Færslur: 2010 Febrúar

16.02.2010 12:57

Loksins komin í gang

Þar kom að því. Farin að blogga aftur og allt að komast í jafnvægi. Lífið hendist áfram og hver vikan flýgur burt. Það er kominn febrúar og ég trúi því varla. Ég hef til dæmis ekki komið lengi inná þessa síðu, alveg geymt að setja myndir, blogga, segja ykkur frá öllum hrossunum sem ég vil selja, hvernig búskapurinn gengur og hvað ég er farin að bralla á nýju ári. Þetta kemst kannski allt í verk með tíð og tíma en allavega ætla ég að reyna að koma fyrst helstu upplýsingum um okkur í bloggið.

Tengdamóðir mín blessunin lést þann 31.janúar. Hún hafði þá verið mjög veik frá áramótum. Þessi veikindi hennar og skyndilega brottför setti svo sannarlega strik í reikninginn á mínum bæ. Engu okkar hafði órað fyrir að amma væri veik hvað þá að hún myndi deyja svona fljótt. En lífið er svona og við eigum um hana yndislegar minningar sem ylja og gleðja. Það er samt svolítið undarlegt að venjast tilhugsuninni að hafa hana ekki eins og gerist alltaf þegar einhver hverfur frá manni. Fyrir utan eðlilegan sökknuð þá höfum við Guðbjörg töluverðar áhyggjur af því hvernig við eigum að halda áfram. Það er t.d. ekki ljóst hver á að sjá um að gera við fötin, prjóna sokka og vettlinga, hekla á dúkkurnar og kenna Guðbjörgu svo þetta allt saman. Við höfum aðeins velt þessu fyrir okkur og ég hef bent dóttur minni á að Fanney svilkona mín sé einstök prjónakona og vinkona mín Jóhanna Helga sé þúsundþjalasmiður í höndum. Guðbjörgu finnst gott að vita af þessu en hún er samt raunverulega að velta því fyrir sér hvort það væri ekki hægt að þjálfa móður hennar upp í þessum fræðum, t.d. saumaði ég einu sinni út mynd sem hangir í stofunni og prjónaði heila lopapeysu, þannig að hún er ekki úrkula vonar með að verkefnið takist. Okkur líst misvel á þessa hugmynd og svo er bara að sjá hvernig hún þróast eða hvort vinkonur mínar austanmegin í Blöndudalnum grípa inní og bjarga málunum. Svona geta vangaveltur verið.En í hjartanum er okkur mæðgum auðvitað sama um hannyrðirnar en elskum bara ömmu engil hvar sem hún er :)

Haukur á Röðli seldist vel, var vel tekið og ég er yfir mig ánægð með það. Enda er Haukur vinur minn mikill snillingur og ég vona að mér hafi tekist að gera góða bók um hann. Þetta var allt saman skemmtilegur tími, bæði að vinna með Hauk og eins í krignum jólin og stússið með bókina. Ég er ekki komin af stað með verkefni á borð við þetta en ég er samt ákveðin í því að einhverntíman mun ég tína saman skemmtisagnir úr Húnavatnssýslu og gefa út. Ég komst að því í vinnunni með Hauksbók að hér er mjög mikið af óskráðu efni sem einfaldlega má ekki glatast. Ég veit að ég mun bara geta skrifað upp brotabrot af því en ég vona svo sannarlega að Húnvetningar fari að fara í gang og skrifa meira. Ég held bara að við værum bókmenntalega dauð ef ekki væri Húnavakan og svo ég sjálf:)

Af fólkinu mínu er allt gott. Halldór sonur minn er í VMA og unir sér vel. Ég held reyndar að þetta sé snilldarskóli og eftir áramótin hefur allt gengið upp hjá  honum . Hann seldi BMWinn og fékk í staðinn Fordpicup, sem ég hef ekkert vit á að segja frá,enda hef ég ekki áhuga á bílum nema til að koma mér á milli staða. Ég gat ekki annað en glott um síðustu helgi þegar hann mætti heim á Fordinum, með kúrekahattinn minn á hausnum og bráðmyndarlega stelputítlu í framsætinu. Þetta var eins og blossi úr gamalli amerískri bíómynd. Mér fannst það bara alveg ferlega skondið og skemmtilegt. Ekki var það heldur til vandræða að þetta ameríska par var alveg vel brúklegt í búverk og skítmokstur. Sem sé alveg mjög góð helgi.

Á sunnudaginn var Valentínusardagurinn, eins og allir muna. Fjórtándi febrúar. Þá voru komin 16 ár frá því að ég kom heim í Löngumýri með Halldór. Hann á sem sé heimkomuafmæli hér 14. Það var mjög skemmtileg tilviljun því að ýmislegt hef ég nú upplifað skemmtilegt þennan dag. Ég útskrifaðist sem reikimeistari þennan dag, Rósa fermingarsystir Halldórs fæddist þennan daginn og líka hin yndislega Jóhanna Kristjánsdóttir, sem ég met mjög mikils. Sjálf hef ég svo útskrifað nokkra reikimeistara þennan dag og 14. febrúar fyrir tveimur árum hittumst við Haukur á Röðli í fyrsta skipti til að fara að vinna bók. Það er margt gott við þennan daginn. En þar sem ég er að rifja þetta upp þá langar mig að minnast á annan dag þann 18. Þegar við komum heim með Halldór þá var mitt fyrsta verk að hringja í sr. Hjálmar vin minn á Sauðárkrók og spyrja hann hvenær hann gæti hugsað sér að skíra snáðann. Við ákváðum að geyma það nú ekki lengi og hans fyrsta lausa stund var 18. Við ókum svo sem leið lá í rússanum hans Stebba á Sauðárkrók, við foreldrarnir með snáðann, afarnir, Stebbi og Dóri í Tungu sem ásamt Stebba var skírnarvottur. Þetta gekk allt vel og hélt Signý okkur hið myndarlegasta skírnarkaffi. Þegar við svo komum heim eftir góðan dag þá áttaði ég mig á því að þennan dag var afmæli Eyþórs afa míns, ég fletti uppá því hvað hann hefði orðið gamall og komst að því að þetta var 100 ára afmæli hans. Svona er nú alheimurinn skemmtilega skrítinn. En eins og Katrín Baldursdóttir vinkona mín segir alltaf svo réttilega "Guð er góður":)

En alltaf eru nýjar hugmyndir að kvikna. Ég er að spá í svo margt þessa dagana að höfuðkúpan er alveg að gefa sig. Fyrir utan það að rembast við að læra bókahald og fleira misskemmtilegt á Blönduósi er ég ásamt tveimur öðrum töfrakonum að stofna fyrirtæki. Það verður með aðsetur hér fyrir norðan og mun vonandi framleiða marga jákvæða vöruna í framtíðinni :)

Búskapurinn gengur sinn gang. Allt er í sæmilegu standi og enginn verkefnaskortur. Þórhalli, bróðir minn, í Húnaveri er farinn að temja fyrir okkur nokkur tryppi og ég vona að við getum selt eitthvað af þeim. Það er af nógu að taka í tryppahópnum og ég held að þau séu bara efnileg skinnin og svo eigum við líka dálítið af litum sem eru vinsælir. En þetta er nú allt í vinnslu og það er sosum á dagskrá hjá mér að fara að koma mér á hestbak aftur, veit eiginlega ekki hvað er að mér að koma því ekki bara inní rútínuna. En það kemur nú allt í ljós. Betra að spara stóru orðin. Ingi sér nú eiginlega alveg um þenna búskap en ég vinn að honum með líka( mjólka og moka), en að því leyti er hann heilinn í hópnum. Það er ómögulegt að vera með puttana í öllu. Mér finnst miklu betra að hafa yfirráð á störfum dálítið aðskilin þó svo að fólk vinni auðvitað saman. Ég vil ekki þurfa að spyrja hann um alla hluti sem ég er að stússast í og öfugt. Bara ágætis stand á þessu hjá okkur. Ég hef þó fullkomlega með höndum að hringja í sæðarann, þar sem elskulegur eiginmaður minn er ekki mjög elskur að símsvörum :)

Vonandi blogga ég bráðum aftur og vonandi verðið þið duglega að senda mér komment og skrifa í gestabók sem lesið. Ég held að ég sé búin að nefna það helsta sem hefur verið að gerast síðustu vikur. Eitt er þó ótalið og það er reikið. Ég var með tvö yndisleg námskeið fyrir skömmu og vonandi verður fólk duglegt að hafa samband og læra reiki. Ég er líka með meðferðir fyrir fólk og fyrirbænabók sem þið getið sett nöfn í. Bara að hafa samband. Svo er ég líka mjög ánægð með lifewaveplástrana sem ég nota alltaf og einnig fyrir fleiri en mig.Ég er að kynna þá og nota stundum í meðferðum með reikinu. Mér finnt alltaf áhugavert að finna leiðir til að láta sér og öðrum líða betur. Ég er alveg hætt að auglýsa námskeið, þau koma bara til mín.  Finnst bara best ef fólk hefur samband og við finnum þá saman út tíma og fjölda. En það er ekkert skemmtilegra en að kenna reiki og sjálfrækt, alveg hreint frábært. Ég held að nú sé rétti tíminn til að nota alla sína jákvæðni og bjartsýni til að lyfta andanum, komast í jafnvægi í efni og anda. Það skiptir máli hvað við borðum en það skiptir ekki minna máli hvað við hugsum. Ég vil sjá uppbyggingu hjá okkur hér á norðurlandi vestra, ég vil að hvert og eitt okkar leggi allt sitt í að gera það. Fjölga fólki og störfum og passa að þjónustan okkar í heilbrigðis og skólamálum skerðist ekki. Ég er alveg sannfærð um að við eigum yndislega framtíð í vændum. Við bara tökum brekkuna og rúllum henni upp. Við getum allt sem við viljum og við getum byggt HÉR Í Húnavatnssýslu, paradís á jörð :)

Bara eitt að lokum:) Við hjónin og dóttirin fórum á mótmælin hennar Bótu. Það var frábært. Þetta góða fólk á heiður skilið fyrir framtakið og dugnaðinn. Við höfum víst örugglega kraft í okkur hér og gefumst aldrei upp :)
  • 1