Færslur: 2011 Ágúst

30.08.2011 20:31

Reiki og fleiri fréttir

Ég verð að segja ykkur þau gleðitíðindi að þann 28. sl. útskrifaði ég tvo nýja reikimeistara. Það var að vonum kátt í höllinni eins og sagt er og mikil gleði í mínu hjarta. Alltaf dásamlegt þegar stórum áfanga er náð og ég hlakka  mikið til að fylgjast með þeim stöllum Hólmfríði Ástu Steinarsdóttur og Ingibjörgu Jónsdóttur sem nú eru stokknar af stað að kenna þessa frábæru heilunaraðferð. Það var svo gaman hjá okkur að við steingleymdum að taka myndir en þær koma bara seinna.  Guðrún Pálmadóttir, vinkona mín, sagði af þessu tilefni: Ég vildi að það væru þúsund reikimeistarar að útskrifast í dag og ég er henni hjartanlega sammála. Við þurfum að vinna sem aldrei fyrr, hjálpa hvort öðru og sjálfum okkur, jörðinni okkar og öllu lífi. Það er sannarlega þörf.Verð að setja hér mynd af fallegu töfrastelpunum okkar Jóhönnu, sem núna eru byrjaðar í skólanum alsælar.

Já, skólasetningin var mjög flott. Við erum ákveðnar í því mæðgur að hafa þennan vetur sérstaklega skemmtilegan. Sigga skólastjóri er ljómandi fín og kennir á tölvur og Áslaug er umsjónakennari Guðbjargar. Það fellur í góðan jarðveg hjá minni fyrst að Magdalena kennir íslensku og kristinfræði, en hún hefði als ekki viljað missa alveg af henni enda sannaði Magdalena á síðasta ári að hún er algjör gullmoli. Þetta er svona það sem við mæðgur erum sammála um:) Hitt er svo allt bara fínt líka og hefðbundið, Sonja í ensku og samfélagsfræði, Milan í íþróttum og Jóhanna í náttúrufræði. Þetta eru nú aðal lærimeistarar dóttur minnar þennan veturinn að ógleymdum skólaliðum og Binna bílstjóra. Og ekki má gleyma Grími sem kennir smíðar og er frekar harður í því að láta fólkið vinna sjálft ;)

En eins og ég segi, við erum bara glöð með haustið. Það líður senn að réttum og spenningur í kringum það. Alltaf nóg að gera og nóg framundan. Við töfrakonur vorum að koma með ný orkusteinaarmbönd sem virka svona glimrandi vel. Hvert armband hefur sína verkun fyrir eigandann eins og steinarnir segja til um. Spennandi og líka mikið í tísku núna, sem sé bæði til gagns og gleði.En Töfrakonur eru alveg á fullu að safna smásögum, lesa handrit, semja, búa til smyrs og seiði og margt, margt fleira.

En af okkur á Löngumýri er þetta að frétta. Lífið gengur upp og niður eins og alltaf, Ingi meiddi sig í hendinni fyrir dálitlu og var heppinn að missa ekki tvo fingur, dráttarvélin bilaði og er nú á verkstæði KS og ég krossa bara fingur og vona það besta, svo misstum við eitt naut í dag en að öðru leyti er allt gott. Það þýðir ekkert að væla og vola heldur vera bjartsýnn og glaður. Við erum að byrja á seinni partinum á hánni enda víst eins gott að klára þenna heyskap áður en hríðin kemur sem spáð er í næstu viku ;) Heyfengurinn er minni en venjulega en við þurfum ekkert að kvarta, þetta er bara búið að ganga vel miðað við allt og allt. Barnabókin mín hefur fengið góðar viðtökur enda þurfum við Töfrakonur svo sannarlega á því að halda að hún seljist hratt og vel. Ég er farin að skrifa framhald á milli þess sem ég mjólka kýr og kenni reiki. Það er sko eitt sem víst er að það skortir ekki verkefni þessa dagana frekar en venjulega.

Ég er búin að vera frekar duglega að ríða út miðað við mig og finnst það alveg geggjað. Set eina gamla í lokin af puttalingnum mínum :)Klikkar ekki á gallanum og gúmmískónum ;)

Eigið góða daga :)


16.08.2011 11:08

Reiki

        

Mín kæru. Þar sem mikil andleg vakning er í landinu okkar, sem betur fer, og ég finn að það er vaxandi áhugi á að læra reiki og hjálpa sjálfum sér langar mig að deila með ykkur þessari grein sem ég skrifaði einu sinni og vona að einhver hafi gagn af. Í gær 15. ágúst var Usui, fyrsti reikimeistarinn fæddur og því tilvalið að minnast hans með þessu :)   Þessi grein er á öðrum stað hjá mér en mig langar að vekja athygli á henni núna. Til gamans má geta þess að Þuríður vinkona mín, reikimeistari og grasalæknir er einnig fædd 15. ágúst.  


                                   Reiki

                                      Heilun, með alheimsorku.

 

         Mig langar með nokkrum orðum að tala um Reiki, þessa einstöku heilunaraðferð sem ég var svo heppin að fá að læra hjá Guðrúnu Óladóttur reikimeistara. Mig langar til að byrja á að segja ykkur dálítið frá minni reynslu, en síðan fjalla um Reikið, sögu þess og nokkrar staðreyndir sem gott er að vita.

         Það eru fjórtán ár síðan ég kynntist Reiki í fyrsta sinn. Einhver hafði sagt mér frá þessari heilunaraðferð, en þá hafði ég verið að kynna mér ýmislegt og farið á mörg námskeið sem tengjast andlegum eða dulrænum efnum. Öll þessi námskeið voru góð og gild og margir góðir punktar sem sátu eftir. Samt var ég ekki búin að finna það sem ég hafði verið að leyta að. Eitthvað sem ég gæti gert að hluta af mínu daglega lífi mér og mínum til góðs. Það fann ég síðan í Reikinu.

         Fyrst fór ég í þriggja daga meðferð hjá karlmanni sem hafði tekið I. og II. stig í Reiki. Hann vann með meðferðir á fólki og ég var svo heppin að komast til hans. Ég var ekki líkamlega veik, en orkukerfið var í ólagi, ég reykti mjög mikið á þessum tíma og hóstaði mikið. Ég veit núna að ég var líka algjörlega ójarðtengd og var alltaf kalt á fótunum. Blóðrennslið var ekki í lagi. Í þessari þriggja daga meðferð lagaðist fótkuldinn, ég fann mikinn mun á jaðtengingunni og næstu daga á eftir hóstaði ég upp úr lungunum þvílíkum sora að mér var bara ekki sama. En að sjálfsögðu leið mér miklu betur eftir. Þessi ágæti maður útskýrði eðli Reikissins fyrir mér og sagði mér að með því að læra I.stig gæti ég haldið sjálfri mér í jafnvægi og unnið með mig og mína.

         Eftir þessa reynslu bókstaflega varð ég að komast á námskeið í Reiki. Það gekk nú ekki átakalaust, enda bý ég úti á landi og erfitt að finna út úr því. En ég skildi seinna að það var einfaldlega verið að beina mér til rétts meistara og er ég óendanlega þakklát fyrir það. Það var svo á endanum að ég komast á námskeið hjá Guðrúnu Óladóttur og það breytti lífi mínu mjög mikið. Nú var ekki aftur snúið, ég varð að halda áfram. Það var eitthvað sem rak mig áfram. Ég komst á mikið skrið, leið mjög vel og fann hve vinnan með þessa tegund heilunar hjálpaði mér að ná líkamlegu og andlegu jafnvægi. Ég tók síðan á næstu árum II.og III. stig í reiki og fór síðan í meistaraþjálfun hjá Guðrúnu. Þó svo að ég sé að segja ykkur frá reynslu minni megið þið ekki halda að það sé nauðsyn að taka allt námið, öðru nær. Fyrsta stigið er nægjanlegt fyrir mjög marga og hægt með þeirri þekkingu að vinna með alla þá sem eru hjá manni, sjálfa sig og aðra. Margir taka líka I. og II. stig til þess að geta einnig unnið með fjarheilun.

         Það var mér mjög lærdómsríkt að vera í þessu námi. Ég lærði margt til þess að vinna með aðra, fór að setja lífið í annað samhengi og síðast en ekki síst, ég lærði heilmargt um sjálfa mig. Guðrún hjálpaði mér að skilja hvers vegna ég væri með brjósklos einmitt á þeim stað sem ég var með og heila það. Hún sýndi mér samhengi minnar andlegu líðanar og líkamlegu. Ég fór að skilja orsakir veikinda og líf mitt var sem nýtt. Með því að læra um orkustöðvar líkamans og hvernig allt spilar saman, opnaðist mér nýr heimur.

         Ég var mjög heppin með það að fá "fórnarlömb" til að vinna með. Þegar ég kom heim af I.stiginu var strax fólk sem vildi koma í meðferðir til mín og einnig var fjölskyldan mjög dugleg að nýta sér þessa nýju aðferð. Ég hef á þessum árum unnið mikið með Reikið bæði fyrir sjálfa mig og aðra og tekist það sem ég óskaði að gera það hluta af mínu daglega lífi. Í starfi mínu sem bóndi nýtist þessi þekking afar vel og bæði dýr og börn eru óhrædd við að nýta sér orkuna sér til hjálpar. Það er til dæmis mjög gott að nota Reiki þegar dýr eru að fæða og reyndar við hvað sem er eins og hjá mönnum.

         Eftir að ég útskrifaðist sem Reikimeistari fór ég strax að kenna. Vinir mínir hér fyrir norðan biðu eftir að ég kæmi heim. Það var mjög mikil hvatning að vita að mín biðu strax námskeið, fleiri en eitt og fleiri en tvö. Námskeiðahaldið hefur gengið vel. Ég er alltaf að kenna öðru hvoru, en þar sem ég er líka, móðir, bóndi og rithöfundur verð ég skiljanlega að skipta tíma mínum og mér hentar mjög vel að hafa þetta allt inni í mínu lífi. Ég hef líka notað Reiki mjög mikið á börnin mín og hefði ekki viljað missa af að hafa það eftir að ég eignaðist þau. Reyndar get ég í dag als ekki hugsað mér lífið án þess að hafa aðgang á þennan hátt að alheimsorkunni. Nú hef ég einnig sjálf þjálfað meistara og finnst það dásamlegt að hafa fengið að taka þátt í að breiða Reikið út. Fyrsti meistarinn sem ég þjálfaði var Þuríður Guðmundsdóttir grasalæknir. Það er frábært að sjá hvernig hún nýtir sér þessa aðferð við smyrslin sem hún er að búa til, sem og annað. Það sýnir glökkt hve vel er hægt að nýta sér alheimsorkuna í allri vinnu, ekki einungis við heilun manna og dýra  heldur allt sem er lífrænt.

         Á Íslandi eru í dag starfandi margir reikimeistarar og hefur Guðrún Óladóttir þjálfað þá flesta, enda var hún fyrsti reikimeistarinn hér og má segja að það séu hennar verk að innleiða Reiki á Íslandi. Fyrir mér er það mjög jákvætt og því fleiri því betra. Reiki er orka sem allir geta unnið með óháð trúarbrögðum, aldri, búsetu eða hverju sem er. Reiki er eitthvað sem allir geta nýtt sér. Þetta er aðferð þar sem allir sem hafa lært geta nýtt sér hvenær sem er, hvort sem ástundunin er mikil eða lítil.

         Síðustu fjögur ár hef ég verið með færri námskeið og gefið börnunum mínum meiri tíma. Þó hef ég unnið geysilega mikið með Reikið og finn að eftir því sem tíminn líður næ ég að halda mér og mínum í enn meira jafnvægi, en það skiptir öllu máli. Ég á því láni að fagna að Jóhanna Halldórsdóttir, annar reikimeistari sem ég þjálfaði býr hér rétt hjá svo að nú hafa Húnvetningar okkur tvær. Það er óskaplega gott að geta vísað á aðra líka vegna þess að Reiki snýst ekki um að gera allt sjálfur, heldur virkja fólkið sjálft og vinna saman.

         Þó svo að ég sé að mæla með Reiki þá veit ég að til eru ótalmargar heilunaraðferðir og misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Hver og einn verður að finna sína leið, en öll þörfnumst við aðferða til að losa okkur við stress og halda okkur í jafnvægi. Ég hef alltaf haldið því fram að hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar fari afar vel saman. Þó að ég sé að vinna með heilun er ég als ekki að fara inn á svið læknanna, sjúkdómsgreina eða gera neitt það sem fagaðilar í þeim fögum eiga að vinna, öðru nær. Við sem vinnum með Reiki bendum fólki á að fara til læknis, fá sjúkdómsgreiningu, vera dugleg að taka lyfin sín o.s.frv. Hins vegar getur það nýtst fólki vel að fara í heilun með hefðbundnum lækningaraðferðum.

         Það sem skiptir mig kannski mestu máli í minni reynslu, fyrir utan það að hafa getað verið tengiliður alheimsorkunnar, er að með því að byrja að læra Reiki fór ferli af stað, sem mér finnst mjög jákvætt. Ég einfaldlega fór að þroskast á annan hátt, fór að kunna að meta það sem ég átti, gat, heilsuna mína, lífið sjálft og allar þær dásemdir sem það hefur uppá að bjóða. Ég fékk líka aukið sjálfstraust og betri líðan. Áður en ég fór í þetta nám hefði ég aldrei ímyndað mér að ég myndi nokkru sinni kenna nokkuð, eða standa fyrir framan fólk og tala. Ég hafði mjög lítið sjálfstraust og sjálfmynd. Það hefur breyst og ég er mjög ánægð í dag.

 

 

                                    Almennt um Reiki.

 

         Reiki er japanskt orð og þýðir "Alheimsorka"

         Alheimsorku er fyrst getið í 2500 ára gömlum Tíbenskum ritum og var enduruppgötgvað af Dr. Mikao Usui í Japan á nítjándu öld. Þessi náttúrulega lífsorka virkar á öllum sviðum einstaklingsins. Reiki er hreinsandi, orkugefandi og stuðlar að almennri vellíðan og þroska einstaklingsins.

         Orkan flæðir í gegnum hendur iðkandans og viðkomandi getur beint henni að sjálfum sér, öðrum einstaklingum jafnt sem dýrum og plöntum.

         Við fæðumst öll með Reiki, það sem þarf til að virkja þessa endalausu alheimsorku er viljinn til að læra og vígslurnar sem gefnar eru á námskeiðum.

         Það er ekki krafist nokkurrar forvinnu, þjálfunar né þekkingar, einungis löngunarinnar til að vera ómengaður leiðari hreinnar lífsorku.

         Að gerast Reiki iðkandi hefur djúpstæð áhrif á viðkomandi. Það færir aukinn þroska, breytingar og blessun inn í lífið.

         Fólk verður fært um að:

-   Miðla heilunarorku gegnum hendurnar.

-   Upplifa hærra orkusvið.

-   Þroska sálar og innsæisvitund.

-   Jafna lífsorkuna, m.a. orkurásir, orkustöðvar(chakra), eitlakerfi, vinstra og hægra heilahvel.

-   Eykur sjálfstraust.

-   Fólk verður sáttara við sjálft sig.

-   Lærir að virða/meta annað fólk eins og það er.

-   Að tala sannleikann án þess að dæma aðra eða kenna um.

-   Að meta/vera þakklátur fyrir það sem maður er.

-   Að taka ábyrgð á sínum eigin gjörðum og lífi.

-   Treysta sínu innra sjálfi fullkomlega.

-   Að hafa kærleikann ávalt að leiðarljósi.

 

 

 

                                    Nokkrir punktar um Reiki.

 

-   Reikiorkan fer í gegnum hvað sem er. Þess vegna er allt í lagi að orkuþegi sé í fullum klæðum og jafnvel með þykkt teppi yfir sér.

-   Það þarf ekki að fara í sérstakt ástand til að vinna með Reiki.

-   Reikiorkan er dregin gegnum gefandann af þiggjandanum og það er sjálf þiggjandans sem stjórnar orkuflæðinu.

-   Í þessu felst að gefandinn læknar ekki aðra. Hann getur aðeins gefið öðrum aðgang að orkunni til þess að lækna sjálfan sig.

-   Við getum öll læknað okkur sjálf og/eða unnið fyrirbyggjandi vinnu á heilsufari okkar með því að  gefa okkur Reiki daglega á orkustöðvar líkamans.

-   Hægt er að nota orkuna á veik svæði eða þar sem verkurinn er.

-   Ef gefið er Reiki á allar orkustöðvarnar eins og lært er á námskeiðunum þá verðum við að gera það þrjú skipti í röð til að byrja með, þ.e. einu sinni á dag í þrjá daga. En þetta gildir bara um fyrsta skipti sem unnið er með viðkomandi.

-   Eftir þessi þrjú skipti getur meðferðin verið eins og hver vill, t.d. einu sinni í viku eða nokkurra daga/vikna fresti.

-   Ef unnið er með manneskju sem er með alvarleg veikindi þá er mælt með meðferð sem oftast, jafnvel tvisvar á dag.

 

 

                                                5 lífsreglur í Reiki.

 

                                    Í dag mun ég vera þakklátur.

 

                                    Í dag mun ég vera laus við áhyggjur.

 

                                    Í dag mun ég ekki reiðast.

 

                                    Í dag mun ég sinna störfum mínum af heiðarleika.

 

                                    Í dag mun ég sýna öllum lífverum ást og virðingu.

 

 

                                                Saga Reiki.

 

         Um miðja 19. öld var maður að nafni dr. Mikao Usui skólameistari í litlum kristnum háskóla í borginni Kyoto í Japan. Nemendur hans vildu fá að vita hvers vegna enginn gæti læknað sjúka eins og Jesú gerði, fyrst hann hafði sagt: "Sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri; og hann mun gera enn meiri verk en þessi".( Jóhannes 14.12.). Heiðurs síns vegna ákvað Usui því að fara og finna svarið. Hann hóf leit sína í Chicago, en þar var lítið um svör. Usui vissi að Búdda hafði læknað líkt og Kristur. Því hélt Usui aftur til Japans og gekk á milli klaustra og spurði: "Hafið þið einhver skjöl sem segja frá hvernig Búdda læknaði?" Svörin voru alls staðar á svipaða lund. "Nú einbeittu menn sér að því að auðga andann".

         Loks kom Usui til Zen klausturs og hitti þar gamlan ábóta. Hann sagði við Usui: "Það sem einu sinni hefur verið gert er hægt að gera aftur". Usui tók því til við að kynna sér japönsku lótus sútrurnar og kínversku sútrurnar en til þess að geta það varð hann að læra kínversku. Næst fór Usui til Norður Indlands, til Himalayafjalla. Þar fékk hann að sjá gömul tíbensk handrit, þar sem segir frá St. Isa, sem talið er að hafi verið Jesú. Með þessa vitneskju og tíbensku sútrurnar taldi Usui sig hafa komist að kjarna málsins, en hann fann að hann vantaði kraftinn. Hann fór því aftur í Zen klaustrið til að spyrja vin sinn ábótann ráða. Með hugleiðslu komust þeir sameiginlega að þeirri niðurstöðu, að Usui skyldi fara til hins helga fjalls, Kuri Yama, 17 kílómetra frá Kyoto. Þar skyldi hann fasta og hugleiða í 21 dag.

         Þetta gerði hann, en í 20 daga gerðist ekkert. Á 21.degi sá hann ljós í fjarska sem bæði óx og færðist hratt í áttina til hans. Hann varð hræddur og ætlaði að hlaupa í burtu, en áttaði sig svo á því að þetta gæti verið svarið sem hann hafði leitað svo lengi. Ljósið kom sífellt nær og varð skærara, loks skall það á miðju enni hans. Usui hélt að hann væri dáinn, fyrir augum hans svifu ljóskúlur og í hverri þeirra var tákn á sanskrít. Kúlurnar fóru það hægt framhjá honum að hann náði að nema tákn.

         Þegar hann kom til sjálfs síns á nýjan leik sá hann sér til mikillar undrunar að það var kominn bjartur dagur. Hann hljóp niður fjallið, en gáði ekki að sér, datt og reif upp á sér tánögl. Ósjálfrátt greip hann með höndunum yfir sárið og sér til mikillar furðu sá hann nokkrum mínútum seinna að sárið var gróið. Hann fór beint á sveitakrá og pantaði sér fulla máltíð og borðaði hana án þess að verða meint af þrátt fyrir 3ja vikna föstu. Hann læknaði einnig tannverk dóttur kráareigandans. Eftir þetta hélt Usui til klaustursins að finna ábótann, sem var illa haldinn af liðagikt. Hann sagði ábótanum frá reynslu sinni, fékk að leggja hendur yfir hann og þeir fundu báðir fyrir lækningakraftinum.

         Usui fór að vinna með Reiki. Hann byrjaði í betlarahverfinu í Kyoto. Árangurinn var ótrúlegur. Á skömmum tíma tókst honum að lækna og hjálpa fjölda utangerðsmanna að ná fótfestu í lífinu á nýjan leik. Eftir u.þ.b. 7 ár fóru þeir sem hann hafði hjálpað fyrst að snúa aftur og sögðu að þeir hefðu ekki verið tilbúnir til að gerast ábyrgir borgarar, þeir vildu heldur vera betlarar áfram. Usui áttaði sig á því  að það var ekki á hans valdi að breyta lífi þessa fólks, það yrði að velja sitt hlutskipti sjálft.

         Usui ferðaðist um allt Japan og kenndi Reiki. Hann vildi að fólk bæri sjálft ábyrgð á eigin heilsu og með því að kenna fólki Reiki gat það einnig þroskað sjálft sig. Hann kenndi mörgum en vígði einungis einn meistara, Dr. Chujiro Hayashi, sem stofnaði fyrstu reikimiðstöðina í Tokyo.

         Árið 1935 kom til Hayashi ung, mjög veik kona, sem hét Hawaya Takata. Í reikimiðstöðinni fékk hún á skömmum tíma bót meina sinna. Á þessum árum var ekki til þess ætlast að konur í Japan fengjust við svona lagað, en um síðir fékk hún að taka I. og seinna II. Stig í Reiki. Hún flutti svo til Bandaríkjanna.

         Hayashi vissi vegna innsæis síns að stríð var yfirvofandi og einnig hvernig því mundi lykta. Því fór hann að gera ráðstafanir til að koma reikiþekkingunni frá Japan. Hann fór 1938 til Bandaríkjanna ásamt dóttur sinni og heimsótti Takötu og vígði hana til meistara. Að því loknu snéri hann aftur til Japan og þar sem hann vissi að stríð var á næstu grösum ákvað hann að nú skildi hann ljúka þessari jarðvist. Umvafinn ástvinum sínum fékk hann þrjú hjartaáföll sama daginn og kvaddi þennan heim.

         Takata hélt áfram að vinna með Reiki á Hawaii. Það var þó ekki fyrr en árið 1970 að hún hóf að vígja meistara og þegar hún kvaddi þennan heim í desember 1980 hafði hún vígt 21 meistara. Barnabarn Takötu, Fyllis Lei Fuoromoto tók við af henni og er nú yfirmeistari í Reiki.

         Í byrjun árs 1989 kom Dr. Paula Horan, bandarískur reikimeistari til Íslands til að halda reikinámskeið. Það ár vígðist, Guðrún Óladóttir til reikimeistara og varð fyrsti reikimeistari á Norðurlöndum. Síðan þá hefur hún þjálfað marga reikimeistara hér á landi og nemendur hennar sem eru orðin reikimeistarar hafa sum hver einnig þjálfað meistara. En þúsundir íslendinga hafa lært I. stig í Reiki eða meira.

 

                       

                                                Að lokum.

 

         Ég vona að með þessum línum hafi mér tekist að fara nokkrum orðum um Reiki, þannig að þeir sem ekki þekkja fái örlitla innsýn. Ég vil taka það fram að það sem ég hef skrifað er Reikið eins og það kemur mér fyrir sjónir og sú reynsla sem ég hef, sem er mjög jákvæð. Mér hefur tekist að lækna sjálfa mig af ýmsum kvillum og það hef ég einnig séð annað fólk gera. Staðreyndin er að ég lækna auðvitað engann nema sjálfa mig. Hver og einn læknar sig og þeir sem vinna með Reiki eru einungis tengiliður til þess að þyggjandinn geti nýtt sér orkuna. Hver og einn læknar sig sjálfur og ræður hvernig orkan notast. En það er ekki hægt að gera neitt rangt. Það var það sem gladdi mig mest í upphafi, ég þurfti ekki að vera hrædd um að skaða eða skemma, ég er einungis eins og framlengingarsnúra, farvegur fyrir orku sem fólk, dýr eða plöntur geta nýtt sér.

         En ég var heppin. Ég fann leiðina mína, ég fann Reiki. Ég vona að þú lesandi góður finnir þér hentuga leið til að vinna með sjálfan þig og halda þér í jafnvægi. Við eigum svo margt gott sem við getum nýtt okkur, dásamlega náttúru, hreint loft og vatn, heilbrigða fæðu og aðgang að alheimsorku. Við erum öll skipstjórar á eigin skipi og höfum val í okkar lífi. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og hamingju í framtíðinni.

                                                           

         

11.08.2011 08:43

Ný sýn með mínum augum 2

2. grein.

 

         Í fyrstu grein minni fór ég yfir nokkur atriði sem við getum notað til að bæta líf okkar og verða jákæðari í hugsun. Þá var ég að fjalla um bænina, fyrirgefninguna og kærleikann. Nú langar mig til að halda áfram að fjalla um fleiri atriði sem hjálpa okkur í því að líða betur. Við þurfum á því að halda að elska sjálf okkur, virða og gefa okkur tækifæri.

         Frelsi er eitt af því sem við verðum að hafa í okkar lífi til þess að okkur geti liðið vel. Það frelsi sem ég er að tala um er einmitt undir okkur sjálfum komið og við ein getum veitt frelsi inn í okkar eigið líf.

 

                                                Frelsi.

 

         "Öll eigum við skilyrðislausan rétt á því að hafa fullkomið frelsi í okkar lífi. Frelsi til þess að vera hamingjusöm, láta gott af okkur leiða. Frelsi til þess að birta það sem við viljum. Frelsi til þess að velja þá leið sem við kjósum í þroskagöngu okkar. Guð gaf okkur frjálst val. Það er stærsta gjöf sem við getum fengið. Guð gaf okkur algert frelsi. Skoðum þá staðreynd og hugsum vandlega um það hvernig við nýtum þessa stórkostlegu gjöf.

         Hvað er það sem veitir okkur frelsi? Frelsi okkar felst fyrst og fremst í því að vera hverja stund við sjálf. Við getum átt og nýtt okkar fullkomna frelsi án þess að hefta frelsi annara. Við meigum ekki taka valið af öðru fólki. Þá erum við að taka af því möguleika til þroska og þá erum við að taka af því frelsi sem hver og einn á. Það er eitt að leiðbeina og vera til staðar fyrir fólk og annað að þröngva vilja sínum inn á aðra.

         Hugsum um það munstur sem viðgengst hjá okkur sjálfum og fjölskyldum okkar. Sú manneskja sem sviptir okkur oftast frelsi, erum við sjálf. Við viljum að sjálfsögðu breyta rétt, Það gerum við með því að hlýða kalli hjartans og hlusta á okkar innri rödd. En oft á tíðum erum við að taka burt okkar eigið frelsi vegna þess að við höldum að öðrum líki ekki við okkur ef við erum við sjálf. En er það ekki einmitt fólkið sem við dáumst að sem gefur sjálfu sér frelsi?

         Það er frelsi að segja skoðun sína, birta þá sköpun og tjáningu sem við þurfum, hverju sinni. Við eigum einnig að muna að orð geta sært og brotið fólk niður. En þó að við viljum muna þennan sannleik, þá er ekki þar með sagt að við eigum að tala gegn sannfæringu okkar einungis til þess að aðrir heyri það sem þeir vilja heyra. Verum ávalt sönn í því sem við birtum, þá mun vel fara. Þannig getum við hjálpað hvert öðru til þess að öðlast sitt frelsi. Frelsi til þess að birta það sem hver og einn getur og vill hverju sinni.

         Ef til vill finnst okkur stundum að annað fólk svipti okkur frelsi, vilji hafa okkur eftir sínu höfði. Skoðum þá hvernig við komum fram við annað fólk, t.d. börnin okkar. Við eigum að kenna þeim allt það besta til þess að þeim gangi vel í lífinu og finni sig í samfélagi okkar. En við erum þess einnig megnug að gefa þeim stórkostlegt frelsi. Við getum gefið þeim frelsi til að elska, vera þau sjálf, komast í snertingu við náttúruna, hreyfa sig, velja fötin sín, liti í herbergi og taka þátt í sameiginlegum ákvörðunum. Um leið og við gefum öðru fólki frelsi erum við að gefa okkur sjálfum frelsi um leið.

         Í gegnum frelsi er hægt að kenna svo ótalmarga hluti. Segjum að barnið þitt þrái að eignast gæludýr. Gott og vel, ef allir á heimilinu eru sáttir. En við getum um leið kennt barninu að bera ábyrgð á því sem það velur. Það þarf sjálft að hugsa um dýrið, gefa því að borða, þrýfa eftir það, sinna félagslegri þörf þess og sjá því fyrir hreyfingu og auðsýna því ástúð. Það getur verið leiðigjant og þreytandi að bera ábyrgð, þó ekki sé nema á einni lítilli mús. En með þessum yndislegu dæmum úr okkar daglega lífi getum við kennt svo góða hluti. Við lærum að velja fyrir okkur sjálf, taka ábyrgð á vali okkar og því sem við gerum.

         Það er yndislegt að hafa frelsi, en margt fólk er alið uppí því að aðrir taki fyrir það allar ákvarðanir. Vant því að aðrir axli ábyrgð sem það sjálft ætti að axla. Við berum ábyrgð á okkur sjálf og við erum þau einu sem getum notað frelsi okkar, sem Guð gaf.

         Leyfum okkur að vera frjáls. Leyfum okkur að láta okkur dreyma. Leyfum okkur að njóta augnabliksins og leyfum öðrum að vera þeir sjálfir. Með frelsinu hjá okkur  kennum við öðrum að gefa sjálfum sér frelsi. Þannig getum við komið meiri jákvæðni inn í líf okkar og annara.

         Gefið ykkur líka frelsi til þess að gera það sem ykkur hefur alltaf langað. Þó að við séum fullorðin þá eigum við kannski drauma sem við sjáum ekki að geti ræst. Til dæmis í sambandi við nám. Við heftum okkur sjálf með alskyns afsökunum. Við getum ekki farið að læra af því að við erum of langt frá skólanum, af því að við eigum ekki næga peninga, höfum of stóra fjölskyldu eða erum of gömul. Þið vitið að við erum oftast að búa þessar ástæður til. Við ákveðum oft fyrir aðra, hluti sem eru kannski ekki einu sinni í huga þeirra sem hlut eiga að máli.

         Höldum áfram að tala um námið. Nú er hægt að stunda fjarnám mjög víða, kannski er fjölskyldan meira en tilbúin til að hjálpa til, kannski er hægt að draga saman útgjöld og þetta með aldurinn er lélegasta afsökunin. En þá er spurningin. Er þetta það sem við viljum eða erum við að láta aðra halda að ef við værum í betri aðstæðum þá nýttum við líf okkar á annan hátt? Skoðið þetta vel. Því að þetta dæmi á við svo margt, sambönd, vinnu, félagslíf og margt fleira.

         Stundum erum við hrædd við breytingar og viljum kannski ekki breyta okkar lífi. Það er allt í lagi. Við eigum okkar val og það er engin sem segir að eitthvað starf sé betra eða mikilvægara en annað. Skoðum vel í hugskoti okkar hvað það er sem við viljum og leyfum okkur að vera frjáls. Við þurfum ekki að fela okkur á bak við neitt: Ég get ekki af því að ...         

         Við eigum val og frelsi til að breyta okkar lífi eða halda því í þeim skorðum sem það er. Við ráðum þessu sjálf, fyrir okkur sjálf. Verum frjáls og njótum þess sem við höfum. Leyfum okkur að svífa um í huganum og sjá fyrir okkur allt það góða og fallega sem við óskum. Óskum als hins besta fyrir okkur sjálf, fyrir aðra og fyrir jörðina okkar. Okkur er frjálst að biðja um allt gott okkur til handa. Munið það.

         Gefið ykkur frelsi til þess að losna við það sem þið viljið úr ykkar lífi. Þannig gefið þið einnig öðrum tækifæri. Gefið ykkur einnig frelsi til þess að öðlast það sem þið þráið og ná þangað sem þið viljið ná. Þannig gefið þið einnig öðrum frelsi. Lærið að njóta. Þið eruð frjáls og möguleikarnir eru óþrjótandi.

 

                                    Frelsishugleiðsla.

 

         Sitjið með lokuð augun og slakið á. Líkaminn er afslappaður og þið andið rólega og kyrrið hugann. Ykkur líður dásamlega vel. Mikill friður fyllir sál ykkar og þið finnið að þið getið gert allt sem þið viljið. Allt sem áður hefur truflað ykkur gerir það ekki lengur. Þið slakið enn betur á og hver fruma er fullkomlega afslöppuð og í jafnvægi.

         Sjáið fyrir ykkur eða finnið að út úr bakinu ykkar spretta vængir. Um leið og það gerist léttir af ykkur öllum áhyggjum, ef einhverjar hafa verið. Þið eigið þessa vængi. Þið hafið alltaf átt þá en nú ætlið þið að fara að nota þá, því að þið vitið að þið eruð fullkomlega frjáls.

         Breiðið út vængina og finnið hvernig frelsistilfinning flæðir um sál ykkar. Þið lyftist hægt og rólega og nú getið þið svifið um á vængjunum ykkar hvert sem þið óskið, frjáls og óheft.

         Öll gömul höft hverfa á braut. Það er ekkert sem bindur ykkur nema það sem þið hafið sjálf valið og getið breytt hvenær sem er.

         Þið svífið upp í bláan himininn, finnið hvernig friður fyllir hjörtu ykkar, gleði og eftirvænting þyrlast um ykkur. Þið eruð frjáls og þið getið flogið hvert sem er.

         Leikið ykkur um himingeiminn. Svífið á milli stjarnanna og njótið þess að finna kærleiksorkuna sem umvefur ykkur. Alheimurinn er sneisafullur af kærleik. Það er nóg til. Þið getið alltaf náð ykkur í alla þá orku sem þið óskið, allan þann kærleik sem þið viljið. Þið eruð frjáls, umvafin af hamingjutilfinningu og þið vitið að ekkert verður eins og áður.

         Þar sem þið svífið um himingeiminn, leyfið ykkur þá að biðja um það sem þið viljið. Bænir ykkar eru heyrðar. Ef til vill hittið þið aðra sem einnig eru að gefa sér frelsi og svífa á vængjunum sínum til þess að ná sér í kærleik og frið.

         Þegar þið hafið svifið um eins og þið viljið skuluð þið koma til baka og setjast í sætin ykkar. Þið eruð frjáls og þið eigið þessa vængi sem þið getið notað hvenær sem er. Frelsið gerir vængina ykkar virka. Með ykkur kemur til baka þessi frelsistilfinning sem í senn vekur gleði og hugljómun. Þið eruð fullkomlega frjáls.

         Nú skuluð þið opna augun. Frjálsar guðlegar verur í heimi frelsis".

 

         Hugleiðslur eða æfingar eins og þessar getið þið notað ein og sér eða í hóp, sem þá er gott að einhver leiði hugleiðsluna í rólegheitunum, þannig verður slökunin meiri og þið finnið einnig samkenndina með hinum sem einnig eru að vinna þessa dásamlegu vinnu.

 

                                                Draumar.

 

 

         Það er svo ótalmargt sem við veltum fyrir okkur dag hvern og ótalmargar leiðir til þess að finna svörin innra með sér og fá hjálp. Eitt af því eru draumar okkar. Öll dreymir okkur og ef við tökum eftir draumunum okkar og skrifum þá niður geta þeir sagt okkur mjög margt um okkur sjálf, ótta okkar og það sem koma skal. Þeir sem eru með okkur, leiðbeinendur og andlegir meistarar gera allt sem þeir geta til að fá okkur til að hlusta og ná athygli okkar. Ein af þeim leiðum er einmitt draumarnir. Stundum eru draumar okkar martraðir og ástæðan er yfirleitt sú að við erum að nýta draumana til að hreinsa út hjá okkur og því ekkert að óttast. Eftir að ég komst að þessu hef ég átt betra með að umbera vonda drauma. Eftir vondan draum, þakka ég bara fyrir og hugsa með mér að það sé gott að þetta hreinsaðist burt frá mér. Síðan sleppi ég hugsuninni og gleymi honum sem fyrst. Þetta finnst mér gott, vegna þess að það sem er neikvætt hjálpar mér ekkert til þess að komast þangað sem ég ætla. Aftur á móti eru aðrir draumar sem takandi er mark á.

         Ef þig langar til að ráða draumana þína, þá skrifaðu þá niður. Búðu síðan til þína eigin draumaráðningabók. Það getur verið mjög skemmtilegt að taka eftir þeim táknum sem koma fram hjá hverjum og einum. Það sem þýðir eitt fyrir mig getur þýtt allt annað fyrir þig. Með því að læra að muna draumana sína og halda draumadagbók getum við orðið margs vísari og fengið ótrúlegar upplýsingar er við erum farin að geta ráðið okkar eigin drauma.

         Ef það eru einhverjar spurningar sem brenna á okkur, getur verið ráð að skrifa niður spurninguna og stinga síðan miðanum undir koddann. Biðjum síðan um svar og vitum hvaða svör við fáum. Ef draumur fyrstu næturinnar svarar okkur ekki, skulum við ekki gefast upp, heldur biðja um nákvæmara svar. Þetta getur verið skemmtilegt og einnig gagnlegt.

         Það er svo ótalmargt skemmtilegt sem við getum gert í okkar andlegu vinnu, bæði ein og sér og einnig saman. Við getum stofnað hópa, bæði hugleiðslu og bænahópa, eða lestrarhópa þar sem fólk les sömu bókina og kryfur hana síðan, hver með sínum skilningi. Það að gera líf sitt jákvæðara er ótrúlega gott en á einnig að vera skemmtilegt. Við eigum að njóta als þess sem við gerum og finna okkar eigin leiðir til að njóta.

 

                                                            Framtíðin.

 

         Öll veltum við framtíðinni fyrir okkur. Hvað er það sem koma skal? Hvernig mun líf mitt verða eftir ár eða tíu ár? Allir hugsa fram á veginn, sumir með ótta í huga en aðrir með gleði. Við skulum velja gleðina og óska sjálfum okkur og öðrum dásamlegrar framtíðar.

         "Við vitum það og finnum í hjörtum okkar að í náinni framtíð munu margir hlutir breytast. Miklar og stórar hreinsanir munu eiga sér stað. Til þess að jörðin okkar geti orðið að því friðarríki sem okkur hefur verið lofað, þarf margt að laga og mikil uppbygging síðan að eiga sér stað.

         Við erum hér á þessari jörð til þess að hjálpa til við að skapa þessa nýju framtíð. Við eigum alla möguleika til þess að taka þátt í þessu yndislega starfi og síðan að njóta þess að vera hér þegar jörðin okkar verður orðin friðsæl, laus við sársauka og þjáningu. Það verður yndislegt.

         En áður en til þess kemur verðum við að breyta miklu og hreinsa út neikvæða hluti. Það sem við gerum fyrst er að byrja á okkur sjálfum. Við viljum birta guðdómleik okkar. Reynum hverja stund að vera þær manneskjur sem við viljum vera, njótum augnabliksins. Lærum að sjá fegurðina allt í kringum okkur, látum streyma frá okkur jákvæðar hugsanir og kærleik. Sjáum einnig í huga okkar hvernig allt breytist til hins betra í okkar lífi, annara lífi og lífi jarðarinnar okkar í heild.

         Það besta sem við getum gert fyrir móður jörð er að biðja fyrir henni og heila hana með kærleik okkar. En það er eins með jörðina okkar og okkur sjálf. Við viljum þyggja kærleik en við viljum einnig gefa frá okkur allt hið besta. Þannig er einnig með jörðina. Hún þráir það heitast að við græðum sárin hennar og einnig þráir hún að við þyggjum gjafir hennar.

         Takið eftir því þegar þið eruð úti í náttúrunni. Það er sama á hvaða árstíma er. Jörðin er full af orku sem hún vill gefa okkur, ómælda eins og við getum þegið og notað. Jörðin okkar vill einnig að við njótum ávaxta hennar, tökum það sem við þurfum, en sleppum allri græðgi. Við ættum einnig alltaf að muna að þakka fyrir okkur og allt sem við fáum. Þannig er flæðið rétt.

         Notum tímann vel. Gefum jörðinni heilun og kærleiksríkar hugsanir í hvert sinn sem við hugleiðum. Biðjum fyrir jörðinni okkar í hvert sinn sem við biðjum. Þannig getum við áorkað óendanlega miklu.

         Það að vekja aðra meðbræður okkar til meðvitunar um framtíðina og mikilvægi jarðarinnar er einnig stórt verkefni. Við verðum samt að muna að neyða aldrei fróðleik okkar og vitneskju til annars fólks, en ef fólk vill fræðast af þér þá notaðu milda kærleiksríka orku til þess að upplýsa fólk um það sem þú heldur að geri það kærleiksríkara og jákvæðara. Þú getur hjálpað mörgum sem eru óöruggir í dag. Sú vitneskja sem þú hefur og öðlast smátt og smátt gerir þig líka skilningsríkari.

         Orka jarðarinnar er að hækka mjög mikið. Á meðan við erum að venjast henni og þeim breytingum sem eiga sér stað allt í kringum okkur þá getur okkur liðið skringilega. Fólk er slappt og druslulegt, án þess að hafa til þess neina ástæðu. Það getur skapað óöryggi, pirring og áhyggjur. En ef við gerum okkur grein fyrir að þetta er eðlilegt ástand og líður hjá, þá eigum við auðveldara með að halda okkur í jafnvægi, þó svo að orkusveiflurnar á jörðinni séu misjafnar.

         Í framtíðinni mun enginn geta logið að þér. Nú strax ert þú farinn að skilja hvenær fólk er heiðarlegt og hvenær ekki. Það er ekki lengur hægt að plata þig eins og áður var. Finndu hvað það er gott.

         Í framtíðinni mun enginn særa þig. Jörðin verður friðsæll staður og smátt og smátt eru fleiri og fleiri að verða meðvitaðir um hlutverk sitt. Fleiri og fleiri verða meðvitaðir um guðsneistann í brjósti sér. Eftir því sem fleiri vinna meðvitað, þeim mun auðveldara er fyrir þá sem á eftir koma. Hugsið ykkur hve gleðilegt það er ef vinnan með sjálf okkur skilar því að aðrir njóti góðs af. Við sjálf verðum þessi ljós sem lýsa upp jörðina og við munum hjálpa öðrum til þess að tendra ljósin sín. Hugsið ykkur hve það er stórkostlegt. Við meigum samt aldrei dæma þá sem ekki eru vaknaðir til meðvitundar. Þeir geta vaknað allt í einu, gefið sjálfum sér tækifæri og meðtekið ljósið á mjög skömmum tíma.

         Orkan er að breytast, tíðnin að hækka. Það er þekkt staðreynd í vísindum að engir tveir hlutir geta verið á sama stað, annar verður að víkja. Það sama er að segja um orkuna. Ef ný orka hvolfist yfir okkur, verður sú gamla að hverfa. Svo lengi hefur mikil neikvæð orka verið á jörðinni okkar. En nú hefur þróunin snúist við. Fleiri og fleiri velja ljósið og myrkrið verður að hverfa á braut.

         Oft erum við hrædd við hið óþekkta, jafnvel þó að við vitum að við þurfum að breyta. En þó er það svo að þegar við höfum ákveðið að arka af stað veginn okkar nær ljósinu, þá er ekkert sem stöðvar okkur. Við fáum alla þá hjálp sem við biðjum um. Við neyðumst til að taka til hjá okkur, hreinsa út og vinna úr bældum tilfinningum. Það getur verið erfitt, en það er sannarlega þess virði. Við viljum og munum undirbúa okkur undir dásamlega framtíð, því meira sem við gerum í okkar andlegu vinnu því betra. Við skulum hjálpast að við að gera jörðina að þeirri paradís sem hún á að vera. Fyrir okkur sjálf, ástvini okkar og alla jarðarbúa.

         Við getum fundið fyrir hreinsunum í okkar efnislega líkama. Við getum einnig fundið fyrir hreinsun jarðar í efnislíkömum okkar. Stress, flökurleyki, andarteppa eða verkur fyrir hjarta eru einkenni fyrir samhyggð og samkennd með jörðinni og því sem móðir jörð fer í gegnum. Höfum ekki áhyggjur. Við verðum að læra eitt til þess að líða vel. Við verðum að venja okkur á að vera í jafnvægi. Með því að losa okkur við ótta og hleypa inn kærleik komum við jafnvægi á í lífi okkar. Óttalaus og kærleiksrík skulum við ganga mót framtíðinni. Framtíð sem við sköpum.

         Við verðum að þora að taka ábyrgð á okkur sjálfum og okkar lífi. Við skulum hætta að varpa ábyrgðinni á aðra. Við erum tilbúin til að axla þessa ábyrgð. Við erum tilbúin til að lifa hamingjusömu lífi. Við erum tilbúin til að lifa í alsnægtum.

         Trúum á yndislega framtíð og hjálpum til við að skapa hana. Við öxlum okkar ábyrgð og gleðjumst yfir öllu því góða sem kemur til okkar dag hvern. Sjáum heiminn með nýjum augum. Skuggarnir hverfa og ljósið skín í hvern afkima jarðarinnar og hvern afkima sálarinnar.

                                    Framtíðin er ljós.

                                    Framtíðin er kærleikur.

                                    Framtíðin er hamingja.

                                    Framtíðin er gleði.

                                    Framtíðin er okkar allra."

 

                                                "Ný sýn.

 

         Í lífi okkar eru oft einhver kaflaskil, einhverjar ákvarðanir sem að við tökum, eitthvað sem kemur óvænt uppá, eitthvað sem við veljum að breyta eða eitthvað sem við ákveðum að takast á við.

         Það er geysilega stórt skref að ákveða að vilja takast á við sína veikustu punkta, vinna með það sem við ef til vill höfum svo lengi lokað á. Það er stór gjöf sem við gefum sjálfum okkur þegar við ákveðum það, þá leggjum við af stað í ákveðna ferð. Ferðalag með okkar eigin sál.

         Á leiðinni lendum við oft í því að detta í sprungur og hrapa niður kletta. En áfram höldum við ótrauð. Það getur verið erfitt, býsna sárt og á stundum algerlega óþolandi. Við sveiflumst frá því að vera í hugljómunarástandi allt til þess að sjá ekkert nema erfiði, leiðindi og vonleysi. En við gefumst aldrei upp. Hver sveifla sem er að baki er reynsla sem við viljum ekki vera án. Smám saman vindum við ofan af kaðalhönkinni sem við áður lokuðum inni og vildum ekki skoða.

         Það getur verið erfitt að skoða það sem er liðið. Það getur verið erfitt að fyrirgefa, losa sig við reiði, áhyggjur, sorg, slæmar minningar, vonbrygði og höfnun. Allar þessar tilfinningar sem byggðar eru á ótta. Óttinn sem hefur nagað okkur upp að innan og stundum fyllt sál okkar verður að víkja og kærleikur fyllir okkur. Við ýtum óttanum burt og fyllum sál okkar og vitund af kærleika og ljósi Guðs. Á þeim stundum sem við upplifum þessa frjálsu kærleikstilfinningu, sjáum við ekki eftir þeim stundum sem við erfiðuðum  með svita og tárum að moka óttanum út. Þetta er vinna sem enginn getur unnið fyrir okkur. Við fáum leiðbeiningu en vinnuna vinnum við sjálf. Því getum við verið stolt af okkur sjálfum fyrir vinnuna okkar. Fyrir hverja neikvæða tilfinningu sem við losum okkur við og breytum í jákvæða.

         En þrátt fyrir stritið og uppgjöf á stundum, þá finnum við í þessari vinnu að með hverjum deginum verður okkur léttara um, við eigum auðveldara með að halda áfram og við verðum frjálsari og hamingjusamari.

         Vissulega breytist lífið ekki á þann veg að við verðum verkefnalaus einn daginn. Aldeilis ekki, enda er það ekki það sem við óskum eftir. Við erum hér á þessari jörð til þess að þroska okkur sjálf og vera þeir gæslumenn jarðarinnar sem við eigum að vera. Við erum að taka þátt í ómetanlegu starfi og það eru forréttindi að fá að vera á jörðinni einmitt nú á tímum umbreytinga og framfara. Jörðin okkar er að upphefjast í ljósið. Það gerist með því að við hvert og eitt okkar hleypum ljósinu inn í líf okkar og breiðum það út. Lífið er stórkostlegt tækifæri og við skulum nýta hverja stund á þann veg sem við teljum best.

         Við eigum val sem við eigum að nýta. Við getum valið að vera í jafnvægi og það er okkar eðlilega ástand. Við eigum að vera heilbrigð, hamingjusöm og lifa í friði. Við meigum það og þannig viljum við að framtíðin sé. Þeim mun fleiri sem kjósa ljósið og friðinn þeim mun fyrr verður það að veruleika.

         Að vinna með sjálfan sig er ekki eingöngu að hjálpa sjálfum sér heldur hefur það ómetanleg áhrif á heildina. Þessu skulum við aldrei gleyma. Þeim mun betur sem okkur líður, hverju og einu, þeim mun betur líður heildinni. Skuggarnir verða að víkja og ljósið kemur í staðinn. Við birtum guðdóminn og meigum njóta þess sem Guð gaf okkur.

         Um leið og við vinnum með jafnvægið í okkur sjálfum vinnum við með jafnvægi þess sem við höfum skapað í kringum okkur. Ef við komumst í jafnvægi og höldum því, þá kemst einnig jafnvægi á sambönd okkar við annað fólk, jafnvægi á aðstæður í lífi okkar, hvort sem við erum að tala um heilbrigði, fjármál, atvinnumál, eða eitthvað annað. Þó að ótrúlegt sé, þá hangir allt á sömu spýtunni. Ef þú elskar sjálfan þig og hefur vald á lífi þínu þá hefur þú einnig úr nægu að moða á hinu efnislega sviði.

         Skoðum þetta aðeins. Kröfur okkar til okkar sjálfra eru jafn misjafnar og við erum mörg. Berum okkur aldrei saman við aðra. Berum okkur aðeins saman við okkur sjálf og hvað við viljum vera. Við getum orðið það sem við viljum vera og það hefur ekkert með það að gera hvaða kröfur aðrir gera til sín. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm. Tökum dæmi: Sumir telja alsnæktir í sínu lífi ef þeir gefa keypt allt það sem þeim dettur í hug, aðrir telja sig hafa alsnægtir ef þeir hafa hrísgrjónaskál og járnplötu yfir höfuðið. Hvort tveggja er jafn gott, einnig allt þarna á milli. Við meigum velja fyrir okkur. Það er ein af gjöfum Guðs og við skulum þakka það.

         Við getum líka talað um annað. Einhver telur það æðstu köllun sína að verða páfi í Róm, annar telur það æðstu köllun sína að vera valdalaus líknari í fátækrahverfi. Aðrir vilja vera efnaðir og hafa völd á sviði stjórnmála og telja það æðstu köllun sína. Hvað sem er er gott, ef það er það sem við þráum og teljum að með því getum við best birt guðdóminn. Dæmum aldrei. Verum við sjálf og fylgjum því sem hjartað segir okkur. En þrátt fyrir allt. Við erum öll að vinna með fólk og með fólki, hvað sem við erum að gera. Við höfum áhrif á aðra hvaða starfsheiti sem við höfum. Við getum því alltaf breytt út ljós og kærleika, hvort sem er með viðmóti, brosi, orðum eða athöfnum. Það er ekki lítið.

         Það er erfitt að fyrirgefa, en ef til vill er erfiðast að fyrirgefa sjálfum sér. Hvað gerði ég, hvað gerði ég ekki? Ef til vill hefði ég getað gert eitthvað. Hve oft höfum við ekki hugsað eitthvað þessu líkt. Hættum því. Við skulum fyrirgefa sjálfum okkur ef okkur finnst við hafa gert rangt, en munum alltaf að þá (í fortíðinni) vorum við á öðrum stað í þroska og héldum ef til vill að við værum að gera okkar besta. Ef við höfum gert okkar besta þá, af hverju höfum við þá sektarkennd nú? Hið liðna er liðið og við verðum að læra að lifa í nútíðinni. Það er augnablikið sem skiptir máli. Þetta mikilvæga augnablik sem er einmitt nú og kemur ekki aftur. Reynum að njóta þess sem er hverja stund, þá mun lífið verða auðveldara og við eigum betra með að halda jafnvægi okkar.

         Stundum fáum við okkur fullsödd af því að vera góð og jákvæð. Það koma stundir þar sem allt gengur á afturfótunum og margir hlutir áreyta okkur í einu. Á slíkum stundum er gott að komast út í náttúruna, reyna að eiga stund með sjálfum sér, tala við Guð og ná jafnvægi okkar á ný. Guð er alveg til í að hlusta jafnvel þó að okkur vanti að losna við pirring og leiða. Hann er svo sannarlega tilbúinn til þess að aðstoða okkur við að eyða burt óttanum og hann á óendanlega mikinn kærleik til handa okkur öllum. Guð getur og vill hjálpa okkur. Við skulum biðja um hjálpina.

         Það getur líka verið mjög gott að reyna á sig líkamlega ef við erum andlega þreytt. Góður göngutúr getur breytt fúlum degi í ágætisdag. Ef við getum farið í verk þar sem við tökum á er það gott. Við getum til dæmis hamast á gólfunum okkar, skúrað og skrúbbað. Tvöfaldur árangur. Skíturinn fer og pirringurinn ríkur út í veður og vind. Eftir slík átök eigum við líka skilið að dekra við okkur sjálf of láta okkur líða vel. Það versta sem við getum gert er að velta okkur upp úr vandamálinu þegar við erum niðurdregin. Við verðum enn niðurdreignari og hreinsum ekki burt ótta okkar með því móti.

         Það er auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma. En við getum valið og höfum valið. Við höfum valið leiðina til ljóssins og það er stórkostlegt. Enginn hefur orðið heimsmeistari án þess að reyna á sig, aga sig og þjálfa. Við erum í agaprógrammi hjá okkur sjálfum og við völdum það sjálf. En árangurinn mun heldur ekki láta á sér standa. Við höfum öll fundið það. Fundið hvað það er gott að losna úr viðjum vanans, brjóta hlekki, gefa sjálfum sér tækifæri og frelsi til að vera hamingjusamari og glaðari.

         Við erum öll stórkostlegar verur sem búum yfir orku sem er sterkari og mátturgi en nokkuð annað í þessum heimi. Okkar eigin hugarorku. Með henni sköpum við alla hluti í okkar lífi áður en við birtum þá. Með henni getum við sent ljós og kærleik hverja stund og árangurinn er stórkostlegur. Því miður nota sumir þessa orku til að senda frá sér neikvæðar hugsanir út í umhverfi sitt, sem fyrst og fremst skaða þann sem sendir. En ljósið er sterkara en myrkrið og ljósið mun ávalt hafa vinninginn hvað sem á dynur."

 

                                    Að rækta sjálfan sig.

 

         Allan tímann er ég búin að tala um að vera jákvæðari, kærleiksríkari og glaðari. Það er mikilvægt. En það eru fleiri hlutir sem eru mikilvægir í sjálfsrækt sem hjálpa okkur að ná jafnvægi. Við þurfum að finna farveginn okkar, fá útrás fyrir sköpun okkar og þurfum að geta tjáð okkur.

         Það eru mörg sköpunar og tjáningarform til og ég fullyrði það að öll þurfum við á því að halda að skapa og að tjá okkur. Sumir skapa með pensli, aðrir með penna, enn aðrir með handverki og svo mætti lengi telja. Ef þú finnur farveg fyrir sköpunarþörf þína og nýtir hana þér til gagns og gleði þá ertu vel staddur. Ekkert er betra en að skapa fallega hluti, tónlist, smíða hús, vinna flókið hugverk, hvað sem er. Ef það gefur okkur gleði og ánægju, þá er það okkur sjálfum og öðrum til góðs.

         Það þurfa líka allir á því að halda að geta tjáð sig. Sumir gera það með því að tala, syngja, dansa, yrkja eða á einhvern annan hátt. Sköpun og tjáning eru af sama brunni en þó að ég geti skrifað hugsanir mínar á blað getur verið erfitt fyrir mig að tjá það frá sjálfri mér. Þetta fann ég best er ég fór að kenna reiki og fann hve óendanlega mikið ég hafði út úr kennslunni, að fá að kenna þessa heilunaraðferð með minni tungu og sjá að aðrir nutu góðs af. Áður en ég fann mig í þessari vinnu skalf ég af tilhugsuninni um að fara upp í ræðupúlt, jafnvel þó að ég væri einungis að lesa uppúr eigin verkum. Staðreyndin er sú að þegar þú finnur sannleika þess sem þú tjáir innra með þér þá bresta öll höft og feimni og minnimáttarkennd hverfa á braut.

         Það að finna sér leið til andlegrar vinnu og þroska getur hjálpað okkur á svo margan hátt. Lengi vel var ég þess fullviss að ef ég færi að vinna við andleg mál þá þyrfti ég að ýta burt flestu úr mínu lífi. Ég trúði því ekki að ég gæti samtímis verið að skrifa glæpaskáldsögur og kenna fólki heilun. En ég komst auðvitað að því að þetta var alrangt. Það að skrifa glæpaskáldsögur er ákveðin útrás fyrir mig, ég er að skapa afþreyingu sem mér finnst skemmtileg og því er ekkert að því. Ég er ekki að fremja glæp.

         Við getum öll fundið góðar leiðir sem gefa okkur mikið án þess að yfirgefa okkar fyrra líf. Við eigum valið. Auðvitað erum við alltaf að hreinsa út og losa okkur við það sem við viljum ekki hafa. Það er gott. En það er ekki fórn að stunda andlega vinnu, öðru nær. Það er dásamleg viðbót við þetta skemmtilega jarðarlíf okkar sem mér finnst að við eigum að njóta sem allra best. Njóta augnabliksins og finna hve lánsöm við erum að vera hér. Það sem okkur finnst neikvætt skulum við breyta og opna augun fyrir öllum möguleikunum sem við höfum. Þeir eru óþrjótandi.

         Það sem skiptir máli er okkar eigin upplifun. Það eru ekki aðstæðurnar í okkar lífi sem skipta máli, það er hvernig við tökum á þeim. Höfum það hugfast og munum að ef við getum fundið eitthvað jákvætt við hvert og eitt atvik þá er það gott. Stundum eru slæmu hlutirnir góðir þegar til lengri tíma er litið og við sjáum oft að við hefðum ekki viljað missa af reynslunni sem við öðluðumst.

         Ég hef nú fengið frábært tækifæri til að fjalla um nokkur atriði sem mér finnst skipta höfuðmáli í lífi okkar svo að okkur geti liðið vel. Þetta eru einfaldar staðreyndir sem við öll getum nýtt okkur hverja þá leið sem við veljum okkur til hjálpar og heilunar. Ekkert af því sem ég hef skrifað er nýtt, en ég veit að eigin reynslu að því oftar sem við erum minnt á, því betra. Það getur verið auðvelt að gleyma því góða sem maður hefur tamið sér, maður getur hreinlega gleymt að nota það í erli dagsins. En öll höfum við gott af því að staldra við öðru hvoru og gefa okkur tíma fyrir okkur sjálf.

         Í næstu greinum mínum mun ég fjalla um óhefðbundnar lækningar og byrja þá á umfjöllun um grasalækningar og ýmsar heilunaraðferðir. Ég hef fengið fagfólk til að aðstoða mig, þar sem ég trúi að það verði ef til vill til þess að þú eigir auðveldara með að finna leið sem hjálpar þér. Það er svo margt gott sem fólk í kringum okkur er að vinna og dásamlegt að finna leiðir sem hjálpa manni hvort sem um er að ræða sjálfsrækt eða heilun á líkamlegum kvillur. Ég tel að best sé að vinna saman. Sem betur fer eigum við mjög færa og góða lækna á Íslandi og fagfólk í heilbrigðiskerfinu sem er að vinna ómetanlega vinnu. Ég tel að með því að nota óhefðbundnar lækningar með hefðbundnum séum við að gefa okkur stórkostleg tækifæri. Við getum gert margt ein og sér en saman getum við gert stórkostlega hluti.

         Ég veit að það eru ekki allir sem trúa á Guð, þó að ég geri það. En öll trúum við á eitthvað, hið góða í lífinu, okkur sjálfum og köllum okkar alheimslegu verönd misjöfnum nöfnum. Ég trúi því að allt sé þetta sama uppsprettan og því getum við öll unnið saman, hvað svo sem við viljum kalla hina miklu uppsprettu ljóssins. Ég læt fylgja með bréf sem ég skrifaði fyrir mig, til að hjálpa mér að muna. Ef til vill getur hugmyndin nýtst ykkur á einhvern hátt.

 

                                                Ég trúi...

 

         Ég trúi og finn að ég er guðleg vera. Ég trúi á Guð og trúi því að í mér búi guðsneisti sem lýsir upp líf mitt. Ég trúi á hið guðlega í hverri manneskju og ég trúi á hið guðlega í hverju lífi. Ég trúi að birting Guðs sé fullkomin í allri sköpun.

         Ég trúi og finn að ég er falleg manneskja, full af kærleik og hlýju sem ég er reiðubúin að deila með sjálfri mér, samferðafólki mínu og sérhverri sköpun Guðs. Ég trúi og finn að í lífi mínu er allt af hinu góða og ég veit að sérhver reynsla mín færir mig feti framar í þroskagöngu minni sem ég hef sjálf valið.

         Ég trúi og finn að ég get allt. Ég er frjáls, hamingjusöm vera sem ber ábyrgð á lífi mínu. Ég trúi og finn að ég á frjálst val í lífi mínu. Ég trúi og finn að ég hef valið LJÓSIÐ fyrir mig.

         Ég trúi og finn að ég er elskuð. Ég trúi og finn að ég á skilið virðingu. Ég trúi og finn að ég mun eftirleiðis hafa fullt vald í mínu lífi. Allt sem ég vel er á mína ábyrgð og ég hef leyfi til að breyta vali mínu hvenær sem ég vil. Ég trúi og finn að ég treysti sjálfri mér. Ég trúi og finn að ég er traustsins verð.

         Ég trúi og finn að ég er laus við alla reiði. Ég trúi og finn að engar áhyggjur eru lengur í mínu lífi. Ég trúi og finn að þar sem ég sinni störfum mínum af heiðarleik, mun aldrei framar verða sektarkennd í mínu lífi. Ég er þakklát fyrir hver ég er og allt sem ég hef. Ég mun ávalt hafa nóg. Í mínu lífi eru alsnægtir á öllum sviðum og ég á þær skilið.

         Ég trúi og finn að ég færi hvern dag enn meira ljós og kærleik inn í líf mitt og annara. Ég trúi og finn að ég get lagt mitt af mörkum til þess að breyta jörðinni í þá paradís sem hún á að vera. Ég trúi og finn að ég er fullkomlega frjáls. Ég trúi og finn að ég get talað við Guð og beðið um það sem ég óska. Ég trúi og finn að ég er bænheyrð og ég þakka Guði fyrir allt sem hann færir mér.

                                    Ég trúi og finn fyrir Guði.

                                    Ég trúi og finn að ég treysti Guði fullkomlega.

                                    Ég trúi og finn að ég er ljós Guðs.

                                    Ég trúi og finn að ég er í fullkomnu jafnvægi.

                                    Ég trúi og finn að ég er hamingjusöm.

                                    Ég trúi og finn að ég er fullkomin vera, sköpuð af Guði.

                                    Ég trúi og finn að allt er fullkomlega rétt.

 

         Þetta er mín einlægt trú.

                                                            Megi líf ykkar alltaf verða fullt af ljósi og friði.

                                                                        i

        

 

        

         

10.08.2011 09:52

Ný sýn með mínum augum

1.grein.

 

         Öll leitum við sannleikans og leiða til að gera líf okkar betra. Það eru mýmargar ástæður fyrir því að við hefjum þessa leit, kannski vantar okkur lífsfyllingu, lífsgæðakapphlaupið tekur frá okkur orku en gefur of lítið í staðinn. Við getum verið að berjast við sjúkdóma andlega eða líkamlega, hjá okkur sjálfum eða einhverjum okkur nákomnum. Slæm reynsla fortíðar verður þess líka oft valdandi að við reynum að finna leiðir sem hjálpa okkur til betra lífs, þær eru margar til og misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Annað er líka sem oft rekur fólk af stað, fróðleiksfýsn. Við viljum vita og kanna ýmislegt sem er ekki hægt að snerta eða horfa á með berum augum. Öll vitum við innst inni að hamingjan er ekki hið ytra, hún býr innra með okkur og þangað þurfum við að sækja hana sjálf.

         Það er margt sem getur hjálpað okkur í þessari leit. Við getum fundið okkur andlega leiðbeinendur sem eru þjálfaðir til þess að aðstoða. Við getum lært ýmsar aðferðir til að heila okkur sjálf, bæði líkamlega og andlega. Það eru margar leiðir til þess og hver og einn verður að finna þá leið sem honum best hentar til þess að hjálpa sjálfum sér.

         Þegar ég fór af stað að leita fyllingar í mitt andlega líf, þá sótti ég mörg námskeið og kynntist góðu fólki sem leiddi mig í ýmsan sannleik og opnaði mér dyr sem síðan hafa reynst mér afar vel. Alstaðar voru góðir punktar til að vinna með og nota. Það var þó ekki fyrr en ég kynntist reiki hjá Guðrúnu Óladóttur reikimeistara sem líf mitt tók heljarstökk. Ég var allt í einu komin með dásamlega hluti í hendurnar, mér og öðrum til góðs. Ég upplifði það sem mér fannst kraftaverk í mínu lífi og eftir það varð ekki aftur snúið. Þörfin til að læra meira og öðlast tækifæri til að uppfræða aðra um þessa frábæru leið var algjör og mér öðlaðist það lán að fá að verða reikimeistari sjálf. Þetta er einföld leið til að heila sjálfa sig og aðra, en um leið ferð til sjálfsræktar þar sem maður lærir svo marga nytsamlega hluti til að nota í lífi sínu. Reiki geta allir lært og hefur Guðrún kennt miklum fjölda fólks hér og erlendis þessa einföldu en áhrifaríku aðferð, auk þess sem hún hefur sjálf þjálfað reikimeistara sem eru að kenna hér og þannig veltur boltinn áfram.

         Ég hef þó ekki hugsað mér að láta þessa grein fjalla um reiki en geri það síðar. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er að sýna frammá að með þessu móti getum við öll hjálpað okkur sjálfum til betra lífs. Við þurfum einungis að finna þá leið sem hentar okkur og nýta okkur hana til góðs. Með því kemst líf okkar í jafnvægi og við fáum notið þess að vera hér á okkar dásamlegu jörð. Ég er ekki að segja að ein leið sé betri en önnur, öll erum við að vinna að því sama, að finna hamingjuna, ná innra jafnvægi og friði, lifa sátt, láta okkur líða betur á okkar fallegu jörð og láta draumana okkar rætast. Við erum sjálf þess megnug að breyta okkar lífi. Það sem við þurfum að gera er að velja það og halda svo af stað. Öll vitum við líka að með því að vinna saman hefst margfaldur árangur miðað við að vinna einn. Öll viljum við örugglega frið á jörð og hamingju fyrir alla.

         Í sjálfsrækt eru kenndar ýmsar aðferðir til að láta sér líða betur og breyta lífi sínu. Aðferðir sem hver sem er getur gert og notað í sínu lífi, þó að viðkomandi hafi ekki lært eitthvað ákveðið. Við vitum öll að það sem skiptir máli er að vera jákvæður, venja sig á að breyta því sem neikvætt er í jákvæða reynslu. Við getum að minnsta kosti verið viss um að hvað sem fyrir okkur kemur í lífinu, þá er það lærdómur sem færir okkur þroska. Hins vegar getur þessi lærdómur valdið okkur miklum sársauka og reiði, en það þurfum við síðan að vinna burt. Mikil reiði og vanlíðan getur valdið líkamlegum sjúkdómum, því staðreyndin er sú að allt hangir þetta á sömu spýtunni. Það er ástæða fyrir öllu og við verðum oft að leita djúpt til að finna rót þess sem er að.

         Ein aðferð til þess að losa sig við sársauka er að skrifa. Fyrir mér er best að skrifa Guði, honum treysti ég best og veit að hann sér um mig, honum get ég sagt allt og hann skilur vonbrygði mín og þrár. Það er einungis ein leið, sumir skrifa líðan sína á blað, brenna það síðan og sjá fyrir sér að eldurinn eyði því sem veldur þessari vanlíðan. Það er líka ótrúlega gott að skrifa niður markmið sín. Sjá hvað það er sem maður vill fá út úr lífinu og hvaða markmiðum maður vill ná. Spurningin er hvaða árangri vil ég ná á næstu vikum, næstu þremur mánuðum eða á næsta ári. Það er gott að skipta þessu niður, skrifa það nákvæmlega og treysta því að okkur auðnist að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Við verðum auðvitað að setja okkur raunhæf markmið. Ég get til dæmis ekki sett það í markmið næstu fjögurra vikna að ég vilji léttast um 12 kg.  Hins vegar get ég sett það á markmið næsta árs, vitandi það að með mínum viljastyrk get ég létt líkama minn á þessum tíma. Ég verð líka að vera tilbúin til að breyta um hugarfar og hlú betur að líkama mínum, með breyttu mataræði og meiri hreyfingu. Þetta er eitt af því sem svo margir eru að  glíma við en sprynga oft á vegna þess að þeir ætlast til að ná árangri of fljótt. Það er best að vera raunsær, leyfa hlutunum að gerast og vera glaður með hverja jákvæða breytingu sem við finnum. Þannig verður maður glaðari og um leið eykst árangurinn til muna. Ég þekki engan sem nær hámarks árangri með neikvæðri hugsun og vonleysi, það er gleði og vilji sem kemur okkur þangað sem við viljum fara.

 

                                    Að breyta ótta í kærleik.

 

         Það er tvennt sem einkennir sálarlíf okkar, kærleikur og ótti.  Einhverjum finnst það ef til vill einföldun á stórri tilfinningaflóru okkar mannanna, en ef grant er skoðað er það ekki svo flókið. Við getum alltaf skipt tilfinningum okkar í tvo flokka, þ.e.a.s. hvað það er sem orsakar tilfinningar okkar. Annars vegar er það kærleikur og hins vegar ótti.

         Ef við skoðum þetta örlítið nánar þá getum við séð hversu mjög þessi skipting auðveldar okkur lífið. Galdurinn er sá að við viljum öll eyða óttanum burt úr lífi okkar og fylla það af kærleik. Við getum hugsað okkur að við séum vatnsflaska eða stór og falleg leirkanna. Þessi kanna er alltaf full, en er hún full af kærleika eða er hún full af ótta? Svarið er yfirleitt á þá leið að upp að vissu marki er kannan full af kærleik en restin er ótti. Hlutfallið er auðvitað mismikið en það sem við getum gert til að bæta okkar eigin líðan er að losa burt óttan og fylla upp með kærleik. Þannig getum við smátt og smátt losað okkur við óttan og lifað kærleiksfullu lífi.

         Það er einfalt að segja, en erfiðara að framkvæma. Við getum byrjað á því að gera okkur grein fyrir í hvaða flokk tilfinningar okkar skiptast, hvað það er sem stjórnar þeim. Við getum gert tvo dálka og fundið nokkur atriði til að átta okkur á. Tökum dæmi. Afbrýðisemi fer í óttadálkinn og svo er einnig um reiði, eigingirni, áhyggjur og margt margt fleira. Sumum finnst kannski að áhyggjur séu byggðar á kærleika, en er svo? Ef við höfum áhyggjur af einhverjum eða okkur sjálfum er það þá ekki vegna þess að við treystum ekki viðkomandi til að sjá um sig og leysa sín mál. Traust er nefnilega byggt á kærleika, trú, gleði, og allar aðrar tilfinningar sem fylla okkur friði og ljósi.

         Það er afar góð lexía fyrir okkur öll að skoða reglulega tilfinningar okkar og gera okkur grein fyrir hve mikið af þeim er byggt á kærleika og hvað mikið af ótta. Með því að slaka á og losa um óttann getum við unnið á bæði andlegri og líkamlegri vellíðan.

         Það eru nokkur atriði sem er mjög algengt að við óttumst, að eitthvað komi fyrir ástvini okkar, að við séum svikin, að við veikjumst af hættulegum eða ólæknandi sjúkdómi og svo er það óttinn við dauðann. Auðvitað er mýmargt annað sem við óttumst, en þessi framantöldu atriði eru mjög algeng og vekja oft mjög mikinn ótta og myndir í huganum sem eru neikvæðar og einungis til að auka á óttann sem er fyrir. Það er mjög mikilvægt að breyta þeim myndum sem eru neikvæðar og koma inn í hugann. Tökum dæmi: Ef einhver nákominn ættingi er á ferð í óveðri og seinkar, hvað hugsum við þá? Hugsum við að viðkomandi hafi tafist vegna veðursins, sé að koma og við hlökkum til að hitta hann glaðan og kátan. Eða förum við að hugsa um að viðkomandi hafi ekið útaf, sé alblóðugur og hjálparlaus og jafnvel dáinn? Hvað er algengara?

         Það er mjög algengt að óttinn nái yfirhöndinni í huga okkar og skynsemin víki til hliðar. Við sjáum fyrir okkur slæma hluti, sjáum í huga okkar ástvini bregðast eða okkur mistakast. Þetta gerist hjá flestum og er eitt af því sem við breytum til að láta okkur líða betur. Munum að sjá alltaf fyrir okkur að allt fari á besta veg. Ef við erum alltaf bjartsýn þá líður okkur vel og ef eitthvað kemur uppá þá erum við betur búin undir að takast á við vandann. Það bætir ekkert að vera búinn að búa til einhverjar hryllingsmyndir í huga sér eða kvíða fyrir. Við reynum alltaf að gera okkar besta og það skulum við einnig trúa að aðrir geri. Við skulum trúa á okkur sjálf og treysta okkur sjálfum, við skulum einnig trúa á og treysta ástvinum okkar, það gerir heiminn betri.

         Tökum nú fallegu krukkuna okkar sem er við sjálf og fyllum hana smátt og smátt af kærleik. Í hvert sinn sem óttinn knýr að dyrum reynum þá að finna kærleiksríkar hugsanir til að ýta honum burt svo að krukkan okkar sé alltaf full af kærleik og við séum heilbrigð á sál og líkama. Það er lykillinn að hamingjunni.

 

 

                                    Fyrirgefning.

 

         Það sem skiptir sköpum í okkar andlegu líðan er fyrirgefning. Oft er ekki auðvelt að fyrirgefa, en munum eitt. Við getum fyrirgefið án þess að samþykkja það sem gert var á hluta okkar. Við fyrirgefum manneskjunni, okkur sjálfum eða hverjum þeim sem við berum  beiskan hug til, þótt við séum ósátt við gjörðir okkar eða annara sem við erum að fyrirgefa.

         Það að fyrirgefa ekki er eins og eitur í sálina okkar. Það skaðar ekki þann sem við erum reið eða sár við heldur okkur sjálf. Hví skildum við skaða okkur sjálf vegna einhvers sem einhver gerði okkur?

         Reynum að vera hlutlaus. Ef við berum frið í hjarta og engan kala til nokkurs þá líður okkur vel. Séum við full af reiði og hatri, þá líður okkur illa. Staðreyndin er sú að við verðum að losna við hatur og reiði úr huga okkar og ná sátt. Það getur verið mjög erfitt og er fullkomlega skiljanlegt, en hvernig sem okkur líður þá er gott að losna við þó ekki sé nema brot af biturð og reiði. Við vitum að þessar tilfinningar byggja á ótta og við viljum ekki vera full af ótta. Við viljum vera full að kærleik til þess að okkur líði vel og að við getum þannig látið öðrum líða vel líka.

         Kona sem ég þekki vel, lenti í því á unga aldri að vera nauðgað af manni úr fjölskyldunni. Lengi var hún reið og sár. Þessi maður, sem hún hafði treyst, hafði rænt hana sakleysi bernskunnar, meydómnum og saurgað líkama hennar. Hann hafði gert gat á sálina sem erfitt var að lækna. Hún hataði hann, sjálfa sig og líkama sinn. Hún setti upp kæruleysisgrímu, lést vera svöl og var á næstu árum með karlmönnum án þess að fá nokkuð út úr því. Hún var að hegna sjálfri sér, líkama sínum og smána sjálfa sig. Vanlíðanin var mikil en engin vissi hvers vegna hegðun hennar og líf breyttist svo mikið. Þegar hún fór svo, þá orðin fullorðin kona, að vinna í sínum málum kom í ljós hve stórt hlutverk þessi atburður hafði á allt hennar líf. Hún lærði að fyrirgefa, fyrirgefa sjálfri sér fyrir að hegna sér fyrir það sem hún átti enga sök á. Hún fyrirgaf gerandanum og óskaði þess eins að aðrar stúlkur lentu ekki í því sama. Hún samþykkti að sjálfsögðu ekki verknaðinn en hún fann og vissi að með fyrirgefningunni var hún að heila sjálfa sig og gefa sér ný tækifæri. Hún hugsaði líka sem svo að þessi slæma reynsla gæfi henni tækifæri til að skilja aðra sem höfðu lent í svipuðu og til þess að geta leiðbeint þeim um að fyrirgefa, að hjálpa þeim burt frá þessari slæmu reynslu.

         Sem betur fer þá höfum við ekki öll svona slæmar minningar en öll höfum við eitthvað, fólk hefur brugðist okkur, sært okkur eða meitt á einhvern hátt og einnig atburði sem við höfum sjálf gert og eigum erfitt með að sætta okkur við. Oft er erfiðast að fyrirgefa sjálfum sér. Staðreyndin er hins vegar sú að fyrirgefning er dásamleg leið til betra lífs og betri líðan.

 

                                    Bænin.

 

         Þegar ég var búin að kenna reiki í nokkur ár setti ég saman sjálfsræktarnámskeið sem ég kallaði "Ný sýn, með mínum augum", eins og þessa grein hér. Þar tók ég fyrir nokkur atriði, sem fólk gat á auðveldan hátt nýtt sér til hjálpar. Þessi námskeið gengu vel og því hef ég hugsað mér að nota hluta af því efni í þessum greinum. Það sem ég set innan gæsalappa er tekið beint uppúr þessu efni. Mig langar að fjalla nokkrum orðum um bænina, vegna þess að ég veit hve mikilvæg hún er og hversu mjög hún getur hjálpað okkur.

         "Munið að biðja hvern dag af öllu hjarta þess sem þið óskið. Munið að biðja nákvæmlega um það sem hjarta ykkar þráir. Biðjið fyrir sjálfum ykkur og öllum öðrum sem þið viljið hjálpa. Munið einnig að biðja alltaf fyrir jörðinni okkar.

         Verið óhrædd að biðja. Það er nóg til fyrir alla. Það er ekkert að því að vera heilbrigður, hamingjusamur og hafa alsnæktir bæði í efni og anda. Munið bara að vera viss um að það sem þið biðjið um sé ykkar einlægur vilji. Bænir ykkar og óskir eru heyrðar og þær munu rætast. Munið einnig að hugsanir ykkar eru hróp sem heyrast og hafa áhrif. Gætið því vel að hugsunum ykkar. Látið ekki neikvæðar og þungar hugsanir frá ykkur fara. Trúið því að þið eigið allt gott skilið og það mun koma til ykkar.

         Hugsanir eru jafn raunverulegar og orð eða athafnir. Hugsanir eru orka alveg eins og orð og athafnir eru orka, Nýtið þessa óþrjótandi krfatmiklu orku hugsana ykkar og bæna til þess að gera líf ykkar að þeirri paradís sem þið óskið. Þið skapið ykkar eigin heim, fyrst og fremst með hugsunum ykkar, sem síðan birtast í orðum og athöfnum.

         Hættið að vera bitur vegna þess sem var. Lítið á liðna erfiðleika sem kennsluefni, skref í þroskabraut ykkar. Þið sjálf hafið fullan rétt á að biðja um hið besta fyrir ykkur sjálf.

         Þið eigið skilið hamingju.

         Þið eigið skilið heilbrigði.

         Þið eigið skilið gleði.

         Þið eigið skilið alsnægtir.

         Þið eigið skilið gott líf.

         Þið eigið skilið farsæld á alla vegu.

         Biðjið um það og allt annað gott sem þið óskið og þráið. Ekki velta ykkur uppúr einhverju sem var. Horfið fram á veginn og sjáið hve óendanlega möguleika þið eigið til þess að öðlast hamingju og gleði.

         Ekkert er of smátt til þess að biðja um það. Ekkert er of stórt heldur. Hvert það smáatriði sem við viljum breyta eigum við að biðja um. Einnig hið stóra sem við þráum. Þannig sköpum við okkar eigin heim, eigin raunveruleika með hjálp Guðs.

         Ef þið eigið við heilsubrest að stríða, þá biðjið um heilbrigði. Ef þið viljið eignast maka og börn, þá biðjið um það. Ef þið eruð skuldug og viljið  peninga, þá biðjið um þá. Hvað sem er sem er sett fram á jákvæðan máta ykkur og öðrum til góðs. Ekki vera hrædd við að biðja um það sem gerir líf ykkar betra. Hvort sem um er að ræða samskipti milli manna, vinnu, heimili, hvað sem er...

         Treystið því að um ykkur sé séð. Þið verðið að biðja um það sem þið þráið og sjá fyrir ykkur að það gerist. Þakkið síðan fyrir og treystið og lífið mun koma ykkur á óvart. Fólk mun verða á vegi ykkar með ný tækifæri, ný sambönd. Munið að vera opin fyrir bænheyrslunni. Lítið atvik getur orðið til þess að velta af stað bolta sem rúllar hratt og verður ógnarstór. En þið verðið líka að vera tilbúin að taka við gjöfunum sem til ykkar koma. Hugsið ætíð vel hvers þið biðjið og hverju það muni breyta í lífi ykkar.

         Það að vera á þessari jörð er stórkostlegt tækifæri til þess að þroska sig og láta gott af sér leiða. Nýtum það og njótum þess. Jákvæð hugsun skiptir öllu máli. Öll viljum við að hugsanir okkar séu jákvæðari og kærleiksríkari hverja stund. Byrjum á að biðja um það og reynum að vera meðvituð um það hvernig við hugsum og hvaða boð við erum að senda með hugsunum okkar.

         Allir hlutir hafa einhverja jákvæða hlið. Reynum ávalt að finna hina jákvæðu hlið hvers máls og dreifa þeirri jákvæðni í kringum okkur. Hvert kærleikskorn sem frá okkur fer kemur ávalt til baka sem stór kærleikskúla.

         Nú á þessari stund ætlum við að breyta því sem er neikvætt í jákvætt:

         Við skulum loka augunum og slaka á. Í huganum er ringulreið af hugsunum sem stökkva til og frá. Reynum að kyrra hugann og sjá fyrir okkur lítið ljós. Ímyndið ykkur lítið ljós í hugskoti ykkar. Ef til vill er þetta ljós dálítið dauft. Það gerir ekkert til.

         Þetta ljós er hugsanir ykkar, það sem þið sendið frá ykkur. Nú skulið þið þurrka burt alla skugga af ljósinu og leyfa því að lýsa bjart. Þegar skuggarnir fara eru allar neikvæðar og niðurdragandi hugsanir að víkja og í staðinn koma jákvæðar kærleiksríkar hugsanir. Stækkið ljósið eins og þið getið. Þið eigið nægan kærleik í hjarta ykkar, fyrir alla og líka fyrir ykkur sjálf. Líf ykkar mun eftirleiðis verða jákvætt og fullt af gleði og hamingju.

         Þegar þið hafið horft um stund á ljósið, þá skuluð þið opna augun og þið finnið að einhverjar áhyggjur og vanlíðan sem voru í huganum hafa nú vikið fyrir jákvæðni og bjartara viðhorfi.

         Þessa litlu æfingu getið þið gert eins oft og þið viljið. Gerið hana alltaf ef eitthvert hugarangur sækir að og smám saman stækkar ljósið uns engir skuggar eru til.

         Þú ert í eðli þínu jákvæður, kærleiksríkur og hamingjusamur einstaklingur. Leyfðu þér að vera það. Leyfðu ljósinu þínu að skína".

         Það getur verið mjög áhrifaríkt að gera hugaræfingar og hugleiða. Með bæninni tölum við við Guð og í hugleiðslunni hlustum við á hann. Ef til vill segið þið að það sé erfitt að kyrra hugann, en það er einungis æfing og með ástundun og þolinmæði kemur það og gefur ykkur ótrúlega mikið. Það að eiga kyrrðarstund er ómetanlegt og mikil slökun og heilun í okkar hraða þjóðfélagi. Við þurfum virkilega á því að halda til þess að týna ekki sjálfum okkur. Við búum við spennu og hraða sem allir hafa þörf á að komast frá öðru hvoru. Því er gott að gefa sér vissa stund hvern dag til að biðja, hugleiða og eiga fyrir sjálfan sig. Þannig getum við líka oft skýrt hugsanir okkar og séð hvað það er sem raunverulega skiptir okkur máli og hvað það er sem við raunverulega þráum.

         Ef til vill segja einhverjir að ekkert af þessu sé nýtt og að þið vitið þetta allt saman. Ég veit að það er rétt, en það er nú einu sinni þannig að við þurfum á því að halda að vera minnt á. Það er svo auðvelt að detta úr jafnvægi inn í hraðann og gleyma þar með að gefa sér tíma, fyrir sjálfan sig og fyrir fólkið sitt. Það eru ómetanlegar stundir að vera t.d. úti í náttúrunni, finna jörðina undir fótum sér og teyga að sér hreint loftið sem við erum svo lánssöm að eiga. Á þannig stundum líður okkur vel og við eigum auðvelt með að senda frá okkur jákvæðar og kærleiksríkar hugsanir. Stundum höfum við ekki tíma fyrir stundir sem þessar, en þá er betra en ekki að loka augunum og ímynda sér náttúruna og hreina loftið. Hugsunin ein lætur okkur líða betur.

 

                                                Kærleikur.

 

         Þó ég hafi talað um hér áður að breyta ótta í kærleik langar mig að tala meira um kærleikann. Hann er það sem við viljum hafa í okkar lífi og einnig það sem við öll nærumst á.

         "Sterkasta aflið í lífi okkar er kærleikur. Hann getur sýnt sig í mörgum myndum. T.d. í ást okkar á maka og börnum, vináttu okkar, hlýjum hugsunum, bænum okkar. Allt hið jákæða og góða er sprottið frá kærleika okkar.

         Það eru aðeins tveir þættir sem stjórna tilfinningum okkar. Til þeirra getum við alltaf rakið líðan okkar hverju sinni. Annars vegar er það kærleikur og hins vegar ótti. Það sem við þurfum að gera í okkar lífi til þess að verða hamingjusamri og glaðari einstaklingar er að útrýma óttanum í okkar lífi og fylla það af kærleika.

         Það er hægara sagt en gert að losa sig við allan ótta og er ekki gert á einum degi. En það er fullkomlega þess virði. Við höfum ekkert að óttast fyrir okkur sjálf, við eigum val í okkar lífi. Við skulum velja það að vera hamingjusöm.

         Við þurfum að horfast í augu við eigin ótta, skoða hann í stað þess að flýja frá honum. Örugg skulum við gera þetta saman og smám saman losa okkur við hann. Tilfinningar eins og hræðsla, kvíði, reiði, afbrýðisemi, vonbrygði og fleira sem plagar okkar eru byggðar á ótta. Það er ekkert óeðlilegt við að hafa þessar tilfinningar, en við þurfum að losa okkur við þær, til þess að þær geti ekki skemmt fyrir okkur ánægjulegt líf og heilsu.

         Reynum að trúa því að við eigum allt gott skilið, að um okkur sé séð og að við séum örugg í hverju sem á gengur. Óttinn gerir okkur veikari og dregur til okkar sársaukafulla hluti. En kærleikurinn gerir okkur sterk og færir okkur hamingju og sátt.

         Munum að dæma ekki aðra. Öll erum við á leið okkar til þroska, en við erum mislangt komin. Það sem mér finnst hræðilegt, getur öðrum þótt hið eina sanna. Við verðum að reyna að setja okkur í spor annara. Gera eins vel og við getum hverju sinni, það er nóg.

         Þroski okkar breytist dag frá degi, sífellt öðlumst við nýja reynslu og víðari sýn á lífið. En þó svo að eitthvað sé í fortíðinni sem við í dag myndum ekki gera, þá meigum við ekki dæma okkur sjálf. Á þeim tíma vorum við á öðrum stað, þá þótti okkur það sem við gerðum rétt. Við verðum að auðsýna sjálfum okkur ást og þolinmæði. Sýnum öllum eins mikinn kærleik og við getum og kærleiksflæðið mun aukast jafnt og þétt.

         Það getur verið erfitt að fyrirgefa eitthvað sem á hluta okkar var gert. Ef til vill eigum við slæmar minningar úr bernsku, einhver hefur brugðist okkur og við sjáum ekki hvernig við getum fyrirgefið. En það er erfitt að bera sárar tilfinningar í brjósti sér. Með kærleikanum skulum við reyna að vinna á slæmum minningum. Prófa að senda jákvæðar kærleiksríkar hugsanir til þeirra sem gerðu á hluta okkar og biðja fyrir þeim.

         Það uppsker hver eins og hann sáir. Við skulum vinna úr sársaukanum og smám saman losa okkur við reiði, sársauka og allar þessar tilfinningar sem byggðar eru á ótta. Í staðinn koma tilfinningar eins og ást, fyrirgefning og friður í hjarta okkar. Smátt og smátt vinnum við á gömlum hnútum, uns þeir hverfa á braut. Leyfum kærleikanum að flæða um okkur og frá okkur. Það er kærleikur sem við viljum senda frá okkur og kærleikur sem við viljum fá til baka.

 

                                    Kærleikskúlan.

 

         Þú skalt setjast, loka augunum og slaka á líkamanum. Með hverri mínútu verður þú afslappaðri og friður fyllir hjarta þitt. Þér líður vel. Allt er svo rólegt, ekkert fær truflað þessa stund sem þú ætlar að eiga með sjálfum þér. Allar truflandi hugsanir hverfa á braut. Líkaminn er svo afslappaður að þú finnur varla fyrir honum lengur. Í kringum þig er umvefjandi kærleiksrík orka, svo mjúk og friðsæl.

         Þú ert algjörlega afslappaður og nú ætlar þú að búa til kærleikskúlu í kringum þig, þar sem þú getur setið afslappaður og unnið kærleiksvinnuna þína í friði, án nokkurra truflana eða utanaðkomandi áhrifa.

         Þú situr rólegur og utan um þig er risastór bleik kúla, full af kærleik og friði. Hjarta þitt er fullt af ró og þakklæti. Þakklæti fyrir líf þitt, allar góðar stundir og allt hið fallega sem þú átt og þér er kært.

         Kærleikskúlan þín er skotheld vörn gegn öllu neikvæðu og hverju því sem þú vilt ekki hleypa til þín. Inn í kúluna getur aðeins flætt kærleikur og út úr kúlunni getur aðeins flætt kærleikur. Þér líður óumræðilega vel.

         Þú slakar á, andar rólega og finnur hve tær orkan er í kringum þig. Í huga þínum og hjarta er ekki lengur neitt sem gerir þig dapran.

         Þegar þú hefur um stund notið kærleikans fyrir sjálfan þig skaltu leyfa öðrum að njóta hans með þér. Sendu kærleik úr kúlunni þinni til allra á jörðinni sem þú vilt, allra sem eiga bágt og sendu einnig kærleik til jarðarinnar sjálfrar. Njóttu þess að sjá ást þína flæða. Það ert þú sem gefur þennan kærleik og það er nóg til.

         Nú hefur þú sent kærleikann þinn og nú skaltu nota tækifærið og finna hve auðvelt þú átt með að fyrirgefa.

         Hugsaðu um einhvern sem gert hefur á hluta þinn. Bjóddu þá manneskju velkomna inn í kærleikskúluna þína. Mundu að aðeins kærleikur kemst til þín svo að ekkert er að óttast. Sendu viðkomandi manneskju hvítt ljós í huga þér og segðu henni að þú fyrirgefir af öllu hjarta. Finndu hvað léttir á hjartanu þínu og þér líður betur. Á þessari stundu hefur þér tekist að breyta heilmiklum ótta í kærleika.

         Nú skaltu kveðja manneskjuna og þú ert nú einn í kærleikskúlunni þinni. Sittu um stund og njóttu þess að finna hve mikinn frið og ró þú átt í hjarta þínu. Þegar þú kemur til baka úr kúlunni þinni, þá mun brjóst þitt vera fullt af ást og þú munt finna að hin innri ró helst í sál þinni.

         Nú skaltu opna augun rólega. Þetta var yndisleg stund sem þú getur upplifað hvenær sem þú vilt. Hvenær sem er getur þú notað kærleikskúluna þína til að gefa þér kærleika, til að senda kærleika, til að hjálpa þér að fyrirgefa og til þess að öðlast innri ró. Mundu að innra með þér er fjársjóður sem þú átt og getur nýtt á allan þann hátt sem þú óskar. Njóttu þess að vera til. Leyfðu þér að flæða frá þér kærleika hverja stund. Leyfðu þér að vera glöð, örugg og hamingjusöm manneskja".

         Það er hægt að gera svo ótalmargt til þess að láta sér líða betur og losa sig við kvíða og hræðsluhugsanir. Það er meira að segja hægt að gera þessa vinnu að leik og finna skemmtilegar aðferðir til að minna sig á. Eitt af því sem ég hef notað eru "Kærleiksorð". Það er svipað og þegar fólk dregur jákvæðar staðhæfingar, kannski eina á hverjum degi til að hugsa um. Allt skemmtilegt og jákvætt í þessa átt hjálpar okkur.

                                                "Kærleiksorð.

 

         Fáðu þér harðan pappír og búðu til 12 spjöld. Á þau skrifar þú kærleiksrík orð. Á hverjum degi dregur þú eitt orð fyrir þig til að hugsa um og birta. Hugsaðu:

         Hvað vil ég gefa mér í dag?

         Hvað vil ég gefa öðrum í dag?

         Hvað vil ég fá frá öðrum í dag?

         Dragðu síðan eitt kort og hugsaðu um orðið. Gefðu sjálfum þér gjafir með því að láta þér líða betur, gefðu einnig öðrum sömu gjafir og taktu eftir þeim sem aðrir gefa þér. Þetta er yndislegur leikur sem getur veitt þér ómælda ánægju og jákvæðari hugsunarhátt.

 

                                    Kærleiksorð:

 

                                    Ást

                                    Von

                                    Trú

                                    Heiðarleiki

                                    Kærleikur

                                    Falleg orð

                                    Bros

                                    Þakklæti

                                    Virðing

                                    Gleði

                                    Hlýja

                                    Umhyggja

                                                            Gangi þér vel".

 

         Það er ótrúlegt hvað sannfæring fólks og þrá getur áorkað. Mörg dæmi eru um að fólk hafi með jákvæðri hugsun og einlægum ásetningi tekist að breyta hlutum sem ekki er hægt að kalla annað en kraftaverk. Fólk hefur heilað líkama sinn af alvarlegum sjúkdómum, breytt lífi sínu á svo undraverðan hátt að sumir vilja meina að það sé varla hægt. Lykillinn að öllu þessu er vilji. Breytt hugarfar og einlægur ásetningur getur gert kraftaverk. Margir hafa látið stórkostlega drauma rætast og undirmeðvitundin okkar veit að það er hægt, við þurfum einungis að trúa og hleypa gleðinni inn í lífið.

         Til að láta draumana okkar rætast er fyrsta skref að vita hvað við viljum. Við þurfum að vera nákæm og skoða alla þætti lífs okkar. Hvað er það sem við erum ánægð með og hverju viljum við breyta? Sumu er kannski ekki hægt að breyta nema það hafi áhrif á svo ótalmargt annað og þá er spurningin, viljum við þær breytingar sem fylgja? Þegar við svo vitum fyrir víst hvernig framtíðarsýn við viljum sjá getum við farið að skoða hvað það er sem við þurfum til að láta draumana rætast.

         Okkur er öllum holt að eiga drauma og markmið til að stefna að. Hvort sem um er að ræða að fara í nám, fá draumastarfið, eignast fjölskyldu, flytja í annað hús, eignast fjármuni, hvað sem er. Við verðum auðvitað að losa okkur við ótta og finna í hjarta okkar að við eigum allt það besta skilið og við eigum skilið að láta draumana okkar rætast. Það er afar gott að sjá í hugskoti sínu mynd af því sem við þráum og halda fast við hana. Undirmeðvitundin okkar vinnur hörðum höndum í því að gera að veruleika þrár okkar og óskir, innst inni vitum við alltaf hvað er best.

         Ef við tökum aftur dæmi um útlit, þá skuluð þið alltaf hugsa ykkur að þið lítið út eins og þið viljið líta út. Segjið aldrei við sjálf ykkur neikvæðar setningar. Ekki horfa í spegilinn og hugsa, ég er of feitur eða ég er með ljótt nef. Segið við líkamann ykkar að hann sé fallegur og þá er mun auðveldara að breyta honum eins og þið sjálf viljið. Segið: Ég er fallegur, ég er stæltur, eða hvað það er sem þið viljið vera. Ef þið getið ekki sagt jákvæða hluti um það sem þið viljið breyta finnið þá það sem þið eruð ánægð með. Ef þú hefur nef sem þú ert óánægður með en hár sem þú ert ánægður með, hugsaðu þá um hve hárið á þér er fallegt. Ekki draga fram neikvæða hluti um sjálfan þig, heldur jákvæða, þá munu einnig aðrir gera það.

         Staðreyndin er sú að við fáum allt til baka sem við sendum frá okkur. Ef við sendum frá okkur jákvæðar hugsanir, þá fáum við jákvæðar hugsanir til baka. Þess vegna verðum við að hafa trú á sjálfum okkur, elska sjálf okkur og virða sjálf okkur. Ef við virðum okkur ekki sjálf, hvers vegna skyldu þá aðrir gera það?

         Það er mjög gott að huga að því hvað það er í umhverfinu sem við eigum bágt með að þola. Ef við fáum viðbrögð hjá fólki sem okkur finnast neikvæð, t.d. að fólk sýni okkur ekki nægilega virðingu eða misbjóði okkur á einhvern hátt, skoðum á hvað við gerum sjálf. Erum við að virða sjálf okkur og gefa okkur það sem við eigum skilið? Við verðum að gera það sjálf, ef við viljum að aðrir geri það.

         Þannig er einnig um drauma okkar. Ef við segjum alltaf að við séum blönk og eigum ekki fyrir reikningum, þá erum við að segja sjálfum okkur og öðrum að þannig sé staðan. Hvernig getum við þá búist við að eitthvað breytist? Hugsun eins og: Ég á alltaf nóg af peningum, dregur þá til þín á meðan hin hugsunin heldur þeim frá. Segðu aldrei neikvæða hluti um sjálfa þig eða við sjálfa þig og sjáðu þú munt upplifa lífið á annan hátt. Við viljum öll að okkur líði vel. Þannig á það að vera og við verðum sjálf að finna hamingjuna innra með okkur og birta hana síðan í okkar lífi. Þetta getum við og við skulum gera það.

         Þolinmæði er eitt af því sem við þurfum að hafa. Sumir hlutir gerast eins og að smella fingri og sumir taka lengri tíma. Sumar breytingar taka jafnvel ár og þannig viljum við hafa það. Lífið er eins og við veljum það og við verðum að vera tilbúin fyrir breytingar hverju sinni. Stundum þurfum við einfaldlega tíma til að taka breytingum, þó að við viljum þær og höfum beðið um þær.

         Stundum tökum við heldur ekki eftir bænheyrslunni. Við biðjum um peninga og einblínum á happdrættisvinning. Okkur er boðin betri og skemmtilegri vinna með hærri launum, en við tökum kannski ekki eftir tækifærinu, af því að við erum að bíða eftir stóra vinningnum. Bænheyrsla getur verið á svo marga vegu og gott fyrir okkur að venja okkur á að taka eftir í okkar lífi. Tækifærin eru til fyrir okkur og við getum látið draumana okkar rætast. Með betri líðan og jákvæðara hugarfari er hægt að færa fjöll.

                                    Gangi þér vel að láta draumana þína rætast.

                                               

        

 

        

 

        

        

 

 

                                    

  • 1