Textabrot
Andlit öfundar
Útgefandi Skjaldborg, 1995
(s. 189-190)
- Stundum finnst mér eins og ég sé vitskertur. Ég ræð ekki við það
sem ég geri. Eitthvað hefur grafið um sig í huganum, sem ég ræð ekki
við. Kannski er það öfund.
- Öfund yfir hverju?
- Ég veit ekki hvort þú getur nokkru sinni skilið það.
- Eflaust ekki.
- Mig langaði bara að þakka þér fyrir og mér finnst ég skulda þér skýringu. Það varð löng þögn en svo hélt hann áfram.
-
Það byrjaði þegar við Andrés Orri vorum ungir strákar. Ég veit varla
hvað það var, en mér fannst hann alltaf fá það sem hugurinn girntist.
Hann var uppáhaldsbarnið hennar mömmu og pabbi var yfir sig ánægður
vegna þess hve listhneigður hann var. Honum gekk frábærlega í skóla en
mér sæmilega. Hann kom heim með viðurkenningar og mig langaði mest til
að drepa hann, svo að ég gæti hætt þessari vonlausu samkeppni. Í
menntaskólanum var allt eins og við kynntumst Áslaugu. Hún féll strax
fyrir listaskáldinu Andrési Orra, en hún er eina konan sem ég hef orðið
hrifinn af. Ég öfundaði hann hræðilega, meira að segja af nafninu.
Allir þekktu Andrés Orra en margir Böðvarar voru í skólanum, enda vakti
ég aldrei athygli, var bara venjulegur Jón. Andrés Orri vakti aftur á
móti athygli hvar sem hann fór. Svo giftu þau sig og allar vonir mínar
brustu. Ástfangin héngu þau saman á kjöftunum fyrir framan mig vikum
saman. Ég þoldi ekki við, vissi ekki hvað ég átti að gera. Mig dreymdi
drauma um Áslaugu, óskaði þess að Andrés Orri dræpist í slysi og hún
yrði mín. Það var eina lausnin sem ég sá, því að ég vissi að hún mundi
aldrei skilja við hann. Ég reyndi meira að segja að búa með stúlku, en
ég bar hana alltaf saman við Áslaugu og samanburðurinn var henni ekki
hliðhollur. Sá tími var hreint helvíti.
-------------------------------------------------------------------------------------
Áttunda fórnarlambið
Útgefandi - Skjaldborg, 1987
(s. 60-62)
Hún vissi ekki hvað hún hafði sofið lengi er hún hrökk skyndilega
upp með andfælum. Var hana að dreyma eða hvað var að gerast? Var
einhver í rúminu? Tinna var á augabragði glaðvöknuð. Það var einhver
kominn inn í skúrinn til hennar og ekki nóg með það. Hún fann fyrir
höndum undir sænginni og eigandi þeirra þuklaði ótrauður upp eftir
lærum hennar. Hún sparkaði ósjálfrátt frá sér. Hver andskotinn var að
ske? Héldu þessir menn að þeir gætu gengið í rúm til hennar eins og hún
væri eitthvert allsherjargagn? Nei, þó hún eldaði ofan í þá matinn, þá
skyldu þeir ekki halda það. Hún hafði dregið vandlega fyrir gluggann,
svo myrkvað var inni. Hún gat ekki séð hver þetta var.
- Uss.
Hún
sparkaði aftur, hálfu fastar en fyrr. Við það rak maðurinn upp hið
mesta öskur. Hún hlaut að hafa lent á viðkvæmum stað. Allt í einu var
hurðinni hrundið upp og í dyrunum stóð Jón. Það fór ekkert á milli
mála, það lá við að hann fyllti út í dyrnar.
- Hvur djöfullinn gengur hér á?
Mannveran sem áður hafði ætlað í rúm til Tinnu hnipraði sig saman og reyndi að láta lítið fyrir sér fara.
- Hvað ert þú að gera hér?
Jón
stikaði inn gólfið stórum skrefum og tók með annarir hendi manninn upp
af gólfinu. Þetta var Björn. Hann var nú heldur rislægri en áður og
augun stóðu á stilkum í höfuðkúpunni.
- Var hann að ónáða þig?
Tinna
var að byrja að ná jafnvægi aftur. Réttlát reiði hafði gripið hana en
hún gat varla varist brosi er hún sá Björn dinglandi í hendi Jóns.
- Já, óneitanlega. Mér finnst algjör óþarfi að halda að maður sé eitthvert allra gagn, þó ég sé að elda ofan í liðið hérna.
Jón kímdi örlítið. Hann leit sposkur á Tinnu.
- Þú verður að vera dómari í þessu máli. Hvað á ég að gera við þennan mann? Hengja hann eða skera?
Björn braust um í höndum Jóns. Hann bölvaði og ragnaði og sendi Tinnu óblítt augnaráð.
- Hvorugt. Hentu honum út ef þú vilt vera svo vænn.
Jón lét ekki segja sér það tvisvar. Hann opnaði dyrnar og þeytti Birni frá sér af afli. Því fylgdu nokkur vel valin orð.
Nú
fyrst tók Tinna eftir því að Jón var á stuttum nærbuxum einum fata og
þær skýldu ekki miklu. Bringan var kafloðin og handleggir og fótleggir
einnig þaktir dökku hári. Hárvöxturinn á bringunni náði eins langt
niður og hún sá, hann hlaut að ná saman. Hún gat varla stillt sig um að
stara á hann. Hann var óneitanlega karlmannlegur.
- Jæja, vinan. Þú ættir að venja þig á að læsa að þér á kvöldin, þetta er of mikil freisting fyrir suma.
Tinna roðnaði.
-
Þakka þér fyrir. Hún steig fram úr rúminu til að loka á eftir honum, en
hann stóð kyrr. Tinna hugsaði ekki út í hve náttkjóllinn hennar var
næfurþunnur. Hann skýldi ekki miklu. Hún vissi ekki hvað hún átti að
segja og stamaði aftur þakklætisorð.
- Það var indælt að þú
skyldir koma. Mér datt ekki í hug að læsa að mér. Það flaug ekki að mér
að nokkur myndi ónáða mig, en það er öruggt mál að ég læsi eftirleiðis.
Ég segi enn og aftur, takk.
Allt í einu var Jón kominn til
hennar. Hann þrýsti henni eldsnöggt að sér. Henni snarbrá, en blóðið í
æðum hennar tók að ólga. Hún fann fyrir karlmennsku hans. Þetta var
aðeins augnablik. Hann sleppti henni jafnsnöggt og hann hafði tekið
utan um hana.
-------------------------------------------------------------------------------------
Bak við þögla brosið
Útgefandi Skjaldborg, 1994
(s. 121-122)
Ég skalf þegar ég stakk lyklinum í skrána. Það ískraði í hjörunum.
Andartak stóð ég í anddyrinu og dró djúpt andann. Hvar átti ég að
byrja? Ég útilokaði eldhúsálmuna og ákvað að byrja í suðurturninum. Þar
voru gestaherbergi, setustofur og spilaherbergi. Ég æddi úr einu
herberginu í annað. Sem betur fer var rafmagn á húsinu, svo að ég gat
kveikt ljós. Ég kannaði hvern krók og kima. Hjartað barðist í brjósti
mér og ég var dauðhrædd. Það brakaði í gólfunum, mér fannst ég heyra
umgang alls staðar og allar hræðilegu draugasögurnar um Mánakastala
rifjuðust upp fyrir mér. Þetta voru hræðilegar sögur um vansæla anda
þeirra sem höfðu fyrirfarið sér, sögur um útburði, skrímsli og magnaða
drauga.
Ég kannaði veislusalinn, borðstofuna, herbergi ömmu og
svo fór ég í turninn sem var einkaheimur frænda míns. Þangað fengum við
ekki að koma þegar við vorum gestir í Mánakastala. Ég hafði alltaf
verið afar forvitin um þessi herbergi en nú fannst mér skelfilegt að
þurfa að fara um þau. Ég skalf eins og hrísla. Á einum veggnum hékk
mynd af hengdum manni og á móti stóð glottandi beinagrind. Ég hljóðaði
og hrökk sjálf í kút við eigin rödd.
Ég var stödd í herberginu
fyrir framan það sem ég hélt að væri svefnherbergi Charles, en ég komst
ekki lengra. Þykk eikarhurðin var rammlega læst. Ég reyndi að hugsa
hratt. Að utan kæmist ég ekki inn. Glugginn var of hátt uppi og þar að
auki of lítill fyrir mig. Hvað átti ég að gera? Ég barði á hurðina.
- Kristy.
Rödd
mín var draugaleg og ég hélt að ég væri að missa glóruna. Hvernig datt
mér í hug að hún væri fyrir innan þessa hurð? Ég hamaðist á hurðinni og
hlustaði. Ekkert hljóð. Mér fannst ég heyra hurð skella niðri og hjarta
mitt stóð kyrrt eitt andartak. Ég þorði ekki að hreyfa mig. Hvað ef
Charles kæmi að mér hér? Eftir það sem ég vissi nú um hann langaði mig
ekkert að hitta hann einan í þessum auða kastala.
Ég hentist fram
hjá beinagrindinni og niður stigann. Í anddyrinu rakst ég á mann og rak
upp hljóð. Mér til léttis var bílstjórinn kominn inn. - Mér heyrðist þú
hljóða. Ég skalf og nötraði.
- Já. Ég hitti glottandi beinagrind og var næstum búin að missa vitið af skelfingu.
Hann horfði rannsakandi á mig.
- Hvað er um að vera hér?
-------------------------------------------------------------------------------------
Dagar hefndarinnar
Útgefandi Skjaldborg, 1988
(s. 49-50)
- Hanna, Hanna.
Ekkert svar. Einar grét við hlið mér.
- Hún er örugglega dáin. Brunnurinn er svo djúpur og hún hefur dottið með höfuðið á undan.
Röddin brast. Ég sá í rökkrinu að tár runnu niður kinnar hans.
- Hífðu fötuna upp og ég fer niður.
Mér
var sjálfri ekki ljóst á þessari stundu hvað ég var að bjóðast til að
gera. Lofthræðsla var eitt af mínum vandamálum. Ég óttaðist ekkert eins
og að horfa niður eitthvað hátt. En ég sá ekkert niður í brunninn, þar
var ekkert nema myrkur að sjá. Einar grét enn við hlið mér.
- Fatan heldur þér ekki og þú hrapar líka.
Freyr
var farinn að draga spottann til sín. Skelfingin læsti sig um mig eftir
því sem meira kom í ljós af kaðlinum. Þetta var lengst niður í helvíti.
En ég varð að gera þetta. Mér fannst hræðilegt að hugsa um veslings
konuna, sem nú lá þarna niðri, sjálfsagt stórslösuð. Við máttum engan
tíma missa, en ég fann að taugar mínar voru að bresta. Freyr hvíslaði:
- Ertu viss um að þú viljir fara niður?
Ég
kinkaði kolli og steig upp í fötuna. Freyr lét fötuna síga örlítið. Ég
greip fast í kaðalinn og mér fannst hjartað vera að brjóta sér leið út
úr brjóstinu á mér. Freyr dró mig upp aftur.
- Ég skal fara.
- Þegiðu. Ég er léttari og þú sterkari.
Hann
mótmælti ekki frekar, en kyssti mig laust á ennið um leið og fatan seig
niður í brunninn. Ég ríghélt mér. Mig langaði til að öskra. Skelfingu
lostin hélt ég í spottann eins og hann væri mitt eina haldreipi í
lífinu. Það mátti líka með sanni segja. Ég sá ekkert. Brunnurinn var
myrkur og ég slóst harkalega út í hvassar steinbrúnir. En ég hugsaði
ekki mikið um það. Ég þorði ekkert að slaka á taki því sem ég hafði á
kaðlinum. Ekki einu sinni með annarri hendi, til að verjast skrámum.
Sekúndurnar
liðu eins og klukkustundir. Það brakaði í spottanum og á hverri stundu
hélt ég að hann myndi gefa sig. Þetta var brjálæði. Ég var að fremja
sjálfsmorð. Eitt augnablik hélt ég að ég myndi sturlast, en svo heyrði
ég veika stunu. Hjarta mitt fór að slá með eðlilegum hraða. Þetta var
þá ekki allt til einskis.
Ég heyrði í vatni fyrir neðan mig, og
því hlaut ég að vera að nálgast botninn. Allt í einu lenti fatan á
einhverju mjúku og ég þreifaði fyrir mér. Ég fann blautan mannslíkama
og mér fannst sem hárin risu á höfði mér. En nú mátti ég ekki láta
hræðsluna ná yfirhöndinni. Ég flýtti mér upp úr fötunni og lenti þá í
hnédjúpu ísköldu vatni. Ég saup hveljur og fann að ég fór strax að
skjálfa. En það varð að hafa það. Skjálfandi þreifaði ég eftir
konulíkamanum og fann mér til mikillar gleði að höfuðið var ekki í
vatni. En hún var öll rennandi blaut og ég fann ekkert lífsmark. Ég
hristi hana örlítið og þá stundi hún við.
-------------------------------------------------------------------------------------
Dætur regnbogans
Útgefandi Skjaldborg, 1992
(s. 139-140)
Margrét hrökk upp. Hún hafði sofnað út frá hugleiðingum sínum. Í
fyrstu vissi hún ekki hvað hafði vakið hana en svo sá hún myndarlega
konu á miðjum aldri standa fyrir innan dyrnar. Eitt andartak varð
Margrét svo hissa að hún kom ekki upp nokkru hljóði.
Kona þessi
var tíguleg ásýndum, bláklædd með hvíta skýlu um höfuðið. Dökkt og
mikið hár sem náði langt niður á bak kom undan skýlunni. Konan var
myndarleg og það stafaði af henni einhverri hlýju. Margrét hélt að sig
væri að dreyma. Hún hafði aldrei séð konuna fyrr. Margrét var að því
komin að spretta fram úr rúminu þegar konan lagði fingur á varir sér.
Hún gekk hljóðlega að rúminu. Margrét starði á hana.
Konan hvíslaði:
- Ég heiti Álfheiður, við skulum ekki vekja sýslumanninn. Halldóra vitra bað mig að sækja þig.
Margrét
steig hljóðlega fram úr rúminu. Fyrst Halldóra sendi eftir henni varð
hún að fara. Páll rumskaði örlítið. Álfheiður beygði sig yfir rúmið og
lagði örþunnan dúk yfir andlit sýslumannsins. Hún sagði með sinni mjúku
rödd:
- Þetta gerir honum ekkert til, en ég verð að vera viss um að hann sofi þangað til við komum til baka.
Margrét
gerði enga athugasemd. Hún flýtti sér að klæðast og læddist fram á
eftir Álfheiði sem gekk hiklaust fram baðstofuna innan um sofandi
fólkið. Það var undarleg kyrrð og hvergi heyrðist hljóð.
Margrét fylgdi konunni út fyrir bæinn. Þar lá seppi og steinsvaf.
Þegar þær komu í hvarf frá bænum sá Margrét hvar Halldóra sat á þúfu og beið. Hún stóð upp þegar hún sá þær koma.
-
Sæl Margrét mín. Fyrirgefðu ónæðið, en mig vantar hjálp. Ég þarf að
gera dálítið sem ég hef aldrei gert fyrr og ég er ekki viss um að ég
geti það án aðstoðar.
Margrét horfði á hana. Hana langaði til að
spyrja um svo margt en hún kunni ekki við það þar sem Álfheiður stóð
hjá þeim. Hún varð að treysta Halldóru.
Konurnar gengu í átt að
sjónum og niður í fjöruna. Margrét var sem í draumi. Þetta var allt svo
óraunverulegt. Hér gekk hún þessa hljóðu nótt og það var eins og allt
væri í álögum. Hún starði á bergið fram undan. Þetta var ekki lengur
venjulegt berg. Þarna voru reisuleg hús og kirkja. Húsin voru stór og á
engan hátt lík þeirra húsum. Margrét kleip sig í handlegginn. Átti hún
að trúa því að hún væri vakandi?
Þær gengu að einu húsinu og
konan lauk upp hurðinni. Inni fyrir var allt hreint og fágað og bar
vott um ríkidæmi, eða svo fannst Margréti að minnsta kosti. Þarna voru
fagrir munir, hlutir sem hún var að líta í fyrsta sinn. Halldóra sneri
sér að henni.
- Sonur hennar er mjög veikur. Við verðum að skera hann upp.
Margrét starði á hana. Hvað meinti Halldóra eiginlega? Álfheiður kinkaði kolli.
- Hann deyr ef ekkert verður að gert. Við erum ráðalaus. Maðurinn minn er hjá honum núna.
Halldóra tók yfir herðarnar á Margréti.
- Margrét mín, ég vona að þú þolir þetta. Þú skalt einskis spyrja núna. Hjálpaðu mér bara.
Margrét kinkaði kolli. Hún var svo dolfallin yfir öllu þessu að hún kom ekki upp nokkru orði.
-------------------------------------------------------------------------------------
Eftirleikur
Útgefandi Skjaldborg, 1999
(s. 84-86)
- Bryndís, ég er hrædd í þessu húsi.
- Það er ekkert að óttast.
-
Ég er samt hrædd og ég veit ekki af hverju. Ég var hérna þegar ég var
lítil stelpa. Ég man ekkert eftir því en samt líður mér ekki vel.
Bryndís
settist. Henni var orða vant. Ef til vill myndi Viktoría fá
bernskuminnið á þessum vikum. Hún vissi varla hvort það var gott eða
slæmt.
- Þú varst hérna þegar þú varst lítil, en þú þarft ekki að vera hrædd í húsinu mínu. Þetta er gott hús.
-
Ég er samt hrædd, ég get ekki sofið hérna. Bryndís vissi ekki sitt
rjúkandi ráð. Það eina sem hún kunni var einmitt ráðið sem hún hafði
notað við hana sem litla telpu.
- Viltu sofa inni hjá mér?
Viktoría kinkaði kolli.
- Ég held það.
Bryndís hló.
-
Þá verður þú að deila með mér rúmi, að vísu stóru, ásamt hundinum og
kettinum. Þau vilja alltaf sofa í rúminu mínu og mér er alveg sama. Ég
ofdekra víst þessar skepnur mínar.
Viktoría brosti.
- Mér líkar vel við dýr.
- Komdu þá með sængina þína.
Stuttu
seinna var Viktoría búin að hringa sig niður í rúmið hennar Bryndísar
með köttinn Míru í fanginu. Hún var sofnuð áður en Bryndísi vannst tími
til að bjóða góða nótt. Bryndís gekk um gólf. Viktoría var falleg þar
sem hún lá á koddanum. Það var ótrúlegt að hugsa til þess að nokkur
vildi gera þessu barni mein. Hún var svo saklaus í svefninum. Það var
hræðilega grimmt og miskunnarlaust að ráðast á hana. Það gat ekki verið
Jón. Það gat bara ekki verið að hann hefði lifað í felum öll þessi ár.
Hún vildi ekki trúa því. Það var líka of sárt til þess að geta verið
satt. Og jafnvel þó að svo hefði verið þá vildi hún ekki trúa því að
hann réðist að Viktoríu. Ekki sá Jón sem hún þekkti, en hann hafði víst
horfið burt áður en hann dó og einhver annar komið í staðinn. Skrímsli
sem hún vildi ekki hugsa um.
Bryndís gekk út að glugganum og leit
út. Henni brá. Það var komin iðulaus stórhríð. Íslenskt vetrarveður.
Venjulega hræddist hún ekki hríðar, en nú fylltist hún kvíða. Það leit
ekki út fyrir að neinn færi frá Hömrum næsta dag. Hún þekkti veðrin
þarna betur en svo. Hún gat setið uppi með gestina marga daga. Það var
skelfileg tilhugsun.
Hann starði út í hríðina og nuddaði ánægjulega saman höndunum.
Loksins. Loksins var hann kominn vestur aftur. Það hafði verið svo
auðvelt. Veðrið gladdi hann. Þau voru nú eins og dýr í gildru. Enginn
kæmist frá Hömrum og hann gat leikið leik sinn að vild. Hann þekkti
veðurfarið og vissi að nú var hann óhultur. Hann gat tekið þau eitt og
eitt. Losað sig við þau á snyrtilegan hátt. Síðan færi hann burt og
enginn gæti stöðvað hann.
Það hafði að vísu ekki verið ætlunin að
svo margir yrðu á Hömrum er hann kæmi þangað. Hann hafði hugsað sér að
hitta Bryndísi eina. Það hafði komið blóðinu til að ólga verulega í
æðum hans. En forlögin voru honum hliðholl. Án þess að hann hefði fyrir
því höfðu málin æxlast þannig að nú stóð hann þarna eins og konungur í
ríki sínu og réð yfir mannslífum. Spurningin var einungis hvert þeirra
hann tæki fyrst. Hann brosti skelmislega. Hann gat látið tilviljun
ráða. Nei, það var ekki nógu gott. Hann langaði virkilega til að setja
á svið óhugnanlegan harmleik. Langaði til að skjóta þeim verulega skelk
í bringu áður en yfir lyki. Hann vissi hvað hann ætlaði að gera. Hann
varð að hefjast handa, strax í nótt.
-------------------------------------------------------------------------------------
Fótspor hins illa
Útgefandi Skjaldborg, 2000
(s. 9-10)
Ég skellti hurðinni harkalega á eftir mér. Nú var mér nóg boðið.
Hvernig gat mannfýlunni dottið í hug að ég hefði áhuga á brúðkaupi,
hvað þá kynlífi með honum eins og nú stóð á? Þetta var mér gjörsamlega
ofviða. Ég hafði skilað trúlofunarhringnum, sem ég hafði fyrir
einhverja þægð borið síðustu þrjú árin. Nú var ég endanlega búin að
segja skilið við Edward og mér leið mikið betur. Hann var gjörsneyddur
öllum tilfinningum, þessi maður. Að detta í hug að ég hefði líkamlegan
áhuga á honum, einmitt núna. Sorg mín var enn djúp og ég hafði ennþá
varla getað horfst í augu við raunveruleikann og það sem gerst hafði.
Faðir minn og föðursystir voru nýlátin og móðir mín lá á sjúkrahúsi í
dái sem læknarnir gátu ekki vakið hana af. Enginn vissi enn með neinni
vissu hvort hún myndi komast til meðvitundar á ný, eða hvort
heilastarfsemi hennar væri í lagi. Ég óttaðist mest að hún hefði orðið
fyrir heilaskaða. Ég vissi að hún myndi síst af öllu vilja lifa þannig,
en ég gat ekki hugsað mér að missa hana líka. Tilfinningar mínar voru
sveiflukenndar þessa daga og ég grét oft. Hvernig var hægt að hugsa um
hjónaband á slíkum tímum? Ég gnísti tönnum og orð Edwards hljómuðu enn
í huga mér.
-María, þú verður að hugsa um framtíðina og skapa þér
nýtt líf. Þú getur flutt úr Eikarlundi í íbúðina mína í Blackburn.
Móðir þín er hvort sem er langlegusjúklingur og ekki getur þú bundið
þig yfir henni. Þar að auki geturðu alltaf heimsótt hana á sjúkrahúsið.
Þú veist líka að einhver verður að taka við hluta föður þíns í
fyrirtækinu og ég geri það með glöðu geði nú strax. Það er ýmislegt sem
má breyta í þessu fyrirtæki, svo að það skili meiri hagnaði. Færra
starfsfólk og meiri arður til eigenda.
Það var einmitt þarna sem ég
hafði sprungið. Mannfýlan ætlaði að hirða fyrirtæki föður míns, hneppa
mig í hjónaband og láta móður mína dúsa á einhverju hæli. Ég hafði
orðið svo reið að ég gat ekki talað. Trúlofunarhringurinn skall á
disknum fyrir framan hann og stóllinn valt, svo snöggt stóð ég upp.
Edward
hafði orðið vandræðalegur. Uppistand á veitingahúsi hentaði honum að
sjálfsögðu ekki. Til þess var hann of fágaður. Hann fölnaði.
-
María, förum heim til mín. Við getum átt notalega kvöldstund saman. Ég
tók á allri stillingu minni til að slá hann ekki utan undir. Þetta var
í fyrsta skipti á ævinni sem mig virkilega langaði til að lumbra á
einhverjum. Ég skalf innra með mér og reiðin var svo ofboðsleg að ég
var hálft í hvoru hrædd við sjálfa mig. Ég varð að komast burt áður en
ég gerði eitthvað vanhugsað. Stór vatnskanna stóð á borðinu og ég velti
því fyrir mér hvort ég ætti að brjóta hana á hausnum á honum.
- Edward Browning, ég vil ekki hafa neitt saman við þig að sælda framar.
Að
svo mæltu gekk ég hnarreist út úr veitingahúsinu. Ég sá að þjónninn
kímdi örlítið en mér var alveg sama. Mér var líka sama þó að
hurðarskellurinn heyrðist um allt. Mér var andskotans sama hvað öllum
fannst. Ég hafði verið særð hvað eftir annað og þetta varð til þess að
fylla mælinn. Edward var hrokafyllri en allt sem hrokafullt var og hann
mátti svo sannarlega sigla sinn sjó fyrir mér. Ég ætlaði að standa mig,
án hans. Ég þurfti ekki karlmann til að hugsa fyrir mig eða til að
ráðskast með eigur mínar. Ég þurfti bara engan karlmann til neins.
-------------------------------------------------------------------------------------
Gættu þín Helga
Útgefandi Skjaldborg, 1985
(s. 154-155)
Helga og Karen voru að gefast upp á að bíða á þakinu. Það var engin umferð á götunum og enginn virtist taka eftir þeim. Þær höfðu reynt að kalla en árangurslaust. Helga krossbölvaði stelpunum í sjoppunni á móti. Nú voru þær örugglega með útvarpið á fullu, að hlusta á rás 2. Að minnsta kosti heyrðu þær ekki þó þær æptu eins og hljóðin leyfðu. Þær höfðu kannað möguleikann á að komast yfir á þakið á lögreglustöðinni, en það var of langt frá. Það var algjört sjálfsmorð að ætla að reyna að stökkva.
- Ég fer að hníga útaf hérna á þakinu. Þú ættir bara að
vita hvað ég er í raun og veru lofthrædd. Ég hef varla mátt til að
standa upp á tunnu án þess að mér líði illa. Krakkarnir hafa oft hlegið
að því.
Karen dæsti og nuddaði á sér lærin. Helga vorkenndi
henni. Hún sá á andliti Karenar að hún fann til. Hún hafði áreiðanlega
marist illa við að komast upp á þakið.
- Við megum ekki gefast upp. Þetta hlýtur að bjargast.
Sjálf var Helga hálf vondauf.
- Uss. Sjáðu.
Helga benti niður á götuna. Þarna kom bíll að bakhlið hússins, og þær sáu Rúnar og Njál koma út.
- Beygðu þig niður.
Karen gerði eins og Helga sagði og þær reyndu að gera eins lítið úr sér og þær gátu.
- Jesús, nú sjá þeir að við erum farnar. Tókstu stigann upp?
- Já og lokaði lúgunni.
Þær önduðu léttar. Þá var ekki víst að þeir myndu átta sig á undankomuleið þeirra strax.
- Við verðum að gera eitthvað.
- Við skulum skríða út á enda hinumegin. Þá erum við að minnsta kosti eins langt frá glugganum og hægt er.
Þær
mjökuðu sér hægt út á brún. Fyrir neðan þær var tjörnin. Hún var auð og
nokkrar endur, sem töldust til íbúa bæjarins syntu rólyndislega á
tjörninni. Lítill drengur var að gefa þeim brauð. Þær fóru að veifa, en
þorðu ekki að kalla til hans. Fyrst tók hann ekkert eftir þeim en svo
leit hann upp.
- Oh, hann er búinn að sjá okkur.
Helga sem
sat framar, veifaði í gríð og erg. Sá litli horfði á hana stórum augum,
en veifaði svo á móti. Honum fannst að vísu skrítið að sjá konurnar
þarna uppi, en það var líka gaman. Hann hafði verið að vona að þetta
væru jólasveinar.
- Hann bara veifar.
Karen var með gráthljóð í röddinni.
- Við stökkvum í tjörnina.
- Nei.
Karen horfði niður og henni fannst eins og Helga væri að biðja hana að stökkva úr Hallgrímskirkjuturninum.
- Við deyjum ef við stökkvum.
- Nei, við stökkvum. Að minnsta kosti ætla ég að gera það. Ég sit ekki lengur hér.
Karen greip í hana.
- Þú ert brjáluð. Við lifum það ekki af.
Þær heyrðu einhvern skarkala fyrir neðan sig. Karen hvítnaði í framan.
-------------------------------------------------------------------------------------
Háski á Hveravöllum
Útgefandi Skjaldborg, 1984
(s. 19-20)
Þættinum var lokið og þau gátu farið að anda léttar. Nú þegar búið
var að slökkva á upptökutækjunum gátu þau farið að tala saman án þess
að yfirvega hvert orð.
- Guð, hvað ég er fegin að þetta er búið.
Það hlýtur að verða skárra næst. Marta strauk hárið frá enninu og
dæsti. Þingmennirnir brostu. Það voru eiginlega þeir sem áttu að vera
fegnir. En hún var ung og þetta var í fyrsta skipti sem hún þurfti að
horfa í myndavélarnar. Þeir skildu hana.
Jónas, hinn spyrjandinn,
var þaulreyndur á þessu sviði. Hann var útsmoginn í að finna hinu veiku
punkta og níðast á þeim. En Marta hafði komið þeim á óvart. Þeir höfðu
slæma reynslu af Jónasi og höfðu hugsað sér að varast hann. Það hafði
komið þeim á óvart hvað "stelpan" stóð sig vel. Þeir höfðu ekki haft
áhyggjur af henni, en samt hafði hún ráðist á þá ekki af minni þrótti
en Jónas. Hún yrði einhverntíma góð.
Friðrik Lárus,
alþingismaður, virti hana fyrir sér. Hann hugsaði með sér að gaman
hefði verið að hún hefði verið flokkssystir hans og hann hefði fengið
að starfa með henni. Reyndar vissi hann ekki hvar hún stóð í
pólitíkinni. Hún hafði spurt þá alla jafn mikið. Hún var víst á vegum
þessa nýja, óháða blaðs. Hann setti nú frat í það. Það gat enginn verið
óháður og það var pólitík í öllum hlutum. Það þýddi ekki að bera annað
á borð fyrir hann.
Konur. Innst inni fannst honum að konur ættu
að vera inni á heimilum og létta mönnum sínum störfin. Konan átti að
ala börn og vera stolt manns síns. Flekklaus og falleg. Það var konan
hans. Samt var allur ljómi farinn af sambúð þeirra. Reyndar fannst
honum konur líka vera til að leika sér að. Hann var búinn að eiga
margar ástkonu, ekki síst eftir að hann varÐ alþingismaður. Það var
allt í lagi, fannst honum. Konan var sköpuð fyrir manninn og hann átti
að fá að njóta hennar.
Persónulega fannst honum að konur ættu að
halda sig frá öllu pólitísku vafstri. En á þessum síðustu tímum gat
enginn stjórnmálamaður viðurkennt slíka skoðun. Ef einhver vissi þetta
sjónarmið hans, þá var hann viss um að hann fengi skellinn. Það var
líka sterkt fyrir flokkinn að hafa konur í framboði. Best var samt að
hafa þær í neðstu sætum og hann var feginn að ekki voru fleiri konur á
alþingi. Þær áttu að vera puntið.
Samt gat hann ekki annað en
dáðst að þessari stelpu, sem nú var búin að spyrja hann í þaula. Hún
hafði farið hálf illa með hann. Það eina góða við það var, að hún hafði
farið illa með hina líka. Það gat varla verið að hún hefði mikið vit á
stjórnmálum, en hún var skemmtilega frek. Það var aðeins ein kona sem
hann þekkti, er hann dáði fyrir sína andlegu hlið og nú var hún horfin.
-------------------------------------------------------------------------------------
Inga : opinská lífsreynslusaga ungrar stúlku
Útgefandi Skjaldborg, 1983
(s. 5-6)
Það var haust. Ég sat við gluggann í herberginu mínu og horfði út. Það var ekkert spennandi sem mætti sjónum mínum. Garðurinn okkar var farinn að láta á sjá, sýna þess merki að brátt legðist yfir hann snjór og gróðurinn mundi sofna þyrnirósarsvefni til næsta vors.
Blöðin
á litlu trjáplöntunum okkar voru farin að gulna og blómin sem fyrir svo
örskömmu höfðu staðið í blóma voru að falla. Það var gola af hafinu og
ég vissi að hún var svöl. Hafið, það heillaði mig.
Ég horfði út á
sjóinn, hann var ókyrr. Hann vissi eins og ég að sumarið væri á enda og
brátt gæti hann farið að sýna sínar ægilegustu hliðar. Hann gat það
alltaf, hann var svo óútreiknanlegur og krefjandi, hafið var það sem
lokkaði og æsti.
Ég opnaði gluggann og andaði að mér
sjávarloftinu, en það róaði ekki skap mitt. Það var frekar að það æsti
mig upp, óróleikinn innra með mér óx við hvern andardrátt og mér fannst
ég vera að springa. Ég lokaði glugganum aftur en sjávarloftið var inni
hjá mér og ég fann enn lyktina. Sjórinn og ilmur hans hefði ekki átt að
vekja hjá mér slíkan óróa, ég er alin upp við sjóinn og hann eins og
eitt af því sem ég gat ekki verið án. Það var bara skap mitt sem vildi
ekki sefast.
Ég vissi ekki hvað olli þessu, það hafði ekkert skeð
sem hafði æst upp taugar mínar. Sennilega var það tilbreytingarleysið
sem var að fara með mig. Það gerðist ekkert, sama hringrásin dag eftir
dag, en ég þráði ævintýr, frelsi, sjálfstæði. Það var þetta sem ég
þráði og ég gat ekki beðið.
Nú var veturinn að koma og ég sá fram
á sama tilbreytingarleysið. Það var þó alltaf frekar von á ævintýrum að
sumri til. Nei, ég hlaut að vera yfirþyrmandi leiðinleg og venjuleg
manneskja.
Hvað var ég sjálf, ekkert. Ekki sæt, ekkert gáfuð. Ég
er ekki viss um að ég hefði verið í rónni þótt ég hefði haft fegurð,
glaðværð eða heilabú sem hver alþingismaður hefði verið stoltur af. Það
var ekki það, það var eitthvað innra með mér sem vildi brjótast út,
gera uppreisn gegn öllu. Pabba, mömmu, vinnunni. Mig langaði helst til
að setja frat í allt þetta og þó mest í þetta rotna þjóðfélag sem mér
hafði verið þröngvað inn í án þess að ég væri spurð.
Það er víst
ekki vaninn að spyrja mann að slíku, en mér fannst þetta óréttlátt. Mér
fannst ég vera fjötruð, föst á vissum stað í kerfinu, stað sem mig
langaði ekkert til að vera á. Ég vildi ekki staðna, vildi ekki verða
gömul og missa af öllum lífsins gæðum. Ég átti auðvitað ekki að kvarta,
ekki var ég neinn unglingur lengur, nítján ára. Ekki vantaði peningana.
Ég bjó hjá pabba og mömmu. Pabbi er útgerðarmaður og á tvo báta í
félagi við annan og er sjálfur skipstjóri á öðrum. Svo var það
fiskvinnslan, hana áttu þeir líka, svo vann ég sjálf. Nei, mig hafði
aldrei skort peninga.
-------------------------------------------------------------------------------------
Í greipum elds og ótta
Útgefandi Skjaldborg, 1986
(s. 67-68)
Þetta festist svo í henni að það endaði með því að hún fór með símann inn á klósett og hringdi í hann.
Hann ansaði strax, hann hafði ekki verið sofnaður.
- Halló.
- Pabbi, fyrirgefðu að ég skuli hringja.
- Er eitthvað að?
- Nei, mig dreymdi svo illa. Viltu lofa að hætta á sjónum.
- Rósa mín, ertu orðin taugaveikluð allt í einu? Hún útskýrði fyrir honum drauminn og bað hann aftur.
-
Já, það er hægur vandi að lofa þessu. Ég var búinn að ákveða að halda
áfram að vinna í landi í vetur að minnsta kosti. Ertu þá ánægð? Hún
varpaði öndinni léttar.
- Já, takk. Ástarþakkir.
Rósu leið
betur. Kristján bað hana að fara að sofa og reyna að slappa af. Þetta
hefði bara verið martröð. Sennilega vegna þess að hún væri stressuð, og
gæti ekki slappað af. Þau kvöddust. Rósa var sammála honum. Hún ákvað
að fá sér kaffisopa og síðan myndi hún sofna værum svefni.
Rósa
settist við eldhúsborðið og fékk sér kaffi. Hún nennti ekki að kveikja
ljósið og sat því í myrkrinu og sötraði hálfkalt kaffið. Hún var
niðursokkin í hugsanir sínar þegar hún hrökk allt í einu ónotalega við.
Það var andlit á glugganum. Hvítt og óhugnanlegt. Andlit sem starði inn
í myrkvað eldhúsið. Rósa þorði ekki að hreyfa legg né lið. En þessi sýn
stóð aðeins augnablik, síðan hvarf andlitið og hún sat stíf og horfði á
auðan gluggann. Það var eins og eitthvað kunnuglegt við þetta andlit,
samt var það svo ógeðslegt. Þegar hún loks þorði að hreyfa sig flýtti
hún sér inn í herbergið til Tómasar og ýtti við honum. Nú gat hún ekki
setið á sér lengur.
- Tómas, í guðs bænum vaknaðu. Það er einhver að læðast fyrir utan húsið, ég sá andlit á eldhúsglugganum.
Rödd hennar var hás og hún skalf.
- Hvað er þetta, elskan mín. Farðu að sofa. Þig hefur dreymt illa.
-
Tómas, það er alveg satt. Ég gat ekki sofnað aftur og fékk mér kaffi.
Þá sá ég þetta óhugnanlega andlit. Viltu gera eitthvað?
Tómas settist upp.
-
Rósa, viltu gjöra svo vel að koma í rúmið. Þetta er ímyndun. Hættu að
vera með svona vitleysu, þú ert þó fullorðin manneskja.
- Það var andlit þarna.
-
Allt í lagi. Það var andlit á glugganum. Hvað með það? Það eru alltaf
einhverjir rónar að flækjast úti um nætur. Auðvitað getur þeim dottið í
hug að líta inn um einhvern glugga. En það er allt læst og lokað. Það
kemst enginn inn. Góða farðu að sofa, eða leyfðu mér að minnsta kosti
að gera það.
Hann lagðist aftur niður og var byrjaður að hrjóta
áður en hún vissi af. Hún varð bálreið. Þetta þekkti hún ekki til
Tómasar. Hann gat ekki sagt að hún væri ímyndunarveik. Hún var ekki vön
að fá einhverjar fáránlegar flugur í kollinn. Hún hafði séð þetta
andlit og henni fannst hann ekkert of góður til að athuga það með
henni. Þó þetta hefði verið meinlaus róni, þá hefði henni liðið betur
ef hún vissi það. Rósa var líka viss um að þetta hefði ekki verið
drykkjumaður. Einhvern veginn fannst henni að það hefði ekki verið
neitt karlmannlegt við þetta andlit.
-------------------------------------------------------------------------------------
Játning
Útgefandi Skjaldborg, 2001
(s. 126-127)
-Varaðu þig!
Lítill, svartur bíll kom æðandi og stefndi beint á
mig. Eitt augnablik var ég sem frosin en svo kastaði ég mér til hliðar.
Hlið bifreiðarinnar skall á mjöðminni á mér og ég valt eins og bolti
eftir gangstéttinni. Hræðilegur sársauki nísti mjöðmina og hægri fótinn
og ég greip um andlitið. Ég hafði skollið í stéttina og fann að blóðið
fossaði úr nefinu á mér. Það var eins og hamarshögg byldu á höfðinu og
ég fann sársaukabylgjur í höfðinu, mjöðminni og fætinum. Þó að
sársaukinn væri mikill var það þó ekkert á móti tilhugsuninni um það að
einhver hafði vísvitandi ætlað að aka mig niður. Magnús hafði bjargað
lífi mínu á síðustu stundu. Ég heyrði drunurnar í bílnum þegar hann ók
sem hraðast burt.
Móður og másandi kom Magnús til mín.
- Jésús Kristur, er allt í lagi með þig?
Ég tók hendurnar frá andlitinu og hann endurtók nafn frelsarans.
- Það munaði ekki miklu að þú endaðir eins og hún mamma þín núna. Hvernig er það, ertu óbrotin?
Mig langaði að háskæla en Magnús tók undir herðarnar á mér og hélt mér upp að sér.
- Ég verð að komast í síma. Við verðum að fá sjúkrabíl.
- Nei.
Ég snökti upp við öxlina á honum.
- Ég held ég sé ekki brotin, ég get hreyft fótinn. Keyrðu mig bara uppá slysó. Við skulum ekki kalla út sjúkrabíl.
- Elsku stelpan, þetta er ekki hægt.
Hann tók jakkann sinn og lagði hann undir höfuðið á mér. Gömul kona kom hlaupandi út úr nærliggjandi húsi. Hún hrópaði:
- Á ég að hringja í lögregluna? Ég sá hvað gerðist. Þessi ökuníðingur gerði þetta viljandi.
-------------------------------------------------------------------------------------
Klækir kamelljónsins
Útgefandi Skjaldborg, 1991
(s. 36-37)
Dóttirin var lágvaxin, grönn og fríð. Hún var með ljósgullið hár sem náði niður á bak og var bundið saman í stert. Augun voru grá og andlitið kringluleitt. Selmu fannst hún virkilega sæt. Hún var eitthvað svo sakleysisleg að sjá og dálítið barnaleg. Selma hugsaði með sér að það hlyti að vera Oskar sem hefði heyrt getið um þau ef þetta var þá ekki bara rugl. Hún ákvað að spyrja hann um það seinna.
Frá
Noregi komu einnig hjón á miðjum aldri. Fljótt á litið var hægt að
ímynda sér að þau væru rúmlega fertug en það var erfitt að áætla aldur
þeirra. Ósköp venjulegt og viðfelldið fólk. Konan dálítið búttuð með
permanent í brúnu hárinu. Hún var með gleraugu og viðkunnanlegt
andlitið var glettnislegt. Maðurinn var alvörugefnari á svip en brosti
þó breitt þegar Selma bauð hann velkominn til landsins. Þau sögðust
heita Johann og Karla og eiga bóndabýli í Norður-Noregi sem börnin
þeirra önnuðust meðan þau væru að ferðast. Þau voru kát og sögðu að
þetta væri fyrsta fríið þeirra í tuttugu ár.
Í Norðmannahópnum
ráku svo lestina systkini sem Selma áleit að væru á aldur við hana og
Sigga. Þau heilsuðu hlýlega og sögðust vera komin í frí eftir annasaman
vetur í ströngum skóla. Selma virti þau fyrir sér. Þau voru í dýrum
fötum, stúlkan var of mikið máluð fyrir hennar smekk og allt fas þeirra
bar vott um allsnægtir. Þau sögðust heita Margrit og Klaus. Ekki var
hægt að sjá að þau væru systkini nema þá helst af hörundslitnum. Þau
voru engan veginn norræn í útliti. Dökkhærð með dökka húð. Klaus var
myndarlegri. Hann var með móbrún augu og þykkar varir. Hann brosti
fallega til Selmu og henni fannst eins og hún væri að horfa á
kvikmyndastjörnu af breiðtjaldi. Klaus var í meðallagi hár og systir
hans litlu minni. Hún var myndarleg og dökkt hárið glansaði. Selmu
fannst hún vera eins og Öskubuska við hlið þessarar stúlku. Hún var
vissulega augnayndi. En þau voru elskuleg og sögðust fagna því að vera
komin til Íslands.
Svíarnir þrír voru ekki síður áhugaverðir
menn. Þeir komu hlæjandi og kátir á móti fólkinu og það var sýnilegt að
þeir höfðu fengið sér eitthvað að drekka á leiðinni. Þetta voru menn á
milli þrítugs og fertugs. Þeir höfðu aldrei sést fyrr en í flugvélinni
en virtust orðnir mestu mátar. Þeir heilsuðu með virktum og sögðust
heita Ole, Lars, og Simon.
Á hæla þeim kom lítil, grönn,
hörundsdökk stúlka. Selma gat sér þess til að hún væri varla eldri en
tvítug. Hún sagði ekkert en stóð hljóðlát fyrir aftan hlægjandi Svíana.
Loks var eins og þeir myndu eftir henni. Simon dró hana til sín.
- Þetta er konan mín. Hún er frá Filippseyjum og heitir Dij. Ég kalla hana samt Rose.
Stúlkan
sagði ekkert en brosti kurteislega. Selma bauð stúlkuna velkomna en
hugsaði Simoni þegjandi þörfina. Hún fékk strax á tilfinninguna að
þessi unga kona væri eins og viljalaust verkfæri í höndum
eiginmannsins. Hann var áreiðanlega einn af þessum körlum sem hafa
fengið sér hörundsdökka ambátt en ekki eiginkonu. Selmu langaði alltaf
mest til að rota karla sem héldu að þeir væru merkilegri af því að þeir
væru með tippi. Simon virtist vera einn af þeim og það var ekki annað
að sjá en konan hans léti sér það vel lynda. Selma varð strax ákveðin í
að kynnast henni betur. Hana langaði til að sýna henni hvernig
íslenskar stúlkur hefðu það.
Páll stóð við hlið Selmu. Hann lagði varirnar að eyra henni og hvíslaði:
- Ekki vildi ég heita Dí og vera kölluð Rós.
Selmu langaði mest til að skella upp úr en henni tókst þó að halda andlitinu.
-------------------------------------------------------------------------------------
Myrkraverk í miðbænum
Útgefandi Skjaldborg, 1990
(s. 158-159)
Ég var búin að ljúka mér af. Ég lagði handleggina fram á borðið og
huldi andlitið með lófunum. Höfuðið á mér var að springa og mér fannst
herbergið snúast fyrir augunum á mér.
- Sara?
Ég leit upp. Þetta var Nína. Rödd hennar var hás og andlitið blóðlaust.
- Já?
- Hvernig þykist þú vita þetta allt?
Ég gat ekki svarað. Elísa tók af mér ómakið.
- Ég verð að bæta því við að Sara er eins og við öll vitum dálítið sérstök. Dálítið mikið sérstök.
Elísa tók annan bunka af blöðum uppúr töskunni sinni.
-
Þegar Sara kom til mín í gærkvöldi hélt ég að ég sæi draug. Hún var
klædd duggarafötum af sjómanninum sem bjargaði henni, úfin og illa til
reika, en hún var ekki á því að gefast upp. Við löguðum á henni
útlitið, fórum síðan og fengum að hitta Katrínu þó áliðið væri. Eftir
það fórum við í íbúðina til Söru og þar sýndi hún mér fulla skúffu af
ljóðum sem hún hefur skrifað undanfarna daga. Sara er nefnilega gædd
þeim undarlega hæfileika að skrifa ósjálfrátt ljóð sem fjalla um
atburði og annað sem kemur fram síðar. Ég kann enga skýringu á þessu
fyrirbæri og hef aldrei vitað um neitt svona áður, en svona er þetta.
Við settumst niður, röðuðum ljóðunum í rétta tímaröð og lásum þau
vandlega yfir. Og það merkilega gerðist. Málið lá ljóst fyrir og brotin
runnu saman í eina heild.
Enginn sagði neitt. Nína hélt um höfuð sér og stundi lágt. Anna grét hljóðlega við hlið mér. Mamma stóð upp.
- Ef ykkur er sama ætla ég að fara heim með dætur mínar.
Elísa stóð upp.
-
Auðvitað, við sjáum um afganginn. Ég var óskaplega fegin að þessu var
lokið en það var erfitt að standa upp. Mamma og Perla urðu að hálfbera
mig á milli sín út í bílinn.
Davíð kom hlaupandi.
- Sara, Sara, ég verð að tala við þig. Þú mátt ekki fara svona.
Mamma sneri sér við.
-
Láttu ekki svona ungi maður. Sérðu ekki að dóttir mín er fárveik? Hún
er búin að fá nóg og ég krefst þess að hún sé látin í friði.
-------------------------------------------------------------------------------------
Nótt á Mánaslóð
Útgefandi Skjaldborg, 1997
(s. 24-25)
- Alma, að vera norn er mikil guðsgjöf. Við fáum hæfileika sem
aðrir hafa ekki. Þessir hæfileikar eru ef til vill dálítið hliðstæðir
hæfileikum barna regnbogans en örlög okkar eru önnur. Börn regnbogans
eru þau sem eru getin í synd en sannri ást. Þau eru gædd miklum
hæfileikum á andlegu sviði. Hitt kynið hrífst af þeim, þau hafa heitar
hendur og sjá það sem öðrum er hulið. Þau geta ferðast um tímann en
vegna þess að þau eru blanda regns og sólar eiga þau oft erfitt. Þau fá
að kynnast erfiðleikum áður en þau höndla hamingjuna.
- En börn mánans? spurði ég.
-
Börn mánans hafa alla hæfileika og getu til að verða hamingjusöm.
Galdurinn er að láta aldrei neinn utan okkar raða vita hver við erum.
Ef við gerum það fer illa, við verðum ofsótt, grýtt og brennd.
Það fór hrollur um mig, en mamma virtist ekki taka eftir því.
-
Ef við höldum hæfileikum og visku leyndri getur ekkert grandað okkur.
Það er okkar eigið gáleysi sem getur komið okkur í koll. Þetta þurfum
við að glíma við alla okkar ævi og það getur verið erfitt. Hættast er
okkur þegar tungl er fullt, en það er þó yndislegur tími. Við hittumst
og ómum til mánans, fyllumst krafti og skiptumst á upplýsingum. Við
megum aldrei láta neinn verða varan við fundi okkar. Við hittumst á
afviknum stöðum og gleðjumst af hjarta. Það getur verið erfitt að halda
leyndarmálum sínum fyrir sig. Við fáum upplýsingar um svo margt sem
fólki almennt er hulið. Stundum vitum við að aðrir eru að gera rangt en
við megum ekki grípa inn í, ekki ef við getum á einhvern hátt átt á
hættu að uppljóstra leyndarmálum okkar. Þú manst eftir því þegar allir
héldu að Bjössi væri dáinn. Það var ekki hægt að finna lífsmark með
honum. Ég vissi að hann var á lífi en ég gat engum sagt það, ég gat
ekki sýnt fram á það og þess vegna mátti ég ekki skipta mér af. En ég
gat ekki látið sem ekkert væri þegar búið var að kviksetja barnið.
Skilurðu mig, við verðum einnig að fylgja hjartanu. Ég bý til mixtúrur
og smyrsl eftir ævafornum uppskriftum mánadísa. Ég segi öllum að ég fái
þau frá Noregi, því að enginn má vita að þau eru fengin frá nornum.
Þannig er lífið. Við eigum dýrmætan sjóð og sköpum okkar eigin
hamingju. Við erum hér sem brautryðjendur en einnig til að læra
þolinmæði held ég. Við getum ekki afneitað sérkennum okkar til lengdar,
þau eru guðs gjafir þó að samferðarmenn okkar gætu aldrei skilið það.
Við erum eins og svörtu börnin hennar Evu. Við búum á jörðinni en megum
aðeins sýna okkar rétta eðli í leynum.
-------------------------------------------------------------------------------------
Ofsótt
Útgefandi Skjaldborg, 1997
(s. 114-115)
Hún hreyfði sig
varlega. Annar fóturinn var undinn undir henni en hún fann ekkert fyrir
honum. Dofinn í fótunum var slíkur að hún var ekki viss um að þeir væru
á sínum stað. En það var verst með höfuðið. Hún hreyfði það en varð að
leggja andlitið strax aftur niður í snjóinn.
Snjór. Af hverju
snjór? Það blossaði í höfðinu á henni en það var hræðilega sárt. Var
hún að deyja eða var hún kannski dauð? Nei, það gat ekki verið svona
hræðilega sárt.
Stúlkan reyndi að slaka á en það ver erfitt. Smám saman komst hún til meiri meðvitundar en hvar hún var vissi hún ekki.
Hún
hafði farið út að gá að kisa. Nú mundi hún það. Hann hafði ráðist á
hana, vafið utan um hana striga svo að hún var næstum köfnuð. Hann
hafði hent henni á öxl sér og þar hafði hún dinglað bjargarlaus. Eftir
þetta mundi hún lítið. Hún féll langt, svo kom sársaukinn og meira
vissi hún ekki. En hún var að minnsta kosti lifandi.
Það var
hræðilega kalt og hríðarkófið var kæfandi. Ef hún lyfti andlitinu kom
þetta kóf upp í nasirnar. Hún hataði hríð og hafði alltaf gert það. Gat
verið að hún ætti að enda ævina þarna liggjandi í blindhríð og finnast
svo króknuð næsta dag eða næsta vor? Nei, hún yrði að minnsta kosti að
reyna. Með miklum átökum tókst henni að skríða um það bil þrjá metra.
Þar varð fyrir henni steinveggur sem hún hallaði sér að. Þarna var og
dálítið skjól fyrir vindinum. Dösuð seig hún að veggnum eins og dauð
drusla. Hverju var hún bættari með þetta? Var hún kannski bara að
lengja þjáningar sínar enn meira? Það hefði ef til vill verið þægilegra
að vakna ekki aftur.
Sársaukinn vakti hana á ný og tár seytluðu
niður kinnarnar. Hún vildi ekki deyja. Hana langaði til að lifa, búa í
Stóru-Brekku, sinna dýrunum sínum og vera í friði. Ef til vill átti hún
það ekki skilið en hún vildi það samt. Hún vildi sjá Pálma á ný. Vildi
að hann kæmi, bæri hana heim og segði að allt yrði gott á ný. Vildi að
hann skyldi hana, fyrirgæfi henni, elskaði hana. Linda grét, það yrði
aldrei. Þetta var vonlaust.
-------------------------------------------------------------------------------------
Óþekkta konanÚtgefandi Skjaldborg, 1997
(s. 14-15)
- Ég má ekkert vera að því að líta á þetta, það verður að bíða. Þið
komið með mér uppí Grafarvog. Það er nýtt mál handa ykkur þar. Ung kona
fannst látin í húsagarði. Enginn veit hver hún er, hún er nakin og
skorin á púls á báðum höndum.
Við Baddi litum hvort á annað. Það var ég sem ræskti mig.
-
Ég held að við verðum að komast til botns í þessu með gömlu konuna. Það
er ekkert eðlilegt að finnast látinn með alla þessa fúlgu undir dýnunni.
Birgir hvessti á mig augun.
-
Það liggur ekkert á. Þið eruð væntanlega búin að innsigla íbúðina og ég
vil fá ykkur í þessa óþekktu stúlku. Það er kannski ekki ofverkið ykkar
að taka við nýju máli þótt þið séuð að rannsaka lát gamallar konu sem
sofnaði í rúminu sínu.
Ég stundi en Baddi sagði ekkert. Það var
langbest að láta sem ekkert væri þegar Birgir var í skapi sem þessu. Ég
fann fyrir garnagauli en bjóst ekki við að fá tækifæri til að fóðra
magann á næstunni. Ég vonaði líka að Sandra myndi halda í sér barninu
eitthvað lengur svo ég stæði ekki ein uppi með þessi lík.
Við Baddi
eltum Birgi út eins og hlýðnir hvolpar. Þegjandi settumst við inn í
lögreglubíl og hinn geðgóði yfirmaður okkar ók af stað. Hann virtist
vera að jafna sig og fljótlega fór hann að tala.
- Það hringdi
maður klukkan tíu í morgun og tilkynnti þennan óskemmtilega fund. Við
sendum auðvitað menn á staðinn og þeir bíða okkar nú.
- Hvar er allt hitt rannsóknarliðið?
Það urraði í Birgi.
-
Það kom sprengjuhótun í Leifsstöð, auðvitað eitt helvítis gabbið, en ég
varð að senda alla menn þangað, nema ykkur sem voruð að skafa upp
líkamsleifar gömlu konunnar. Ég reyndi að ná í ykkur líka, en þið
svöruðuð auðvitað ekki.
Mér rann í skap. Hann þurfti ekki að halda
að við hefðum einhverja ánægju af starfinu þegar svona stóð á og
sjálfur hafði hann sent okkur í þetta óskemmtilega verk.
-------------------------------------------------------------------------------------
Renus í hjartaÚtgefandi Skjaldborg, 1998
(s. 8-9)
Hún hét Björk Birkisdóttir og var 22 ára nemi í enskum bókmenntum
við Háskóla Íslands. Faðir hennar, Birkir Bjarnason, var prófessor í
sögu en móðir hennar, Kolbrún Axelsdóttir, kennari við
Austurbæjarskólann. Hún kenndi ensku og var mjög vel látinn kennari.
Það var eflaust frá henni sem Björk hafði erft áhuga á þessu
vesturgermanska tungumáli. Þó voru það fyrst og fremst enskar
bókmenntir sem heilluðu Björk. Frá því að hún var lítil telpa hafði
Charles Dickens verið hennar uppáhaldshöfundur. Hún las bækurnar hans
aftur og aftur, sögur eins og Oliver Twist, Nikulás Nickleby og Davíð
Copperfield. Þessar bækur höfðu orðið til þess að hún ákvað að velja
sér enskar bókmenntir í Háskólanum og Dickens var enn uppáhaldsskáldið
hennar.
Björk var falleg stúlka. Hún var dökk yfirlitum. Svart
hárið var glansandi og þykkt, augun brún og húðin með þessum gullna lit
sem aldrei er hægt að ná í frá sólinni. Hún var svipmikil og sterkar
línur voru í fríðu andlitinu. Í skóla var hún stundum kölluð Indverjinn
en henni var sama. Vinkonur hennar öfunduðu hana af ómótstæðilegu
útliti hennar en þó ekki á neikvæðan hátt. Björk var sterkur
einstaklingur og vinur vina sinna. Þess vegna var hún vinsæl og vel
látin af félögum sínum. Hún trúði á hið góða í hverjum manni. Það var
ef til vill þess vegna sem hún hafði leyft Gunnari að verða stjórnandi
í lífi hennar. Hún trúði því ekki lengi vel hve ofboðslega frekur og
krefjandi hann var.
Foreldrar Bjarkar voru alíslenskir og hún
vissi ekki til þess að hún ætti ættir að rekja annað. Það var því að
sumu leyti broslegt að hún skyldi fæðast með þetta útlit. Vissulega var
móðir hennar fremur dökk yfirlitum en faðir hennar ljós. Björk hafði
stundum grínast með það að einhver ættmóðir hennar hefði verið laus í
rásinni og því hefði hún þetta útlit. Kannski var gamalt ástarævintýri
úr fyrndinni að koma fram á henni, svo spaugilegt sem það var. En
útlitið spillti ekki fyrir henni, öðru nær. Hún var líka glaðlynd
stúlka og hreinskiptin og spengilegt útlit hennar hefði sómt sér vel
við tískusýningar. En hún vildi læra enskar bókmenntir og
tískuheimurinn freistaði hennar ekki.
-------------------------------------------------------------------------------------
Sekur flýr þó enginn eltiÚtgefandi Skjaldborg, 1989
(s. 59-60)
Þau drukku koníakið þegjandi og Stella fann yndislega værð koma
yfir sig. Hún fann vel fyrir heitum líkama Viðars við sinn. Slopparnir
höfðu runnið til og fætur þeirra lágu nú saman, naktir.
- Ég verð að fara inn í rúm. Við verðum að hvílast.
- Við erum að hvílast.
- Fóturinn á þér. Við verðum að gera eitthvað fyrir hann.
-
Mér líður vel núna. Hafðu engar áhyggjur. Þú ert alltof góð stúlka. Þú
hugsar um annað fólk fyrst, þó þér sjálfri líði ekki vel. Meira að
segja mig sem þú þekkir lítið. Hann fór að strjúka henni létt um öxlina
sem hann hélt um og Stella fann fyrir einhverjum óviðráðanlegum
fiðringi sem fór um hana alla. Þetta var samt gott og hana langaði til
að hann héldi áfram. En þetta var bilun. Hún reyndi að líta hlutlausum
augum á þetta. Þetta gat ekki gengið lengur. Hún, ung og þekkt fyrir
allt annað en daður eða ólifnað og hann, mikið eldri, harðgiftur,
ókunnur maður. Nei, svona lagað var ekki hægt. Hann kyssti hana á
hálsinn og henni fannst hún svífa. Ósjálfrátt hreyfði hún sig og stundi
værðarlega.
- Þetta er ekki hægt.
Hún ýtti honum blíðlega frá sér og horfði þá í þessi djúpu augu sem gerðu hana að gjalti.
- Það er allt hægt.
Hann
hélt áfram að kyssa hana. Heimurinn stóð kyrr. Hún vildi síst af öllu
að þessu lyki og áður en hún vissi af var hún farin að endurgjalda
atlot hans af ekki minni ákafa en hann. Hún fann að hana hungraði í
þennan mann. Hver sem hann var og hversu rangt sem þetta var. Öll
heilbrigð skynsemi hvarf á braut. Engar hömlur voru lengur til.
Ástríður sem hún hafði ekki vitað að hún ætti til brutust fram og
blinduðu hana. Gerðu hana stjórnlausa. Atlot hans gerðu hana að
einhverju frumstæðu villidýri sem hún vissi ekki að væri til í henni.
Engin heilbrigð hugsun, aðeins nautnin. Stormurinn æddi fyrir utan,
regnið lamdi litla kofann. En þau vissu ekki af því. Þetta var
undarleg, viðburðarík nótt. Máninn braust fram úr skýjum og glotti er
hann horfði innum gluggann á kofanum og sá þessar tvær ólíku manneskjur
sameinast og verða að elskendum.
Stella komst til sjálfrar sín.
Það var eins og þetta ætlaði aldrei að taka enda. Hún sem aldrei hafði
upplifað fullnægingu fyrr. Þvílík unun. Það var eins og eitthvað hefði
brostið í líkama hennar. Eins og hann væri loks lifandi og tæki frá
henni alla skynsamlega hugsun. Það eina sem komst að var maðurinn.
Þessi ókunni maður sem á svo undursamlegan hátt hafði lyft henni til
skýjanna. Þau lágu í faðmlögum. Samanfléttuð eins og þau væru hrædd um
að einhver reyndi að slíta þau í sundur.
-------------------------------------------------------------------------------------
Tafl fyrir fjóra
Útgefandi Skjaldborg, 2002
(s. 97)
Það var allt á kafi í snjó. Óttinn skreið um mig eins og hvæsandi snákur, skreið niður eftir bakinu á mér og ég reyndi að æpa af öllum lífs og sálar kröftum, en úr barka mínum kom ekki ein einasta stuna. Ég öslaði snjóinn eins hratt og ég gat, en það var eins og fæturnir væru úr blýi. Ég vissi að hann var þarna, rétt við hælana á mér og myndi ráðast á mig á hverri stundu. Ég fann heitan andardráttinn á hálsinum og tók á ítrustu kröftum til að komast áfram, en ég var föst. Kvikindislegur hlátur ódæðismannsins skar inna eyrun og ég vissi að á hverri stundu myndi ég finna snertingu hans. Með ofurkrafti sneri ég mér við og horfði á svarta lambhúshettuna sem huldi andlitið. Ég þekkti hann, þekkti þennan djöful og nú var of seint að gera neitt, hann hafði yfirbugað mig.
-------------------------------------------------------------------------------------
Örlagadansinn
Útgefandi Skjaldborg, 1993
(s. 80-81)
- Já. Við skulum fá okkur kaffi og ég segi þér allt sem ég veit.
Það er að sjálfsögðu trúnaðarmál, en mér finnst rétt að þú vitir allt
sem við vitum. Það ert þú sem ert í lífshættu, ef einhver er.
Það fór hrollur um Hörpu.
- Ég get ekki gleymt aðkomunni í íbúðinni í morgun. Það var svo hræðilegt.
- Ég veit. En nú er lögregluvörður um hana svo að enginn kemst óséður inn.
- Það er ótrúlegt að hann komi aftur.
- Hver veit, ef til vill hefur hann ekki fundið allt sem hann leitaði að.
Ágústa hellti kaffi í bolla handa þeim.
-
Það sem ég veit um þetta svokallaða fuglafélag er ekki margt. Flest eru
það sögusagnir, sem ganga manna á milli, en svo virðist sem enginn sé
viss hvernig það varð til eða hverjir eru í því. En það er álitið að
fyrir löngu hafi nokkrir skólastrákar stofnað með sér einhvers konar
leynifélag, sem þeir kölluðu "Fuglafélagið". Við vitum ekki hve margir
þeir voru, hvort þetta voru bekkjarbræður eða breiðari hópur. Enn hefur
ekki verið hægt að tengja það neinum sérstökum. Forsprakkinn er
kallaður "Örn," hann virðist ráða öllu og stjórna meðlimunum eins og
fjarstýrðum leikföngum. Það er erfitt að tengja menn, en það hljóta að
vera menn úr ólíkum þjóðfélagshópum í þessu fáránlega félagi. Við
höldum að þeir hjálpi hver öðrum að komast áfram. Grunur hefur verið um
fjárdrátt, skattsvik og ýmislegt annað, sem ef til vill má rekja til
þeirra félaga, þó að aldrei hafi neitt sannast. Það er svo undarlegt að
í gegnum tíðina hefur aldrei tekist að sanna eitt eða neitt. Ef
grunsamlegir menn, lögbrjótar, hafa verið spurðir um þennan félagsskap,
setja þeir upp hundshaus og þykjast ekkert vita. Það virðist vera
ótrúleg samstaða. Okkur grunar líka að margir óupplýstir glæpir eigi
rætur sínar að rekja þangað. Þeir útvega hver öðrum fjarvistarsannanir,
sem við getum ekki hrakið. Það eru þrjú ár síðan okkur fór að gruna að
þessir kumpánar smygluðu eiturlyfjum til landsins, en okkur hefur ekki
tekist að sanna eitt eða neitt. Þetta hræðilega morð er það fyrsta sem
við virkilega getum tengt fuglunum. En þú verður að athuga að það eru
einungis þín orð fyrir því og fyrir því sem Albert sagði á
dánarstundinni. Ég held að hver og einn meðlimur hafi nafn eins og
Örninn. Mig grunar að Albert hafi verið "Storkurinn".