna í fanginu meðfram veggnum. En hann komst

fljótlega að því að þetta var ekki bærinn. Þau voru

komin að fjárhúsum sem stóðu mun sunnar á túninu.

Þorleifur þorði ekki að halda áfram. Hann varð að

skilja stúlkuna eftir í fjárhúsunum og freista þess

sjálfur að komast til bæjar eftir hjálp. Hún var nú

þegar allt of þjáð til að verjast í hríðinni.

          Hann komst inn og hjálpaði stúlkunni upp í

garðan. Það var hlýtt í húsinu og kindurnar

jórtruðu ánægjulega. Augu þeirra voru eins og

stjörnur í dimmum húsunum.

          -- Hvíldu þig, ég verð að loka húsunum aftur.

          Stúlkan stundi og stunurnar urðu að veinum.

          -- Þú verður að hjálpa mér, barnið er að koma.

          Þorleifur skalf. Hann setti hey undir

stúlkuna svo betur færi um hana og nuddaði kaldar

hendur hennar svo henni mundi hitna.

          -- Vertu róleg. Ég verð að komast heim og ná í

móður þína. Þú verður að harka af þér á meðan. Það

er að minnsta kosti hlýtt hér.

          -- Ekki fara, barnið er að koma, þú verður að

hjálpa mér.

          Stúlkan veinaði og Þorleifur fann kaldan svita

spretta um sig allan.

          -- Góði guð, hugsaði hann. Hjálpaðu mér. Við

erum hér í myrkri, ég kann ekkert að taka á móti

börnum, ég hef ekkert til að skilja á milli, ég hef

ekkert vatn, ég hef ekkert. Guð hvað á ég að gera?

          Hann tók um hönd stúlkunnar og þrýsti hana.

          -- Þetta verður allt í lagi. Við björgum

þessu.

          -- Ég er svo þreytt. Ég kom með skipi í Voginn

en svo er ég búin að labba í allan dag. Það var svo

mikil hríð, mér var svo kalt.

          -- Nú er allt í lagi. Þú ert komin heim.

Bráðum verður litla barnið þitt fætt og allt verður

gott.

          -- Ég vildi að mamma væri hérna.

          -- Ég vildi það líka.

          Þorleifur hugsaði til Guðrúnar. Ef hún bara

vissi. Stúlkan grip krampakenndu taki um hönd hans.

          -- Hjálpaðu mér, Þorleifur.

          Þorleifur þreifaði á stúlkunni og fann að

barnið var að koma.

          -- Ó, Guðrún, því opnaðir þú ekki bæinn.

 

 

 

                             ---------------------

 

 

          Það gat enginn sofið. Guðrún fór öðru hvoru

með ljós út í dyr, en ekki sást tangur né tetur af

Þorleifi. Guðrún grét í hljóði og ásakaði sjálfa

sig. Hvers vegna hleypti hún honum út? Hvað hafði

orðið um hann?

          Það var kominn morgun þegar hríðina slotaði

loksins. Ása litla vaknaði og spurði um pabba sinn.

Guðrún gaf henni kandísmola og sagði að pabbi kæmi

bráðum. Hana sveið í hjartað og hún vissi ekki nema

að hún væri að skrökva að barninu. Ef til vill kom

pabbi ekki aftur.

          Guðrún skipaði svo fyrir að gegningar yrðu

dregnar fram á daginn en vinnumenn skildu fara

þegar í stað og leita að Þorleifi. Hún skammtaði

hafragraut á diskana og bað þá að borða vel. Sjálf

klæddi hún sig í buxur og gæruúlpu og bað

vinnukonurnar að líta eftir Ásu litlu.

Vinnumennirnir voru að háma í sig grautinn en hún

gat ekki beðið.

          Þegar Guðrún kom út á hlaðið sá hún Þorleif

koma gangandi frá fjárhúsunum. Hún fann að hjarta

hennar hrópaði af gleði og hún hljóp á móti honum

og faðmaði hann. Þá tók hún eftir að hann var

eitthvað undarlegur. Hendur hans og föt voru blóðug

og hann var úlpulaus.

          -- Hvað kom fyrir?

          Þorleifur tók utan um hana.

          -- Ég var á leiðinni að sækja þig. Svanhildur

kom heim í gærkvöldi, illa á sig komin. Hún fæddi

barn í fjárhúsunum í nótt. Lítinn dreng.

          Guðrún fölnaði og Þorleifur varð að styðja

hana.

          -- Þú skrökvar. Það getur ekki verið.

          -- Það er samt satt. ÉG fann hana fyrir utan

bæinn en svo villtist ég hingað. Sem betur fer,

fann ég fjárhúsin svo að við komumst í húsaskjól.

          Guðrún ætlaði að hlaupa af stað, en Þorleifur

hélt í hana.

          -- Vertu róleg. Það er allt í lagi. Þau sofa

núna. Ég verð að tala við þig. Svanhildur varð

ófrísk eftir mann sem ekkert vill með hana hafa.

Hún leyndi því lengi vel, en svo sá hún að hún varð

að fá hjálp. Hún fékk far með skipi í Vog, en gekk

svo hingað. Fæðingin gekk vel. Þeim líður vel og

þau sofa núna.

          Guðrún starði á Þorleif.

          -- Hvernig gastu tekið á móti barninu?

          -- Ég varð. Það var myrkur svo að ég sá ekkert

en það blessaðist. Ég hafði varla tíma til að vera

hræddur. Dóttur þinni er heldur ekkert illa í ætt

skotið.

          -- Hvernig gastu skilið á milli?

          Þorleifur brosti.

          -- Já, það voru góð ráð  dýr en svo mundi ég

eftir að ég hef tennur.

          -- Guð á himnum, stundi Guðrún.

          Þau leiddust að fjárhúsunum og Þorleifur

opnaði. Guðrún starði dáleidd á dótturina sem lá í

garðanum, sofandi með hlífðarföt Þorleifs sem sæng.

Í fangi hennar lá lítill blóðugur snáði sem kúrði

upp að brjósti móðurinnar. Guðrún skalf og tárin

runnu niður kinnar hennar. Þorleifur brosti.

          -- Þú verður að fyrirgefa, ömmudrengurinn er

dálítið skítugur, við gátum ekki baðað hann.

          Guðrún faðmaði Þorleif að sér.

          -- Þakka þér fyrir.

          Svo gekk hún til dóttur sinnar og kyssti hana

á vangann. Svanhildur opnaði augun og mæðgurnar

horfðust í augu. Þorleifur leit undan og gekk út.

Hann vildi ekki láta þær sjá hve mikilli

geðshræringu hann var í. Karlmenn gráta ekki. Hann

starði til himins og þakkaði guði í hljóði. Hann

hafði beðið um að fá að endurgjalda Guðrúnu dálítið

og guð hafði svo sannarlega hlustað á bænir hans.

          Þorleifur andaði að sér fersku vetrarloftinu.

Hann kveið ekki framtíðinni. Hann var kominn heim

og saman mundu þau hjálpa hvort öðru gegn um lífið.

Nóttin var liðin, hún hafði vikið fyrir deginum.

 


 

 

 

 

 

 

 

Einkamál.is.

 


 

Hún starði á tölvuna. Fertugur karlmaður, brúneygður, brúnhærður, einn og áttatíu á hæð, með óuppgefna þyngd. Vill fara á stefnumót, vantar félagsskap, hefur gaman af að fara út að skemmta sér, dansa, hlusta á góða tónlist og ferðast. Hvað gat það eiginlega verið betra?

       Þessi lýsing hefði vel getað átt við hennar fyrrverandi nema að persónuleikinn virtist vera allt annar. Sá vinnualki hafði aldrei haft tíma fyrir skemmtanir og ferðalög, hvað þá dans eða tónlist. Líf hennar síðustu tuttugu árin hafði ekki verið neinn dans á rósum. Kannski fyrstu mánuðina áður en hún varð ófrísk og þau hófu venjubundið lífsgæðakapphlaup, kaup á íbúð, betri bíl, innanstokksmunum sem hæfðu fólki eins og þeim, síðan stærri íbúð, raðhúsi og síðast einbýlishúsinu sem hafði verið stór biti að kyngja. Það var kannski ekki von að öðruvísi færi.

       Þegar hún hugsaði um lífið sem var að baki sá hún að það var ekki að öllu leyti slæmt. Í upphafi vegar þegar hún var á átjánda ári hafði ástin vissulega blómstrað hjá þeim. Hennar fyrrverandi var algjör sjarmör að læra viðskiptafræði og hún sjálf í menntaskóla. Sem betur fer fyrir þau bæði hafði sambandið ekki rústað náminu svo að hann kláraði sína viðskiptafræði og hún snyrtifræðina sem hana langaði svo í. Auðvitað þurftu þau bæði að eignast eigin fyrirtæki og það hafði tekist. En að eignast fyrirtæki, síðan hús og börn var meira en venjulegir 24 tímar á sólarhring leyfðu. Þau unnu og unnu uns lífið varð ein samfelld vinna og rómantísku stundirnar voru horfnar í tímaleysi hins daglega lífs. Þau voru góð saman, unnu saman, skiptust á að vera heima með börnin í flensu eða tanntöku, allt gekk, en neistinn var kulnaður. Þegar hún hugsaði til baka hafði þetta verið eitt stórt prógramm sem gekk upp, þau efnuðust, komu upp börnunum og menntuðu þau. Þau voru líka heppin, unglingsárin liðu hjá afkomendunum án nokkurs rugls sem skaðaði varanlega. Það voru í raun forréttindi á þessum síðustu og verstu tímum.

       Skilnaðurinn hafði verið dálítið sár. Ekki það, þau voru bæði sammála um að þetta væri eina færa leiðin. Þau áttu fátt sameiginlegt lengur, börnin farin að heiman og bara betra að lifa lífinu út af fyrir sig. Það var kannski vaninn sem var sárastur. Þessi breyting að hafa allt í einu aðeins um sjálfan sig að hugsa var framandi. Það var ekki lengur þessi rosalega keyrsla, eða pressa á hvern klukkutíma. Hún einfaldlega kunni þetta ekki. Þau seldu húsið og hún keypti sér huggulega íbúð í parhúsi, hvorugt þeirra hafði að gera með risastórt einbýlishús. Hún skipti um bíl, hellti sér út í endurnýjun á stofunni, fór erlendist til að kynna sér nýjar línur og gera nýja samninga, stundaði líkamsrækt og reyndi að slaka á í ljósum. Hún vissi að útlit hennar var mjög gott, miðað við aldur, en það vantaði eitthvað. Þó að hún og maðurinn hefðu fátt átt sameiginlegt þá var komið einhverskonar tómarúm sem vinnan og sjálfsræktin virtist ekki fylla. Vinkonur hennar reyndu að draga hana út á lífið og á listviðburði. Það var á vissan hátt gaman, en það vantaði samt eitthvað.

       Hún starði á tölvuskjáinn. Það var eiginlega undarlegt að hún skildi svara þessum einkamálapósti. Manninum hafði litist svona fruntalega vel á hana að nú stóð til að hittast um kvöldið. Það var brjálæði, en samt var hún spennt. Sjálf vissi hún manna best að stór hluti af einkamálaauglýsingum var til þess eins að fá einn á broddinn og eins voru mörg afbrot framin eftir kynni á netinu, nauðganir, auðgunarbrot og jafnvel morð. Samt hafði hana langað að prófa. Það var eitthvað svo saklaust og einfalt að sitja heima hjá sér við tölvuna og svara pósti. Henni datt auðvitað ekki í hug að setja auglýsingu sjálf en hún hafði nú síðustu vikurnar kíkt á nýju karlana til að vita hvort nokkur væri að auglýsa á hennar aldri. Þessi fertugi gaur virtist eitthvað svo fullkominn að hún þorði varla að hitta hann. Kannski hugsaði hann það sama um hana. Hún var líka hrædd um að standast ekki væntingar. Það var ekkert auðvelt eftir öll þessi ár að fara á stefnumót. Hvað átti hún að segja? Um hvað talaði maður við bláókunnan mann sem maður hafði aldrei séð. Hún brosti með sjálfri sér. Venjulega átti hún ekki erfitt með að kynnast fólki eða halda uppi samræðum. Hún var í virkilegri þjálfun og hafði mjög gott sjálfstraust hvað það varðaði, en það var bara ekki það sama. Það var annað að fara á stefnumót.

       Þessar fáu línur sem þessi einstaklingur hafði skrifað henni, bentu til þess að hann væri skemmtilegur, fyndinn og jafnvel frumlegur. Eitthvað sem hún var ekki vön. Það vakti þó óöruggi hennar að vita ekki nafn hans eða þjóðfélagsstöðu. Hann vissi heldur ekkert um hana. Þessi staða skapaði óvissu, en var samt dálítið spennandi. Kannski var hann tvöhundruðkílóa hlunkur sem ók vörubíl. Það lá við að hún skellti uppúr við tilhugsunina. Hvað með það, þau myndu þá bara ekkert hittast aftur ef henni félli ekki við hann.

       Þau höfðu ákveðið að hittast á veitingahúsi og hvort þeirra sem yrði á undan myndi setjast við barinn og bíða eftir hinu. Stefnumótið var klukkan níu. Þetta var dálítið einfalt og þau ættu ekki að geta farist á mis. Hins vegar hafði hún hugsað sér að hafa þetta öðruvísi. Hún hafði hugsað sér að mæta dálítið fyrr, fá hornsæti og sjá þá karlmenn sem kæmu að barnum. Þetta var pínulítið óheiðarlegt, en hún gat ekki hugsað sér að hanga á barnum og bíða, kannski kæmi hann ekki eða þá að vinir hennar myndu sjá hana. Þá væri hún í vandræðalegri stöðu.

       Hún tók góðan tíma í að velja sér föt og hafa sig til. Það var dálítið erfitt. Hún gat á engan hátt ímyndað sér hvernig förunautur hennar myndi klæða sig, hún vissi ekkert um hann. Þessi hugsun gerði hana pínulítið órólega, en hún ýtti því frá sér. Úr því sem komið var ætlaði hún að slá til, það var eitthvað svo niðurlægjandi að mæta ekki.

       Dökkblá buxnadrakt gat átt við hvað sem var. Kannski var hún betri til að fara í á viðskiptafund, en hún treysti sér ekki til að fara í neinu af kjólunum sínum. Flestir minntu hana um of á hennar fyrrverandi eða einhver tilefni sem hún hafði klæðst þeim. Dökkblátt var líka eitthvað svo eindregið, hún yrði ekki áberandi en vissi að fötin klæddu hana vel. Þetta stefnumót var líka algjör óvissa. Þau höfðu ekki ákveðið hvort þau ætluðu að borða saman, fara út að dansa eða bara spjalla. Þetta var algjört óvissustefnumót.

       Hún setti disk í spilarann á meðan hún vandaði sig við að mála sig og farða. Vissulega gat hún verið ánægð með sjálfa sig. Það voru litlar hrukkur í kringum augun og munninn en húðin var falleg og langt frá því að vera veðruð eða gróf. Hún hafði alltaf hugsað vel um húð, hár og tennur. Það breytti því samt ekki að hún var orðin 38 ára gömul. Galdurinn við að vera ungur var einmitt sá að vera aldurslaus. Yfir þrítugt var beinlínis hallæristlegt að reyna að vera sextán í útliti, en þó bar að varast að klæða sig fullorðinslega. Hún virti fyrir sér spegilmyndina. Þrátt fyrir börn á brjósti voru brjóst hennar enn stinn og líkaminn laus við appelsínuhúð. Það var passasemi og vinna sem gerði það að verkum, ekki lýtaaðgerðir eða slíkt. Hún var fullkomlega meðvituð um líkamann án þess að vera með útlit á heilanum. Það hafði einfaldlega alltaf verið áhersla í hennar lífi að hlú að líkamanum, hann var eitt af því sem ekki var hægt að skipta út og hún var líka á móti því sem var gerfi. Það var sama hvað var, viðgerður hlutur var aldrei eins og sá upprunalegi.

       Hún var dálítið óstyrk er hún gekk inn á veitingahúsið. Það var verið að spila rólega tónlist og umhverfið var róandi. Hún leit á barinn og sá að hann var mannlaus. Það var þó léttir. Hún flýtti sér að setjast við hornborð og þjónn kom og bauð henni drykk. Hún keypti sér wiský. Það veitti ekki af að styrkja taugarnar örlítið. Hún beið róleg og virti fyrir sér umhverfið. Borðið sem hún hafði valið var nánast rökkvað og hún bjóst ekki við að neinn tæki eftir henni sem kæmi inn. Það var léttir.

       Brúnleitur vökvinn brenndi hálsinn og henni fannst gott að finna áhrif hans alla leið niður í maga. Hún hafði víst gleymt að borða þennan daginn. Hún var ekki kona sem alltaf var að sulla í víni. Henni fannst gott að njóta góðra drykkja en í gegnum tíðina hafði hún ekki haft mikinn tíma fyrir þannig stundir fremur en annað sem taldist til slökunar eða skemmtunar. Hún rúllaði glasinu milli handanna, lét hugann reika og velti fyrir sér stöðu sinni í lífinu. Hún átti svo sannarlega gott. Hún var enn á góðum aldri, börnin hennar voru dásamleg og gekk vel og peningar voru ekki vandamál í hennar lífi. Hún var kona sem kunni að fara með peninga og þeir höfðu alltaf komið til hennar án mikillar fyrirhafnar. Hún vissi sjálf að hún hafði viðskiptavit í blóðinu og það koma sér afar vel.

       Þegar klukkuna vantaði fimmtán mínútur í níu kom inn maður sem gat verið um fertugt. Hann settist við barinn og pantaði sér í glas. Hún starði á hann í laumi úr horninu. Hann var þrekinn, gat kannski náð einum og áttatíu. Hárið, sem náði niður á herðarnar var ekki brúnt heldur skollitað og hún sá ekki augun. Ef þetta var hann, þá hafði hann nú ekki gefið sérlega nákvæmar upplýsingar. Hún var dálítið vonsvikin. Þetta var enginn draumaprins. Hún skellti í sig úr glasinu, við hverju hafði hún búist? Hann var í það minnsta skemmtilegur, eða hafði verið það í bréfunum sínum. Hún ákvað að doka og sjá til. Kannski var það þess virði að fara og spjalla aðeins við hann. Þetta var ekki týpa sem hana langaði í rúmið með, hún hafði líka verið að leyta að félagsskap.

       Þjónninn kom með annan skammt af drykk og hún ákvað að bíða til níu. Þá ætlaði hún að gefa sig fram og láta slag standa. Mínúturnar siluðust áram og sá við barinn skellti í sig vodka að minnsta kosti þremur glösum. Henni leist ekki alveg á þetta. Kannski var hann óstyrkur eins og hún. Wiskýið gaf henni kjart og hún var að róast niður.

       Þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í níu kom annar maður inn og gekk að barnum, hann bað um wiský. Hjarta hennar hætti að slá og mest langaði hana að gufa upp. Þetta var hennar fyrrverandi. Þvílíkt klúður. Síðast af öllu vildi hún að hann kæmist að því að hún væri á netstefnumóti. Hún vonaði að hann myndi skella drykknum í sig og fara út. Hún vissi hreinlega ekki hvað hún gat gert. Hún lét fara eins lítið fyrir sér í horninu og hún gat og benti þjóninum hljóðlaust að bæta á glasið. Í huganum bölvaði hún í sand og ösku. Hve oft höfðu þau ekki talað um þessa hálfvita sem væru svo kynlífsþurfi að þeir vöfruðu um á netinu í von um að finna bólfélaga. Hún vissi sko alveg hvaða skoðun hann hafði á slíku og hún ætlaði sko ekki að láta hann komast að því að hún væri ein af þeim. Aldrei í lífinu. Ekki það að honum kæmi það við heldur bara að henni fannst það of niðurlægjandi. Hún hafði byrjað nýtt líf, líf sem hann átti ekkert að vita um.

       Klukkan stóð nánast kyrr. Skolhærði folinn var orðinn ókyrr og hún bjóst við að hann myndi gefast upp og fara þá og þegar. Það gerði ekkert til, það hafði þá farið fé betra. Hún hét því að fara aldrei framar á óséð stefnumót. Djöfuls klúður.

       Hún var að klára úr þriðja glasinu er rauðhærð, hnellin kona kom inn. Hún var á hlaupum, móð og másandi. Sá skolhærði varð allur eitt bros, tók hana í fang sér og síðan kom vænn koss, sem hefði hæft ágætlega blárri mynd. Það var auðséð að sá skolhærði hafði verið að bíða eftir henni. Þau tóku hvert utan um annað og hurfu út í kvöldið.

       Hún sat sem lömuð. Loksins rann sannleikurinn upp fyrir henni. Brúnhærður, brúneygður, 1.80 á hæð. Skemmtilegur, fyndinn, fyrir dans, ferðalög og skemmtanir. Einmitt sá sem hún hafði gifst fyrir tuttugu árum. Hann hafði verið þannig þá og ef til vill var það einmitt það sem hann hafði alltaf þráð. Hún fann fyrir ósegjanlegum sársauka sem fyllti brjóstið. Hvað hafði hann svo lesið um hana í svarinu? Lýsingu á konunni sem hann hafði gifst en hafði síðan týnt sjálfri sér. Hana langaði mest til að gráta. Hún drakk síðustu dreggjarnar af wiskýinu, þetta var of sárt til að vera satt.

       Hún horfði á sinn fyrrverandi skima út um gluggann að götunni. Hann var vissulega myndarlegur, maður sem flestar konur myndu falla fyrir. Eftir hverju var hann að leyta á netinu? Hún vissi það. Hann var að bíða eftir ljóshærðri, bláeygðri konu, 1.68 á hæð, skemmtilegri, fyndinni, með ferðalög, skemmtanir, dans og listir að áhugamáli. Konu sem aldrei kæmi, konunni sem hafði horfið. Hún fann tilfinningarnar flæða fram, eftirsjána, vonleysið og vonbrygðin. Af hverju? Við því hafði hún engin svör.

       Stuttu seinna þegar hann skrapp á salernið smokraði hún sér úr horninu, borgaði og hraðaði sér á braut út í rökkvað kvöldið. Ein.

 


 

 

 

 

 

 

 

 

       Draumurinn um ástina á elliheimilinu.

 


 

       Ellin. Hún var eitthvert hugtak sem mér hafði alltaf þótt svo fjarlægt, en þó svo skelfilegt. Elli, hrumleiki, hrukkur, tilgangsleysi og bið eftir dauðanum. Já, ég hafði alltaf óttast það að verða gömul. Tilhugsunin um það að andlitið á mér yrði eins og bókfell fannst mér hryllileg. Ef til vill þyrfti ég að fá falskar tennur, grá hár og hnýttar hendur. Ég vildi ekki verða gömul kona. Verða fyrir öllum, gamlingi á elliheimili, sem starfsfólkinu þætti ef til vill óþolandi nöldurskjóða. Ég hafði séð svo margt gamalt fólk sem ég vorkenndi. Mér fannst að líf þess hlyti að vera svo tilgangslaust og innantómt. Allt búið sem vert var að lifa fyrir. En auðvitað sagði ég aldrei neinum frá þessum ótta mínum við ellina. Mér fannst það sjálfri hálf sjúklegt. Ég sem er í skemmtilegri vinnu, á indæla fjölskyldu, er á kafi í félagslífi, stunda eronbik, ljós og sund og á aldrei eina mínútu aflögu, ég hafði enga ástæðu til að kvíða fyrir framtíðinni. En ég verð að viðurkenna að margt af því sem ég geri er eingöngu til þess að líta vel út, vera áfram ung.

       Það gerðist svo einn morguninn að ég vaknaði upp meira undrandi en ég hafði orðið fyrr. Það var venjulegur miðvikudagsmorgun, klukkan hringdi. Ég hreyfði mig ekki en starði út í loftið. Ég var varla með sjálfri mér. Maðurinn minn rumskaði, bölvaði og stöðvaði vekjarann, en ég tók varla eftir því. Mér leið einkennilega, dásamlega, ólýsanlega. Mig hafði dreymt draum. ég mundi hann allan, þarna sem ég lá í rúminu mínu, og allt í einu fannst mér ég sjá heiminn í nýju ljósi. Ég var ekki lengur hrædd við ellina. Ég lokaði augunum og upplifði drauminn í huganum. Drauminn um ástina á elliheimilinu.

       Ég var í húsinu mínu, en þar voru engin húsgögn. Ég stóð með tösku í annari hendi og vissi með sjálfri mér að ég var að flytja. En hvers vegna? Ég leit á hendurnar á mér og hrökk við. Þær voru grannar og beinaberar. Með skjálfandi höndum tók ég upp spegil úr töskunni og leit í hann. Þar hafði ég það. Við mér blasti andlit sem ég varla þekkti. Dökkt hár mitt var nú orðið silfurgrátt, húðin dálítið hrukkótt, sérstaklega í kringum augun.

       Ég brosti beiskt en andaði léttar er ég sá að ég var með mínar eigin tennur. En staðreyndin blasti við mér. Ég var orðin gömul kona, kannski sjötug. Mér fannst ég vita það. Samt sem áður þá leið mér ekkert illa. Þetta var ég sjálf hvernig sem á því stóð. Og ég var greinilega á förum.

       Ég hrökk við er einhver kom inn. Þetta var Berglind. Ég vissi það strax. Yngsta barnið mitt. En hún var ekki lengur litla fimm ára hnátan með ljósu krullurnar hans pabba síns. Nei, nei, þetta var hinn skörulegasti kvenmaður, áreiðanlega fjörutíu og fimm ára. Mér fannst ég sosum vita þetta allt. Mig langaði helst til að skella upp úr. Jæja, var nú blessuð dúfan hún Berglind mín farin að hugsa um mömmu gömlu.

       -- Jæja, mamma mín. Þá er ekkert eftir. Við skulum drífa okkur. Ég er viss um að þú átt ekki eftir að sjá eftir þessu. Það verða allir góðir við þig. Svo hlýtur þú að þekkja fullt af fólki þarna á elliheimilinu. Fólk sem þú átt samleið með.

       Ég fékk hnút í magann. Linda Torfadóttir var sem sé að fara á elliheimili. Með sjálfri mér vissi ég að það hafði ekki verið létt verk fyrir dótturina að fá mig til að flytja. Ég vissi ósköp vel að ég gat verið þrárri en sá gamli í neðra. Auðvitað hafði ég viljað búa í húsinu mínu, horfa á sjóinn út um gluggan minn og vera kyrr á mínum stað í ellinni. En hvar var Róbert? Ég þurfti ekki að spyrja. Ég vissi líka með sjálfri mér að hann var dáinn og það olli mér ekki miklum sálarkvölum. Það hlaut að vera langt um liðið. Elsku Róbert. Hann hafði alltaf verið mér góður og skilningsríkur eiginmaður. Hann hafði líka gert sér grein fyrir að hann bjó með sjálfstæðri konu, með sínar þarftir að lifa sjálfstæðu lífi. En þessi óskyljanlega vitneskja um dauða Róberts var eins og hvert annað þarna, staðreynd, búið að gerast og yrði ekki aftur tekið. Mér varð hugsað til hinna barnanna minna, Kristins og Gerðar. Þau voru öðruvísi gerð en Berglind og ég bjóst við að þau hefðu viljað losna við að koma mér á stofnunina, þó að ég væri viss um að þau væru sama sinnis.

       -- Linda, komdu og hjálpaðu ömmu með töskurnar.

       Ég gat varla varist brosi. Berglind mín hafði þá látið heita í hausinn á elliheimilismatnum. Rengluleg stelpa kom inn, á að giska 12 ára. Ég vissi reyndar að hún var það og ég fann hlýju streyna um mig alla. Hún var ekki svo galin sú stutta. Hún var búin að reynast mér vel og það var kraftur í henni, þó að renglulegur vöxturinn sýndi það ekki. Hún þreif tvær töskur upp af gólfinu og arkaði af stað út. Það var greinilega þungt í henni. Ég stóð enn á sama stað og Berglind horfði óþolinmóð á mig.

       -- Mamma, gerðu það komdu. Ég var búin að segja þeim á hælinu að við kæmum klukkan tvö.

       Ég leit á hana án þess að segja orð og gekk út úr húsinu. Ég kerrti hnakkann og leit ekki til baka. Linda gamla ætlaði að skilja við húsið sitt með reisn og það skyldi enginn á mér sjá hve illa mér leið. Það var ekkert grín að vera sjötug ekkja og eiga að byrja lífið upp á nýtt. Allra síst á einhverri stofnun sem ég áleit einungis biðsal dauðans.

       Ég var komin út að bílnum. Berglind tók töskuna mína.

       -- Svona, mamma mín. Ég skal láta hana í skottið, sestu bara inn.

       Ég settist í framsætið, en Linda yngri hafði hreiðrað um sig afturí. Hún beygði sig fram og hvíslaði að mér.

       -- Amma, þetta er algjört klístur allt saman. Mér finnst að þú gætir vel búið hérna áfram. Þetta pakk í familíunni er svo frekt, eins og þau eigi að ráða fyrir annað fullorðið fólk. Algjör skítur, finnst mér. Það á allt að vera á einhverjum plönuðum stað. Gamalt fólk á elliheimilum, krakkar á dagheimilum. Það er eins og fólk sé að raða málverkum upp á vegg. Þetta félagslega kjaftæði alltaf og mamma er andskotann ekkert skárri en hin. Þetta er skítur og klístur, segi ég.

       Ég sussaði á hana.

       -- Æ, amma láttu ekki eins og ég sé einhver græningi. Þú ert líka miklu hressari en þessir skilningslausu apaheilar í þessari fjölskyldu, mamma er þar með talin.

       Mér fannst ég verða að setja ofan í við hana, en mér gafst ekki tími til þess. Berglind settist inn og við ókum af stað.

       Eftir drjúga stund stöðvaði Berglind bílinn í stórri innkeyrslu, við elliheimilið. Mér leist ekkert á bygginguna. Stórt, grátt hús, kassalaga, eins og legókubbur á víðavangi. Og þetta var framtíðarheimilið mitt. Viðfeldin kona tók á móti okkur. Hún bauð mig velkomna og sýndi mér herbregið sem ég átti að fá til umráða. Sem betur fer ein. Ég hefði aldrei getað deilt herbergi með öðrum konum. Þetta var í sjálfu sér alveg nógu stórt fyrir mig. Veggirnir málaðir ljósbrúnir og innbyggðir skápar í veggjum. Þarna voru nú samankomnir þeir munir sem sem ég hefði alls ekki viljað láta frá mér. Börnin mín höfðu sjálfsagt séð um að flytja það. Það vantaði ekki hjálpsemina við að koma mér þarna fyrir.

       Konan sem sagðist heita Klara, yfirgaf okkur, en sagði að það yrði komið og mér vísað á kaffistofuna er kaffitíminn kæmi.

       Berglind og Linda voru enn hjá mér.

       -- Mamma, viltu að við hjálpum þér?

       Ég hrsiti höfuðið. Ég kepptist við að taka upp úr töskunum mínum. Það var betra að hafa eitthvað fyrir stafni en standa þarna eins og þvara og reyna að leyna vonbrygðunum sem byltust innra með mér.

-- Ertu viss um að það sé ekkert sem við getum gert?

       -- Já, Berglind mín. Það er allt í lagi með mig. Þú ert búin að hafa nóg fyrir mér. Þið skuluð bara fara núna og svo lítið þið til mín seinna.

       Linda faðmaði mig að sér.

       -- Amma, ég skal koma svo oft að þú fáir útbrot af því einu að hugsa um mig.

       Ég gat ekki annað en hlegið.

       -- Ég gæti aldrei fengið nóg af þér, hjartað mitt.

       Berglind kyssti mig.

       -- Við sjáumst fljótt, mamma mín.

       Þar með voru þær farnar og ég varð ein eftir.

       Ég settist á rúmið mitt og lét hendur falla í skaut. Ég leit á vegginn á móti rúminu. Þar blasti við giftingarmyndin af okkur Róbert og önnur mynd af börnunum ungum. Ég andvarpaði og fékk sting í brjóstið. Af hverju fékk ég ekki að fara um leið og Róbert. Þá hefði allt verið svo mikið einfaldara. Við sem svo lengi höfðum þolað saman bæði súrt og sætt,  að við hefðum einnig viljað þola dauðann saman.

       Ég veit ekki hve lengi ég sat þarna og starði á þessar gömlu myndir en ég hrökk up þegar bankað var á dyrnar.

       -- Kom inn.

       Ung ljóshærð stúlka stakk höfðinu inn úr gættinni. Hún brosti breitt og kom svo alla leið inn.

       -- Sæl, og velkomin. Ég heiti María og vinn mikið á þessum gangi. Við eigum eftir að hittast oft í framtíðinni. En nú er ég komin til að vísa þér á kaffistofuna. Þú lærir strax á húsaskipan hérna.

       -- Þakka þér fyrir.

       Ég stóð upp og setti í mig hörku. Ég varð að taka sjálfri mér tak. Hér og nú verður þú eins og manneskja, Linda gamla, hugsaði ég með mér. Það vilja allir gera allt til að létta þér lífið.

       Stúlkan brosti enn og horfði á mig.

       -- Vá, þú ert með meiriháttar hár. Alveg silfrað. Veistu að það er í tísku núna?

       Hún stakk hendinni undir handlegginn á mér og við lögðum af stað. María masaði stanslaust og mér féll strax vel við hana. Trúlega yrði hún ein af fáum sólargeislum í dvöl minni þarna.

       Kaffistofan var full af fólki. Á mínum aldri, eldra og yngra. Misjafnlega vel á sig komið. Það var kliður í salnum og glamur í kaffibollum. Þarna voru óteljandi gráir hausar og töluvert af sköllóttum körlum. Mig langaði til að skella uppúr. Þetta var eins og illa teiknuð skrípamynd. María leiddi mig að borði þar sem þrjár konur sátu.

       -- Þetta er hún Linda, hún var að flytja til okkar. Þetta eru Kristbjörg, Sara og Dagný.

       Ég settist og konurnar heilsuðu mér hlýlega. Sara, sú elsta, hafði orð fyrir þeim.

       -- Velkomin Linda, vonandi kanntu vel við þig hérna. Þetta er ekki svo bölvað, þegar allt kemur til alls.

       Hún brosti og hinar kinkuðu kolli eins og til að leggja áherslu á orð Söru.

       -- Spilarðu bridge?

       Ég játti því og þær tókust allar á loft. Kristbjörg stundi.

       -- Það er eins gott að það kemur einhver með viti inn á þennan vitleysingaspítala. Við höfum verið að spila við blindan í marga mánuði.

       Konurnar voru ræðnar og skemmtilegar og ég naut þess að drekka sjóðheitt, ilmandi kaffið.

       Allt í einu hrökk ég við. Mér varð litið yfir á næsta borð. Ég starði. Það gat ekki veirð. Gamall maður með grátt hár, hrukkur í andliti og falskar tennur starði á mig. Nei, þetta gat ekki verið. Kjartan, mér fannst þetta vera hann. Gat það verið að þessi gamli hrukkótti maður væri Kjartan? Strákurinn sem hafði stolið hjarta mínu þegar ég var sextán ára. Fyrsti elskhuginn. Strákurinn sem ég hafði séð eftir í þrjú löng ár, uns ég hitti stóru ástina mína, hann Róbert. Nei, það gat ekki verið. Ég fann að ég var komin í uppnám, svo ég flýtti mér að ljúka úr bollanum.

       -- Fyrirgefið stelpur. En ég á eftir að taka upp úr töskunum mínum. Ég sé ykkur í kvöldmatnum.

       -- Svo spilum við?

       Ég játti því og flýtti mér svo til herbergis míns, sem var númer 20. Ég settist á rúmið. Hugsanir mínar voru allar í ruglingi að mér fannst. Gat verið að ég væri farin að kalka?

       Það var barið létt á dyrnar. Ég opnaði. Þarna stóð hann, vandræðalegur gamall maður. Þetta var Kjartan. Það fór ekkert á milli mála. Sömu brúnu augun ljómuðu eins og í gamla daga.

       -- Sæl Linda. Mé ég koma inn?

       Ég vék til hliðar svo að hann kæmist inn. Hann tyllti sér vandræðalegur á rúmið og nuddaði saman höndunum.

       -- Það er gaman að sjá þig aftur, eftir öll þessi ár. Og enn ert þú jafn falleg.

       Undrun mín var að réna og ég sá allt í einu broslegu hliðina á öllu þessu. Ég settist á rúmið hjá honum og hló.

       -- Ekki gera grín að gömlum manni, ég meina það sem ég segi.

       Ég hætti að hlægja og leit á hann.

       -- Ég er ekki að hlægja að þér, Kjartan. Heldur okkur báðum og lífinu almennt. Ég átti von á dauða mínum frekar en þér.

       -- Linda, ég veit að við erum farin að eldast. En þó erum við enn þau sömu. Með sömu langanir og þrár sem áður.

       Hann tók um hönd mína og þrýsti hana. Ég fann mér til mikillar undrunar að ég fann fyrir tilfinningum sem ég hélt að væru fyrir löngu dauðar. Hann hélt áfram.

       -- Ég veit að það er ruddalegt af mér að ryðjast svona inn hjá þér. Þú ert nýkomin, en ég gat ekki annað. Þegar ég sá þig í kaffistofunni áðan þá varð mér ljóst að ég hef alltaf saknað þín. Ég átti yndislega konu, sem nú er farin héðan. Hún var mér allt. En þú varst nú einu sinni fyrsta ástin mín og nú þegar hún er ekki lengur hjá mér, þá veit ég að henni fyndist engan veginn að ég væri að bregðast henni, þó að ég segi þetta. Þó við höfum elst Linda, þá erum við enn lifandi fólk. Það væri yndislegt ef við gætum eitt ellinni hér saman.

       Ég var djúpt snortin og mér fannst að allt sem hann sagði væri rétt. Hann stóð upp og kyssti mig á kinnina.

       -- Nú fer ég Linda mín. Við sjáumst í kvöld. Þá verður þú búin að jafna þig á undruninni. Það tekur líka dálítinn tíma að venjast lífinu á svona elliheimilum. Það er svo mikil breyting frá því að hugsa um sig sjálfur og vera alveg útaf fyrir sig. En þú veist að ég bíð þín og vona að þú verðir sólin á himni minna ellidaga.

       Hann fór en ég sat eftir með hjartað órólegt í brjóstinu. Ég var viss um að við ættum eftir að hafa mikið saman að sælda. Svona var lífið óútreiknanlegt. Ég gat samt ekki annað en hlegið. Berglind mín hefði átt að heyra þetta. Hún hefði bara átt að vita hvað gæti gerst ef hún púttaði mömmu gömlu á elliheimili. Ég var ekki viss um að hún yrði ánægð ef hún vissi að sú gamla væri komin á séns og það strax fyrsta daginn. Kannski var margt verra en ellin, þegar allt kom til alls.

       Þarna endaði draumurinn. Ég velti mér á hliðina og þrýsti mér að Róbert. Það var svo dásamelgt að hafa hann hjá sér og vera aðeins þrítugur. Hann leit glettinn á mig.

       -- Það er naumast að þú ert kelin í morgunsárið.

       Ég ansaði ekki en kúrði mig fastar að honum. Draumurinn sem slíkur var auðvitað ekkert nema rugl. Ég trúi ekki á drauma og allra síst þennan. En hann kenndi mér samt ýmislegt. Ég hafði aldrei hugsað um það, að hvort sem við erum ung eða gömul, sama á hvaða aldri við erum, þá erum við sama fólkið. Sömu tilfinningar, langanir og þarfir. Við þurfum öll að sá, frá öðrum, tillitssemi, ást og síðast en ekki síst skilning.. Við verðum líka að njóta þess sem við höfum, meðan það varir þvi að ekkert er eilíft. Ég kyssti Róbert, manninn sem er mér allt og sagði:

       -- Ég elska þig.

       Mér leið vel og ég ætla svo sannarlega að njóta þess að vera til. Með honum og krökkunum mínum, því lífið er dásamlegt.

 


 

 

 

 

 

 

                   GÓÐIR GRANNAR.

 


 

 

          Mig langar að segja ykkur litla sögu af

nágrönnum mínum og vinum, bara til að minna ykkur á

hve nágrannakærleikurinn er mikilvægur. Því hvað er

betra en traustir vinir? Það er fátt held ég.

          Ég á því láni að fagna að eiga yndislega

granna af báðum kynjum sem alltaf eru boðnir og

búnir til að rétta fram hjálparhönd. Það er ekki

ósjaldan sem ég hef kvabbað á þeim og ekki síst

þegar bóndi minn er að heiman. Það er nú einu sinni

þannig að karlmennirnir (þessar elskur) eru stundum

fjarri góðu gamni, þegar mest á ríður. Ég er viss

um að það eru fleiri konur en ég sem hafa lent í

því. Það er svo margt sem getur komið uppá,

kaupfélagsbíllinn birtist allt í einu með þrjú tonn

af fóðurbæti eða þá að nautin stinga sér til sunds

í haughúsið. Það eru einmitt þessi verk, eins og

svo mörg önnur, sem ég hef lítinn áhuga á að koma

nærri án sterkra karlmannshanda ( og þá er gott að

eiga góða granna).

          Það var einn sunnudag í haust sem leið að

bóndi minn þurfti að bregða sér af bæ. Hann hefði

heyrt af smalamennsku yfir í Svartárdal og þangað

brunaði hann á sínum fjallabíl, með hest og hund.

Ekki þannig að illa færi um mig, nei, nei, langt

því frá. Við vorum með helgargesti, vinafólk okkar

að sunnan, en þennan morgun brá maðurinn sér á

fuglaveiðar, svo ekki var hann viðlátinn.

          Ég var í mestu makindum að snúa

sunnudagssteikinni og blaðra við vinkonu mína,

þegar barið var hraustlega að dyrum. Reyndist það

vera nágranni minn í norðri mættur við annan mann.

Var honum mikið niðri fyrir. Mér datt fyrst í hug

að hann hefði ætlað að fá bónda minn til að

kyngreina með sér hross, en þeir, félagarnir, gera

það yfirleitt saman núorðið, en eru þó ekki alltaf

á eitt sáttir hvort götin eru eitt eða tvö.

          En ekki var það nú erindið að þessu sinni.

Sagði hann mér þær válegu fréttir að við ættum meri

sem nú væri í þann veg að fremja sjálfsmorð í nýja

skurðinum við Tungunesafleggjarann. Hún væri þar

nánast á kafi í leirdrullu og vatni, orðin köld og

nú yrði að hafa hröð handtök ef hún ætti að tóra.

          Ég starði á granna minn, stuttan og

snaggaralegan náunga, með hlæjandi augu og svip

mikilmennissins. Hann var afar vígalegur útlits á

þessari stundu, klæddur duggarapeysu, niðurbrettum

stígvélum, með undarlega húfu á höfðinu, sem ég

giskaði á að væri upprúlluð lambhúshetta.

          Mér féllust hendur og sagði honum að bóndinn

væri sloppinn af bæ. Ég vissi sem var að þótt við

pabbi værum öll af vilja gerð þá næðum við

merarskömminni ekki upp, hjálparlaust.

          -- Þetta er ekkert mál, sagði nágranninn úr

norðri, ég kippi henni bara upp með gröfunni minni.

          -- Já, þakka þér fyrir , sagði ég og tvísteig

á gólfinu.

          -- Ég ætla að hringja í nágrannann í suðri og

fá hann líka, hann á líka jeppa og kerru, sagði ég

og hugsaði hlýlega til bóndans í suðri, sem minnir

mest á Gretti sterka í útliti og burðum.

          -- Það þarf ekkert, sagði nágranninn í norðri

og ég sá á svipnum á honum að ég pirraði hann.

(Sama vesenið í þessum kerlingum alltaf!)

          En ég lét mig ekki. Ég vissi af fenginni

reynslu að þessir félagar eru góðir sitt í hvoru

lagi, en frábærir saman.

          -- Jæja, sagði norðangranninn, ég legg af stað

á gröfunni minni, þú getur þá komið með Tröllinu á

eftir. Hafðu svo til kalk, pensilín og allt það sem

gæti hresst merina eftir að við komum með hana

heim.

          Ég játti og þar með sá ég á eftir honum burt.

          Nú varð að hafa hraðar hendur. Ég hringdi í

nágrannann í suðri sem fúslega vildi lána sjálfan

sig, jeppa og kerru. Þá var að huga að lyfjunum.

Þau voru að sjálfsögðu ekki til svo að ég fékk vin

minn, skólabílstjórann sem var staddur hjá okkur,

til að fara á næsta bæ og fá allt það sem til væri

af lyfjum hjá vinkonu minni í

barnaverndarnefndinni.

          Eftir þetta flýttum við pabbi okkur í

lopapeysur, ullarsokka og vinnuvettlinga - tilbúin

í slaginn. Miðað við útlit nágranna míns í norðri

vildi ég einnig sýnast ábyrgur bóndi (þó að ég sé

án krana) og kórónaði útbúnaðinn með slyggnishúfu.

Pabbi horfði skringilega á mig á meðan hann dró

prjónakolluna yfir skallann.

          Við feðginin örkuðum því næst ofan á veg og

það stóð heima - nágranni minn í suðri kom í sömu

andrá ásamt vöskum húskarli sínum.

          -- Við verðum að drífa okkur, sagði

suðurgranninn, ég þarf að mæta í messu á eftir.

          Ég þóttist ekkert heyra, þess fullviss að

blessunin hún séra Stína hlyti að skilja mikilvægi

þess að bjarga lífi Skjónu gömlu. Ég var búin að

komast að því að þetta mundi vera skjótt meri, forn

nokkuð og eign tengdaföður míns, sú eina sem hann á

af þessu tagi. Á þessari stundu fannst mér því líf

og heilsa Skjónu mikilvægara flestu öðru.

          Granninn í norðri var langt kominn brunandi á

leynivopninu sínu, traktorsgröfunni. Við tókum fram

úr honum og flýttum okkur á leiðarenda.

          Sjónin sem við okkur blasti var vægast sagt

óglæsileg. Þarna var Skjóna gamla á kafi í djúpum

skurðgröfuskurði, hálfpartinn á hlið, svo að öðru

hvoru fór hausinn á henni á kaf í vatnið. Það var

eins og hún ætlaði að fremja sjálfsmorð en hætti

jafnharðan við það. Hún var kirfilega skorðuð og

gat ekkert hreyft nema hausinn.

          Nú fóru hjólin að snúast. Nágranni minn í

suðri stökk ofan í skurðinn og reif upp hausinn á

Skjónu, en um leið sökk hann upp undir klof.

          -- Komið með reipi, öskraði hann.

          Ég var varla búin að snúa mér við þegar

húskarl hans, sem er ungur og vaskur, var kominn

með reipi og stökk ofan í skurðinn. Mér leist

ekkert á þetta. Skóna gamla leit út eins og hún

væri að taka síðasta andvarpið. Ég skrönglaðist

ofan í skurðinn, þó að ég vissi að ég gerði ekkert

gagn.

          -- Vertu ekki að fara þarna, tautaði pabbi á

bakkanum, hvað heldurðu að þú gerir?

          Ég sendi honum illt auga og skreið upp aftur.

          Nú var komið reipi um hálsinn á Skjónu svo

hægt var að halda honum uppúr.

          Nágranninn í norðri kom og stillti upp

gröfunni, hann þreif reipið og smellti því á

bómuna.

          -- Við hýfum hana bara upp á hausnum, kallaði

hann.

          Nágranninn í suðri öskraði ógurlega.

          -- Ertu vitlaus, þú slítur af henni hausinn.

          En nágranninn í norðri heyrði bara það sem

hann vildi heyra. Ég stóð sem lömuð á meðan

teygðist á hálsinum á Skjónu. Eitt andartak leit út

fyrir að hún væri að breytast í gíraffa.

          En fljótlega var þessari aðgerð hætt og allir

voru sammála um að það yrði að koma spottum undir

skrokkinn. En það var hægara sagt en gert. Skóflan

gleymdist heima og langa stund grófu þeir í

leðjunni með höndum og fótum, nágranninn í suðri og

húskarlinn hans. Svitinn bogaði af þeim og vart var

hægt að sjá í þá fyrir leir og bleytu. En þetta

tókst og stuttu seinna hýfði norðangranninn Skjónu

upp með gröfunni sinni á snilldarlegan hátt. Þar

voru greinilega fagmannleg vinnubrögð.

          Þarna hékk Skjóna gamla og allir andvörpuðu af

létti.

          -- Látum hana hanga dálitla stund, sagði

nágranninn í norðri glottandi. Hann steig niður úr

tækinu sínu góða og sagði okkur eina lauflétta

gamansögu okkur til skemmtunar á meðan bleytan seig

af merinni.

          Eftir dálitla stund var Skjónu slakað niður á

jörðina. Hún starði á okkur í forundran og var

merkilega lífleg til augnanna.

          -- Jæja, sagði nágranni minn í suðri, við

skellum henni í kerruna og förum heim. Hún nær sér

alveg.

          Ekkert beisli eða múll var með í förinni, svo

köðlum var brugðið um höfuð Skjónu og henni beint í

átt að kerrunni. En Skjónu var ekki allur máttur

þrotinn. Á undraverðan hátt snérist hún úr höndum

mannanna. Húskarlinn úr suðri var þó ekki tilbúinn

til að sleppa. Hann hékk í Skjónu er hún hóf sig á

loft og kastaði sér ofan í skurðinn aftur. Eitt

langt augnablik hættum við að anda. Ég bjóst við að

sjá hinn unga og hrausta húskarl fletjast út undan

þunga skepnunnar. EN fyrir mikið snarræði tókst

honum að krafsa sig undan og sleppa lifandi. Stórt

andvarp heyrðist í hópnum.

          -- Ó, mikið logandis helvíti, sagði pabbi.

          -- Helvítis merart...an, sagði granni minn út

norðri. Granni minn úr suðri sagði ekkert en mér

varð hugsað til kirkjuferðarinnar, konunnar og

barnanna sem biðu prúðbúin heima.

          Í þessu bili kom rússajeppi á rólegri ferð í

átt til okkar. Var þar kominn pípulagningarkonan,

sem er ráðskona nágrannans í norðri á gamla

hjálparsveitarbílnum sínum.

          -- Þú verður að fara heim og sækja beisli og

múl, sagði nágranninn í norðri við ráðskonuna. Hann

leit á mig.

          -- Farðu með henni.

          Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að hann

myndi ekkert sakna mín, svo að ég hlýddi. Það var

mun skemmtilegra að sitja í þessu framandi

farartæki ráðskonunnar heldur en að þvælast fyrir.

Stundum er best að láta karlmenn í friði og þegja,

svo mikið veit ég þó.

          Þegar við komum til baka hékk Skjóna í bómunni

í annað sinn og nú fékk hún ekkert færi á að sleppa

enda var svo af henni dregið að hún neitaði að

hreyfa sig heldur lá eins og lúinn poki þegar hún

var sett til jarðar. En það kom ekki að sök. Allir

lögðust á eitt að toga og ýta, þangað til skepnan

var komin í kerruna. Björninn var unninn.

          Við fórum því að hugsa til heimferðar, en ekki

var útgangurinn á mannskapnum þannig að hæfði bíl

sem ætlaður var til að flytja kirkjugesti. Tókum

við því það ráð að sitja á úlpum og peysum sem

skástar voru, nema nágranni minn í suðri neyddist

til að fara úr buxunum sem voru gjörsamlega

gegndrepa.

          Svo var haldið af stað. Við mættum

skólabílstjóranum sem var með hálffullan bílinn af

lyfjum frá vinkonu minni í barnaverndarnefndinni.

Það var því löng lest af farartækjum sem hélt heim

á leið eftir þetta ævintýr.

          Þegar heim kom var Skjóna dregin úr kerrunni

en kaus ekki að standa upp fyrr en ég og nágranni

minn úr norðri höfðum skipst á að sprauta hana með

allskyns lyfjum sem ég kann ekki einu sinni að

nefna. Þótti henni þá nóg komið af þessu veseni,

stóð upp, rölti inn í fjárhús og fékk sér heytuggu.

Lét hún sér fátt um finnast þótt við stæðum

áhyggjufull og fylgdumst með.

          Það var hálf undarlegur hópur sem stóð þarna á

húsahlaðinu, misjafnlega skítug og misjafnlega

sveitt. Ökumanni bifreiðar sem ók hjá varð að

minnsta kosti starsýnt á okkur, en sérstaklega þó

hinn tröllvaxna nágranna úr suðri sem spásseraði um

á gúmmístígvélunum og nærbuxum. En svo var

forsjóninni fyrir að þakka að hann komst á réttum

tíma í guðshúsið.

          Það er af Skjónu að segja að hún er við

hestaheilsu, enda var maðurinn minn ekki lengi að

koma henni á beitina eftir að hann kom heim. Þótti

honum ekki mikið til um okkar ævintýri en ég sá þó

hvað hann hugsaði.

          -- Það er gott að vera ómissandi.

          En það verð ég að segja að þótt lífið í

sveitinni sé fjölbreytt og skemmtilegt þá met ég nú

einna mest hve hjálplegt og skemmtilegt fólkið í

kring um okkur er, eins og þetta dæmi sýnir.

          ( Eins og maðurinn minn segir: -- Karlmenn eru

ómissandi.) En það er aðeins hálfur sannleikur, við

konurnar erum það líka.

 


 

 

 

 

 

 

Ráðskona óskast, má hafa sjónvarp...

 


Hann lagði jeppanum við pósthúsið og beið. Rútan var enn ekki komin. Hann kveikti í pípu sinni, en slökkti óðar í henni aftur. Það gat verið að HENNI fyndist pípulykt vond. Hann ákvað að rólegri ferð og staðnæmdist rétt hjá jeppanum hans. Þá var sú stóra stund runnin upp. Ráðskonan var komin kaupa sér vindla. Sumum konum fannst vindlalykt góð. Hann tók kipp. Þarna kom rútan á.

           

       Hann hafði verið lengi að taka þessa ákvörðun. Það var erfitt að vera orðinn 46 ára og fá allt í einu kvenmann á heimilið. En hann hafði hugsað málið niður í kjölinn. Hann var á síðasta snúningi. Og þegar hann hafði tekið þessa mikilvægu ákvörðun, þá var ekkert sem gat haggað því. Inn á heimilið kæmi nú kona og hann ætlaði að gera það sem hann gæti til þess að hún færi ekki þaðan aftur. Margir karlmenn höfðu gifst ráðskonunum sínum. Hvers vegna ekki hann líka?

       Hann skimaði í kringum sig. Það var greinilega margt fólk með rútunni þennan dag. Suma þekkti hann. Skólafólk sem var að koma heim eftir langan vetur. Þarna kom læknisfrúin og svo oddvitinn. Þau höfðu verið á einhverjum fundi í Reykjavík. En þetta fólk vakti ekki áhuga hans. Það var annað og meira sem hann beið eftir.

       Loks kom hún. Það hlaut að vera hún. Fyrst sá hann langa leggi. Þröngar gallabuxur og bol. Hún hafði spengilegan vöxt. Hún var líka ungleg. Þetta var allt of gott til að geta verið satt. Hann snaraðist út úr bílnum og að rútunni.

       -- Sæl, ert þú ekki nýja ráðskonan mín?

       Stór himinblá augu störðu á hann og honum fannst hann vera kominn í himnaríki.

-- Fyrirgefðu, maður minn, þú hlýtur að fara mannavilt.

Hann stamaði.

-- Hva, ertu þá ekki að koma til mín?

       -- Nei, svo sannarlega ekki. Ég er hárgreiðslukona og er komin hingað til að setja upp stofu hér á staðnum.

       Honum fannst himin og jörð hrynja.

       -- Fyrirgefðu.

       Hún brosti sínu blíðasta og tiplaði léttstíg á braut.

       Eitt andartak stóð hann stjarfur. Auðvitað. Þetta hafði verið of gott til að geta verið satt.

       -- Góðan daginn, ert þú frá Sámsstöðum?

       Hann hrökk við. Fyrir framan hann stóð miðaldra, bústin kona.

       -- Jú.

       -- Ég er nýja ráðskonan.

       Hann var ekki strax búinn að átta sig. Þessi. Jú, það var auðvitað þessi. Hann virti hana fyrir sér. Gildir fótleggir og breiðar mjaðmir. Hún var fremur lág vexti, hárið skolleitt og hékk niður með vöngunum.

       -- Komdu sæl. Það er best að við náum í dótið.

       Annars hugar tók hann við töskunum hennar og heljarstórum kassa. Hvaða voðalegt drasl var þetta, ætlaði manneskjan að setjast upp eða hvað? Hann áræddi að spyrja.

       -- Hvað er þetta?

       -- Nú sjónvarpið maður. Þú sagðist ekki eiga sjónvarp. Svo ég tók mitt gamla með.

       Það var ágætt, fannst honum. Kannski var hún ekki svo vitlaus. Það gat líka vel verið að hún væri á allan hátt notandi til síns brúks, þó hún liti ekki út eins og þokkadísin sem hann hafði villst á. Hann gekk að bílnum. Konan stansaði.

       -- Er þetta þessi fíni bíll, sem þú sagðist eiga. Þessi drusla?

       -- Hm, jú.

       Hann varð dálítið niðurlútur. Það gat vel verið að hann hefði ýkt örlítið í símann, er hann talaði við hana. Þá hafði hann verið ölvaður af hugsuninni um að fá konuna. Hann setti farangurinn inn. Dæsandi kom konan sér fyrir í framsætinu á jeppanum. Hún fussaði og reyndi að sitja sem fremst í sætinu. Hann sá strax eftir að hafa ekki verkað bílinn. En það hafði verið svo mikið að gera hjá honum og hann varð að flytja rollurnar á jeppanum. Það var líka sauðburður hjá honum ennþá.

       Hann keyrði greiðlega. Bíllinn hoppaði til á veginum með tilheyrandi drunum. Hún skyldi fá að finna hvað jeppinn kæmist. Það var ekki víst að hún kallaði hann druslu eftir þetta. Konan ríghélt sér í mælaborðið en hann blístraði glaðlega.

       -- Hvað er að þér maður, Ætlarðu að drepa okkur?

       Hann hægði á. Það var víst ekki gott að gera þessum borgardömum til hæfis. Leiðin heim að Sámsstöðum var ekki löng og brátt voru þau komin á leiðarenda.

       --Jæja, velkomin í Sámsstaði.

       Konan sat hreyfingarlaus og sagði ekki orð. Hún starði með undrun á litla húsið. Það var auðséð að það hafði ekki komist í snertingu við málningu síðustu árin. Svo hristi hún höfuðið og steig út úr bílnum.

       Þau gengu inn í húsið. Hann á undan, hún á eftir. Hundurinn Sámur gelti vinalega og konan klappaði honum á hausinn.. Hún greip andann á lofti. Lyktin sem kom á móti þeim var kæfandi.

       -- Hvað er eiginlega langt síðan hefur verið þrifið hér?

       -- Ja, sko. Ég sópaði fyrir jólin í fyrra. En það er alltaf svo mikið að gera á vorin. Svo þegar ákveðið var að þú kæmir, þá fannst mér ástæðulaust að taka til. Konur hafa mikið betra vit á svoleiðis hlutum.

       -- Ég segi nú bara SVEI. Þú ert þokkapiltur. Lokkar mig alla leið hingað í þessa svínastíu. Ertu kannski búinn að gleyma því sem þú sagðir í símann? Sagðist eiga nýlegt einbýlishús með öllum þægindum, flottan bíl og stærðar bú. Mig minnir að þú hafir líkt því við stóran búgarð. Og hvað skeður svo? Ekkert af þessu er satt. Skíturinn er vaðandi alstaðar og bíllinn að hrynja. Mér finnst heldur ekki veita af að skrúbba fleira en húsið. Og þetta er maðurinn sem sagðist eiga allt nema sjónvarp.

       Hún leit með vandlætingu á hann og hann varð vandræðalegur. Það var óþarfi af henni að dylgja um að hann væri skítugur. Hann sem hafði farið í kaupstaðafötin til að sækja hana. Auðvitað hafði hann ekki haft tíma til að baða sig, en hann hafði þó sett á sig rakspírann sem systir hans hafði gefið honum í jólagjöf. Meira að segja hálfan baukinn. En hún þarf ekki að ímynda sér að hann ahfi ekkert annað að gera en að liggja í baði.

       -- Ég skal sýna þér herbergið þitt.

       Þau fóru inn í lítið herbergi. Þar var fátæklegt af húsgögnum. Rúm, borð og einn stóll.

       -- Jæja, svo þetta er dýrðin.

       Konan setti töskurnar á gólfið, en gerði sig ekki líklega til að taka uppúr þeim. Hann vissi ekki almennilega hvað hann átti að gera.

       -- Ég verð að fara að sinna skepnunum.

       Svo fór hann út. Það var betra að hún jafnaði sig á þessu í ró og næði. Hún var sjálfsagt skapmikil, en það gerði ekkert til. Skjóna hans var það líka, þó hún væri nú eitt af bestu reiðhrossum sveitarinnar. Já, það mætti örugglega temja þessa líka. Hann gekk rólega niður túnið í átt að fjárhúsunum. Sámur skoppaði við hlið hans.

       Hann kom ekki heim fyrr en liðið var að kvöldmat. Hann var búinn að dunda í húsunum allan daginn. Nú hlaut að vera óhætt að koma heim. Það hlaut að vera farið mesta loftið úr konunni.

       Þegar inn kom lagði á móti honum matarlykt. Þetta lofaði góðu. Hann fór inn á baðherbergið og skolaði það mesta af höndunum á sér. Konan stóð með hendur á mjöðm og horfði á hann. Hún var sveitt og rósótt svuntan sem hún hafði sett framan á sig var orðin blettótt.

       -- Sérðu ekki að ég var að þrýfa?

       Hann jánkaði.

       -- Þá væri lágmarks tillitssemi að dusta mesta heyið af fötunum áður en þú kemur inn. Það er heyslóðin eftir þig. Svo eru handklæði til að þurrka sér á þeim en ekki til að þurrka skítinn í.

       Hann leit á handklæðið í höndum sér. Einmitt. Hún hafði endilega þurft að setja hvítt handklæði. En það var ekki lengur hvítt. Nú var það blettað sauðataði.

       -- Jæja, það var ekki mikið til af matvælum, en ég gerði það sem ég gat.

       Þau fóru í eldhúsið. Hann fann að loftið inni var ferskara og sá að hún hafði tekið til hendinni. Mesta draslið var horfið. Það var blessun að fá svona duglega konu. Þau borðuðu og hún þvoði leirtauið.

       Eftir matinn settust þau inn í stofuna. Hún hafði ekki haft tíma til að ræsta hana, en hafði sópað gólfið.

       -- Hvernig var með þetta sjónvarp?

       Konan dæsti.

-- Já, það er líklega best að koma því í gang.

       Hún rogaðist inn með kassann og eftir töluvert brölt var komin mynd á skjáinn. Maðurinn varð dolfallinn. Þetta hefði átt að koma á Sámsstöðum fyrir löngu. Sjónvarp, það var nú meiri blessunin.. Það voru fréttir og þarna sá hann alþingismanninn sinn. Sá var orðinn feitur og herralegur. Hann sá ekki eftir að hafa kosið hann síðast.

       Þegar dagskrá sjónvarpsins var lokið og þau höfðu drukkið kvöldkaffi, fór konan í háttinn. Hann sat eftir, hugsi. Ætti hann að þora? Jú, vinir hans höfðu sagt honum að ef hann ætlaði að halda konunni hjá sér, þá þýddi enga hálfvelgju. Hann yrði að taka hana með áhlaupi. Eftir nokkra íhugun áræddi hann að banka létt á herbergishurðina.

       -- Já, hvað var það?

       -- Hm. Mér datt í hug, hérna þú. Er ekki hlýrra ef við kúrum í sama rúmi. Það myndi spara kyndinguna.

       Konan spratt upp úr rúminu. Hárið stóð út í loftið og eldur logaði úr augum hennar.

       -- Þú ert geðslegur eða hitt þó heldur. Hvað heldur þú eiginlega að ég sé? Ég er heiðvirð kona skal ég segja þér og ég kom hingað sem ráðskona. Ekki til að vera hjásvæfa fyrir þig. Skítinn get ég þolað en ekki svona framkomu í minn garð. Ég ætla að láta þig vita það hér með að ég fer á morgun.

       Hann stóð kyrr og starði undrandi á hana. Gat verið að hún meinti þetta? En þá færi meira en hún.

       -- Ertu ákveðin í að fara?

       -- Já, það fær mig enginn ofan af því.

       -- En sjónvarpið?

       Konan var greinilega orðin voðalega reið.

       -- Sjónvarpið. Það gat verið að þú hugsaðir fyrst um það. Þú mátt hafa sjónvarpið. Ég get skilið það eftir, mér er alveg sama. Það er hvort eð er svart-hvítt og orðið hálf lélegt. Góði hirtu það.

       Hann hörfaði fram á ganginn og hún skellti hurðinni.

       Niðurlútur gekk hann út úr húsinu og niður túnið. Sámur trítlaði við hlið hans. Honum fannst húsbóndinn hálf dapurlegur.

       -- Svona fór um sjóferð þá, Sámur litli. Kannski var það best. En við höfum þó sjónvarpið. Ætli við auglýsum nokkuð aftur fyrr en það er orðið ónýtt.

      

 

 

 

 

 

 

BRAUÐ HANDA HUNGRUÐUM HEIMI.

 


 

 

 

Það var orðið stutt til jóla. Jörð hafði verið

alauð og flestir höfðu búist við rauðum jólum.

Veðurfarið var engan veginn líkt því sem búast má

við í desember. Það hafði meira að segja rignt

töluvert. Satt að segja var veðrið líkara því er

búast mátti við að vori til. En nú hafði jörðin

breytt um svip. Snjókornin komu svífandi úr

loftinu, hægt og settlega, rétt eins og til að gera

jólalegri blæ á umhverfið. Það var komið dálítið

föl og snjókornin héngu á greinum trjánna.

Hjá mannfólkinu var allur jólaundirbúningur

í hámarki. Það var mikil ös í verslunum.

Auglýsingar glumdu í útvarpi og sjónvarpi á öllum

stöðvum. Það var svo margt sem þurfti að selja og það

sem var á boðstólnum hjá hverjum og einum var

auðvitað best. Það eru ekki einungis gjafir og kort

sem fólk þarf að kaupa fyrir jólin. Jólaföt á

fjölskylduna, jólamaturinn og allt í

jólabaksturinn. Og allt er svo dýrt. En þegar

veskið er svo til tómt, og flest af þessu vantar,

þá er ekki um margt að velja. Fá sér aukna heimild á vísakortið

eða hækka yfirdráttinn. Ekki er það samt vænlegur kostur, því

allir vita að það kemur að skuldadögum. Og hver

vill spilla jólagleðinni með peningaáhyggjum?

Áreiðanlega enginn, og margir reyna að treina það

litla sem í buddunni er í lengstu lög.

Þannig var ástandið hjá þeim Pálma og Önnu, nú

er fæðingarhátíð frelsarans stóð fyrir dyrum. Þau

bjuggu í leiguíbúð og voru að byggja. Allir vita

hve erfið sú staða er í dag, og það var því ekki að

undra þó jólin yrðu þeim ærið áhyggjuefni. Þau voru

ákveðin í að eyða sem minnstu. En það var svo margt

sem ekki var gott að komast hjá. Hvað sem tautaði

og raulaði þá yrðu þau að kaupa almennilega

jólagjöf handa Jóa litla. Þó að hann væri ekki nema

fjögurra ára, þá bar hann heilmikið skin á það,

hvað var merkilegt og hvað ekki. Það virtist vera

svo ótrúlega margt sem börnin spjölluðu um á

leikskólanum. Þó Anna reyndi eins og hún gat að

útskýra fyrir honum að bláu vettlingarnir sem amma

Rósa gaf honum á afmælinu væru alveg jafn

merkilegir og kúrekafötin sem amma Hlín gaf honum,

þá kom allt fyrir ekki. Anna mundi vel hvað hann

hafði sagt:

-- Iss, amma Ósa prjóntaði bara en amma Lín

kaupti í flottu búðinni.

Það var ekki svo auðvelt að ala upp barn, eins

og kröfurnar voru orðnar. Það var ekki svo auðvelt

að útskýra að það væri ekki gjöfin sem skipti máli,

heldur hugurinn sem fylgdi. Það var heldur ekki

gaman að útskýra það að allt þetta ,,flotta" væri

svo dýrt að pabbi og mamma gætu ekki keypt neitt af

því. Anna var því ákveðin í að splæsa svolítið á

hann í þetta sinn. Svo mikið þekkti hún Jóa sinn,

að hann yrði lengi að ná sér eftir það, ef hann

yrði að viðurkenna fyrir vinum sínum að jólagjöfin

frá pabba og mömmu hefði verið algjört ,, prump".

Það var komið kvöld. Jólin nálguðust

ískyggilega svo Anna og Pálmi urðu að nota frítíma

sinn vel. Það varð að gera hreint, taka allt í gegn

og baka dálítið. Gera dálítið jólalegt.

Jói hafði verið óvenju rellinn, það var eins

og pabbi og mamma gætu alls ekki gert honum til

geðs. Leiðinlegt í sjónvarpinu, á báðum stöðvunum.

Hann vildi heldur ekki horfa á video. Þar var

ekkert nema gamlar spólur, sem hann var búinn að

horfa hundrað sinnum á. Það var helst að horfa á

auglýsingarnar, en það voru svo margar leiðinlegar

auglýsingar með. Skemmtilegust var coke auglýsingin

og svo þær sem sýndu nýju leikföngin. Jói vildi

alls ekki fara að sofa. Þetta var leiðinlegt líf.

Mamma var að baka kökur sem ekki mátti borða og

pabbi varð æfur ef hann sullaði í skúringafötunni.

Anna leit á Jóa og andvarpaði. Það yrði

þokkalegt næsta morgun. Hún var nógu þreytt á að

vakna og mæta í þessa ömurlegu búð, þó Jói yrði

ekki snarvitlaus á leiðinni á leikskólann. Það kom

oft fyrir að hann var mjög ergilegur á morgnana ef

hann fór ekki snemma að sofa.

-- Æi, Pálmi. Viltu reyna að koma honum í

rúmið. Við getum hjálpast að við baðið þegar hann

er sofnaður.

-- Ókey.

Pálmi henti frá sér tuskunni og kallaði á

Jóa. Því gat strákskömmin ekki verið til friðs. Það

hafði verið erfiður dagur hjá Pálma á verkstæðinu.

Úrillir viðskiptavinir sem vildu fá meira fyrir

peningana sína. Það hafði reynt á þolinmæðina að

þrauka daginn með bros á vör. Pálma fannst að hann

þyldi alls ekki meira.

-- Jói, komdu og þvoðu þér og svo beint í

rúmið.

Pálmi var svo höstugur að Jói dauðhrökk við.

Hann þorði ekki annað en flýta sér fram á baðið.

Það var betra að hlýða strax, þegar svona lá á

pabba. Anna kallaði:

-- Vertu nú góður drengur Jói minn. Settu

skóinn þinn í gluggann, þá kemur jólasveinninn

kannski með eitthvað gott handa þér.

Dyrabjöllunni var hringt. Pálmi bölvaði. Hann

vonaði að það væru ekki gestir að koma, það var nú

nóg samt. Anna fór til dyra. Lítil telpa stóð í

dyrunum.

-- Góða kvöldið, við erum að fara í hús og

taka baukana fyrir Hjálparstofnum kirkjunnar.

Anna andvarpaði. Jú, það hafði víst einhver

baukur komið. Hún vissi ekki einu sinni hvar hann

var. Líklega hafði Jói verið að leika sér með hann.

Það skipti heldur engu máli, því hann var tómur.

Þau áttu heldur enga peninga aflögu til að gefa í

þessar safnanir. Hún brosti til telpunnar.

-- Því miður vina mín. Við höfum víst nóg með

peningana að gera, annað en gefa þá.

Vonbrigði telpunnar leyndu sér ekki.

-- Það eru svo margir sem segja þetta, en

presturinn segir að allir hljóti að eiga fáeinar

krónur handa fátæka  fólkinu. Það á svo bágt.

-- Því miður.

Anna ætlaði að loka, en um leið kom Jói

hlaupandi fram.

-- Mamma,hver er idda? Er hún að taka pening

handa svanga fólkinu?

-- Já.

Jói togaði í mömmu sína.

-- Mamma, ég vill gefa minn pening.

-- Láttu ekki svona.

Telpan hætti við að snúa frá.

-- Víst, mamma. Ég á fimmhundruð kall sem amma Lín

gaf mér. Svöngu börnin mega eiga ann.

Jói var svo ákveðinn að Anna var á báðum

áttum. Hún mátti ekki letja drenginn í því að gera

góðverk. Þetta var kannski ekki svo galið. Og ef

Jói var tilbúinn að sjá á eftir pening sem hann

annars hefði keypt sælgæti fyrir, þá gat vel verið

að þau gætu séð af einhverjum aurum sjálf.

-- Pálmi.

Hann kom fram og leit á telpuna.

-- Nú er hún hér ennþá.

Hann hafði heyrt ávæning af samtalinu.

-- Pálmi, við eigum smá pening.

Hann leit hugsandi á Önnu. Var hún að verða

vitlaus? Þau höfðu löngu ákveðið að sleppa öllu

svona. Þetta gekk ekki. Fólk gat hreinlega farið á

hausinn ef það átti að borga öll happdrættin og

allt sem reynt var að sníkja fyrir jólin.

Jói hafði hlaupið inn og kom nú hróðugur með

fimmhundruðkrónu seðilinn í hendinni. Hann rétti hann

til telpunnar.

-- Takk.

Anna var enn á báðum áttum.

-- Bíddu aðeins, vinan.

Svo fór hún inn og kom að vörmu spori með

veskið sitt í hendinni.

-- Hérna eru þúsund krónur.

Telpan ljómaði.

-- Takk, takk. Nú verður presturinn glaður.

Hann bíður úti á meðan við bönkum uppá. Hann segir

að ef fólk vilji láta örlítið af hendi , þá bjargi

það mörgum mannslífum. Það er örugglega slæmt að

deyja úr hungri.

Telpan fór. Jói flýtti sér í rúmið. Hann var

svo ánægður, af því hann hafði gefið svöngu

börnunum peninginn sinn. Hann var líka viss um að

amma Lín gæfi honum annan pening, þegar hann segði

henni hvað hann hafði verið góður strákur.

Pálmi og Anna héldu áfram við

jólaundirbúninginn, en það var einhvernveginn

léttara nú. Þegar allt kom til alls, þá hafði þessi

heimsókn glatt þau. Þó upphæðin væri ekki mikil þá

leið þeim nú betur eftir að hafa gefið hana.

Vonandi kæmu þessar þúsund krónur til góða. Og

fyrir þau þá breytti þetta ekki öllu. Jólin kæmu og

færu hvort sem það væri þúsund krónum meira eða

minna í veskinu.   

 

 

 

 

 

 

 

                    

                        Hlið milli heima.

 


 

          Af einhverri undarlegri ástæðu var henni ekkert brugðið. Síðustu fimmtíu og níu árin hafði hún kviðið þessari stundu og vonað að hún þyrfti aldrei að upplifa hana. En nú sat hún þarna við dánarbeð mannsins síns eins gullróleg og hún hafði nokkru sinni verið. Þau höfðu átt saman góð ár og það sem hún hafði alltaf óttast mest var að hann færi á undan henni. Hræðilegasta tilhugsun ungrar sautján ára stúlku hafði verið að  ef til vill þyrfti hún einhvertíma að horfa á eftir ástvini sínu niður í brúna moldina og kveðja hann hinsta sinni. En nú var bara spurning um mínútur eða ef til vill klukkustundir. Hann var að fara.

          Gamla konan hélt með sínum grönnu, sinaberu höndum um hægri hönd mannsins, sem lá meðvitundarlaus á hvítum koddanum. Hún horfði á líflaust andlitið. Það var friður yfir honum og hún vissi að hann yrði hvíldinni feginn. Heilsa hans var farin og þá var betra að kveðja þennan heim með reisn, en verða ruglað gamalmenni á stofnun. Það  hafði hann alltaf sagt og hún var þakklát fyrir að hann skildi fá þessa ósk sína uppfyllta.

          Þau höfðu hist fyrst á sjómannadaginn. Það var reyndar mjög eðlilegt, hann var sjómaður af lífi og sál. Hún mundi svo vel þegar hann kom inn í gamla samkomuhúsið, ásamt skipsfélögum sínum. Svo hár, myndarlegur og aðlaðandi. Það var eins og einhver kraftur fylgdi þessum manni. Hárið dökkt og liðað og augun svo djúp og brún. Hún hafði starað á hann þvert yfir dansgólfið og skyndilega horfðust þau í augu. Hún mundi hvað hún roðnaði og fór hjá sér. Hún hafði starað á hann eins og naut á nývirki og það sæmdi ekki ungri siðprúðri stúlku. En hann hafði ekki farið hjá sér, heldur stikað þvert yfir gólfið til hennar og boðið henni upp í dans. Þau liðu áfram í ljúfum valsi og unga stúlkan fann roða koma í kinnar sér, ekki af skömm í þetta skipti heldur af gleði. Það var eitthvað framandi við þennan pilt. Að svífa í örmum hans var eins og að vera hreppt í álög. Hún fann nýja og áður óþekkta tilfinningu bærast í brjósti sér og óskaði þess að þessi vals myndi vara að eilífu. Dansinn hafði reyndar gert það, alveg þangað til nú, þegar hann var að kveðja. Gamla konan fann tár renna niður vanga sér og hún hirti ekki um að þerra það burt. Það var ekki tregatár, heldur viknaði hún ósjálfrátt er hún hugsaði um liðna daga og alla þá hamingju sem hún hafði fundið fyrir er hún sá  Jóhann í fyrsta sinn.

          Eftir nokkra valsa, polka og einn skottís hafði hann boðið henni uppá hressingu. Hún þáði hana umhugsunarlaust. Vissulega sá hún að vinkonur hennar úr sveitinni gutu á hana augum. Það var dálítið óvenjulegt að dansa svo lengi við ókunnan mann og fara svo með honum í kaffistofuna. En hún var ekki með sjálfri sér. Það höfðu lostið hana töfrar sem hún komst ekki úr.

          Eftir að hafa skenkt henni kaffi fóru þau að ræða saman. Hann brosti heillandi brosi.

          -- Ég hef ekki kynnt mig enn. Ég heiti Jóhann og er skipverji á Svartbaknum. Ég var svei mér heppinn að koma hingað í kvöld. Þú verður að segja mér nafnið þitt.

          -- Ég heiti Elísabet og er héðan úr sveitinni.

          Þau skiptust á upplýsingum á meðan þau sötruðu kaffið og mauluðu smávaxnar kleinur. Hún komst að því að hann var tvítugur og ættaður frá Ísafirði. Hann hafði stundað sjóinn frá því að skyldunáminu lauk. Sjórinn átti hug hans allan. Betu fannst það dálítið skelfilegt. Hún hafði alltaf borið virðingu fyrir sjónum og verið dálítið hrædd við hann. Það var hættulegt að vera sjómaður. Þetta mikla haf sem bjó yfir svo duldum kröftum gat verið svo skelfilegt á stundum, þó svo að það gæti einnig verið fagurblátt og djúpgrænt þegar það sýndi sínar bestu hliðar. Hafið lokkaði sjómennina til sín, sumir virtust hafa þetta í blóðinu, en það var ekki hægt að treysta því. Stundum tók það svo stóran toll að það var erfitt að hugsa um það.

          Hann sá á svipnum á henni hvað hún var að hugsa. Það var svo undarlegt að frá fyrstu stundu virtist þessi maður geta lesið hug hennar eins og opna bók. Hann varð glettnislegur á svipinn þegar hann sagði:

          -- Sjórinn vill mig ekki. Ég mun ekki farast á sjó, ég veit það.

          Ungu stúlkunni fannst þetta glannalega sagt. Þetta var eiginlega eins og hann væri að storka örlögunum og ef til vill þess vegna hafði hún alltaf verið enn hræddari um hann þegar hann var á sjó. Hún hafði alltaf óttast hafið og dauðann, óttast að einn daginn yrði tekið frá henni, styrkur hennar og stoð.

          Þau giftu sig haustið eftir og festu kaup á litlu húsi í þorpinu. Hún vildi helst ekki flytja burt úr átthögunum og Jóhanni var sama fyrst að hann fékk gott skipspláss í þorpinu. Hún vann í fiski fyrst af stað, en svo fæddust börnin eitt af öðru uns þau voru orðin fimm, þrír drengir og tvær stúlkur. Þau voru hamingjusöm. Börnin þeirra voru mjög vænleg og þau höfðu ávalt nóg að bíta og brenna. Lífið var þeim gott. Jóhann var að vísu mikið á sjó en hann skaffaði vel. Þannig leið tíminn, börnin uxu úr grasi og fóru burt til að mennta sig er þau höfðu aldur til.

          Það gladdi Betu ósegjanlega mikið að hugur drengjanna hennar stóð ekki til sjávar. Þeir fengu að vísu oft að fara á sjó með föður sínum, en þeir vildu ekki leggja sjómennskuna fyrir sig. Það var ákveðinn léttir fyrir áhyggjufulla móður. Hún þurfti þá ekki að óttast um þá á sjónum. Vissulega hvatti hún börnin sín óspart til náms. Tímarnir voru að breytast og sú besta fjárfesting sem hægt var að gera var að mennta börnin sín. Með góða menntun voru þeim allir vegir færir. Hún hafði farið út að vinna aftur strax og börnin stálpuðust. Það átti ekki við hana að sitja auðum höndum og henni var sama þó að hún stæði í slori og verkaði fisk. Þau lifðu á fiski og oft á tíðum voru uppgrip og mikil vinna.

          Þau hjónin voru vissulega ánægð með börnin sín. Þegar fram liðu stundir eignuðust þau sínar eigin fjölskyldur og barnabörnin urðu átján. Nú var barnabarnabörnunum sífellt að fjölga, þau voru orðin fimm og tvö væntanleg. Það var mikil gleði, þetta var hringrás lífsins og þannig átti þetta líka að vera. Hinir gömlu og slitnu fóru þegar þeir höfðu lokið sinni göngu og aðrir komu í heiminn. Þannig hafði það alltaf verið. Beta mundi svo vel er hún gekk hinstu ferðina á eftir kistum foreldra sinna með árs millibili. Þau höfðu orðið töluvert öldruð, en hún hafði ekkert hugsað út í það þá, þegar hennar eigin börn myndu kveðja hana og Jóhann. Og nú lá fyrir að hann var að fara og brátt myndi hún rölta eftir kistunni hans, með öllum myndarlegu afkomendunum þeirra. Það gerði hana þreytta að hugsa um þetta, svo óumræðilega þreytta.

          Jóhann  umlaði og konan leit á hann. Það var sami friðurinn yfir andliti hans og henni fannst að hann brosti örlítið. Kannski var það ímyndun. Kannski var hann í raun nú kominn gegnum hliðið, þó að hjarta hans slægi og andardráttur væri finnanlegur. Börnin þeirra voru búin að kveðja föður sinn. Þau höfðu farið skömmu áður og lofað henni að vera einni með honum síðustu stundirnar. Hún bað þau um það, þurfti á því að halda. Og þó að börnin felldu tár og ættu erfitt með að fara, þá vissi hún að í raun voru þau öll sátt. Ekkert þeirra vildi að Jóhann lifði við örkuml. Eftir síðasta hjartaáfallið fengu þau að vita að aldrei aftur kæmist hann til heilsu á ný. Hann hafði aldrei komist til meðvitundar eftir aðgerðina, hjartað var veikt og lungun einnig. Það átti í raun að vera gleðilegt að gamalt og slitið fólk fengi að kveðja þennan heim, í raun var kannski rétt að slá upp veislu við slík tækifæri, en hún skildi samt börnin sín og barnabörnin mætavel. Jóhann hafði verið einstakur faðir og afi og það var alltaf sárt að kveðja.

          Einu sinni hefði hann verið verulega hætt kominn á sjónum. Það var óskyljanlegt kraftaverk að hann skildi bjargast. Það var í aftakaveðri um hávetur. Beta mundi vel hve hrædd hún hafði verið. Báturinn komst ekki inn og óttaslegið fólkið í landi starði með skelfingu á öldurnar sem riðu yfir hann hver af annarri. Hún hafði beðið og beðið, hrópað til guðs um hjálp í huga sér, á meðan hún reyndi að hugga grátandi börnin sem héldu að pabbi myndi ekki koma til lands á lífi. Báturinn fór niður, en fyrir óskyljanlegt kraftaverk skolaði tveim mönnum á land með lífsmarki, Jóhann var annar þeirra.

          Þetta var hræðilegur tími. Jóhann var lengi að ná sér, en verst þótti honum þó að sætta sig við að fjórir af vinum hans höfðu farið niður með bátnum. Það fannst aldrei neitt af þeim. Eftir þetta höfðu þau einu sinni rætt af fullri alvöru um dauðann. Beta vildi að hann kæmi í land, en Jóhann gat ekki hugsað sér það. Hann strauk henni um hárið þetta kvöld, eins og svo oft.

          -- Beta mín, ég ferst ekki á sjó. Þér er óhætt að trúa því.

          Hún hafði grátið upp við öxl hans. Bæði af ótta við að missa hann og eins af gleði yfir því að hann skildi komast lífs af. Það hafði munað svo litlu. En Jóhann var trúaður og hafði sínar eigin skoðanir á dauðanum. Það var eins og hann væri alltaf svo sáttur við lífið og jafnvel dauðann, nema í þetta sinn sem sjórinn tók félaga hans. Hann hugsaði öðruvísi en hún, gat losað sig við áhyggjur. Hún hafði stundum öfundað hann af þeim eiginleika. Yfirleitt var Jóhann glettinn, en þetta kvöld var hann alvarlegur.

          -- Veistu það, Beta mín, ég held að það sé ekki svo mikið bil á milli heima. Þegar við deyjum, þá göngum við gegnum hlið og inn í annan heim. Ég held að það sé stutt á milli þessara heima og ég held að dauðinn sé ekkert til að skelfast. Auðvitað vil ég lifa þangað til ég verð gamall maður og fá að vera með þér og börnunum okkar, en ég er samt ekki hræddur við að deyja. Ég vona að þegar ég verð gamall maður þá fái ég að sofna í stað þess að verða örkumla gamalmenni. Þegar heilsan brestur, þá er tími til að banka á þetta hlið og biðja um að vera fluttur.

          Þessi ræða hans hafði lítið huggað hana. Óttinn í brjóstinu vildi samt ekki hverfa. Hann hvarf heldur aldrei, ekki fyrr en Jóhann hætti á sjónum. Þá hafði hún andað léttar og þakkað guði fyrir að vernda hann svona vel. En nú var heilsan brostin og Beta vissi að einmitt nú var maður hennar að berja að dyrum og biðja um að fá að fara inn í annan heim.

          Hana langaði hreint ekki til að verða ekkja. Hana langaði ekkert til að búa ein í gamla húsinu þeirra og bíða eftir því að guð kallaði hana til sín. En hún hafði ekki þessa óbilandi trú sem Jóhann hafði. Þennan styrk sem gerði það að verkum að guð hafði bænheyrt hann og líf hans hafði verið eins og hann hafði sjálfur kosið. Vissulega hafði hún oft beðið, en sumt af óskum hennar var draumkennt og hún vissi að slíkt gerðist ekki nema í skáldsögum.

          Beta hafði yndi af bókum. Hún las mikið, en það var líka eitt af því fáa sem hún hafði veitt sér. Þegar stund var aflögu eftir langan dag fannst henni gott að setjast í gamla hægindastólinn og lesa góða bók. Hún hafði mikið dálæti af ástarsögum sem enduðu vel. Hún gat lesið þær aftur og aftur ef henni líkaði þær. Hún vildi hafa bækur fallegar og góðar. Sögupersónurnar áttu að verða hamingjusamar til æviloka. Þannig var góð bók, allt fór vel og allir öðluðust ást og gleði.

          Hún mundi svo vel eftir einni sögu sem hún las sem ung kona. Það var eftir einhvern norskan höfund, ástarsaga að hennar skapi. Þar voru sögupersónurnar látnar deyja saman. Tvö elskandi hjörtu, sem aldrei urðu aðskilin. Þannig vildi hún helst hafa það. Þannig hafði hún séð fyrir sér sitt líf og Jóhanns. Saman þar til þau yrðu gömul og væru búin að veita börnum sínum allt sem þau þurftu, þá myndu þau deyja saman. En þetta var skáldsaga og raunveruleikinn var oftast annar. Vegir guðs voru órannsakanlegir og bæn eins og þessa var ekki hægt að biðja. Svona hlutir gerðust aðeins í uppáhaldsskáldsögunum hennar Betu. Hún stundi við, minnið var farið að gefa sig. Hún mundi ekki lengur hvað þessi bók hét. Það skipti heldur engu máli, það sem skipti máli var lífið sjálft, þó svo að það væri notalegt að gleyma sér í góðri bók.

          Það var liðið á kvöld. Götuljósin í þorpinu þeirra lýstu fyrir utan gluggann. Stöku sinnum ók bifreið fram hjá sjúkrahúsinu. Gamla konan hlustaði á vélarhljóðið fjarlægjast. Allt var svo vinalegt. Það ríkti kyrrð og friður, erill dagsins var liðinn og brátt kæmi nótt og þorpið legðist til svefns. Hún var svo sátt, þar sem hún sat við hliðina á rúminu hans Jóhanns. Það var dálítið þreytandi að sitja svona, en þarna vildi hún vera þar til yfir lyki hjá honum. Hún strauk hvítt hárið frá enni sér. Hún hafði einu sinni verið með gullið, sítt, hár, sem Jóhann dáðist að. Nú var það stutt og silfrað. Þannig breyttist ævi manns, en hvert skeið var samt gott á sinn hátt. Hún hallaði vanganum að sænginni. Hana langaði svo að dotta örlitla stund. Hún hélt í höndina hans Jóhanns og hana langaði að hvíla höfuðið hjá honum í hinsta sinn. Einu sinni enn. Hve oft hafði hún ekki hallað sér að öxl hans og látið allar áhyggjur lönd og leið. Það þráði hún að gera nú og hugsa um hið liðna, allar góðu stundirnar sem þau höfðu átt saman. Það var einskis að sakna í lífinu. Þau myndu í raun aldrei deyja, þau myndu lifa í afkomendum sínum.

          Gamla konan lokaði augunum. Smám saman hætti hún að heyra niðinn frá bílunum. Hana langaði að láta sig dreyma. Dreyma um hina gömlu góðu daga er þau Jóhann voru ung og hraust.

          Hún var ekki lengur í sjúkrastofunni, heldur stóð hún á undurfögru grænu engi. Hún litaðist um, en hún þekkti ekki staðinn. Þetta var skrýtið og als ekki draumur eins og hún hafði átt von á um hið liðna. Það var eins og þetta væri raunverulegt. Fyrir framan hana stóð Jóhann og teygði höndina í átt til hennar.

          -- Beta mín, ég var að bíða eftir þér.

          Hann var ekki lengur gamall og hrumur, heldur á besta aldri. Hún var meira en lítið undrandi og leit niður á sjálfa sig. Það hafði eitthvað undarlegt gerst. Öll ellimerki voru farin. Hún tók í útrétta hönd Jóhanns og þau gengu af stað yfir engið að vegi sem lá í eina átt. Jóhann brosti til hennar og hún fann hamingju fylla brjóst sitt. Hann benti fram fyrir sig.

          -- Þarna er hliðið. Nú er komið að því að við bönkum uppá.

          Hún var hálf ringluð.

          -- Hvaða hlið?

          Jóhann brosti glettnislega.

          -- Hliðið milli heimanna, Beta mín.

          Hún trúði þessu ekki, en fann að hann þrýsti hönd hennar. Hún gekk samt óhikað við hlið hans. Þau voru saman og það var henni fyrir öllu.

 

 

          Næturvaktin var tekin við. Birna hjúkrunarkona leit inn á stofu fimm. Hún horfði á gömlu hjónin sem virtust sofa. Þessi sýn var svo falleg að hún komst við. Ef öll hjón ættu hamingju eins og Jóhann og Beta, þá væri heimurinn betri. Hún læddist inn á tánum til þess að vekja ekki gömlu konuna sem eflaust var þreytt. Hún var búin að sitja óslitið við sjúkrabeð manns síns allan daginn. Allir vissu að nú var bara spurning um fáeinar stundir til eða frá.

          Birna læddist að rúminu, en sá þá að eitthvað var óeðlilegt. Gamli maðurinn var skilinn við. Vesalings gamla konan, sú yrði eflaust einmana. Þau höfðu, gömlu hjónin, verið sem ein manneskja alla tíð. Birna tók um hönd Betu og bjóst til að vekja hana, en henni brá í brún. Það var ekki aðeins Jóhann sem hefði kvatt þennan heim, þau höfðu gert það saman.

          Birna starði á þau, hún yrði að láta vita. Samt átti hún erfitt með að hætta að horfa á þessa öldunga sem höfðu svo greinilega verið sameinuð í efni og anda. Birna var ekki vön að láta koma sér úr jafnvægi, en nú runnu tár niður kinnar hennar. Guð hafði bænheyrt hana Betu. Birna vissi að gamla konan hefði einmitt viljað hafa þetta svona, að fá að fara með honum Jóhanni yfir móðuna miklu. Hún gat séð þau fyrir sér þar sem þau stæðu saman, hönd í hönd, á leið til eilífrar sælu. Guð var svo sannarlega til og hann hafði lagt blessun sína yfir gömlu hjónin. Birna strauk tárin af hvörmum sér. Hvar sem þau voru nú, þá voru þau að minnsta kosti saman.

          Birna læddist á tánum úr og lokaði á eftir sér. Hún varð að hafa samband við lækninn og láta vita. Enn fann hún tárin laumast úr augunum og niður vangana. Þetta var heilög stund.

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ER KVÖLDA TEKUR.

 

     

 

 

Þeir sátu báðir á sama rúminu, gömlu

mennirnir,

og ræddu saman. Það var hlýtt í herberginu þó úti

geisaði norðvestan garri með snjókomu. Herbergið

var vistlegt og við sinn hvorn vegginn stóðu rúm,

en þeir kusu þó að sitja saman, það veitti þeim

einhverja samkennd. Þeir áttu góðar stundir er þeir

hittust og öðru hvoru heimsóttu þeir hvor annan. Þó

ferðuðust þeir minna eftir því sem árin færðust

yfir. Ekki óeðlilegt. Þetta voru tveir fullorðnir,

lúnir menn, sem svo sannarlega skulduðu

þjóðfélaginu ekki neitt. Menn sem á óaðfinnanlegann

hátt höfðu lokið sinni starfsævi. Þeir voru ernir

enn og ekki var hægt að greina nein elliglöp á mæli

þeirra. Ólíkar persónur, en aldavinir.

Það var fátt sem þessir tveir áttu

sameiginlegt, utan þess að taka í nefið. Það var

eitt ef þeim lífsins gæðum sem þeir báðir höfðu

veitt sér. Og nú gekk neftóbakið milli þeirra með

vissu millibili. Annar með dósir en hinn með pontu,

að sjálfsögðu var hvoru tveggja úr silfri. En það

var líka annað  sem þeir áttu sameiginlegt. Páll

var einhleypur og aldrei verið við konu kenndur,

hann hafði tileinkað málleysingjunum líf sitt og

starf. En Jón átti konu og níu börn, hann hafði

ávallt tekið alla þá vinnu er til féll, svo hann

gæti framfleytt þessu erfiða heimili. En þeir áttu

það sameiginlegt að vera ungir á sama tíma.

Minningarnar tengdu þá saman. Ávallt er þeir

hittust rifjuðu þeir upp gamla daga. Sögðu hver

öðrum sögur, misjafnlega sannar. Saman hurfu þeir

til baka frá nútímanum með öllum sínum hraða, aftur

til hinna gömlu góðu daga.

Páll var minnisgóður. Veðurfar og skepnuhöld á

hverjum tíma stóðu honum lifandi fyrir

hugskotssjónum. Hann hafði ávallt verið þekktur

fyrir að fara vel með skepnur á meðan hann bjó.

Minningar Jóns voru öðruvísi. Alla tíð hafi hann

verið gleðimaður og konur höfðu alltaf hrifist af

léttleika hans og gamansemi. Hann hafði kynnst

ýmsum konum áður en hann kvæntist. Jóni fannst

ljúft að rifja upp gömul ævintýr og Páll var góður

áheyrandi. Hann hló, sínum sérstaka smitandi hlátri

er Jón sagði slíkar sögur og það var eins og hann

gæti lifað sig inn í frásögnina. Ef til vill komu

þessar sögur dálítið í staðinn fyrir það sem hann

hafði aldrei upplifað sjálfur.

Það var rökkvað í herberginu. Bæði vegna

dimmra éljanna úti  og degi var tekið að halla.

Þeir hirtu ekki um að kveikja rafljósin. Úti æddi

stormurinn og snjókornin féllu til jarðar. Jón stóð

upp og gekk hægt og settlega að stórum skáp sem

stóð við norðurvegginn. Þar dró hann út fullan

koníaksfleig í leðurhulstri. Hann átti alltaf vín

þó hann væri sjálfur hófsmaður á slíkt. Honum

fannst sjálfsagt að eiga í staupinu handa

vildarvinum er litu inn. Eins og Páli.

Jón settist aftur á rúmið og rétti fleyginn

til Páls.

- Fáðu þér úr honum þessum.

Hann var drýgindalegur í málrómnum. Páll tísti og

tók báðum höndum um fleyginn.

- Mikið lifandi býrð þú alltaf vel.

- O, minnstu ekki á það. Það er nú meira í skápnum.

Þeir litu hýrlega hver á annan og vættu síðan

kverkarnar með fimm stjörnu koníaki.

- Segðu mér aftur frá vinnukonunni. Hvað hét hún

aftur, Margrét? Og þegar þú hélst að hún væri að

skola þvottinn.

Jón ók sér í sætinu.

- Það var nú ekkert.

Páll hnippti í hann. Honum var sama þó hann

hlustaði á sömu söguna tvisvar. Góð saga var gulli

betri. Jón setti sig í stellingar og rétti fleyginn

til Páls. Nú myndu þeir eiga saman góða stund.

- Ja, það var löngu áður en ég hitti konuna og tók

að basla við búskapinn. Líklega verið í kring um

1913. Þá var ég nú ósköp venjulegur vinnumaður á

Bakka. Við vorum tveir vinnumennirnir og tvær

vinnukonur. Önnur þeirra var nokkuð við aldur, en

Margrét var ung og kom í vistina á fardögum eins og

ég. Þetta sama vor.

Margrét var glæsileg stúlka, með dökkt hár sem náði

í mittisstað. Og byggingin maður minn, það var hægt

að spanna hana eins og ekkert væri. Margrét átti að

þjóna mér og ég var ánægður með það, því hún var

myndarleg í höndunum ofan á allt annað. Mín biðu

ávallt þurr og heil plögg, meðan ég var á Bakka.

Já, hún var gersemi hún Margrét, en stygg var hún

við mig fyrst af stað. Hún var hlýleg og kát, en

hleypti mér aldrei mjög nálægt sér. Hinn

vinnumaðurinn, hann Baldur, gaf henni líka hýrt

auga og hann öfundaði mig heil ósköp af

þjónustunni. Hann varð að láta sér nægja Siggu, sem

var eins og ég sagði komin við aldur og gat varla

talist neitt augnayndi, stórskorin og gildvaxin.

Það var oft glatt á hjalla í baðstofunni á Bakka,

þó oft værum við þreytt, því alltaf voru næg

verkefni. En bóndinn og húsfreyjan voru okkur góð.

En tíminn leið. Sumarið gekk í garð með öllu

sem því fylgdi.Það var gott sumar og sennilega

aldrei verið bundnir eins margir hestar á Bakka.

Við heyjuðum mikið á engjum. Það má segja að við

höfum slegið allt sem hugsast gat. Við Margrét

vorum alltaf saman í bandinu. Ég var ungur og

óþolinmóður og oft varð ég að sitja á mér að verða

ekki of aðgangsharður við stúlkuna. Því hún var

eins og fjallageitin. Nálgaðist mig en stökk svo

óðara burt. Rúmin okkar stóðust á í baðstofunni og

ég átti oft bágt með að stilla mig um að laumast

yfir þegar hljótt var orðið á kvöldin. En það hefði

heldur ekki gengið, þar sem dóttir hjónanna, tíu

ára stelpa, var látin sofa hjá Margréti. Það var nú

ekki of mikið plássið á Bakka.

Jón tók sér málhvíld og saup á fleignum, sem

hann rétti svo til Páls.

- Reyndu að súpa á þessu.

Páll iðaði í sætinu.

- Svona áfram með smjörið. Svo fór það að ganga,

var það ekki?

Jón barði pontunni við rúmstokkinn og hélt áfram

frásögninni. Hann gaf sig á vald minninganna.

- Jú, svo fór að vænkast hagur Strimpu. Um haustið

er við Margrét vorum farin að kynnast betur, fann

ég að henni var ekki alveg sama um mig. Hin vissu

það líka og eftir það var Baldri frekar kalt til

mín. Svo var það eitt kvöldið að ég var að setja í

meisana handa kúnum fyrir morgundaginn og Margrét

var að mjólka. Þá veitti hún mér blíðu sína. Það

skeði á auða básnum, moðbásnum í fjósinu.

Nú skríkti Páll en Jón hélt ótrauður áfram.

- En þetta var nú bara byrjunin. Eftir þetta var

Margrét svo ósköp blíð og eftirgefanleg við mig.

Það varð að venju hjá okkur að fara snemma á fætur

og hittast í fjósinu áður en fólkið reis úr rekkju.

Það gat ekki verið þægilegra. Innangengt úr bænum,

hitinn frá blessuðum skepnunum og svo mjúkur

moðbásinn. En svo var það einn morguninn að ég

vakna með fyrra fallinu, og bregð mér út til að

kasta af mér vatni, áður en ég fer til fundar við

stúlkuna. Og þegar ég kem út á hlaðið sé ég mér til

mikillar furðu að það er kona að skola þvott í

bæjarlæknum, en hann var fast við bæinn. Ég hugsaði

með mér að nú væri hún Margrét mín orðin eitthvað

verri. Farin að eiga við þvottinn um hánótt. Þetta

hugsaði ég. Svo ég kallaði glaðlega til hennar.

" Góðan daginn, Margrét mín".

Hún svaraði engu og þá kom einhver strákur upp í

mér. Það var ekki líkt henni að svara ekki er á

hana var yrt. Ég kallaði því aftur.

" Hvað ertu að gera þarna? Ætlaðirðu ekki að bíða

mín blíð og mjúk í básnum okkar góða?"

En þá verður mér ekki um sel. Þessi kvenpersóna

snýr sér við og þá sé ég að þetta er ekki Margrét.

Og ekki nóg með það. Sú stutta gerir sér lítið

fyrir, tekur ofan höfuðið og setur undir hendina.

Ég varð flemstri sleginn, en hugsaði samt strax að

þetta hlyti að vera SKOTTA. Það er ekki að

orðlengja það. Ég þaut inn í bæinn og inn göngin í

fjósið og stoppaði ekki fyrr en í moðbásnum. Og

viti menn, þar beið Margrét. En ég var með dynjandi

hjartslátt og allt ástand mitt var á þann veg að ég

var síður en svo vel fallinn til ásta.

Jón hefur lokið sögunni. Páll skellihlær. Hann

kann söguna og finnst hún góð. Það fylgir ekki

sögunni hvað varð um Margréti þessa, eða aðrar

sögupersónur. Nei, sagan er búin.

Það minnkar í fleygnum og rökkrið sígur yfir,

hægt án þess að þeir taki eftir því, eins og tíminn

sem hleypur frá þeim án þess að þeir gefi því gaum.

Ennþá er stórhríð úti. Fólk um land allt kemst ekki

ferða sinna og enn streyma auglýsingar í útvarpið.

Þessu er aflýst hér og hinu þar, vegna veðurs. En

það snertir gömlu mennina ekkert. Þeir eru ekki að

hlusta á útvarpið. Þeir eru niðursokknir í

minningar, sögur sem kryddast meira og minna eftir

því sem þær eru sagðar oftar. En það skiptir ekki

máli. Vinátta þeirra stendur óhögguð gegn um hríðar

og storma í tímans rás. Hjá þeim er komið kvöld.

 

 

 

 

                                     

Sumardagurinn fyrsti

 


 

          Það var að koma sumar, að minnsta kosti sagði dagatalið að svo væri. Enn var þó víða snjór til fjalla og ekki höfðu boðberar sumarsins látið mikið á sér kræla. Veðrið var gott þennan fyrsta sumardag og sól í heiði.

          Stína gamla á Horninu var farin að sýsla í garðinum sínum. Hún týndi laufblöð og smárusl sem hafði fokið í vonda veðrinu síðastliðinn vetur. Sælgætisbréf og sígarettustubbar höfðu feykst frá sjoppunni, sem var staðsett rétt fyrir norðan hornhúsið hennar Stínu. En það var ekki það versta. Það var nefnilega uppþornaður hundaskítur í einu horninu. Hún þoldi ekki hundaskít. Hún var líka viss um að hann Gvendur gamli á löppinni hefði verið að þvælast með þennan gula rakka sinn. Honum var alveg sama hvar ódámurinn skeit. Hirti ekkert um að þrífa upp ósómann, þó að bæjarstjórnin hefði sent dreifibréf í hvert hús um þetta efni. Það var stranglega bannað í Nesfirði að láta hunda ganga lausa og einnig var eigendum skylt að þrífa eftir þá ef þeir voru á göngu og lögðu eitthvað frá sér. Flestir íbúarnir virtu þetta, nema Gvendur gamli á löppinni sem var alveg sama hvar snatinn hans meig og drullaði. Stínu gömlu var verulega gramt í geði á meðan hún sópaði ósómanum upp í svartan ruslapoka. Hundaskítur. Hann Gvendur gamli á löppinni var sjálfur hálfgerður hundaskítur. Gamall og grár, alltaf með þessa loðhúfu sem hann fékk í siglingu í Rússlandi. Eins og hann væri eitthvað merkilegri þó að hann hefði komið til Rússlands. Það var þá. Stínu gömlu var sama. Hér stóð hún og sópaði upp hundaskít á sumardaginn fyrsta af því að Gvendur gamli á löppinni hélt að hann væri merkilegri en annað fólk.

          Gvendur gamli á löppinni fékk viðurnefni sitt vegna þess að hann var með staurfót fyrir neðan hné á hægri fæti. Fótinn hafði hann misst í troll, við strendur Rússlands, einmitt í sama skiptið og hann fékk húfuna frægu. Þessa sögu hafði hvert mannsbarn í Nesfirði heyrt, ef ekki einu sinni þá oftar.

          Eftir að hafa misst fótinn fékk Gvendur tréfót, settist í helgan stein og bjó einn ásamt þessum gula seppa sem var jafn merkilegur með sig og húsbóndinn. Þeir bjuggu í sömu götu og Stína gamla á Horninu, en sú gamla vildi sem minnst af þeim félögum vita. Stína gamla var og hafði alltaf verið dama. Hún var vel til höfð, fór reglulega í permanent og lét snyrtifræðinginn í þorpinu dúlla við sig, bæði andlit, hendur og fætur. Stína gamla hugsaði vel um sig, hún tolldi í tískunni þó að árin færðust yfir. Það mátti með sanni segja að Stína gamla á Horninu og Gvendur gamli á löppinni ættu fátt sameiginlegt, nema það að vera orðin gamlir einstæðingar.

          Sólin skein og Stína gamla naut þess að vera í garðinum sínum. Ef ekki hefði verið þessi hundaskítur, þá hefði dagurinn verið fullkominn. Garðurinn hennar var vel hirtur og hún hafði oft fengið viðurkenningu bæjarstjórnar fyrir fallegasta garðinn, enda hafði hún helgað garðinum líf sitt eftir að hún hætti að vinna á saumastofunni. Stína gamla hugsaði um garðinn sinn en Gvendur gamli á löppinni hugsaði ekki um neitt nema þennan hund. Gömlu konunni varð enn á ný gramt í geði er hún hugsaði um ósómann sem nú var kominn í ruslapokann. En hún mátti ekki láta þetta skemma fyrir sér daginn. Veðrið var svo gott að það var hálfgerð synd að vera lengi í vondu skapi. Ef til vill var núna kjörið tækifæri til að þvo gluggana að utan. Stína gamla var í eðli sínu sérlega þrifin og þoldi illa að sjá óreiðu eða skít.

          "Góðan daginn, Kristín mín, og gleðilegt sumar.

          Stína gamla dauðhrökk við, hún hafði ekki átt von á neinum. Flestir íbúar þorpsins voru á skemmtun í íþróttahúsinu. Hún leit upp og horfðist í augu við Gvend gamla á löppinni, hann stóð þarna ljóslifandi fyrir framan hana en guli seppinn hljóp snuðrandi í kring.

          "Góðan dag, og gleðilegt sumar".

          Stína gamla vissi ekki almennilega hvað hún átti að segja. Hún hafði fyrir svo stuttu hugsað þessum nágranna sínum þegjandi þörfina. En Gvendur gamli kom henni dálítið á óvart, þar sem hann stóð þarna í sólskininu. Aldrei þessu vant þá var hann sæmilega snyrtilegur. Hann tók ofan Rússahúfuna og vöðlaði henni milli handanna.

          "Það er góða veðrið"

          "Já, það má segja".

          "Það byrjar ekki slorlega sumarið, finnst þér?"

          "Nei, þetta er rjómablíða".

          Stína gamla burstaði kusk af garðsvuntunni sinni. Hún leit víst ekkert vel út, nýbúin að hreinsa garðinn. Gvendur gamli ræskti sig.

          "Þú ert ekki á skemmtuninni".

          "Nei, ég ákvað að vinna dálítið í garðinum, veðrið er svo gott".

          "Jahá. Garðurinn þinn hefur alltaf verið augnayndi. Tvímælalaust sá fallegasti í bænum".

          Gvendur gamli hélt áfram að vöðla húfunni milli handanna. Stínu gömlu fannst hólið gott, hún var komin í syngjandi skap.

          "En þú, þú hefur ekki brugðið þér á skemmtunina?"

          "Nei, ég get ekki tekið seppa minn með þangað og ekki get ég látið þennan eina vin minn afskiptarlausann á sumardaginn fyrsta. Mér finnst ómanneskjulegt að loka þessi grey inni, þau eiga ekki neinn að nema húsbóndann og ef hann bregst, hvað þá?"

          Stínu gömlu hlýnaði um hjartaræturnar. Hann Gvendur gamli var óskaplegur einstæðingur, en hann hugsaði þó vel um hundinn sinn. Það kom vandræðaleg þögn.

          "Jæja, sagði Gvendur gamli, það er best að haska sér og hætta að tefja þig".

          Stína gamla tók ofan hanskana. Hana langaði til að tala örlítið lengur við Gvend gamla. Hann var einn eins og hún og í rauninni gat hún vel hugsað sér einhvern félagsskap. Hennar helsti félagsskapur var frá konunum í Kvenfélaginu, sem áttu allar stórar fjölskyldur nema hún. Það gat verið dálítið þreytandi að hlusta sí og æ á sögur um annarra manna börn og barnabörn, þegar maður átti engin sjálfur.

          Stína gamla hafði aldrei gifst. Hún þekkti ekki fjölskyldulíf. Að hafa karlmann á heimilinu, það hafði hún aldrei prófað. Oft hafði henni þótt dapurlegt að sitja ein heima og sauma. Hún vann allan sinn  starfsaldur á saumastofunni og tók einnig  að sér saumaskap heima. Stína gamla hafði lært ýmsar hannyrðir auk þess sem hún var sérlega handlagin. Hún hafði saumað brúðarkjóla á flestar konur í bænum, einnig skírnarkjóla og samkvæmisföt. En sjálf hafði hún aldrei þurft á brúðarklæðum að halda. Svo var víst einnig um hann Gvend gamla. Hún nuddaði saman höndunum.

          "Það mætti kannski bjóða þér kaffisopa?"

          Gvendur gamli lyftist allur við.

          "Þakka þér fyrir, en það er alltof mikil fyrirhöfn".

          Stína gamla brosti.

          "Það er ekkert, ég ætlaði einmitt að fá mér kaffi sjálf".

          Gvendur gamli staulaðist inn fyrir garðshliðið, hann var enn hikandi.

          "En seppi minn, ég get ekki skilið hann eftir í reiðileysi".

          Stína gamla leit á gulan rakkann sem enn hljóp snuðrandi eftir gangstéttinni. Hann var kannski ekki svo ljótur greyið.

          "Æ, stingdu honum bara inn í garðinn á meðan".

          Gvendur gamli varð vandræðalegur.

          "En hann gæti farið að grafa eða jafnvel lagt eitthvað frá sér".

          Stína gamla skellti í góm.

          "Æ, það skiptir ekki máli, ég held það megi nú þrífa upp dálítinn hundaskít".

          Hún flýtti sér að húsinu, mun glaðari en hún hafði verið lengi.

          "Drífðu þig í bæinn, ég ætla að renna á könnuna":

          Stína gamla hraðaði sér inn og Gvendur gamli á löppinni haltraði á eftir henni. Gamla konan var eitthvað svo glöð í brjóstinu. Ef til vill var þetta góður dagur og ef til vill yrði þetta sumar viðburðaríkara og ánægjulegra en hin fyrri. Hún leit út um gluggann. Guli seppinn hljóp glaður um garðinn og snuðraði undir runnana hennar. En Stínu gömlu var sama. Hún brosti við gestinum sem sat við eldhúsborðið og vöðlaði Rússahúfunni milli handanna. Hundaskítur! Hvað var hundaskítur milli vina? Ekkert. Að hafa góðan félagskap og ýta einmanaleikanum burt, það var eitthvað nýtt og spennandi. Hjartað í brjósti Stínu gömlu barðist undarlega mikið. Það var líka sumardagurinn fyrsti.

 

         

 

 

                   Að sumarið verði oss gjöfult og gott

                   með gróanda, lífi og blómum í haga.

                   Að standa í sólskini finnst mér svo flott

                   ég finn að svo verður um komandi daga.

 


 

 

                                    Tölvuspil og tóftarbrot.

 


 

          Hún lagði stafinn frá sér og tyllti sér á gamla tóftarbrotið. Þreyta lagðist yfir hana og gamlar minningar sóttu á. Hún var orðin gömul og langt síðan hún hafði gengið um á þessum bernskuslóðum. Það var undarlegt til þess að hugsa að  hér hafði hún fæðst, alist upp og búið lengst af. Þessi staður var henni svo kær, en þó svo fjarlægur að það var eins og hún væri að hugsa um sjálfa sig í gamla bænum í öðru lífi. Eins og tíminn sem var væri í þúsund ára fjarlægð.

          Gamla konan starði þreyttum augum fram fyrir sig. Unga stúlkan, barnabarnið hennar hafði krafist þess að fá að fara með ömmu á bernskuslóðirnar. Nú hljóp hún tindilfætt um gamla túnið og myndaði allt í bak og fyrir. Sú gamla stundi. Eins og það væri eitthvað að mynda nú. Tóftarbrot sem varla sáust og gömul kona sem vissi ekki hvort hún átti heima í fortíð eða nútíð.

          Eins og annars hugsar strauk hún kusk af buxnaskálminni. Hún var klædd gallabuxum og vindjakka. Dálítið annað en þegar hún gekk um göng í pilsi með svuntu og skuplu á höfðinu. Þá hafði hárið líka verið svart en nú var það silfurhvítt. Allt var breytt og hún vissi ekki hvernig hún átti að höndla það. Stundum var svo erfitt að fylgjast með. Hraðinn var svo mikill. Barnabörnin vildu láta hana spila tölvuspil og nenntu ekki að læra Svarta Pétur og Kasínu. Hvernig átti hún að vita hvað var Pokemon eða Harry Potter? Hún vildi skilja börnin, en öll þessi tækni og hraðinn hræddi hana stundum, svo að henni fannst hún örmagna og dálítið vitgrönn. Það virtust allir skilja þennan ys og þys, þessa tölvutækni og nútíma boðskipti.

          Sólin skein á silfrað hárið og hún fann hlýju hennar verma sig. Hún var heima og þetta var sama sólin og hafði vermt hana öll árin. Líklega var fortíðin ekki svo fjarlæg, það voru breytingarnar sem voru svo hraðar. Litlu börnin skildu ekki hvers vegna langamma hafði verið svöng og gengið í strigapilsi sem stelpa. Það var heldur engin ástæða að grufla í því. Í dag þurfti enginn að hugsa um hvort saltketstunnan dygði frammúr eða hvort eldiviðurinn væri að ganga upp. Nei, sem betur fór. Það var ekkert skrýtið þótt börnin skildu hana ekki, en stundum var það dálítið sárt.

          Hún horfði á ungu stúlkuna sem hét Guðrún eins og hún. Hún var léttfætt, brúnhærð og strákslega vaxin. Hún mynnti hana á hana sjálfa er hún hljóp um þessi sömu tún eftir kindum eða berandi hey. Þessi fallega stúlka var í Háskólanum að læra Sagnfræði. Það var eitthvað sem var ekki til í hennar bernsku. Nám var eitthvað sem hún hafði þráð en aldrei hlotið. Kannski hafði fortíðin ekki verið eftirsóknarverð þegar allt kom til als. Hún vissi samt ekki hvort það var eftirsóknarvert að vera svona gömul, ein eftir og allir samferðamennirnir horfnir. Það gat verið einmanalegt á stundum.

          Þessi unga stúlka gat verið ákveðin ef hún vildi. Gamla konan hafði aldrei ætlað sér að fara í þessa ferð. Til hvers að sjá æskustöðvarnar þar sem ekkert var eftir. En sú unga var ákveðnari en amma hennar.

          -- Góða amma. Það er kominn tími til að þú gerir upp fortíðina svo þú getir notið ellinnar.

          Við þessu var ekkert svar, en hún skildi samt ekki alveg hvað hún ætti að gera upp. Fortíðin var bara eins og hún var og ekkert sem breytti því.

          Hún sökk inn í hugsanir sínar og umhverfið breytti um svip. Gamli bærinn hafði ekki verið stór, en hann var hlýr og vinalegur. Hún mundi vel hvernig var að gæta ánna fram með hlíðinni, í fráfæru. Hún mundi hve hún vorkenndi lömbunum sem kölluðu svo ákaft á mæður sínar. Mundi hve hún þráði glæsta framtíð. Riddara á hvítum hesti sem tæki hana á bak fyrir framan sig og myndi þeysa til heiðarinnar, í frelsið. Riddarinn kom ekki á hvítum hesti, en ástin kom inn í líf hennar. Það var undarlegt að geta munað svona vel allar tilfinningarnar, eftirvæntinguna, gleðina yfir því að elska og vera elskuð. Guðmundur var riddarinn í hennar lífi, það hafði aldrei verið neinn annar.

          Ástarsögur enda yfirleitt með giftingu, að minnsta kosti var það svo með gömlu sveitasögurnar, en raunveruleikinn var annar. Fólk gifti sig, eignaðist börn og barðist síðan við að hafa í sig og á. Hún ætlaði ekki að kvarta, en átta börn hafði hún gengið með og sjö komist upp. Ennþá brast hjarta hennar að hugsa um litla drenginn sem aðeins náði nokkurra vikna aldri. Hún var nú orðin 84 ára og saknaði hans enn. Hvernig var það hægt? Hún talaði aldrei um hann og ekki mikið um fortíðina, vildi ekki vera talin elliær gömul kona sem gæti ekki um annað talað en gamla daga. Hún fann að tár runnu niður vangann. Guð hafði tekið hann til sín eins og hann hafði tekið Guðmund seinna, en hún var samt þakklát fyrir árin þeirra saman.

          Hún mátti ekki vera vanþakklát. Börnin hennar höfðu komist vel til manns og bjargað sér vel. Barnabörnin hennar voru orðin mörg og barnabarnabörnin nokkur. Allt var þetta yndislegt fólk sem hún ann. Hún mátti víst þakka Guði fyrir sína góðu heilsu og það að fá að fylgjast með öllu efnilega fólkinu sínu. Stundum var bara svo erfitt að fylgja öllu eftir og stundum gat hún ekki munað alla hluti, en hún reyndi að láta ekki á því bera.

          Þrátt fyrir dálítið götótt minni gat hún séð fyrir sér gamla bæinn, útihúsin og allt eins og það var. Stundum hafði hún haft áhyggjur af afkomunni og stundum hafði hún sleppt því að skammta sjálfri sér, til að vera viss um að allir hefðu nóg. En það gerði henni ekki til, hún hafði alltaf verið hraust.

          Þegar Guðmundur missti heilsuna fluttu þau á mölina og hún fór að vinna í fiski. Það hafði ekki verið svo slæmt. Það sem henni fannst verst var að jörðin fór í eyði enda var hún ekki uppbyggð eins og jarðir voru ornar í þann tíma. Hún vann eins lengi og hún gat og ennþá bjó hún í litla húsinu við sjóinn. Börnin vildu auðvitað að hún færi á öldrunarheimilið, en hún vildi frekar vera sjálfs sín. Hún tók samt þátt í starfi aldraðra, spilaði, föndraði og fór stundum í styttri ferðir. Lífið var í raun gott og hún gat víst dáið sátt. Eitthvað var samt að angra hana, hana langaði að lifa örlítið lengur og taka þátt, reyna að skilja lífið eins og það var í dag. Sólin vermdi vangana og hún vonaðist til að verða dálítið útitekin eftir þennan dag. Sólin var lífgjafi og hún hafði alltaf verið mikið fyrir útivist.

          Unga stúlkan kom og settist hjá henni. Hún var rjóð í vöngum og móð eftir öll hlaupin.

          -- Jæja, amma mín. Þá er ég búin að taka myndir eins og mig langar. Ert þú búin að gera upp fortíðina?

          Gamla konan sá glettnisblikið í augum nöfnu sinnar.

          -- Ætli það ekki, væna, eins og er hægt að gera hana upp.

          -- Þér finnst gaman að koma hingað, ég veit það.

          Gamla konan kinkaði kolli. Víst var gaman að koma og kannski myndi þessi ferð breyta lífi hennar á einhvern máta.

          -- Amma, þegar ég verð gömul kona ætla ég að njóta lífsins fram í rauðan dauðann.

          Gamla konan hló.

          -- Það veit ég að þú gerir.

          -- Mér finnst að þú ættir að gera það líka. Ég meina þú ert svo hress enn.

          -- Hvað finnst þér ég ætti að gera?

          -- Ferðast meira, eignast nýja félaga, djamma dálítið.

          Hún hnippti í ömmu sína og gamla konan skellihló.

          -- Kannski geri ég það. Mér þætti gaman að sjá svipinn á henni móður þinni þá.

          Þær hlógu saman og gamla konan fann hve geð hennar léttist með hverju andartaki. Kannski hafði hún ekki hlegið nægilega mikið í sínu lífi. Kannski var það hláturinn sem vantaði. Hún fann væntumþyggjuna streyma til ungu stúlkunnar og eitthvað nýtt bærðist í brjósti hennar. Það var kannski ekki aldurinn sem sagði allt, það var eflaust hugarfarið. Hver sagði að hún gæti ekki spilað tölvuspil og lesið bækur um strák sem flygi á kústi? Henni fannst hún skyndilega frjáls og aftur langaði hana til að tárast, en ekki af sömu ástæðu. Henni leið vel.

          Gamla konan tók í höndina á nöfnu sinni.

          -- Ég á dálítið í bókinni minni, við ættum kannski að ferðast saman.

          Unga stúlkan þrýsti höndina á móti.

          -- Amma, ég skal koma með þér í heimsreisu ef þú vilt og glöð skal ég hjálpa þér við að eyða aurunum þínum.

          -- Það þarf þá ekki að rífast um þá eftir að ég er dauð.

          Enn hlógu þær og sólin sendi geisla sína beint á andlitin tvö sem geisluðu af gleði. Sú unga og hin gamla, tvær sálir sem fundu frelsi, saman.